Úrlausnir

Um birtingu upplýsinga um stærstu hluthafa í skráðum félögum á markaði

Mál nr. 2018071238*

20.9.2019

Persónuvernd hefur svarað beiðni Kauphallar Íslands um heimild til birtingar lista yfir stærstu hluthafa skráðra félaga á markaði. Í svari Persónuverndar er vísað til heimildar í persónuverndarlöggjöfinni til vinnslu persónuupplýsinga á grundvelli almannahagsmuna og áréttað að umrædd birting geti stuðst við hana.

 

*Fært inn 18. nóvember 2022 í ljósi upplýsingagildis fyrir almenning.

 

Reykjavík, 20. september 2019

     Tilvísun: 2018071238/ÞS

 

Efni: Birting upplýsinga um hluthafa í skráðum hlutafélögum

 

1.
Álitsbeiðni Kauphallar Íslands
Fyrri bréfaskipti

Persónuvernd vísar til álitsbeiðni Kauphallar Íslands, Nasdaq, dags. 15. október 2018, í tengslum við birtingu upplýsinga um stærstu hluthafa félaga sem þar eru skráð, en gerð verður nánari grein fyrir efni beiðninnar hér á eftir að lokinni lýsingu á aðdraganda hennar. Nánar tiltekið er um að ræða bréfaskipti í tengslum við álitsbeiðni efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis frá 23. júlí 2018 vegna frétta af því að Kauphöll Íslands hygðist hætta umræddri birtingu, enda færi hún gegn nýrri persónuverndarlöggjöf. Óskaði nefndin þess í erindinu að Persónuvernd gæfi álit sitt á því hvort rétt væri að umrædd birting hefði verið heimil samkvæmt eldri persónuverndarlöggjöf en væri óheimil eftir gildistöku hinnar nýju. Þá óskaði nefndin eftir afstöðu stofnunarinnar til þess hvort hlutafélögum væri sjálfum heimilt að birta upplýsingar um hluthafa sína án sérstaks samþykkis eða hvort slík birting væri háð samþykki hluthafanna.

Með bréfi, dags. 9. ágúst 2018, veitti Persónuvernd Kauphöll Íslands færi á athugasemdum af tilefni framangreindrar álitsbeiðni og var svarað með bréfi, dags. 20. s.m. Veitti Persónuvernd í kjölfar þess álit til þingnefndarinnar og Kauphallar Íslands, dags. 11. september 2018. Þar segir meðal annars í tengslum við birtingu Kauphallar Íslands á upplýsingum um stærstu hluthafa:

„Eins og samkvæmt hinni eldri persónuverndarlöggjöf tekur gildissvið hinnar nýju, þ.e. laga nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga og hinnar almennu persónuverndarreglugerðar, (ESB) 2016/679, til þess þegar unnið er með upplýsingar um einstaklinga, sbr. 1. mgr. 4. gr. og 2. tölul. 3. gr. laganna og 1. mgr. 2. gr. og 1. tölul. 3. gr. reglugerðarinnar. Fremur en hin eldri löggjöf gildir nýja löggjöfin því ekki um umrædda birtingu að því marki sem hún tekur eingöngu til lögaðila, en með sama hætti og fyrr getur eftir atvikum þurft að líta til tengsla einstaklings við lögaðilann í því sambandi. Eins og í hinni eldri löggjöf þarf vinnsla persónuupplýsinga ávallt að falla undir eitthvert heimildarákvæði í löggjöfinni, en sem fyrr er vinnsla meðal annars heimil sé hún nauðsynleg vegna verks sem unnið er í þágu almannahagsmuna eða til að gæta lögmætra hagsmuna nema grundvallarréttindi og frelsi hins skráða vegi þyngra, sbr. 5. og 6. tölul. 9. gr. laganna og e- og f-lið 1. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar. Eins og Kauphöll Íslands hefur vísað til er tekið fram í athugasemdum við 5. tölul. 9. gr. í greinargerð með því frumvarpi sem varð að lögunum að til almannahagsmuna teljist hagsmunir sem hafa þýðingu fyrir breiðan hóp manna. Verður að líta svo á að stöðugleiki á fjármálamarkaði, sem m.a. gagnsæi um eignarhald hlutafélaga geti stuðlað að, hafi slíka þýðingu.

