Úrlausnir

Skráning og alvarleikaflokkun hjá Creditinfo Lánstrausti hf.

Mál nr. 2017/1115

22.3.2019

Kvartað var yfir skráningu upplýsinga hjá Creditinfo Lánstrausti hf. um nauðungarsölu á fasteign. Meðal þess sem á reyndi í málinu var hvort skrá hefði mátt að um ræddi mjög alvarleg vanskil. Í því sambandi var litið til skýringa frá Creditinfo Lánstrausti hf. sem báru með sér að alvarleikaflokkun byggðist á hlutlægum viðmiðum, þ.e. á hvaða stigi innheimtu krafa væri eða hvort um ræddi upplýsingar um annað en vanskil. Var komist að þeirri niðurstöðu að flokkunin samrýmdist því markmiði skráningar að stuðla að öryggi í viðskiptum og að umrædd vinnsla hefði samrýmst reglum um skráninguna.

Úrskurður

Hinn 28. febrúar 2019 kvað stjórn Persónuverndar upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. 2017/1115:

I.

Málsmeðferð

1.

Kvörtun

Hinn 28. júlí 2017 barst Persónuvernd kvörtun frá [A] yfir skráningu upplýsinga um hann á skrá Creditinfo Lánstrausts hf. um fjárhagsmálefni og lánstraust einstaklinga. Í kvörtuninni segir::

„Fasteign undirritaðs var boðin upp […] 2016 og slegin [X]. Undirritaður kærði nauðungarsöluna og málið er nú fyrir Hæstarétti. Skráning á vanskilaskrá hefur valdið og er að valda undirrituðum vandræðum og skaða. Sýslumaður heldur utan um fjármuni sem [X] greiddi fyrir fasteignina. Undirritaður gerir einnig athugasemd við flokkunina „Mjög alvarleg vanskil“.

Fyrir lokasölu fasteignarinnar lá fyrir skuldbreytingalán milli [Y] og undirritaðs, en [X] veitti ekki veðleyfi fyrir því sem handhafi þinglýsts tryggingabréfs á fasteigninni.

Undirritaður gerir athugasemd við skráninguna hjá Creditinfo og vill að hún verði fjarlægð af vanskilaskrá.“

Með kvörtun fylgdu tölvupóstsamskipti við [Y] frá sama degi og kvörtunin var send. Af þeim verður ráðið að [Y] hafi verið gerðarbeiðandi við nauðungarsöluna en að [X] hafi keypt þá fasteign sem þar var seld. Þá kemur þar fram að kvartandi hafði kært nauðungarsöluna til dómstóla.

Viðbót við kvörtun barst í tölvupósti hinn 31. júlí 2017. Er þar um að ræða tölvupóstsamskipti kvartanda og embættis sýslumanns[…] sama dag. Gerir kvartandi þar athugasemdir við að sýslumaður hafi ekki enn greitt [Y] þá upphæð sem [X] greiddi fyrir fasteignina. Því er svarað til að það sé ekki hægt vegna fyrrnefndrar kæru til dómstóla.

Einnig barst viðbót við kvörtun í tölvupósti hinn 13. september 2017. Þar er um að ræða tölvupóstsamskipti kvartanda og Creditinfo Lánstrausts hf. Bendir kvartandi þar á þá töf sem orðið hafði á að sýslumaður greiddi [Y] það verð sem fékkst fyrir fasteign kvartanda á nauðungaruppboðinu, en fram kemur að krafa [Y] nam 30 milljónum króna. Þá bendir kvartandi á að hinn 28. ágúst 2017 féll dómur Hæstaréttar í máli vegna kæru hans á nauðungarsölunni og segir að í ljósi þess sé um að ræða úreltar upplýsingar hjá Creditinfo Lánstrausti hf. Var kvartanda svarað samdægurs, en í svarinu er vísað til þess að samkvæmt starfsleyfi Creditinfo Lánstrausts hf. skal eyða upplýsingum um einstakar skuldir sé vitað er að þeim hafi verið komið í skil, sbr. grein 2.7 í þágildandi leyfi, dags. 28. febrúar 2017 (mál nr. 2016/1626), og sömu grein í núgildandi leyfi, dags. 26. febrúar 2018 (mál nr. 2017/1541). Samkvæmt upplýsingum frá sýslumanni[…] hafi [Y] ekki afturkallað nauðungarsölubeiðni sína og hafi ekki borist staðfesting frá kröfuhafa eða umboðsmanni hans um uppgreiðslu kröfunnar.

