Umsagnir

Umsögn um frumvarp til laga um rannsókn á stöðu heimila

28.4.2011

Persónuvernd hefur veitt efnahags- og skattanefnd Alþingis umsögn um frumvarp til laga um rannsókn á stöðu heimila. Í umsögn Persónuverndar var m.a. ítrekuð fyrri afstaða stofnunarinnar varðandi áhyggjur hennar af þeirri víðtæku vinnslu persónuupplýsinga sem í rannsókninni felast. Þá taldi stofnunin að ákvæði laganna um allt að tíu ára fangelsisrefsingu væru ekki í samræmi við refsiramma íslenskra refsilaga. Einnig taldi stofnunin ekki rétt að Persónuvernd færi bæði með framkvæmd tiltekins hluta vinnslunnar og um leið eftirlit með henni.

Umsögn um frumvarp til laga um rannsókn á stöðu heimila


1.
Persónuvernd vísar til tölvubréfs efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis frá 2. mars 2011 þar sem óskað er umsagnar stofnunarinnar um frumvarp til laga um rannsókn á stöðu heimila (þskj. 381, 314. mál á 139. löggjafarþingi).

Samkvæmt 1. gr. frumvarpsins er markmið þess að fyrir liggi reglulega upplýsingar um stöðu mismunandi tegunda heimila þannig að stjórnvöld geti markað stefnu til að standa vörð um hag heimilanna, sérstaklega þeirra sem höllum fæti standa.

Í 2. gr. frumvarpsins er að finna ákvæði um framkvæmd umræddrar rannsóknar. Er m.a. lagt til að Hagstofan rannsaki fjárhagsstöðu heimilanna ársfjórðungslega. Við rannsóknina hafi hún náið samráð við Persónuvernd varðandi 

persónuupplýsingar

 og Fjármálaeftirlitið varðandi bankaleynd. Opinberir aðilar, fjármálastofnanir, lífeyrissjóðir, sjúkrasjóðir og háskólar, sem búi yfir upplýsingum um tekjur heimila, lántökur, afborganir af lánum, leigu og annan kostnað vegna húsnæðis eða náms, skuli að eigin frumkvæði miðla upplýsingum til Hagstofunnar á því formi og á þeim tíma sem Hagstofan tiltaki. Hagstofan taki við gögnum á starfsstöð viðkomandi og flytji á miðil í eigu Hagstofunnar undir eftirliti Persónuverndar.

Fram kemur í 2. gr. að dulkóða eigi gögnin. Um það segir nánar að gögnum skuli safnað á einn stað hjá Hagstofunni undir eftirliti Persónuverndar og þau dulrituð þar með þremur dulritunarlyklum. Skuli hver lykill útbúinn í tvíriti og skuli hagstofustjóri og staðgengill hans geyma eitt par, framkvæmdastjóri Persónuverndar og staðgengill hans eitt par og framkvæmdastjóri Fjármálaeftirlitsins og staðgengill hans eitt par. Geyma skuli dulritunarlyklana í tíu ár en gögnin í fjögur ár hverju sinni. Fyllstu varúðar og leyndar skuli gætt á þeim gögnum sem safnað sé saman. Í 3. gr. segir að sá sem brjóti trúnað og leynd um gögnin skuli sæta fangelsi allt að tíu árum.



2.
Áður hafa tvisvar verið lögð fram frumvörp um rannsókn á fjárhagsstöðu heimilanna (þskj. 961, 570. mál á 138. löggjafarþingi, og þskj. 381, 314. mál á 139. löggjafarþingi). Persónuvernd veitti umsögn um þau frumvörp með bréfum, dags. 17. maí 2010 og 31. janúar 2011. Í umræddu frumvarpi er gert ráð fyrir að nánari framkvæmd rannsóknar verði með nokkuð öðrum hætti en í fyrri frumvörpum. Meginefni frumvarpanna allra er þó mjög sambærilegt, þ.e. að ríkisvaldið safni mjög víðtækum upplýsingum um fjárhagsstöðu einstaklinga í rannsóknarskyni og varðveiti þær um nokkurra ára skeið.

Í fyrri umsögnum hefur Persónuvernd lýst yfir áhyggjum af þeirri víðtæku vinnslu persónuupplýsinga sem í framangreindu felst, ekki síst í ljósi tilhneigingar til að framlengja varðveislutíma í gagnagrunnum sem til verða með upplýsingum um einstaklinga. Þá hefur Persónuvernd komið á framfæri þeirri afstöðu að við lagasetningu um slíka vinnslu, sem hér um ræðir, þurfi að sýna fram á nauðsyn á varðveislu persónugreinanlegra upplýsinga, en einungis þannig séu uppfyllt ákvæði 71. gr. stjórnarskrárinnar og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Í þessu felist að sýnt sé fram á af hverju sá möguleiki sé ekki fyrir hendi að vinna úr viðkomandi persónuupplýsingum, búa til nauðsynlega tölfræði og þegar að því loknu eyða öllum persónugreinanlegum upplýsingum.

Persónuvernd ítrekar framangreinda afstöðu sína. Þá skal sérstaklega tekið fram að þrátt fyrir mikilvægi þess að friðhelgi einkalífs njóti verndar telur Persónuvernd ákvæði frumvarpsins um allt að tíu ára fangelsisrefsingu ekki í samræmi við refsiramma íslenskra refsilaga.



3.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að Persónuvernd myndi hafa virka aðkomu að dulkóðun gagna. Slíkt fæli í sér að stofnunin hefði bæði með höndum ákveðna þætti í umræddri vinnslu persónuupplýsinga og um leið eftirlit með vinnslu. Það fer ekki saman að hafa bæði með höndum framkvæmd verks og eftirlit með því. Af því leiðir að finna þarf aðra lausn að því er varðar öryggisþátt vinnslunnar.





Var efnið hjálplegt? Nei