Úrlausnir

Réttur til aðgangs að eineltisskýrslu

Mál nr. 2020010729

4.6.2021

Persónuvernd hefur úrskurðað í máli þar sem annars vegar reyndi á rétt kvartanda til aðgangs að eineltisskýrslu sem unnin var vegna tilkynningar hans um einelti og hins vegar vegna umfjöllunar um málið í fundargerðum, fréttabréfum og í fjölmiðlum af hálfu félagsins Y og stéttarfélagsins X.

Komst Persónuvernd að þeirri niðurstöðu að félagið Y hefði haft lögmæta hagsmuni af því að birta upplýsingar um eineltismálið í fundargerðum og fréttabréfum Y sem birt voru á vefsíðu þess. Taldi Persónuvernd hins vegar óheimilt að birta þar upplýsingar um afgreiðslu umsóknar kvartanda til sjúkrasjóðs stéttarfélagsins X.

Þá taldi Persónuvernd að Y, X og Líf og sál - sálfræðistofa hefði ekki gætt að aðgangsrétti kvartanda með því að neita honum alfarið um afhendingu skýrslunnar og lagði fyrir Y, sem vörsluaðila skýrslunnar, að afhenda kvartanda afrit af henni, að því gættu að allar upplýsingar um aðra einstaklinga en kvartanda væru áður afmáðar úr skýrslunni fyrir afhendingu.

Vísaði Persónuvernd þeim hluta kvörtunarinnar frá, sem laut að umfjöllun um eineltismálið í fjölmiðlum.

Úrskurður


Hinn 29. apríl 2021 kvað Persónuvernd upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. 2020010729 (áður 2018091402):

I.

Málsmeðferð

1.

Kvörtun og bréfaskipti

Hinn 11. september 2018 barst Persónuvernd kvörtun frá [B] lögmanni f.h. [A] (hér eftir kvartandi), annars vegar yfir höfnun [Stéttarfélagsins X], [Félagsins Y, sem er aðildarfélag stéttarfélagsins X] og Lífs og sálar sálfræði- og ráðgjafastofu ehf. (Líf og sál) á beiðni kvartanda um afhendingu á skýrslu sem unnin var vegna tilkynningar hans um einelti og hins vegar yfir umfjöllun um málið í fundargerðum, fréttabréfum og í fjölmiðlum fyrir tilstuðlan [Y] og [X].

Með bréfi, dags. 8. maí 2019, var [Y] tilkynnt um framangreinda kvörtun og veitt kostur á að tjá sig um hana. Svarbréf [Y] barst Persónuvernd 15. maí s.á. Með bréfi, dags. 23. júlí 2019, var kvartanda boðið að tjá sig um framangreint svar [Y]. Svarbréf kvartanda barst Persónuvernd 7. ágúst s.á. Með bréfi, dags. 4. júní 2020, tilkynnti Persónuvernd [X] og Lífi og sál um kvörtunina og veitti þeim kost á að tjá sig um hana. Svarbréf [X] barst Persónuvernd 28. ágúst s.á. og svarbréf Lífs og sálar barst Persónuvernd 10. nóvember 2020. Hinn 8. desember 2020 fóru starfsmenn Persónuverndar í vettvangsathugun hjá [Y] og skoðuðu fyrrnefnda skýrslu.

Við úrlausn málsins hefur verið tekið tillit til allra framangreindra gagna, þó ekki sé gerð sérstaklega grein fyrir þeim öllum í eftirfarandi úrskurði.

Meðferð málsins hefur dregist vegna mikilla anna hjá Persónuvernd.

2.

Sjónarmið kvartanda

Kvartandi kveðst hafa tilkynnt [X] um einelti á vinnustað í sinn garð af hálfu þáverandi formanns [Y] í [dags.]. Á stjórnarfundi [X] hafi málinu verið vísað frá og til afgreiðslu stjórnar [Y]. Lögfræðingi [X] hafi verið falin umsýsla málsins og haustið [ártal] hafi verið gerð rannsókn og skýrsla um málið af hálfu Lífs og sálar. Niðurstaða eineltisskýrslunnar hafi verið að ekki hefði verið um einelti að ræða.

Allt frá því að kvartanda hafi verið tilkynnt um tilvist eineltisskýrslunnar hafi hann reynt að fá afrit af henni, en án árangurs. Kvartandi segir fulltrúa [X], [Y] og Lífs og sálar ítrekað hafa reynt að benda á hver annan vegna beiðni um afhendingu. Lögfræðingur [X] hafi sagt að hún hefði ekki aðgang að skýrslunni og gæti ekki tekið ákvörðun um afhendingu hennar og Líf og sál hafi sagst ekki geta afhent kvartanda skjalið á grundvelli vinnureglna og með vísan til þess að málið væri á forræði [Y]. [Y] hafi síðan sagst ekki myndu afhenda skýrsluna þar sem til stæði að hún lægi óhreyfð og óbirt í læstum skáp og með vísan til þess að viðmælendum hefði verið heitið því að skýrslan yrði ekki birt nema að undangengnum dómsúrskurði.

Kvartandi mótmælir framangreindri afstöðu og krefst þess að Persónuvernd úrskurði að [X], [Y] og/eða Líf og sál hafi ekki verið heimilt að synja honum um afhendingu skýrslunnar og leggi fyrir framangreinda aðila að afhenda honum eintak af eineltisskýrslunni. Telji Persónuvernd ekki unnt að afhenda skýrsluna í heild sinni, með vísan til hagsmuna annarra, er þess óskað til vara að hún verði afhent eftir að atriði er varða friðhelgi þriðju aðila hafi verið afmáð. Telur kvartandi nauðsynlegt að hann fái að gæta andmælaréttar síns í tengslum við skýrsluna og vísar um þá kröfu til 1. mgr. 21. gr. laga nr. 90/2018.