2.

Athugasemdir Creditinfo Lánstrausts hf.

Frekari gögn frá kvartanda

Með bréfi, dags. 13. september 2017, veitti Persónuvernd Creditinfo Lánstrausti hf. færi á að tjá sig um framkomna kvörtun. Svarað var með bréfi, dags. 20. s.m. Þar er meðal annars vísað til þess að samkvæmt starfsleyfi fyrirtækisins til að halda skrá um vanskil einstaklinga er óheimilt að vinna með upplýsingar um umdeildar skuldir og að skuld telst ekki umdeild hafi hún verið staðfest með aðfararhæfri ákvörðun sýslumanns, sbr. 3. mgr. greinar 2.1 í þágildandi leyfi, sbr. sama ákvæði í núgildandi leyfi. Einnig segir að Creditinfo Lánstraust hf. líti á ákvörðun sýslumanns um að auglýsa nauðungarsölu sem réttargerð í þessum skilningi. Þá segir meðal annars:

„Samkvæmt upplýsingum frá sýslumanni[…] hefur [Y] ekki afturkallað nauðungarsölubeiðni sína og ekki hefur borist staðfesting til Creditinfo Lánstrausts hf. frá kröfuhafa eða umboðsmanni hans um uppgreiðslu kröfunnar sem kallar á afskráningu á grundvelli greinar 2.7. í starfsleyfi Creditinfo Lánstrausts hf.“

Með bréfi, dags. 22. nóvember 2017, óskaði Persónuvernd frekari skýringa frá Creditinfo Lánstrausti hf. Nánar tiltekið vísaði Persónuvernd til þess að töf hefði orðið á að sýslumaður[…] greiddi [Y] það verð sem fékkst fyrir sölu fasteignar kvartanda á umræddu nauðungaruppboði. Var þess óskað að Creditinfo Lánstraust hf. tjáði sig um hvort telja bæri að krafan hefði taldist efnd við nauðungarsöluna og vinnsla upplýsinga um hana því óheimil, sbr. 2. mgr. greinar 2.1 í þágildandi starfsleyfi, sbr. 3. mgr. greinar 2.3 í núgildandi leyfi, um bann við miðlun upplýsinga sem vitað er að komið hefur verið í skil. Svarað var með bréfi, dags. 5. desember 2017. Þar er vísað til þess að samkvæmt starfsleyfisskilmálum, sbr. 1. mgr. greinar 2.9 í þágildandi leyfi og sama ákvæði í núgildandi leyfi, ber Creditinfo Lánstraust hf. ábyrgð á því að í samningum við áskrifendur komi fram að áskrifandi skuli láta fyrirtækið vita ef skuld er greidd eða henni komið í skil með öðrum hætti. Segir að í samræmi við þetta ákvæði hafi Creditinfo Lánstraust hf. haft samband við [Y] til að kanna hvort umrædd krafa væri að fullu greidd. Þá segir meðal annars:

„Kröfuhafi staðfesti að krafan væri ekki greidd og ekki hefði verið um hana samið. Í svörum kröfuhafa kom fram að kvartandi hefði kært nauðungarsöluna til dómstóla og ekki lægi fyrir niðurstaða í því máli. Einnig fékk Creditinfo staðfestingu frá Sýslumanni[…] um að ekki væri búið að afturkalla þá nauðungarsölu sem um ræðir, þar sem málið var kært til Hæstaréttar og beðið væri eftir niðurstöðu í því máli, en í 53. gr. laga nr. 90/1991 segir að ekki verði greitt skv. úthlutunargerð fyrr en frestur til að bera gildi nauðungarsölunnar undir héraðsdóm er liðinn og þegar sá frestur er liðinn megi heldur ekki greiða eftir úthlutunargerð ef dómsmál vegna nauðungarsölunnar hefur ekki verið til lykta leitt. Ekki verður því litið svo á að krafan hafi verið efnd þegar kvartandi óskaði afskráningar af vanskilaskrá Creditinfo.