Þegar litið er til framangreinds telur Persónuvernd birtingu Kauphallar Íslands á listum yfir stærstu hluthafa skráðra félaga ekki hafa gefið tilefni til athugasemda í gildistíð eldri persónuverndarlöggjafar. Þá telur Persónuvernd sömu birtingu ekki heldur gefa tilefni til athugasemda samkvæmt hinni nýju löggjöf.“

Hvað varðar birtingu skráðra félaga sjálfra á upplýsingum um hluthafa segir að framangreint geti átt við, með sama hætti og við birtingu Kauphallar Íslands, þegar um ræði stærstu hluthafa. Að auki segir í tengslum við birtingu upplýsinga um hluthafa almennt:

„Þá getur að öðru leyti meðal annars skipt máli hvað fram kemur í samþykktum félaganna og getur þá reynt á hvort samþykki eigenda sé til staðar eða hvort birting teljist nauðsynleg til að efna samning sem fólginn er í kaupum á hlutafé, sbr. 1. og 2. tölul. 9. gr. laga nr. 90/2018 og a- og b-lið 1. mgr. 6. gr. reglugerðar (ESB) 2016/679. Eins og hér stendur á reynist hins vegar ekki unnt að veita fyllra svar um umrædda birtingu upplýsinga um hluthafa, enda gæti í einstökum tilvikum reynt á mismunandi sjónarmið sem ekki er unnt að sjá fyrir, allt eftir því í hvaða tilgangi hlutaðeigandi félag myndi birta slíkar upplýsingar, sbr. kröfu 2. tölul. 1. mgr. 8. gr. og h-liðar 1. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar um skýrt tilgreindan, lögmætan og málefnalegan tilgang með vinnslu persónuupplýsinga.“

Að veittu framangreindu áliti barst Persónuvernd fyrrnefnd álitsbeiðni frá Kauphöll Íslands, dags. 15. október 2018. Þar segir meðal annars að hafa verði í huga lög nr. 131/1997 um rafræna eignarskráningu verðbréfa, en vegna þeirra takmarkana sem þau lög setji upplýsingagjöf verðbréfamiðstöðva hafi því verklagi verið fylgt að fá umboð hlutafélaga til birtingar upplýsinga úr hluthafalistum. Þá er óskað eftir áliti Persónuverndar á því hvort útgefendum sé heimilt að veita slíkt umboð sé þeirrar heimildar ekki getið í samþykktum félagsins eða ef sérstakra heimilda hafi ekki verið aflað frá hluthöfum. Telji Persónuvernd heimildina vera til staðar sé óskað eftir áliti stofnunarinnar á því hvort birting og dreifing umræddra upplýsinga á grundvelli umboðs frá útgefendum falli að þeim sjónarmiðum sem fram komi í lögum nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.

