Umsagnir

Umsögn um frumvarp til laga um þjóðskrá og almannaskráningu

8.3.2012

Persónuvernd hefur veitt umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um þjóðskrá og almannaskráningu. Þar var gert ráð fyrir víðtækum heimildum Þjóðskrár Íslands til að afhenda persónuupplýsingar gegn gjaldi. Persónuvernd taldi að orðalag ákvæðisins væri of víðtækt. Var lagt til að ákvæðinu yrði breytt þannig að skýrt væri hverjir slíkir aðilar væru og hvaða persónuupplýsingum megi miðla.

Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum um þjóðskrá og almannaskráningu


Persónuvernd vísar til tölvubréfs Allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis frá 6. janúar 2012 þar sem óskað er umsagnar stofnunarinnar um frumvarp til laga um breyting á lögum um þjóðskrá og almannaskráningu (gjaldtaka) (þskj. 439, 363. mál á 140. löggjafarþingi).

Í 2. gr. frumvarpsins er að finna ákvæði um að Þjóðskrá Íslands láti embættum, opinberum stofnunum, sveitastjórnum og öðrum aðilum í té hvers konar upplýsingar um einstaklinga, sem skrár hennar og önnur gögn hafa að geyma, gegn gjaldi, enda þurfi þau upplýsinganna við vegna embættisrekstrar eða starfsemi sinnar.

Þá er í 3. gr. frumvarpsins að finna ákvæði sem heimila Þjóðskrá Íslands að taka gjald fyrir veittar upplýsingar, bæði fyrir grunnupplýsingar úr þjóðskrá og viðbótarupplýsingar.

I.

Persónuvernd gerir alvarlegar athugasemdir við framkomið frumvarp. Að mati Persónuverndar er orðalag 2. gr. frumvarpsins mjög víðtækt. Samkvæmt orðalagi hennar er Þjóðskrá Íslands heimilt að miðla hvers konar persónuupplýsingum til embætta, opinberra stofnana, sveitarstjórna og annarra aðila. Hvergi í frumvarpinu, né athugasemdum þess, er að finna skilgreiningu á því hverjir teljist vera aðrir aðilar. Í gagnagrunnum  Þjóðskrár Íslands getur verið að finna viðkvæmar persónupplýsingar í skilningi 8. tölul. 2. gr. laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, s.s. upplýsingar um uppruna.

Þá segir í athugasemdum við 2. tölul. 1. mgr. 9. gr. þess frumvarps sem varð að lögum nr. 77/2000 að mat á því hvort lagastoð er fyrir hendi ræðst hverju sinni af skýringu viðkomandi sérlagaákvæðis, en því meiri íhlutun í einkalíf einstaklingsins sem umrædd vinnsla hefur í för með sér þeim mun ótvíræðari þarf lagaheimildin að vera. Skýring slíks ákvæðis ræðst þá m.a. af því hvort löggjafinn hafi í raun tekið tillit til þeirra almennu persónuverndarsjónarmiða sem á reynir við meðferð viðkvæmra persónuupplýsinga. Verður skilyrði 2. tölul. tæplega talið uppfyllt nema fyrir liggi að löggjafinn hafi skoðað slík sjónarmið en engu síður talið vinnsluna nauðsynlega vegna almannahagsmuna.

Með vísan til þess sem fram kemur í 2. gr. fyrirliggjandi frumvarps og athugasemdum þeim er fylgdu frumvarpinu, telur stofnunin að nauðsynlegt sé að löggjafinn taki skýrari afstöðu til þess hvaða tegundum persónuupplýsinga megi miðla til hvaða aðila.

Í því sambandi bendir Persónuvernd á að í 38. gr. dönsku þjóðskrárlaganna (d. lov om Det Centrale Personregister) er fjallað um hvaða einkaaðilum er heimilt að fá upplýsingar úr þjóðskrá. Þá er einnig í ákvæðinu talið upp hvaða upplýsingar það eru sem dönsku Þjóðskránni er heimilt að miðla til viðkomandi aðila. Í ákvæðinu segir m.a.:

„§ 42. Enhver har ret til ved henvendelse til en kommunalbestyrelse at få oplysninger i CPR om en bestemt person, som den pågældende forud har identificeret, jf. stk. 6.
Stk. 2. Oplysningerne, der kan videregives efter stk. 1, er
1) nuværende navn, medmindre dette er beskyttet, jf. § 28,
2) nuværende adresse, medmindre denne er beskyttet, jf. § 28, og datoen for flytningen hertil,
3) eventuel stilling,
4) eventuel markering af, at den pågældende frabeder sig henvendelser, der sker i markedsføringsøjemed, jf. § 29, stk. 3,
5) eventuel død, datoen for dødsfaldet og afdødes daværende adresse, medmindre denne er beskyttet, jf. § 28,
6) eventuel forsvinden og datoen herfor,
7) eventuel udrejse og datoen herfor, eventuel ny adresse i udlandet, medmindre denne er beskyttet, jf. § 28, og datoen herfor,
8) eventuel kontaktadresse og datoen herfor og
9) eventuelt værgemål efter værgemålslovens § 6, datoen herfor og værgens navn og adresse.“


Með vísan til framangreinds leggur Persónuvernd til við allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis að ákvæði 2. gr. frumvarpsins verði breytt, þannig að afstaða löggjafans um hvaða persónuupplýsingum Þjóðskrá Íslands megi miðla til einkaaðila, liggi skýrt fyrir.

Í öðru lagi vill Persónuvernd ítreka þær athugasemdir sem komu fram í umsögn stofnunarinnar, dags. 3. júní 2010, og send var allsherjarnefnd. Í henni kom fram að brýnt væri orðið að endurskoða lög um almannaskráningu nr. 54/1962. Þau lög voru sett í allt öðru tækniumhverfi en nú er við lýði og er brýnt að gera breytingar á þeim t.d. varðandi sölu og notkun á skránni á Netinu, um meðferð kennitalna við markaðssetningu o.þ.h. og notkun kennitalna eða annarra auðkenna í rafrænni stjórnsýslu. Persónuvernd telur nauðsynlegt að fram fari heildarendurskoðun á umræddum lögum.

II.
Einnig er þeirri ábendingu komið á framfæri að með frumvarpinu fylgdu ekki athugasemdir við einstakar greinar. Telur Persónuvernd æskilegt að haga framsetningu athugasemda við frumvarp í samræmi við Handbók um undirbúning og frágang lagafrumvarpa, útg. af forsætisráðuneytinu árið 2007, bls. 51-52, þannig að bæði sé þar að finna almennar athugasemdir og athugasemdir við einstakar greinar.  

III.
Persónuvernd telur að gera þurfi umtalsverðar breytingar á frumvarpinu. Samandregnar eru ábendingar Persónuverndar þessar:
Skýrari ákvæði um heimild Þjóðskrár til að miðla persónuupplýsingum til einkaaðila
Samdar verði skýringar við einstakar greinar frumvarpsins.




Var efnið hjálplegt? Nei