Þann 11. október sl. barst Creditinfo beiðni frá kröfuhafa þar sem óskað var eftir afskráningu á umræddri færslu á vanskilaskrá þar sem náðst hafði samkomulag við kvartanda um greiðslu skuldarinnar. Umrædd færsla var skráð af vanskilaskrá sama dag.“

Með bréfi, dags. 6. mars 2018, veitti Persónuvernd kvartanda færi á að tjá sig um framangreindar skýringar Creditinfo Lánstrausts hf., en áður hafði honum verið sent afrit af fyrrnefndu bréfi fyrirtækisins, dags. 20. september 2017, þ.e. með bréfi, dags. 22. nóvember s.á. Ekki barst svar frá kvartanda og veitti Persónuvernd honum færi á athugasemdum með bréfi, dags. 7. ágúst 2018. Ekki barst svar frá honum. Hins vegar höfðu Persónuvernd borist afrit af tölvupóstsamskiptum sem hann hafði átt við aðila sem koma að umræddri nauðungarsölu og skráningu á skrá Creditinfo Lánstrausts hf. um fjárhagsmálefni og lánstraust einstaklinga. Má þar nefna tilkynningu frá [Y] frá 11. október 2017 um að samkvæmt upplýsingum frá Creditinfo Lánstrausti hf. hafi nafn hans verið tekið af skránni. Þá má nefna tölvupóstsamskipti kvartanda við Creditinfo Lánstraust hf. hinn 28. september 2017 þar sem hann áréttaði fyrrnefnda ábendingu sína um dóm Hæstaréttar í máli vegna kæru hans á umræddri nauðungarsölu. Kvartanda var svarað samdægurs, en í svarinu segir að greinargerð hafi verið lögð til Persónuverndar vegna kvörtunar hans og sé það í hendi hennar að úrskurða í málinu.

Persónuvernd taldi frekari skýringa þörf frá Creditinfo Lánstrausti hf. og óskaði þeirra með bréfi, dags. 24. janúar 2018. Nánar tiltekið var vísað til þess að þegar kvartandi vakti athygli fyrirtækisins á dómi Hæstaréttar í máli sínu hinn 13. september 2017, ásamt því að taka fram að um ræddi úreltar upplýsingar hjá Creditinfo Lánstrausti hf., var honum svarað með því að [Y] hefði ekki afturkallað nauðungarsölubeiðni sína og að ekki hefði borist staðfesting frá kröfuhafa eða umboðsmanni hans um uppgreiðslu kröfunnar. Þá var vísað til þess að þegar kvartandi kom sömu ábendingu á framfæri við Creditinfo Lánstraust hf. hinn 28. september 2017 var honum svarað með þeim hætti sem greinir hér framar. Í þessu sambandi benti Persónuvernd á 2. mgr. greinar 2.5 í þágildandi starfsleyfi, sbr. sömu grein í núgildandi starfsleyfi, þar sem fjallað er um það þegar þegar hinn skráði dregur áreiðanleika upplýsinga í efa og greinir til dæmis frá því að skuld hafi verið komið í skil. Segir að hvorki megi þá gera þá kröfu til hans um að hann beri erindið upp skriflega né setja sem skilyrði að hann leggi fram skrifleg gögn máli sínu til sönnunar. Hins vegar megi gera athugun hjá viðkomandi ábyrgðaraðila á réttmæti fullyrðingar hins skráða.

Svarað var með bréfi, dags. 29. janúar 2019. Þar segir meðal annars að þegar hinn skráði staðhæfi að krafa, sem skráð er á umrædda skrá Creditinfo Lánstrausts hf. sé að fullu greidd eða að um hana hafi verið samið, sé það verklag viðhaft hjá fyrirtækinu að kanna réttmæti fullyrðingarinnar hjá kröfuhafa. Einnig er vísað til þess sem fyrr greinir um að kvartandi hafi haft samband við fyrirtækið eftir uppkvaðningu áðurnefnds dóms Hæstaréttar, en í framhaldi af því segir:

„Þann 13. september 2017 hafði Creditinfo samband við [Y] vegna athugasemdar kvartanda. [Y] svaraði því til að ekki lægi fyrir að [Y] fengi kröfuna greidda að fullu úr sölunni og [Y] gæti því ekki staðfest að krafan væri að fullu greidd.

Þann 29. september 2017 hafði [Y] samband við Creditinfo og var það gert að beiðni kvartanda sem óskaði eftir því við [Y] að [Y]veitti Creditinfo upplýsingar um stöðu hans við [Y]. Þar kom m.a. fram að þar sem hluti af kröfu [Y] voru eftirstæðir vextir þá hafi [Y] ekki að fullu fengið kröfu sína greidda af framangreindri sölu.“