2.
Svar Persónuverndar

Eins og fyrr segir hefur Kauphöll Íslands vísað til takmarkana á upplýsingagjöf samkvæmt lögum nr. 131/1997 um rafræna eignarskráningu verðbréfa í tengslum við birtingu upplýsinga um stærstu hluthafa skráðra félaga á markaði. Samkvæmt 14. gr. þeirra laga, sbr. og 2. gr. laganna, er verðbréfamiðstöð óheimilt að veita upplýsingar um skráð réttindi yfir verðbréfum nema samkvæmt heimild í lögunum. Ætla verður hins vegar að umrædd upplýsingagjöf um hluthafa félaga feli ekki í sér að upplýst sé um skráningu hjá verðbréfamiðstöð um réttindi yfir rafrænum verðbréfum. Verður þess í stað litið svo á að um ræði birtingu upplýsinga sem skráð félög veita Kauphöll Íslands um hverjir séu stærstu eigendur þeirra. Að því marki sem þar er um persónuupplýsingar að ræða verður vinnsla þeirra að falla undir heimild samkvæmt 9. gr. laga nr. 90/2018. Eins og þegar hefur komið fram í áliti Persónuverndar til efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis og Kauphallar Íslands, dags. 11. september 2018, lítur Persónuvernd í umræddu sambandi til 5. og 6. tölul. 1. mgr. 9. gr. laganna um heimild til vinnslu í þágu almannahagsmuna eða til að gæta lögmætra hagsmuna nema grundvallarréttindi og frelsi hins skráða vegi þyngra. Þá hefur jafnframt komið fram í álitinu að í ljósi þessara heimilda gerir Persónuvernd ekki athugasemdir við að Kauphöll Íslands birti umræddar upplýsingar.

Hvað þörf á umboði hins skráða varðar skal bent á að samkvæmt þessu telur Persónuvernd að ekki sé þörf á samþykki hans, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 90/2018, til að birta megi upplýsingarnar. Þegar vinnsla persónuupplýsinga byggist á annars konar heimild en samþykki verður ekki litið svo á að yfirlýsing hins skráða um að hann fallist á vinnsluna þurfi að liggja fyrir. Eftir atvikum getur þó ástæða talist vera til þess að fyrir liggi umboð eða beiðni frá hinum skráða þó svo að ekki sé þar um eiginlegt samþykki að ræða, einkum ef vinnslan getur haft íþyngjandi réttaráhrif eða tekur til viðkvæmra einkalífshagsmuna. Má í því sambandi nefna vinnslu persónuupplýsinga í þágu lánshæfismats, sem og söfnun upplýsinga um heilsufar og félagsleg vandamál sem í ákveðnum tilvikum fer fram hjá opinberum þjónustustofnunum. Hefur hér verið byggt á þeirri grunnkröfu 1. tölul. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 90/2018 að vinnsla persónuupplýsinga skuli vera gagnsæ gagnvart hinum skráða.

Við mat á því hvort umboðs eða beiðni frá hinum skráða sé þörf í einstökum tilvikum hefur vægi hvaða réttaráhrif vinnslan hefur gagnvart honum, hvert eðli upplýsinganna er og hvaða hagsmunir eru af vinnslunni. Hér er um fjárhagsupplýsingar að ræða og ljóst er að slíkar upplýsingar eru oft háðar þagnarskyldu. Jafnframt er hins vegar ljóst að eftir atvikum getur vinnsla slíkra upplýsinga, þ. á m. birting þeirra í afmörkuðum tilvikum, talist þjóna almannahagsmunum. Eins og fyrr segir hefur Persónuvernd litið til slíkra hagsmuna í tengslum við umrædda birtingu sem eingöngu tekur til stærstu hluthafa í félögum skráðum hjá Kauphöll Íslands og sem gera verður ráð fyrir að ætlað hafi verið að auka gagnsæi, öryggi og stöðugleika á fjármálamarkaði.

Jafnframt skal tekið fram að á umræddum félögum hvílir ekki lögbundin þagnarskylda um eignarhald á þeim og ætti samkvæmt því ekki að vera tilefni til athugasemda við að þau geri upplýsingar þar að lútandi aðgengilegar, í þessu tilviki með því að afhenda þær Kauphöll Íslands til birtingar, þegar slíkt telst þjóna málefnalegum tilgangi. Sé um að ræða einstakling, sem á stóran hlut í viðkomandi félagi, verður ekki séð að rík þörf sé á umboði hans þar að lútandi í ljósi þeirra sjónarmiða sem litið hefur til í því sambandi og sem fyrr eru rakin. Þá skal tekið fram að samkvæmt 1. mgr. 22. gr. laga nr. 110/2007 um kauphallir er gert ráð fyrir að kauphöll setji skýrar og gagnsæjar reglur um töku fjármálagerninga, þ. á m. verðbréfa, til viðskipta, auk þess sem í 2. mgr. ákvæðisins er gert ráð fyrir að þar sé fjallað um kröfur til útgefenda verðbréfa um upplýsingagjöf.