Auk framangreinds er kvartað yfir umfjöllun um málið af hálfu [Y] og [X]. Telur kvartandi ámælisvert að stjórnarfundur [Y] hafi ákveðið að fjalla um eineltismálið í fundargerð og síðan í fréttabréfi félagsins, […], sem birt hafi verið á vefsíðu þess í [dags.]. Þá er kvartað yfir umfjöllun [Y] um umsókn kvartanda um endurgreiðslu vegna sálfræðikostnaðar í tengslum við málið í fundargerð í [dags.] og birtingu þeirrar fundargerðar á vefsíðu félagsins. Að lokum telur kvartandi ámælisvert að tveir stjórnarmenn [Y] og einn stjórnarmaður [X] hafi fjallað um málið í [fjölmiðli] og tvisvar svarað spurningum blaðamanns um það. Þrátt fyrir að hann hafi hvergi verið nafngreindur í framangreindri umfjöllun hafi hann orðið þess áskynja að [starfsstétt], sem séu fjölmennur hópur, hafi vitað að fréttirnar fjölluðu um mál hans. Fer kvartandi meðal annars fram á að lagt verði fyrir [Y] að eyða persónuupplýsingum um hann sem birtar hafi veri í fundargerðum og fréttabréfi félagsins.

3.

Sjónarmið [Y]

Af hálfu [Y] er greint frá því að kvörtun vegna meints eineltis þáverandi formanns hafi verið vísað til stjórnar [Y] með hliðsjón af afgreiðsluhefðum stjórnar [X]. Þáverandi varaformaður [Y] og lögfræðingur [X] hafi haldið utan um málið í framhaldinu og valið Líf og sál til verksins. Líf og sál hafi kallað ýmsa aðila til viðtals vegna málsins, þar á meðal þáverandi formann [Y], kvartanda sjálfan og fleiri, til að varpa ljósi á málavöxtu. Niðurstaða skýrslu Lífs og sálar hafi verið að ekki hafi verið um einelti að ræða.

Kvartandi hafi í kjölfarið upplýst um málið í rauntíma á Facebook-síðum og -hópum [starfsstéttar] sem séu opin öllum [starfsmönnum viðkomandi starfsstéttar] og öðrum. Umræddar síður, þ.e. […], telji samtals þúsundir meðlima og því sé um opinn vettvang að ræða. Kvartandi hafi þar jafnframt upplýst um að hann hafi leitað til [Z], vegna málsins. Með svarbréfi [Y] fylgdu skjáskot af athugasemdum kvartanda og annarra frá því í [dags.] við tengil sem einstaklingur deildi á Facebook á pistil þáverandi formanns [Y] á [fjölmiðli] um ótengt mál. Undir tenglinum er að finna fjölmargar athugasemdir kvartanda um eineltismálið og gagnrýni hans þar um. Jafnframt upplýsir kvartandi þar um að það hafi verið hann sem hafi kvartað undan einelti þáverandi formanns [Y]. Auk þess er þar að finna fleiri athugasemdir kvartanda, meðal annars um að Líf og sál hafi verið fengin til verksins þrátt fyrir skyldleika starfsmanns þar við þáverandi formann [Y].

[Y] bendir næst á að skýrslan hafi ekki verið birt neinum nema þeim sem um hana báðu, þ.e. fyrrverandi varaformanni [Y] og lögfræðingi [X]. Hins vegar hafi þáverandi formaður [Y], líkt og kvartandi sjálfur, fengið kynningu á niðurstöðunum á fundi án þess að hafa fengið skýrsluna til aflestrar. Hvað kröfu um afhendingu skýrslunnar varðar er vísað til þess að fleiri einstaklingar séu nafngreindir í henni þar sem þeir beri vitni um samskipti kvartanda við fyrrverandi formann [Y] og félagið almennt. Í svari [Y] kemur jafnframt fram að það væri fyrrverandi formanni félagsins persónulega að meinalausu að kvartandi fengi afrit af skýrslunni og að hún yrði gerð opinber en að huga þurfi að réttindum annarra einstaklinga sem fjallað sé um í henni.

Varðandi umfjöllun um málið í fjölmiðlum er vísað til þess að upphaflega fréttin hafi verið runnin undan rifjum kvartanda sjálfs. Í þeirri umfjöllun hafi komið fram mjög hlutdræg og einhliða lýsing á málavöxtum og ítrekað verið farið með rangt mál. Kvartandi hafi jafnframt nær daglega ritað pistla um málið á áðurnefndar Facebook-síður áður en hann lagði fram kvörtun yfir einelti, eins og áður sagði. Því hafi allir vitað um hvern hafi verið að ræða.

Varðandi umræddar upplýsingar í fundargerðum sem birtar voru á Netinu er vísað til þess að samkvæmt reglum sé afgreiðsla mála skráð í fundargerðir stjórnarfunda. Viðkomandi aðilar séu almennt ekki nafngreindir og alls ekki ef um viðkvæm málefni sé að ræða. Fréttabréf [Y], […], sé sent hálfsmánaðarlega til félagsmanna og þar sé meðal annars farið yfir afgreiðslur stjórnar [Y]. Þar hafi meðal annars verið sagt frá því að þáverandi formaður [Y] hefði ekki gerst sekur um einelti í málinu. Það hafi verið gert nafnlaust og eðlilegt sé að félagsmenn séu upplýstir um slíkar málalyktir, enda hafi kvartandi sjálfur farið mikinn á samskiptamiðlum [starfsstéttar] með eineltisásakanir sínar, sbr. framangreint.

Kvartandi hafi sótt um styrk til sjúkrasjóðs [X] vegna þjónustu [Z] en fengið synjun þar sem umsókn hans hafi ekki fallið að reglum sjóðsins. Þá hafi hann vísað erindinu til stjórnar [Y] og óskað eftir því að félagið greiddi umrædda þjónustu vegna eineltis af hálfu þáverandi formanns [Y]. Stjórn hafi afgreitt málið með synjun enda hafi þá legið fyrir að ekki hefði verið um einelti að ræða og hafi niðurstaðan verið skráð nafnlaust samkvæmt venju í fundargerð. Kvartandi hafi hins vegar sjálfur ítrekað farið yfir þetta mál og önnur, erindi sín til stjórnar og málaleitan sína til [Z], í Facebook-hópum eins og áður kom fram.