Aftur taldi Persónuvernd frekari skýringa þörf, þ.e. varðandi það að tekið hefði verið fram á skrá Creditinfo Lánstrausts hf. um fjárhagsmálefni og lánstraust einstaklinga að um ræddi „mjög alvarleg vanskil“ hjá kvartanda. Var skýringa í því sambandi óskað með bréfi Persónuverndar til fyrirtækisins, dags. 12. febrúar 2019. Svarað var með bréfi, dags. 20. s.m. Þar segir að í þann tíma sem Creditinfo Lánstraust hf. hafi starfað hafi tegundir færslna á umræddri skrá fyrirtækisins verið flokkaðar í alvarleikaflokka, þ.e. alvarleg vanskil, mjög alvarleg vanskil, ógjaldfærni og annað, en undir síðastnefnda flokkinn falli t.d. skráning kaupmála. Þá segir:

„Alvarleikaflokkum er miðlað til áskrifenda til að þeir geti gert greinarmun á skáningum sem koma inn á fyrstu stigum innheimtunnar og þeirra sem koma til þegar innheimta skulda er komin á alvarlegri stig, m.a. á það stig að einstaklingur hefur lýst yfir ógjaldfærni við gerð árangurslauss fjárnáms eða verið lýstur gjaldþrota. Einstaklingur getur sótt allar sínar upplýsingar á þjónustuvefinn MittCreditinfo, þar á meðal skráningar á vanskilaskrá og hvernig þær eru flokkaðar í alvarleikaflokka.

Með framsetningu þessari telur Creditinfo að farið hafi verið að meginreglum laga nr. 77/2000 um gæði gagna og vinnslu.“

Að fengnu framangreindu bréfi taldi Persónuvernd frekari skýringa þörf á því hvernig skráningar væru flokkaðar eftir alvarleika og var þeirra óskað í símtali við starfsmann Creditinfo Lánstraust hf. hinn 20. febrúar 2019, auk þess sem staðfestingar á því sem þar kom fram var óskað samdægurs í tölvupóstsamskiptum. Þar staðfesti Creditinfo Lánstraust hf. nánar tiltekið að það sem réði því í hvaða flokk upplýsingar væru settar væri tegund þeirrar aðgerðar sem átt hefði sér stað. Í því fælist nánar tiltekið að tiltekin tegund aðgerðar hefði ávallt í för með sér röðun í sama alvarleikaflokk.

Þá var staðfest að tilgangurinn með flokkuninni væri sá að gera áskrifendum kleift að vita hvort um ræddi fyrstu innheimtugerðir sem leiða til vanskilaskráningar (alvarleg vanskil), innheimtuaðgerðir sem lengra væru komnar (mjög alvarleg vanskil), það þegar fyrir lægi staðfesting á ógjaldfærni (árangurslaust fjárnám, gjaldþrot) og skráningar um annað en vanskil (annað).

Kvartanda var veitt færi á að tjá sig um skýringar Creditinfo Lánstrausts hf. í framangreindum bréfum, dags. 29. janúar og 20. febrúar 2019, sem og áðurnefndum tölvupóstsamskiptum, með bréfi, dags. 20. febrúar. Ekki bárust athugasemdir frá kvartanda.

3.

Dómur Hæstaréttar Íslands

Eins og fyrr greinir felldi Hæstiréttur dóm í máli vegna kæru á umræddri nauðungarsölu hinn […] 2017 (mál nr. […]). Var nauðungarsalan þar staðfest. Í dóminum kemur fram að ekki var ágreiningur um lögmæti kröfu [Y] sem gerðarbeiðanda. Þess í stað sneri ágreiningurinn að aðkomu [X] að málum vegna nauðungarsölunnar.

II.

Forsendur og niðurstaða

1.

Lagaskil

Mál þetta varðar kvörtun, dags. 28. júlí 2017, og lýtur að atvikum sem gerðust fyrir gildistöku núgildandi laga nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga þann 15. júlí 2018. Er því hér byggt á ákvæðum eldri laga, nr. 77/2000, en ekki er um efnislegar breytingar að ræða í lögum nr. 90/2018 á þeim reglum laganna sem hér reynir á.

2.