Ljóst er að við vinnslu persónuupplýsinga ber ávallt að fara að grunnkröfum 1. mgr. 8. gr. laga nr. 90/2018 um meðal annars málefnalegan tilgang með öflun persónuupplýsinga og meðalhóf við vinnslu þeirra, sbr. 2. og 3. tölul. þeirrar málsgreinar. Sérstaklega gæti reynt á þessi ákvæði, sem og hvort afla þyrfti samþykkis hinna skráðu eða fjalla um birtingu í samþykktum félags, ef birta ætti upplýsingar um mikinn fjölda eða jafnvel alla hluthafa í skráðum félögum í Kauphöll Íslands, óháð því hvort um lögaðila eða einstaklinga væri að ræða. Það sem fram kemur í áliti Persónuverndar hinn 11. september 2018 um samþykki og félagssamþykktir laut að slíkri víðtækri birtingu en ekki birtingu sem afmarkast við stærstu hluthafa.

Að öðru leyti en að framan greinir vísar Persónuvernd til framangreinds álits sem stofnunin veitti efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis og Kauphöll Íslands hinn 11. september 2018. Þá er beðist velvirðingar á afgreiðslutöf.

F.h. Persónuverndar,

Þórður Sveinsson                      Vigdís Eva Líndal

 

 

Fyrra bréf varðandi sömu birtingu til efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis og Kauphallarinnar

 

Reykjavík, 11. september 2018

Tilvísun: 2018071238ÞS/--

Efni: Álit um heimild til birtingar upplýsinga um hluthafa í skráðum hlutafélögum

 

1.
Álitsbeiðni efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis
Athugasemdir Kauphallar Íslands

Hinn 23. júlí 2018 barst Persónuvernd í tölvupósti erindi frá efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis vegna frétta af að Kauphöll Íslands hygðist hætta að birta lista yfir stærstu hluthafa félaga með hlutabréf sín skráð þar á markaði, enda færi birtingin gegn nýrri persónuverndarlöggjöf. Er þess óskað í erindinu að Persónuvernd gefi álit sitt á því hvort rétt sé að umrædd birting hafi verið heimil samkvæmt eldri persónuverndarlöggjöf en sé óheimil eftir gildistöku hinnar nýju. Þá er óskað afstöðu stofnunarinnar til þess hvort hlutafélögum sé sjálfum heimilt að birta upplýsingar um hluthafa sína án sérstaks samþykkis eða hvort slík birting sé háð samþykki hluthafanna.

Með bréfi, dags. 9. ágúst 2018, veitti Persónuvernd Kauphöll Íslands færi á athugasemdum af tilefni framangreindrar álitsbeiðni. Svarað var með bréfi, dags. 20. ágúst 2018. Þar segir meðal annars að umræddir listar hafi verið birtir frá árinu 2003 vegna óska markaðsaðila um aukið gagnsæi og bætt skipulag upplýsingagjafar, en fyrir þann tíma hafi upplýsinga um stærstu eigendur verið aflað frá hlutaðeigandi félögum sjálfum. Vísað er til þess að nýlega tóku gildi lög nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga og segir að það hafi orðið tilefni til að taka vinnslu persónuupplýsinga hjá Kauphöllinni, þ.e. Nasdaq eins og hún er nefnd í bréfinu, til endurskoðunar. Þá segir að á umræddum listum sé að finna upplýsingar um eignarhlutdeild einstaklinga í hlutafélögum, sem og slíka eignarhlutdeild lögaðila sem rekja megi til tiltekins einstaklings. Sé í þessum tilvikum um að ræða persónuupplýsingar samkvæmt 3. tölul. 3. gr. laga nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Með vísan til þess segir:

„Með tilvísun í 3. tl. 3. gr. laga nr. 90/2018 telur Nasdaq sig því ekki hafa heimild til að birta og dreifa umræddum hluthafalistum þar sem á þeim má oft finna einstaklinga. Hlutabréfamakaður á Íslandi er ekki stór og oft á tíðum er auðvelt að greina hver eða hverjir standa að baki þeim eignarhaldsfélögum sem eiga viðskipti með hluti sem teknir hafa verið til viðskipta hjá Kauphöllinni. Af þeim sökum telur Nasdaq leika vafa á því að birting og dreifing slíkra lista sé heimil enda kunna persónuverndarlög að eiga við í því tilviki. Nasdaq telur sér ekki fært að vega og meta það í hvert skipti hvort umræddir hluthafar, sem eru þá hlutafélög eða einkahlutafélög, teljist persónugreinanlegir eða ekki á grundvelli ofangreinds 3. tl. 3. gr.“

Einnig er vísað til þess að samkvæmt 9. gr. laga nr. 90/2018 er vinnsla persónuupplýsinga meðal annars heimil sé hún nauðsynleg vegna verks sem unnið er í þágu almannahagsmuna. Þá segir að bæði í greinargerð með frumvarpi til eldri persónuverndarlaga, nr. 77/2000, og í greinargerð með því frumvarpi sem varð að lögum nr. 90/2018, komi fram að vinnsla þurfi að hafa þýðingu fyrir breiðan hóp manna til að teljast fara fram í almannaþágu, en sem dæmi sé tekin vinnsla sem eigi sér stað í sagnfræðilegum, tölfræðilegum eða vísindalegum tilgangi. Með vísan til þessa segir:

„Ljóst er að birting lista yfir stærstu hluthafa félaga getur ekki fallið undir verk sem unnið er í almannaþágu miðað við ofangreinda skýringu í greinargerð. Þá hefur einnig verið talið að hugtakið almannahagsmunir nái m.a. til þess að tryggja öryggi almennings, umhverfisverndarsjónarmiða, forvarna sem stuðla að heilsu manna, efnahagslegra sjónarmiða og verndunar auðlinda. Það er mat Nasdaq að vafi leiki á því að það teljist í þágu almennings að upplýsa um hlutafjáreign aðila sem ekki eru stjórnendur félagsins eða fara með verulegan hlut atkvæðisréttar (flöggunarskyldir aðilar).“

2.
Álit Persónuverndar

Hvað varðar umrædda birtingu er til þess að líta að hin eldri persónuverndarlöggjöf, þ.e. lög nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, tók til þess þegar unnið var með upplýsingar um einstaklinga, sbr. 1. mgr. 3. gr. og 1. tölul. 2. gr. laganna, en af því leiddi að hún gilti ekki um birtinguna að því marki sem hún tók eingöngu til lögaðila. Þegar upplýsingarnar lutu hins vegar að einstaklingum varð vinnsla þeirra, sem endranær, að byggjast á heimild samkvæmt 8. gr. laganna, en eftir atvikum gátu upplýsingar um lögaðila talist fela í sér upplýsingar um einstakling vegna tengsla hans við lögaðilann. Fyrir liggur að umræddar upplýsingar umeignarhlutdeild í hlutafélögum hafa verið birtar til að auka gagnsæi og verður þá einkum talið að 5. tölul. 1. mgr. þeirrar greinar hafi getað átt við, þ.e. um að vinna mátti með persónuupplýsingar þegar slíkt var nauðsynlegt vegna verks sem unnið var í þágu almannahagsmuna. Þá gat 7. tölul. sömu málsgreinar átt við, þess efnis að vinnsla persónuupplýsinga væri heimil þegar hún var nauðsynleg til að ábyrgðaraðili, eða þriðji maður eða aðilar sem upplýsingum var miðlað til, gætu gætt lögmætra hagsmuna nema grundvallarréttindi og frelsi hins skráða vægju þyngra.