Kveðst [Y], ásamt [X], hafa reynt að vanda sig í samskiptum við kvartanda. Reynt hafi verið að svara hundruðum erinda frá honum en félagið hafi líka reynt að bera af sér sakir þegar umræður og ásakanir hafi farið úr böndunum á spjallsíðum [starfsstéttarinnar]. Þar hafi starfsmenn [Y] og [X] verið sakaðir um spillingu, þjófnað, einelti og fleira sem erfitt hafi verið að sitja undir án þess að bera hönd fyrir höfuð sér. Starfsfólk [X] hafi mátt þola það að vera þjófkennt og uppnefnt opinberlega. Það hljóti því að teljast eðlilegt að forystufólk félagsins beri blak af fólki sem ekkert hafi til sakar unnið.

4.

Sjónarmið [X]

Í svari [X] kemur fram að [X] og [Y] hafi aldrei verið vinnustaðir kvartanda en vegna kvörtunar hans yfir einelti hafi stjórn [Y] tekið þá ákvörðun að fá utanaðkomandi aðila til að rannsaka hvort einelti hefði átt sér stað. Rannsókn málsins hafi verið á forræði [Y] en lögmaður [X] hafi verið tengiliður milli aðila á meðan hún fór fram.

[X] kveðst ekki hafa aðgang að skýrslunni og geti þar af leiðandi ekki afhent hana. Kvartanda hafi boðist að fá afrit af sínum vitnisburði og niðurstöðukafla skýrslunnar. Hann hafi hins vegar sent bróður sinn, í umboði sínu, til að lesa yfir skýrsluna. Lögmaður [X] hafi lesið yfir skýrsluna og tekið á móti bróður kvartanda þegar hann kom og las yfir hana [dags.] eða [dags.]. Það hafi verið gert með samþykki og vilja þáverandi varaformanns [Y] sem hafi farið með málið fyrir hönd [Y] á þeim tíma. Skýrslan hafi síðan verið afhent [Y] til varðveislu og þar hafi hún verið læst inni í skáp sem aðeins einn starfsmaður [Y] hafi aðgang að.

[X] telur að ekki eigi að afhenda kvartanda skýrsluna, með vísan til 4. mgr. 15. gr. reglugerðar (ESB) 2016/679 þar sem segir að réttur hins skráða til að fá afrit skuli ekki skerða réttindi og frelsi annarra. [X] og [Y] falli hvorki undir stjórnsýslu- né upplýsingalög. Þeim sé því ekki skylt að afhenda skýrsluna að hluta til né í heild á grundvelli þeirra laga. [X] sé bundið þagnarskyldu og upplýsingar um félagsmenn sambandsins teljist til viðkvæmra persónuupplýsinga, þ.e. upplýsingar um félagsmenn stéttarfélags. Rökstuðningur í úrskurði Persónuverndar í máli nr. 2017/81, þar sem ábyrgðaraðila var gert skylt að afhenda kvartanda í málinu eineltisskýrslu, eigi ekki við í þessu máli því þar hafi verið um að ræða skyldu til afhendingar gagna á grundvelli upplýsingalaga.

[X] vísar til þess að fái kvartandi afrit af skýrslunni skapist sú hætta að frásagnir vitna verði birtar. Þar sem hvorki [Y] né [X] hafi verið skylt að rannsaka meint einelti, og skýrslan hafi ekki verið gagn í máli þar sem til skoðunar hafi verið að taka íþyngjandi ákvörðun, t.d. varðandi uppsögn, megi ætla að hagsmunir vitna, meints geranda og [Y] af því að skýrslan verði ekki afhent kvartanda vegi þyngra en hagsmunir kvartanda af því að fá hana afhenta. Vísar [X] í því sambandi til athugasemdar kvartanda á Facebook um að skýrsluna þurfi að birta opinberlega, en skjáskot af athugasemdinni fylgdi með bréfi [X]. Þá er vísað til þess að vitni hafi sérstaklega óskað eftir að skýrslan yrði ekki birt af ótta við að ummæli yrðu tekin úr samhengi og birt á opinberum vettvangi.

Varðandi þann hluta kvörtunarinnar sem lýtur að umfjöllun um málið opinberlega, meðal annars af hálfu [X], er vísað til þess að kvartandi hafi sjálfur ítrekað birt upplýsingar um sig, [X], [Y], kjörna fulltrúa og starfsmenn [X] og [Y] á opinberum vettvangi, t.d. á Facebook. Því til stuðnings er vísað í önnur fylgigögn með bréfinu sem sýna skjáskot af athugasemdum kvartanda á Facebook um málið frá [dags.] til [dags.]. Ljóst er að hluti þeirra athugasemda var ritaður í Facebook-hópnum […]. Skjáskot af lýsingu þess hóps á Facebook fylgdi með bréfi [X] og er hann þar skilgreindur sem vettvangur frjálsra skoðanaskipta allra meðlima um kjaramál [starfsstéttarinnar] og hafði árið 2020 […] meðlimi. Skrifaði kvartandi þar meðal annars að hann væri að útbúa kæru vegna eineltis í hans garð og að kæran væri á hendur [þáverandi] formanni [Y]. Skrifaði hann jafnframt þar á eftir að hann ,,[fengi] tíma hjá [Z, þjónustuaðila] í boði [X]“. Vísar [X] til þess að [Z] sé [… ] og megi ætla að kostnaður vegna þeirra tíma sé sá sálfræðikostnaður sem fjallað hafi verið um í fundargerð [Y] í [dags.] sem kvartað sé yfir. Kvartandi hafi því sjálfur verið búinn að birta upplýsingar um tíma sína hjá [Z] áður en Líf og sál rannsakaði málið, áður en skýrslan var unnin og áður en tilvitnaðir fundir [Y] fóru fram. Vísað er í fleiri dæmi þar sem kvartandi tjáði sig um málið og fylgigögn þar um sem sýna skjáskot af ummælum kvartanda á Facebook en ekki þykir tilefni til að rekja þau nánar hér.

Fram kemur að [X] hafi ekki, fyrr en nú, birt eða veitt utanaðkomandi aðilum, öðrum en bróður kvartanda, neinar upplýsingar er málið varði, aðrar en þær sem vitnað sé til í fylgiskjali með kvörtuninni og lúta að tilvitnun í þáverandi formann [X] í grein sem birtist í [fjölmiðli]. Þar sé ekki að finna neinar aðrar upplýsingar um kvartanda eða málið en þær sem kvartandi hafi sjálfur gert opinberar. Þá hafi ekki verið veittar upplýsingar um hvaða félagsmann hafi verið um að ræða. [X] hafi ekki átt neitt frumkvæði að opinberri umfjöllun um málið né frumkvæði að umfjöllun [fjölmiðils] um það.