Gildissvið – Ábyrgðaraðili að vinnslu

Gildissvið laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, sbr. 1. mgr. 3. gr. þeirra laga, og þar með valdsvið Persónuverndar, sbr. 1. og 2. mgr. 37. gr. laganna, nær til sérhverrar rafrænnar vinnslu persónuupplýsinga, sem og handvirkrar vinnslu slíkra upplýsinga sem eru eða eiga að verða hluti af skrá. Persónuupplýsingar eru sérhverjar persónugreindar eða persónugreinanlegar upplýsingar, þ.e. upplýsingar sem beint eða óbeint má rekja til tiltekins einstaklings, látins eða lifandi, sbr. 1. tölul. 2. gr. laganna; og vinnsla er sérhver aðgerð eða röð aðgerða þar sem unnið er með persónuupplýsingar, hvort heldur sem vinnslan er handvirk eða rafræn, sbr. 2. tölul. sömu greinar. Í athugasemdum við það ákvæði í því frumvarpi, sem varð að lögum nr. 77/2000, kemur fram að hver sú aðferð, sem nota má til að gera upplýsingar tiltækar, telst til vinnslu. Af þessu öllu er ljóst að hér ræðir um meðferð persónuupplýsinga sem fellur undir valdsvið Persónuverndar.

Sá sem ber ábyrgð á að vinnsla persónuupplýsinga samrýmist lögum nr. 77/2000 er nefndur ábyrgðaraðili. Samkvæmt 4. tölul. 2. gr. laganna er þar átt við þann sem ákveður tilgang vinnslu persónuupplýsinga, þann búnað sem notaður er, aðferð við vinnsluna og aðra ráðstöfun upplýsinganna. Eins og hér háttar til telst Creditinfo Lánstraust hf. vera ábyrgaraðili að umræddri vinnslu.

3.

Niðurstaða

Svo að vinnsla persónuupplýsinga sé heimil verður ávallt að vera fullnægt einhverju af skilyrðum 1. mgr. 8. gr. laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Hefur verið litið svo á að vinnsla upplýsinga um fjárhagsmálefni og lánstraust geti meðal annars átt sér stoð í 7. tölul. 1. mgr. þeirrar greinar, þ.e. á þeim grundvelli að vinnsla sé nauðsynleg í þágu lögmætra hagsmuna nema grundvallarréttindi og frelsi hins skráða vegi þyngra.

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 246/2001 um söfnun og miðlun upplýsinga um fjárhagsmálefni og lánstraust, sbr. 45. gr. laga nr. 77/2000, er söfnun og skráning slíkra upplýsinga um einstaklinga, í því skyni að miðla þeim til annarra, óheimil án leyfis Persónuverndar. Tekið er fram í 1. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar að handhafa slíks leyfis, sem nefndur er fjárhagsupplýsingastofa, sé einungis heimilt að vinna með upplýsingar sem eðli sínu samkvæmt hafa afgerandi þýðingu við mat á fjárhag og lánstrausti hins skráða.

Creditinfo Lánstraust hf. hefur haft með höndum vinnslu persónuupplýsinga á grundvelli leyfa samkvæmt reglugerð nr. 246/2001, en þegar atvik máls þessa áttu sér stað í var í gildi slíkt leyfi til handa fyrirtækinu til að halda skrá um vanskil einstaklinga, dags. 28. febrúar 2017 (mál nr. 2016/1626), sbr. nú leyfi, dags. 26. febrúar 2018 (mál nr. 2017/1541). Samkvæmt 2. mgr. greinar 2.1 í leyfunum er heimilt að vinna með upplýsingar sem hafa verið löglega birtar í opinberum auglýsingum, en í máli þessu ræðir um slíkar upplýsingar, þ.e. um nauðungarsölubeiðni auglýsta af sýslumanni í samræmi við 19. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Þá segir meðal annars í 3. mgr. greinar 2.1 í leyfunum að óheimil sé vinnsla upplýsinga um umdeildar skuldir. Hefur verið vikið að því ákvæði í málinu af hálfu Creditinfo Lánstrausts hf. Jafnframt er hins vegar ljóst að ágreiningur vegna nauðungarsölunnar laut ekki að lögmæti kröfu gerðarbeiðanda, [Y], eins og komið hefur fram. Reynir því ekki á þetta ákvæði í máli þessu og verður talið að sjálf skráningin á upplýsingum um kvartanda hafi byggst á áðurgreindri heimild samkvæmt 8. gr. laga nr. 77/2000 og gildandi starfsleyfi.