Eins og samkvæmt hinni eldri persónuverndarlöggjöf tekur gildissvið hinnar nýju, þ.e. laga nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga og hinnar almennu persónuverndarreglugerðar, (ESB) 2016/679, til þess þegar unnið er með upplýsingar um einstaklinga, sbr. 1. mgr. 4. gr. og 2. tölul. 3. gr. laganna og 1. mgr. 2. gr. og 1. tölul. 3. gr. reglugerðarinnar. Fremur en hin eldri löggjöf gildir nýja löggjöfin því ekki um umrædda birtingu að því marki sem hún tekur eingöngu til lögaðila, en með sama hætti og fyrr getur eftir atvikum þurft að líta til tengsla einstaklings við lögaðilann í því sambandi. Eins og í hinni eldri löggjöf þarf vinnsla persónuupplýsinga ávallt að falla undir eitthvert heimildarákvæði í löggjöfinni, en sem fyrr er vinnsla meðal annars heimil sé hún nauðsynleg vegna verks sem unnið er í þágu almannahagsmuna eða til að gæta lögmætra hagsmuna nema grundvallarréttindi og frelsi hins skráða vegi þyngra, sbr. 5. og 6. tölul. 9. gr. laganna og e- og f-lið 1. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar. Eins og Kauphöll Íslands hefur vísað til er tekið fram í athugasemdum við 5. tölul. 9. gr. í greinargerð með því frumvarpi semvarð að lögunum að til almannahagsmuna teljist hagsmunir sem hafa þýðingu fyrir breiðan hóp manna. Verður að líta svo á að stöðugleiki á fjármálamarkaði, sem m.a. gagnsæi um eignarhald hlutafélaga geti stuðlað að, hafi slíka þýðingu.

Þegar litið er til framangreinds telur Persónuvernd birtingu Kauphallar Íslands á listum yfir stærstu hluthafa skráðra félaga ekki hafa gefið tilefni til athugasemda í gildistíð eldri persónuverndarlöggjafar. Þá telur Persónuvernd sömu birtingu ekki heldur gefa tilefni til athugasemda samkvæmt hinni nýju löggjöf.

Hvað varðar birtingu hlutafélaga sjálfra á upplýsingum um hluthafa sína telur Persónuvernd framangreint geta átt við, með sama hætti og við birtingu Kauphallar Íslands, þegar um ræðir stærstu hluthafa. Þá getur að öðru leyti meðal annars skipt máli hvað fram kemur í samþykktum félaganna og getur þá reynt á hvort samþykki eigenda sé til staðar eða hvort birting teljist nauðsynleg til að efna samning semfólginn er í kaupum á hlutafé, sbr. 1. og 2. tölul. 9. gr. laga nr. 90/2018 og a- og b-lið 1. mgr. 6. gr. reglugerðar (ESB) 2016/679. Eins og hér stendur á reynist hins vegar ekki unnt að veita fyllra svar um umrædda birtingu upplýsinga um hluthafa, enda gæti í einstökum tilvikum reynt á mismunandi sjónarmið sem ekki er unnt að sjá fyrir, allt eftir því í hvaða tilgangi hlutaðeigandi félag myndi birta slíkar upplýsingar, sbr. kröfu 2. tölul. 1. mgr. 8. gr. og h-liðar 1. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar um skýrt tilgreindan, lögmætan og málefnalegan tilgang með vinnslu persónuupplýsinga.

 F.h. Persónuverndar 

Helga Þórisdóttir                 Þórður SveinssonVar efnið hjálplegt? Nei