Úrlausnir

Synjun Vinnueftirlits ríkisins á beiðni um aðgang að persónuupplýsingum í samræmi við lög

Mál nr. 2021010211

20.7.2021

Persónuvernd hefur úrskurðað í máli vegna kvörtunar er varðaði synjun Vinnueftirlits ríkisins á beiðni einstaklings um staðfestingu á því hvort eftirlitinu hafi borist kvörtun þar sem hann væri sakaður um einelti. Frétt um að viðkomandi hafi verið kærður vegna eineltis birtist á vefmiðli. Í málinu lá fyrir úrskurður úrskurðarnefndar um upplýsingamál þar sem ákvörðun Vinnueftirlitsins um að synja beiðni kvartanda um aðgang var staðfest. Auk þess lá fyrir að Umboðsmaður Alþingis hafði tekið niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar til skoðunar og þann lagagrundvöll sem hún byggðist á, og lauk umboðsmaður þeirri athugun án athugasemda. Var það niðurstaða Persónuverndar að kvartandi gæti ekki átt ríkari rétt til aðgangs að gögnum samkvæmt persónuverndarlögum en hann getur átt samkvæmt stjórnsýslu- eða upplýsingalögum og var synjun Vinnueftirlitsins því staðfest.

Úrskurður


Hinn 23. júní 2021 kvað Persónuvernd upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. 2021010211.

I.
Málsmeðferð

1.

Tildrög máls

Hinn 26. janúar 2021 barst Persónuvernd kvörtun frá [A] (hér eftir kvartandi) yfir synjun Vinnueftirlits ríkisins á beiðni hans um aðgang að persónuupplýsingum sínum. Nánar tiltekið laut kvörtunin að því að kvartanda hefði verið synjað um upplýsingar um hvort Vinnueftirlitinu hefði borist kæra þar sem hann væri sakaður um einelti og, ef slík kæra hefði borist, hvenær hún hefði borist og hvar málið væri statt í verkferlum Vinnueftirlitsins.

Í kvörtuninni segir að þann […] hafi frétt birst á vefmiðli þess efnis að kvartandi hefði, sem þáverandi [starfsmaður opinbers aðila], verið kærður til Vinnueftirlits ríkisins fyrir meint einelti gagnvart fyrrverandi starfsmanni [opinbers aðila]. Fram kemur að samdægurs hafi kvartandi óskað eftir framangreindum upplýsingum frá Vinnueftirlitinu með tölvupósti en beiðninni hafi verið hafnað með bréfi, dags. […]. 

Með kvörtuninni fylgdu meðal annars andmælabréf Vinnueftirlits ríkisins til úrskurðarnefndar um upplýsingamál, dags. […], og afrit af úrskurði nefndarinnar nr. […], dags. […], þar sem fjallað var um beiðni kvartanda um aðgang að sömu gögnum á grundvelli upplýsingalaga nr. 140/2012, sem og svar umboðsmanns Alþingis, dags. […], við erindi kvartanda til umboðsmanns, þar sem fjallað er um niðurstöðu úrskurðarnefndar um upplýsingamál og þann lagagrundvöll sem hún byggðist á.

2.

Sjónarmið kvartanda

Kvartandi vísar til þess að hann hafi verið sakaður um ámælisvert athæfi í fyrrnefndri frétt á vefmiðli […]. Synjun Vinnueftirlitsins um umbeðnar upplýsingar, þ.e. upplýsingar um hvort því hafi sannarlega borist kvörtun af því tagi sem fram kom í fréttinni, hafi hins vegar gert honum ómögulegt að hreinsa æru sína. Þá vísar kvartandi til þess að Vinnueftirlitið hefði getað svarað spurningum hans án persónugreinanlegra upplýsinga, svo sem með því að játa eða neita spurningu hans um hvort kvörtun hefði borist og eftir atvikum veita almennar upplýsingar um stöðu slíkrar kvörtunar í verkferlum stofnunarinnar.

3.

Sjónarmið Vinnueftirlits ríkisins

Samkvæmt skýringum Vinnueftirlits ríkisins, sem fram koma í bréfi stofnunarinnar til úrskurðarnefndar um upplýsingamál, dags. […], úrskurði nefndarinnar nr. […], dags. […], og bréfi umboðsmanns Alþingis, dags.[…], var kvartanda synjað um aðgang að umbeðnum gögnum með vísan til 1. málsl. 1. mgr. 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012, þar sem segir að óheimilt sé að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á, og 3. mgr. 14. gr. sömu laga, sem kveður á um að heimilt sé að takmarka aðgang aðila að gögnum ef þau hafa jafnframt að geyma upplýsingar um einkamálefni annarra, enda vegi þeir hagsmunir, sem mæla með því að upplýsingunum sé haldið leyndum, þyngra en hagsmunir þess sem fer fram á aðgang að gögnum. Síðarnefnda ákvæðið tekur til aðgangs aðila að upplýsingum um hann sjálfan. 