Einnig hefur verið vikið að því í málinu hvort telja beri kröfu kvartanda hafa verið efnda þegar nauðungarsala á eign hans átti sér stað hinn […] 2016, þ.e. á þeim grundvelli að ekki má miðla upplýsingum úr skrá um fjárhagsmálefni og lánstraust einstaklinga sem vitað er að komið hefur verið í skil, sbr. 2. mgr. greinar 2.1 í þágildandi starfsleyfi, sbr. 3. mgr. greinar 2.3 í núgildandi leyfi. Samkvæmt 1. mgr. 53. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu verður ekki greitt samkvæmt úthlutunargerð sýslumanns fyrr en frestur til að bera gildi nauðungarsölunnar undir héraðsdóm samkvæmt 1. mgr. 80. gr. laganna er liðinn. Þá segir meðal annars að þegar sá frestur sé liðinn megi heldur ekki greiða eftir úthlutunargerð ef dómsmál vegna nauðungarsölunnar hafi ekki enn verið leitt til lykta nema að því leyti sem sýnt sé að niðurstaða þess geti ekki breytt réttindum til greiðslna. Telur Persónuvernd að í ljósi þessa hafi krafa kvartanda ekki verið efnd þegar nauðungarsala á eign hans átti sér stað og umrædd vinnsla því í samræmi við starfsleyfi Creditinfo Lánstrausts hf. hvað þetta atriði varðar.

Að auki hefur verið vikið að því í málinu að kvartandi vakti athygli á því við Creditinfo Lánstraust hf. hinn 13. og 28. september 2017, að Hæstiréttur hefði fellt dóm í máli vegna kæru hans á umræddri nauðungarsölu og tók auk þess fram að um ræddi úreltar upplýsingar hjá fyrirtækinu. Í 2. mgr. greinar 2.5 í þágildandi leyfi, sbr. sama ákvæði í núgildandi leyfi, er tekið fram að þegar hinn skráði dragi áreiðanleika upplýsinga í efa, og greini t.d. frá því að skuld hafi verið komið í skil, með greiðslu eða annarri aðferð, geti fjárhagsupplýsingastofa hvorki gert þá kröfu til hans að hann beri erindið upp skriflega né sett sem skilyrði að hann leggi fram skrifleg gögn máli sínu til sönnunar. Hún megi þó gera athugun hjá viðkomandi ábyrgðaraðila á réttmæti fullyrðingar hins skráða. Fyrir liggur að slík athugun var gerð hjá kröfuhafa í bæði þau skipti sem kvartandi vakti athygli á umræddum dómi, í fyrra skiptið samdægurs og í síðara skiptið daginn eftir, sem og að samkvæmt svörum kröfuhafa hafði krafan ekki verið efnd að fullu. Verður ekki talið tilefni til athugasemda við þetta verklag Creditinfo Lánstrausts hf.

Eins og fyrr er rakið hefur kvartandi gert athugasemd við tilgreiningu á því í skrá Creditinfo Lánstrausts hf. um fjárhagsmálefni og lánstraust einstaklinga að um hafi rætt mjög alvarleg vanskil. Samkvæmt 1. mgr. greinar 2.1 í þágildandi starfsleyfi, sbr. sömu grein í núgildandi leyfi, sbr. einnig 3. gr. reglugerðar nr. 246/2001, má við umrædda skráningu aðeins vinna með persónuupplýsingar sem eðli sínu samkvæmt geta haft þýðingu við mat á fjárhag og lánstrausti hins skráða. Ljóst er að markmiðið með ákvæðum laga og reglna um skráninguna er það að stuðla að öryggi í viðskiptum. Jafnframt liggur fyrir að það sem ræður því í hvaða flokk upplýsingar eru settar er tegund þeirrar aðgerðar sem átt hefur sér stað, sem og að tiltekin tegund aðgerðar hefur ávallt í för með sér röðun í sama alvarleikaflokk. Nánar tiltekið hefur komið fram að um er að ræða fjóra alvarleikaflokka sem gera eiga áskrifendum að umræddri skrá Creditinfo Lánstrausts hf. kleift að vita á hvaða stigi vanskil séu eða hvort skráning lúti að öðru en vanskilum. Telur Persónuvernd að hér sé um hlutlæga flokkun að ræða sem sé til þess fallin að fyrrgreint markmið með ákvæðum laga og reglna um umrædda skráningu náist. Er því ekki gerð athugasemd við hana og verður ekki talið hafa verið brotið gegn lögum og reglum með tilgreiningu á alvarleika vanskila í skráningu upplýsinga um kvartanda á skrá Creditinfo Lánstrausts hf. um fjárhagsmálefni og lánstraust einstaklinga.

Mál þetta hefur dregist vegna mikilla anna hjá Persónuvernd.


Ú r s k u r ð a r o r ð:

Vinnsla Creditinfo Lánstrausts hf. á upplýsingum um nauðungarsölu á fasteign [A] samrýmdist lögum nr. 77/2000, reglugerð nr. 246/2001 og starfsleyfisskilmálum Persónuverndar.



Var efnið hjálplegt? Nei