5.

Sjónarmið Lífs og sálar

Líf og sál kveðst hafa tekið að sér eineltisathugun að beiðni [Y] og hafi verkefni stofunnar verið skýrt afmarkað samkvæmt nákvæmri verkbeiðni. Það sé tilgreint í yfirlýsingu vegna eineltisathugunarinnar, sem hafi verið undirrituð af kvartanda [dags], sem athugun á kvörtun um einelti sem fram hafi komið í félaginu. Þar hafi einnig verið tekið fram að þegar athugun og skýrslugerð yrði lokið myndi starfsfólk Lífs og sálar ekki ræða skýrsluna eða einstaka þætti hennar við aðra en verkbeiðanda. Þegar af þeirri ástæðu sé Lífi og sál ekki heimilt að afhenda viðkomandi skýrslu til annars en verkbeiðanda, [Y]. Í samræmi við yfirlýsinguna sem hafi verið undirrituð í upphafi hafi Líf og sál verið með stöðu vinnsluaðila, eins og hugtakið sé skilgreint í 7. tölul. 3. gr. laga nr. 90/2018, í verkefni sem hafi verið unnið á ábyrgð verkkaupa með upplýstu samþykki hlutaðeigandi, þ. á m. kvartanda.

Hlutverk Lífs og sálar hafi verið að afla hlutlægra upplýsinga um málavöxtu, að meta á grundvelli þeirra upplýsinga hvort málavextir uppfylltu viðmið um einelti og skrifa skýrslu sem yrði afhent verkbeiðanda þar sem greint væri frá niðurstöðum. Því hafi Líf og sál sem fyrr segir ekki heimild til að afhenda öðrum skýrsluna, þá ekki heldur kvartanda, og er því mótmælt að slík krafa geti verið byggð á 17. gr. laga nr. 90/2018, enda lúti sú grein að skyldum ábyrgðaraðila gagnvart einstaklingi og Líf og sál hafi ekki verið með stöðu ábyrgðaraðila. Auk þess hafi lög nr. 90/2018 ekki verið í gildi þegar viðkomandi athugun var unnin, þar sem þau hafi fyrst komið til framkvæmda 25. maí 2018, meira en ári eftir að skýrslunni var lokið. Líf og sál hafi komið að könnuninni sem vinnsluaðili með víðtæka reynslu og þekkingu á þessu sviði, að beiðni verkkaupa sem hafi borið ábyrgð á könnuninni og farið með ákvörðunarvald um hvort og þá hvaða ákvarðanir yrðu teknar á grundvelli niðurstöðu hennar. Þá hafi athugunin óhjákvæmilega og eðli málsins samkvæmt að geyma persónuupplýsingar um fleiri aðila en kvartanda sjálfan.

Ekki liggur fyrir í málinu að vinnslusamningur hafi verið gerður á milli Lífs og sálar og verkkaupa, en Persónuvernd óskaði eftir því undir rekstri málsins að fá sent afrit af slíkum samningi, hefði hann verið gerður. Engin slík gögn voru afhent Persónuvernd.

6.

Vettvangsathugun Persónuverndar

Hinn 8. desember 2020 fóru starfsmenn Persónuverndar á starfsstöð [Y] í […] til þess að fara yfir efni eineltisskýrslunnar. Var skýrslan stíluð á lögfræðing [X] og þar stóð jafnframt að hún yrði afhent henni og þáverandi varaformanni [Y]. Samkvæmt skýrslunni voru fjórir aðilar, auk kvartanda og þáverandi formanns [Y], til viðtals vegna hins meinta eineltis, en tveir voru tilnefndir af kvartanda og tveir af þáverandi formanni [Y] sem kvartað var yfir. Í upphafi skýrslunnar var að finna nöfn allra viðmælenda. Síðar var farið yfir frásagnir þeirra, án nafngreiningar, og þær notaðar til að leggja mat á það hvort um einelti hefði verið að ræða samkvæmt skilgreiningu þess hugtaks í reglugerð nr. 1009/2015, um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum. Í lokin var tekinn saman niðurstöðukafli þar sem jafnframt mátti finna tilvísanir í frásagnir viðmælenda, aftur án nafngreiningar.

II.

Forsendur og niðurstaða

1.

Lagaskil

Mál þetta varðar kvörtun sem barst Persónuvernd 11. september 2018 og lýtur bæði að atvikum sem gerðust fyrir gildistöku núgildandi laga nr. 90/2018, um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, 15. júlí 2018, sem og ástandi sem enn er fyrir hendi.

Umfjöllun um málið í fundargerðum [Y] sem birtar voru á Netinu og umfjöllun um það í fréttabréfum og fjölmiðlum af hálfu [Y] og [X] fór fram fyrir gildistöku núgilandi persónuverndarlaga, þ.e. þegar lög nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, voru í gildi. Umrætt efni sem birt var á Netinu af hálfu [Y] var hins vegar enn aðgengilegt þegar kvörtun í þessu máli barst, þótt það hafi nú verið fjarlægt. Umrædd eineltisskýrsla var útbúin [dags.] en beiðni kvartanda um aðgang að henni var fyrst lögð fram með tölvupósti 7. ágúst 2018, eða eftir gildistöku laga nr. 90/2018.

Um birtingu persónuupplýsinga um kvartanda í fundargerðum og fréttabréfum fer samkvæmt framansögðu eftir lögum nr. 77/2000. Sem fyrr segir voru umrædd gögn enn aðgengileg eftir gildistöku laga nr. 90/2018 en þau ákvæði þeirra laga sem reynir á hvað varðar birtinguna sem slíka eru þó í meginatriðum sambærileg samsvarandi ákvæðum laga nr. 77/2000. Um umfjöllun um málið af hálfu [Y] og [X] í fjölmiðlum fer samkvæmt lögum nr. 77/2000. Þá fer um aðgangsbeiðni kvartanda, sem lögð var fram í gildistíð laga nr. 90/2018, eftir þeim lögum.

