Umsagnir

Umsögn um frumvarp til laga um breytingar á lögum um málefni fatlaðra

16.12.2010

Persónuvernd hefur veitt félags- og tryggingamálanefnd Alþingis umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um málefni fatlaðra.

 

Umsögn um frumvarp til laga um breytingar á lögum um málefni fatlaðra

Persónuvernd vísar til tölvubréfs félags- og tryggingamálanefndar Alþingis frá 25. nóvember 2010 þar sem óskað er umsagnar um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 59/1992 um málefni fatlaðra (þskj. 298, 256. mál á 139. löggjafarþingi). Í frumvarpinu er lagt til að þjónusta við fatlaða færist frá ríkinu til sveitarfélaganna. Í því felst m.a. að svæðisskrifstofur fyrir málefni fatlaðra, sbr. 12. gr. laganna, verða lagðar niður og að sveitarfélögin taka við hlutverki þeirra. Af því leiðir að eðli málsins samkvæmt má gera ráð fyrir flutningi persónuupplýsinga, sem lúta m.a. að greiningum og öðrum viðkvæmum einkalífsatriðum, frá svæðisskrifstofunum til nýrra þjónustuveitenda.

Í 2. tölul. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga er mælt fyrir um heimild til vinnslu viðkvæmra persónuupplýsinga á grundvelli sérstakrar lagaheimildar. Hér er um slíkar upplýsingar að ræða, sbr. c-lið 2. gr. laganna, og verða ákvæði um vinnslu þeirra að vera skýr svo að þau teljist viðhlítandi heimild til vinnslunnar í skilningi framangreinds ákvæðis.

Í ljósi framangreinds ákvæðis leggur Persónuvernd til að eftirfarandi ákvæði verði bætt við frumvarpið, en það verði þá í nýjum staflið sem bætt verði við 34. gr., svohljóðandi:

„i. (XIII.)

Persónuupplýsingar, sem svæðisskrifstofur fyrir málefni fatlaðra hafa unnið vegna þjónustu við þá, skal flytja til þeirra aðila sem taka við þjónustunni samkvæmt lögum þessum. Upplýsingum, sem ekki eru lengur nauðsynlegar vegna þjónustu við fatlaða einstaklinga, skal hins vegar skilað til Þjóðskjalasafns í samræmi við lög um safnið. Við flutning persónuupplýsinga skal öryggis gætt og girt fyrir aðgang óviðkomandi að þeim eða að þær glatist eða breytist.“

Að auki telur Persónuvernd rétt að bæta almennu ákvæði um vernd persónuupplýsinga við frumvarpið. Lagt er til að það ákvæði verði í nýrri 4. gr. en núverandi 4. gr. verði þá 5. gr. o.s.frv. Orðalag verði sem hér greinir:

„Á eftir 4. gr. laganna kemur ný grein, 4. gr. a, svohljóðandi:

Meðferð persónuupplýsinga, sem unnið er með við framkvæmd laga þessara, skal samrýmast lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Þess skal gætt að aðgangur að upplýsingunum sé ekki umfram það sem nauðsyn krefur, sem og að öryggis þeirra sé tryggilega gætt.“

Að öðru leyti en að framan greinir gerir Persónuvernd ekki athugasemdir við frumvarpið.



Var efnið hjálplegt? Nei