Í bréfi Vinnueftirlits ríkisins, dags. […] segir að við hagsmunamat á grundvelli 3. mgr. 14. gr. upplýsingalaga hafi stofnunin litið til hlutverks síns og einkum til mikilvægis þess að starfsmenn geti leitað til Vinnueftirlits ríkisins með kvartanir sínar um ætlaðan vanbúnað á vinnustað hjá atvinnurekendum sem þeir starfi hjá án þess að eiga á hættu að stofnunin þurfi að upplýsa um hvort slíkar umkvartanir hafi borist eða um efni þeirra. 

Þá er einnig vísað til þess að ákvarðanir Vinnueftirlits ríkisins um vanbúnað á vinnustöðum beinist að atvinnurekandanum sjálfum, en ekki einstaka starfsmönnum hans, og að ekki verði ráðið af ákvæðum þeirra laga sem stofnunin starfi eftir að hún hafi heimildir til að taka efnisákvarðanir er lúta beint að starfsmanni persónulega eða samskiptum hans við vinnuveitanda eða aðra samstarfsmenn.

Fram kemur að meðal annars með vísan til framangreindra sjónarmiða hafi Vinnueftirliti ríkisins verið óheimilt að upplýsa um hvort kvörtun hefði borist stofnuninni sem og um efni slíkrar kvörtunar, hefði hún borist. Einnig segir í bréfi Vinnueftirlitsins, dags. […], að umfjöllun fréttamiðils, sem óljóst sé á hvaða upplýsingum byggist, breyti ekki nokkru um framangreint hagsmunamat.

4.

Úrlausnir úrskurðarnefndar um upplýsingamál og umboðsmanns Alþingis

Í úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. […], dags. […], segir að með hliðsjón af því hvernig atvikum málsins sé háttað sé það mat úrskurðarnefndarinnar að hagsmunir einstaklinga af því að upplýsingar um erindi sem þeir kunni að hafa lagt fram í skjóli lögbundinnar og sérstakrar þagnarskyldu fari leynt vegi þyngra en hagsmunir kæranda af því að fá upplýsingar um það hvort kvörtun vegna meintrar háttsemi hans á vinnustað hafi borist Vinnueftirliti ríkisins. Var það því niðurstaða nefndarinnar að staðfesta bæri ákvörðun Vinnueftirlits ríkisins um að synja beiðni kvartanda um aðgang að upplýsingum um hvort slík kvörtun hefði borist.

Í bréfi umboðsmanns Alþingis, dags, segir meðal annars að Vinnueftirlit ríkisins starfi á grundvelli laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Lögin geri ekki ráð fyrir því að Vinnueftirlitið taki ákvarðanir í málum einstakra starfsmanna og eftirlit og ákvarðanir vegna vanbúnaðar á vinnustöðum beinist því að viðkomandi atvinnurekanda. Þannig njóti þeir sem komi kvörtun á framfæri og, eftir atvikum, sá sem kvörtunin lúti að ekki aðildar að stjórnsýslumáli á grundvelli stjórnsýslulaga nr. 37/1993, hvorki við móttöku slíkrar kvörtunar af hálfu Vinnueftirlitsins né þegar kvörtun verður stofnuninni tilefni til að fara í eftirlitsheimsókn á viðkomandi vinnustað, heldur beinist það stjórnsýslumál sem kann að hefjast að atvinnurekandanum sem nýtur þá eftir atvikum aðilastöðu samkvæmt stjórnsýslulögum. Í bréfi umboðsmanns segir einnig að með hliðsjón af rökstuðningi úrskurðarnefndar um upplýsingamál, að virtum þeim gögnum sem umboðsmanni höfðu borist og atvikum málsins að öðru leyti telji hann ekki líkur á því að frekari athugun hans á málinu muni leiða til þess að hann hafi forsendur til þess að gera athugasemdir við úrskurð nefndarinnar og synjun Vinnueftirlitsins á beiðni kvartanda. Þá segir einnig að umboðsmaður telji að öðru leyti séu þær athugasemdir sem fram komu í kvörtun kvartanda til hans ekki þess eðlis að tilefni sé til að taka þær til frekari athugunar og lauk hann því athugun sinni vegna málsins.

II.

Forsendur og niðurstaða

1.

Gildissvið – Ábyrgðaraðili

Gildissvið laga nr. 90/2018, um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, og reglugerðar (ESB) 2016/679, sbr. 1. mgr. 4. gr. laganna, og þar með valdsvið Persónuverndar, sbr. 1. mgr. 39. gr. laganna, nær til vinnslu persónuupplýsinga sem er sjálfvirk að hluta eða í heild og vinnslu með öðrum aðferðum en sjálfvirkum á persónuupplýsingum sem eru eða eiga að verða hluti af skrá.

Til persónuupplýsinga teljast upplýsingar um persónugreindan eða persónugreinanlegan einstakling og telst einstaklingur persónugreinanlegur ef unnt er að persónugreina hann, beint eða óbeint, með tilvísun í auðkenni hans eða einn eða fleiri þætti sem einkennandi eru fyrir hann, sbr. 2. tölul. 3. gr. laganna og 1. tölul. 4. gr. reglugerðarinnar.