2.

Gildissvið - ábyrgðaraðili

Gildissvið laga nr. 90/2018, um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, og reglugerðar (ESB) 2016/679, sbr. 1. mgr. 4. gr. laganna, og þar með valdsvið Persónuverndar, sbr. 1. mgr. 39. gr. laganna, nær til vinnslu persónuupplýsinga sem er sjálfvirk að hluta eða í heild og vinnslu með öðrum aðferðum en sjálfvirkum á persónuupplýsingum sem eru eða eiga að verða hluti af skrá. Með vinnslu er átt við aðgerð eða röð aðgerða þar sem persónuupplýsingar eru unnar, hvort heldur sem vinnslan er sjálfvirk eða ekki, sbr. 4. tölul. 3. gr. laganna og 2. tölul. 4. gr. reglugerðarinnar. Sambærileg ákvæði um gildissvið laga nr. 77/2000 og hugtakið vinnslu voru í 1. mgr. 3. gr. og 2. tölul. 2. gr. þeirra laga.

Til persónuupplýsinga teljast upplýsingar um persónugreindan eða persónugreinanlegan einstakling og telst einstaklingur persónugreinanlegur ef unnt er að persónugreina hann, beint eða óbeint, með tilvísun í auðkenni hans eða einn eða fleiri þætti sem einkennandi eru fyrir hann, sbr. 2. tölul. 3. gr. laganna og 1. tölul. 4. gr. reglugerðarinnar. Með viðkvæmum persónuupplýsingum er meðal annars átt við heilsufarsupplýsingar, sbr. b-lið 3. tölul. 3. gr. laganna. Sambærilegar skilgreiningar voru í 1. og 8. tölul. 2. gr. laga nr. 77/2000.

Með vísan til framangreinds þarf að skera úr um hvort umfjöllun um málið í fundargerðum, fréttabréfum og fjölmiðlum af hálfu [Y] og [X] hafi falið í sér vinnslu persónuupplýsinga um kvartanda, en eins og fram hefur komið var hann ekki nafngreindur af hálfu félaganna í umfjölluninni.

Í athugasemdum við 2. tölul. 3. gr. laga nr. 90/2018 í frumvarpi til laganna er vísað til þess að hugtakið persónuupplýsingar sé víðfeðmt og taki til allra upplýsinga, álita og umsagna sem beint eða óbeint megi tengja tilteknum einstaklingi, þ.e. upplýsinga sem séu persónugreindar eða persónugreinanlegar. Kjarni persónuupplýsingahugtaksins lúti að því að upplýsingar megi rekja til einstaklings, beint eða óbeint. Í 26. lið formálsorða reglugerðar (ESB) 2016/679 kemur meðal annars fram að til þess að ákvarða hvort einstaklingur er persónugreinanlegur ætti að taka mið af öllum þeim aðferðum sem ástæða er til að ætla að annaðhvort ábyrgðaraðili eða annar aðili geti beitt til að bera kennsl á viðkomandi einstakling með beinum eða óbeinum hætti. Að mati Persónuverndar geta upplýsingar því talist til persónuupplýsinga samkvæmt lögunum ef þeir sem þekkja til hlutaðeigandi geta borið kennsl á hann á grundvelli upplýsinganna, þótt það sé eftir atvikum ekki á allra færi. Að mati Persónuverndar eiga þessi sjónarmið jafnt við um túlkun samsvarandi ákvæða í lögum nr. 77/2000.

Samkvæmt gögnum málsins er ljóst að kvartandi fjallaði sjálfur mikið um málið, t.d. á Facebook. Þessi umfjöllun kvartanda átti sér meðal annars stað fyrir birtingu upplýsinganna á Netinu af hálfu [Y], þ.e. í [dags.] og [dags.], sbr. það sem fram kom í kafla I.4. að framan. Eins og áður hefur komið fram voru upplýsingar um eineltismálið fyrst birtar á Netinu af hálfu [Y] í [dags.], þ.e. í fundargerð og svo í fréttabréfi [Y]. Upplýsingar um umsókn kvartanda um endurgreiðslu vegna sálfræðikostnaðar voru birtar í fundargerð sem birt var á Netinu á vefsíðu félagsins árið [dags.]. Framangreindum upplýsingum hefur nú verið eytt af vefsíðu [Y], en þær voru þó enn aðgengilegar þegar kvörtun í þessu máli barst, eins og áður hefur komið fram. Þá átti fjölmiðlaumfjöllun um málið sér stað í [dags.].

Með hliðsjón af framansögðu verður að telja að þær upplýsingar sem miðlað var af hálfu [Y] og [X] í fundargerðum, fréttabréfum og í fjölmiðlum hafi verið þess eðlis að ákveðinn hópur fólks gat persónugreint kvartanda. Það er því mat Persónuverndar að um hafi verið að ræða vinnslu persónuupplýsinga um kvartanda.

3.

Frávísun hluta kvörtunar – Afmörkun máls

Varðandi þann þátt kvörtunarinnar er lýtur að umfjöllun um eineltismálið af hálfu [Y] og [X] í fjölmiðlum er til þess að líta að í 5. gr. laga nr. 77/2000 var kveðið á um tengsl laganna við tjáningarfrelsi. Í 1. málslið ákvæðisins sagði að að því marki sem það væri nauðsynlegt til að samræma sjónarmið um rétt til einkalífs annars vegar og tjáningarfrelsis hins vegar mætti víkja frá ákvæðum laganna í þágu fjölmiðlunar, lista eða bókmennta. Þá sagði í 2. málslið ákvæðisins að þegar persónuupplýsingar væru einvörðungu unnar í þágu fréttamennsku eða bókmenntalegrar eða listrænnar starfsemi giltu aðeins ákvæði 4. gr., 1. og 4. tölul. 7. gr., 11.-13. gr. og 24., 28., 42. og 43. gr. laganna.

Hinn 5. október 2020 gaf Persónuvernd út álit um persónuvernd og tjáningarfrelsi fjölmiðla þar sem meðal annars var fjallað um valdsvið stofnunarinnar með hliðsjón af 6. gr. laga nr. 90/2018, en það ákvæði er samhljóða áðurnefndri 5. gr. laga nr. 7/2000. Í álitinu kemur fram að þegar reynt hefur á mörk réttarins til einkalífs og tjáningarfrelsis hafi Persónuvernd ekki talið sig bæra til að úrskurða um þau mörk heldur talið það falla undir valdsvið dómstóla. Mat á því hvort nauðsynlegt sé að víkja frá lögum nr. 90/2018 og reglugerðinni í þágu fjölmiðlunar, lista og bókmennta sbr. 1. mgr. 6. gr. laganna komi einnig í hlut dómstóla. Í álitinu segir jafnframt að af 2. mgr. 6. gr. laga nr. 90/2018 (sbr. 2. málsl. 5. gr. laga nr. 77/2000) leiði að stofnunin hafi ekki heimild til að kveða upp úrskurði í málum þar sem kvartað er yfir vinnslu persónuupplýsinga sem fram fer einvörðungu í þágu fréttamennsku. Tilteknar skyldur hvíli á ábyrgðaraðilum slíkrar vinnslu á grundvelli þeirra ákvæða sem um hana gildi en valdsvið Persónuverndar nái ekki til þess að beina fyrirmælum til ábyrgðaraðila vegna þeirra. Það heyri undir dómstóla að skera úr um hvort birting persónuupplýsinga hafi brotið gegn einkalífsréttindum einstaklinga sem og að leggja mat á hvort vinnsla persónuupplýsinga teljist einvörðungu í þágu fréttamennsku. Eigi þetta einkum við þegar um er að ræða umfjöllun fjölmiðla sem hafa það að hlutverki að koma upplýsingum á framfæri við almenning. Þá hefur Persónuvernd heldur ekki talið sig hafa heimild til þess að úrskurða um hvort einstaklingur hafi farið út fyrir mörk tjáningarfrelsis síns og hefur stofnunin því vísað kvörtunum er varða tjáningu einstaklinga frá, þar sem slíkt mat heyri jafnframt undir dómstóla.

Ljóst er að umrædd tjáning fyrrgreindra aðila fór fram á vettvangi [fjölmiðils], sem hefur meðal annars það hlutverk að koma fréttum, fréttatengdu efni og upplýsingum á framfæri við almenning. Af framangreindu, sbr. fyrrgreint álit stofnunarinnar, leiðir að Persónuvernd hefur ekki heimild til að kveða upp bindandi úrskurð um hvort farið hafi verið að þeim ákvæðum laganna og reglugerðarinnar sem um slíka vinnslu gilda, heldur heyrir það mat undir dómstóla.

Með vísan til framangreinds er þeim hluta kvörtunarinnar sem snýr að umfjöllun um eineltismálið í fjölmiðlum vísað frá.

Hvað birtingu persónugreinanlegra upplýsinga í fréttabréfi [Y] varðar er þess að geta að í áðurnefndu áliti Persónuverndar er á það bent að í 1. mgr. 6. gr. laga nr. 90/2018 sé vísað til fjölmiðlunar án þess að hugtakið sé skilgreint í lögunum. Sé litið til laga nr. 38/2011, um fjölmiðla, sé fjölmiðill þar skilgreindur sem hvers konar miðill sem með reglubundnum hætti miðlar til almennings efni er lýtur ritstjórn. Tekið sé fram að til fjölmiðla teljist meðal annars dagblöð og tímarit, ásamt fylgiritum þeirra, netmiðlar, hljóð- og myndmiðlar og aðrir sambærilegir miðlar. Við skýringu 1. mgr. 6. gr. laga nr. 90/2018 að þessu leyti hafi einkum þýðingu hvort hlutaðeigandi aðili geti fallið undir skilgreiningu laga nr. 38/2011 með tilliti til þeirrar miðlunar sem hann sinnir en ekki einungis til forms miðlunarinnar. Persónuvernd telur sömu sjónarmið eiga við um skýringu 5. gr. laga nr. 77/2000.

Það er því mat Persónuverndar að miðlun [Y] á upplýsingum um starfsemi félagsins til skráðra félagsmanna þess í fréttabréfi falli utan áðurnefndrar skilgreiningar. Verður úrlausn um lögmæti umræddrar birtingar því talin falla undir valdsvið Persónuverndar.

Þá fellur það jafnframt undir valdsvið Persónuverndar að fjalla um hvort heimilt hafi verið að birta persónuupplýsingar kvartanda í fundargerðum á Netinu, og hvort afgreiðsla á beiðni kvartanda um aðgang að umræddri eineltisskýrslu samrýmdist lögum nr. 90/2018.

4.

Ábyrgðaraðilar

Sá sem ber ábyrgð á að vinnsla persónuupplýsinga samrýmist lögum nr. 90/2018 er nefndur ábyrgðaraðili. Samkvæmt 6. tölul. 3. gr. laganna er þar átt við einstakling, lögaðila, stjórnvald eða annan aðila sem ákveður einn eða í samvinnu við aðra tilgang og aðferðir við vinnslu persónuupplýsinga, sbr. 7. tölul. 4. gr. reglugerðarinnar. Samsvarandi ákvæði var í 4. tölul. 2. gr. laga nr. 77/2000.

Persónuvernd telur óumdeilt að [Y] teljist vera ábyrgðaraðili að þeirri vinnslu sem hafi falist í birtingu persónuupplýsinga kvartanda í fundargerðum og fréttabréfum.

Í málinu reynir jafnframt á hvort [Y], [X] og/eða Líf og sál teljist hafa verið ábyrgðaraðilar að vinnslu persónuupplýsinga í tengslum við eineltisskýrsluna. Skýrslan var útbúin í gildistíð laga nr. 77/2000. Ákvæði 26. gr. reglugerðar (ESB) 2016/679, sbr. 23. gr. laga nr. 90/2018, þar sem fjallað er um sameiginlega ábyrgðaraðila, kemur því ekki til skoðunar varðandi félögin tvö, þ.e. [Y] og [X].