Mál þetta lýtur að synjun Vinnueftirlits ríkisins á beiðni um aðgang að persónuupplýsingum kvartanda hjá stofnuninni. Mál þetta fellur því undir valdsvið Persónuverndar.

Sá sem ber ábyrgð á að vinnsla persónuupplýsinga samrýmist lögum nr. 90/2018 er nefndur ábyrgðaraðili. Eins og hér háttar til telst Vinnueftirlit ríkisins vera ábyrgðaraðili að umræddri vinnslu.

2.

Lagaumhverfi

Í máli þessu reynir á það hvort ábyrgðaraðili hafi afgreitt beiðni kvartanda um aðgang að persónuupplýsingum hans í samræmi við ákvæði laga nr. 90/2018 og reglugerð (ESB) 2016/679.

Samkvæmt 2. mgr. 17. gr. laga nr. 90/2018 á skráður einstaklingur rétt til aðgangs að persónuupplýsingum um sig samkvæmt fyrirmælum 15. gr. reglugerðar (ESB) 2016/679 með þeim undantekningum sem greinir í lögunum.

Í 1. mgr. 15. gr. reglugerðarinnar er meðal annars kveðið á um að skráður einstaklingur skuli hafa rétt til að fá staðfestingu á því frá ábyrgðaraðila hvort unnar séu persónuupplýsingar sem varða hann sjálfan og, sé svo, rétt til aðgangs að persónuupplýsingum. Þá segir í 3. mgr. sömu greinar að ábyrgðaraðili skuli láta í té afrit af þeim persónuupplýsingum sem séu í vinnslu. Í 4. mgr. sömu greinar segir einnig að rétturinn til að fá afrit, sem um getur í 3. mgr., skuli ekki skerða réttindi og frelsi annarra. Í 68. lið formálsorða við reglugerð (ESB) 2016/679 segir að ef tiltekið mengi persónuupplýsinga varðar fleiri en einn skráðan einstakling ætti réttur þeirra til að fá persónuupplýsingarnar að vera með fyrirvara um réttindi og frelsi annarra skráðra einstaklinga í samræmi við reglugerðina.

Í 6. mgr. 17. gr. laga nr. 90/2018 segir að upplýsingar í málum sem eru til meðferðar hjá stjórnvöldum megi undanþiggja réttinum til aðgangs skv. 1. mgr. 15. gr. reglugerðarinnar að sama marki og gildi um undantekningar á upplýsingarétti samkvæmt upplýsingalögum og stjórnsýslulögum. Í athugasemdum við ákvæðið segir að með ákvæðinu séu mörkuð skil upplýsingaréttar samkvæmt stjórnsýslulögum, nr. 97/1993, og upplýsingalögum, nr. 140/2012, annars vegar og persónuverndarlögum, nr. 90/2018, hins vegar. Einnig segir að miðað sé við að réttur til aðgangs samkvæmt persónuverndarlögum verði sambærilegur við rétt aðila máls skv. 15. gr. stjórnsýslulaga og rétt almennings skv. 5. gr. upplýsingalaga og af því leiði að aðili geti ekki á grundvelli persónuverndarlaga krafist aðgangs að skjölum eða öðrum gögnum sem undanþegin eru aðgangi samkvæmt stjórnsýslu- eða upplýsingalögum.

3.

Niðurstaða

Í málinu liggur fyrir úrskurður úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. […], dags. […], þar sem staðfest var ákvörðun Vinnueftirlits ríkisins, dags. […], um að synja beiðni kvartanda um aðgang að upplýsingum um hvort stofnuninni hafi borist kvörtun vegna meints eineltis kvartanda gagnvart starfsmanni. Þá liggur fyrir að umboðsmaður Alþingis tók niðurstöðu úrskurðarnefndar um upplýsingamál til skoðunar og þann lagagrundvöll sem hún byggðist á, og lauk umboðsmaður þeirri athugun án athugasemda. 

Eins og hér háttar til og með vísan til alls þess sem að framan er rakið, og í samræmi við 6. mgr. 17. gr. laga nr. 90/2018 er það niðurstaða Persónuverndar að kvartandi geti ekki átt ríkari rétt til aðgangs að gögnum á grundvelli laga nr. 90/2018 en hann getur átt samkvæmt upplýsingalögum nr. 140/2012. Persónuvernd telur því að Vinnueftirliti ríkisins sé ekki skylt, á grundvelli laganna og reglugerðar (ESB) 2016/679, að veita kvartanda upplýsingar um hvort stofnuninni hafi borist kæra þar sem kvartandi hafi verið sakaður um einelti, og eftir atvikum, hvenær slík kæra hafi borist og hvar málið hafi verið statt í verkferlum stofnunarinnar.


Ú r s k u r ð a r o r ð:


Synjun Vinnueftirlits ríkisins á beiðni [A] um aðgang að upplýsingum um hvort Vinnueftirlitinu hafi borist kæra þar sem hann hafi verið sakaður um einelti samrýmdist lögum nr. 90/2018, um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, og reglugerð (ESB) 2016/679.


F.h. Persónuverndar, 23. júní 2021,

 

Helga Þórisdóttir                                          Helga Sigríður ÞórhallsdóttirVar efnið hjálplegt? Nei