Gögn málsins bera með sér að [Y] og [X] hafi sameiginlega haldið utan um málið frá upphafi til enda. Kvörtun kvartanda yfir einelti var upphaflega send inn til stjórnar [X] en henni vísað þaðan til stjórnar [Y], sem tók ákvörðun um að hefja athugun á henni. Lögfræðingur [X] var skráður sem tengiliður við vinnslu málsins og skýrslan var birt bæði fyrir [Y] og [X]. Auk framangreinds var í bréfi því sem sent var til kvartanda með tilkynningu um lok málsins vísað til þess að lögfræðingur [X] væri með umboð stjórnar [X] til að fylgjast með málsmeðferð og að málið yrði rannsakað með fullnægjandi hætti. Segir í kjölfarið að [lögfræðingur [X]] telji málið fullrannsakað. Með vísan til framangreinds telur Persónuvernd að bæði félögin teljist hafa verið ábyrgðaraðilar.

Varðandi þátt Lífs og sálar er til þess að líta að stofan hefur haldið því fram, í samræmi við yfirlýsingu sem kvartandi undirritaði í upphafi og fylgdi með kvörtuninni, að hún hafi verið vinnsluaðili í skilningi 7. tölul. 3. gr. laga nr. 90/2018. Hins vegar telur Persónuvernd verða að líta svo á að Líf og sál hafi unnið fyrir [Y] og [X] sem sjálfstætt starfandi sérfræðiaðili. Þegar slíkur sérfræðiaðili tekur að sér verk getur sérþekking hans og sjálfstæð staða haft þau áhrif að hann teljist ábyrgðaraðili þeirrar vinnslu persónuupplýsinga sem hann viðhefur við framkvæmd verksins, sbr. m.a. úrskurði Persónuverndar í málum nr. 2016/290 og 2018/1183. Hlutverk Lífs og sálar var að afla upplýsinga um málavöxtu, að meta á grundvelli þeirra upplýsinga hvort málavextir uppfylltu viðmið um einelti og skrifa skýrslu sem afhent væri verkbeiðendum. Gera verður ráð fyrir að umrætt mat hafi grundvallast á sérfræðiþekkingu starfsmanna Lífs og sálar. Því er vandséð hvernig slíkt hefði verið unnt ef skýrslan hefði verið unnin undir nákvæmri handleiðslu [Y] og [X]. Telur Persónuvernd Líf og sál hafa farið með ákvörðunarvald um það hvernig staðið var að umræddri vinnslu persónuupplýsinga við gerð skýrslunnar og því hafi sálfræðistofan haft stöðu ábyrgðaraðila hvað samningu skýrslunnar varðar.

Með vísan til framangreinds telur Persónuvernd alla framangreinda aðila, þ.e. [Y], [X] og Líf og sál, hafa haft stöðu ábyrgðaraðila að gerð skýrslunnar.

Samkvæmt því bar [Y], [X] og Líf og sál að gæta að lögum nr. 90/2018 við vinnslu persónuupplýsinga um kvartanda, þ. á m. upplýsinga- og aðgangsrétti hans samkvæmt 17. gr. laganna, sbr. 15. gr. reglugerðar (ESB). Kvartandi gat því leitað til allra framangreindra aðila, þ.e. [Y], [X] og Lífs og sálar, með beiðni um afhendingu skýrslunnar.

5.

Lögmæti vinnslu

5.1.

Birting upplýsinga um eineltismálið

Öll vinnsla persónuupplýsinga varð að falla undir einhverja þeirra vinnsluheimilda sem tilgreindar voru í 8. gr. laga nr. 77/2000. Þá varð vinnsla viðkvæmra persónuupplýsinga, svo sem um heilsufar, að samrýmast einhverjum þeirra sérstöku skilyrða fyrir vinnslu slíkra upplýsinga sem talin voru upp í 9. gr. laganna. Sambærileg ákvæði eru nú í 9. og 11. gr. laga nr. 90/2018.

Persónuvernd telur birtingu [Y] á upplýsingum um eineltismál kvartanda í fréttabréfi og fundargerð á vefsíðu félagsins hafa getað stuðst við heimild samkvæmt 7. tölul. 8. gr. laganna, sem heimilaði vinnslu persónuupplýsinga væri hún nauðsynleg til að ábyrgðaraðili, eða þriðji maður eða aðilar sem upplýsingunum var miðlað til, gætu gætt lögmætra hagsmuna nema grundvallarréttindi og frelsi hins skráða sem vernda bæri samkvæmt lögum vægi þyngra. Verður að telja [Y] hafa haft lögmæta hagsmuni af því að upplýsa félagsmenn sína um hvort þáverandi formaður félagsins hafi lagt félagsmann í einelti eða ekki, hver kostnaðurinn hafi verið við þá vinnu sem fólst í að leggja mat á það og um gagnrýni kvartanda á skýrsluna vegna skyldleika formanns [Y] og tiltekins starfsmanns Lífs og sálar. Þá má jafnframt telja að [Y] hafi haft lögmæta hagsmuni af því að bregðast við umfjöllun kvartanda um eineltismálið á opinberum vettvangi. Verður þó að leggja áherslu á að slík umfjöllun fari ekki út fyrir meðalhófskröfur, sbr. 3. tölul. 1. mgr. 7. gr. laga nr. 77/2000.

Í 1. tölul. 1. mgr. 7. gr. laga nr. 77/2000 sagði að við meðferð persónuupplýsinga skyldi gætt að því að þær væru unnar með sanngjörnum, málefnalegum og lögmætum hætti og að öll meðferð þeirra væri í samræmi við vandaða vinnsluhætti persónuupplýsinga, en í kröfunni um sanngirni fólst meðal annars að vinnslan átti að vera sem gagnsæjust gagnvart hinum skráða. Þá kom fram í 1. mgr. 20. gr. laganna að þegar ábyrgðaraðili aflaði persónuupplýsinga hjá hinum skráða sjálfum skyldi hann veita hinum skráða upplýsingar um vinnsluna, að því marki sem þær væru nauðsynlegar, með hliðsjón af þeim sérstöku aðstæðum sem ríktu við vinnslu upplýsinganna, svo að hinn skráði gæti gætt hagsmuna sinna, svo sem upplýsingar um viðtakendur eða flokka viðtakenda upplýsinganna. Samkvæmt c-lið 3. mgr. 21. gr. laganna átti hið sama við þegar upplýsinga var aflað frá öðrum en hinum skráða sjálfum.

Við mat á því hvort ákvæðum laganna um sanngjarna vinnslu og fræðslu gagnvart hinum skráða var fylgt verður að líta til þess að í lögum [Y], sem í gildi voru þegar umræddar upplýsingar voru birtar á vefsíðu félagsins, var að finna ákvæði í 14. gr. um fundargerðir. Kom þar meðal annars fram að birta skyldi ákvarðanir stjórnarfunda og dagskrá funda á vef [Y]. Að því virtu er það mat Persónuverndar að skilyrði 1. tölul. 1. mgr. 7. gr. laga nr. 77/2000 geti talist uppfyllt. Þá verður ekki talið að umfjöllunin hafi farið í bága við 3. tölul. sama ákvæðis um meðalhóf við vinnslu persónuupplýsinga.

Með vísan til framangreinds telur Persónuvernd birtingu [Y] á upplýsingum um eineltismál kvartanda á Netinu hafa samrýmst lögum nr. 77/2000.

5.2.

Birting viðkvæmra persónuupplýsinga um kvartanda

Hvað varðar birtingu upplýsinga um afgreiðslu umsóknar kvartanda um endurgreiðslur meðferðarkostnaðar frá sjúkrasjóði [X] vegna meints eineltis af hendi formanns [Y], sem birtar voru í fundargerð stjórnar [Y] á vefsíðu félagsins, er það mat Persónuverndar að félagið geti haft hagsmuni af því að upplýsa félagsmenn sína um hvernig endurgreiðslum úr sjúkrasjóði sé háttað almennt. Ekki hafi þó verið nauðsynlegt í þágu lögmætra hagsmuna að birta þær upplýsingar með þeim hætti sem gert var, þ.e. á persónugreinanlegu formi, sbr. 7. tölul. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 77/2000. Þá verður ekki séð að aðrar vinnsluheimildir ákvæðisins komi til greina. Þegar af þeirri ástæðu telst sú birting ekki hafa samrýmst lögum nr. 77/2000.

Með vísan til framangreinds telur Persónuvernd birtingu [Y] á upplýsingum um afgreiðslu umsóknar kvartanda til sjúkrasjóðs [X] á Netinu ekki hafa samrýmst lögum nr. 77/2000.

Í ljósi þess að upplýsingarnar hafa þegar verið fjarlægðar vefsíðu [Y] verður ekki talið tilefni til að beina fyrirmælum um úrbætur að [Y] vegna birtingarinnar.

5.3.

Upplýsinga- og aðgangsréttur kvartanda

Leggja þarf mat á það hvort [Y], [X] og Lífi og sál hafi verið heimilt að synja kvartanda um afhendingu eineltisskýrslunnar.

Kveðið er á um rétt hins skráða til aðgangs að persónuupplýsingum um sig og rétt til upplýsinga um vinnslu í 17. gr. laga nr. 90/2018, sbr. einnig ákvæði 15. gr. reglugerðar (ESB) 2016/679 sem fjallar um rétt skráðs einstaklings til upplýsinga og aðgangs. Í síðarnefnda ákvæðinu segir meðal annars að skráður einstaklingur skuli hafa rétt til að fá staðfestingu á því frá ábyrgðaraðila hvort unnar séu persónuupplýsingar er varða hann sjálfan og, ef svo er, rétt til aðgangs að persónuupplýsingunum.

Í 3. mgr. 17. gr. laganna segir meðal annars að ákvæði 15. gr. reglugerðarinnar um réttindi hins skráða gildi ekki ef brýnir hagsmunir einstaklinga tengdir upplýsingunum, þar á meðal hins skráða, vegi þyngra. Þá segir í 3. mgr. 15. gr. reglugerðarinnar að ábyrgðaraðili skuli láta í té afrit af þeim persónuupplýsingum sem eru í vinnslu en vísað er til þess í 4. mgr. sama ákvæðis að rétturinn til að fá afrit skuli ekki skerða réttindi og frelsi annarra. Í athugasemdum við 3. mgr. 17. gr. í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 90/2018 segir að við beitingu ákvæðisins þurfi að fara fram mat á þeim hagsmunum sem í ákvæðinu eru nefndir. Vega verði hagsmuni hins skráða af því að fá upplýsingar andspænis hagsmunum annarra einstaklinga. Þá sé mikilvægt að hafa í huga að gerð sé krafa um brýna hagsmuni einstaklinga sem sýna þurfi fram á til að réttlæta undantekningu frá upplýsingarétti hins skráða.

Kemur þá til skoðunar hvort heimilt hafi verið að neita kvartanda um afhendingu skýrslunnar á þeim grundvelli að brýnir hagsmunir þeirra sem þar voru til viðtals af því að skýrslan verði ekki afhent kvartanda vegi þyngra en hagsmunir kvartanda af því að fá hana afhenta. Við það mat verður að líta til þess að upplýsingarnar sem umræddir einstaklingar veittu í viðtölum við Líf og sál innihéldu lýsingu viðkomandi einstaklinga á persónulegri upplifun þeirra af samskiptum kvartanda og formanns [Y]. Fram hefur komið að einn viðmælenda hafi mælst gegn því að skýrslan yrði afhent kvartanda af ótta við að efni hennar yrði birt opinberlega og ummæli í henni tekin úr samhengi. Hins vegar vísaði formaður [Y] meðal annars til þess að hún myndi sjálf fagna því ef skýrslan yrði gerð opinber. Kvartandi hefur lengi reynt að fá afrit af henni, m.a. vegna þess að hann telur það forsendu þess að hann geti neytt lögboðins andmælaréttar síns vegna þeirra ummæla sem í gögnunum kunni að birtast, sbr. 1. mgr. 21. gr. laga nr. 90/2018, ásamt því að hann telur niðurstöðuna ranga.

Eins og atvikum er hér háttað, og með vísan til skoðunar Persónuverndar á umræddri skýrslu, telur stofnunin efni skýrslunnar þess eðlis að kvartandi eigi hagsmuni af því að fá hana afhenta. Hins vegar verður að skoða réttindi kvartanda í ljósi áðurnefndra meginreglna 8. gr. laga nr. 90/2018, meðal annars 1. tölul. þess ákvæðis um að gætt sé að því að persónuupplýsingar séu unnar með lögmætum, sanngjörnum og gagnsæjum hætti gagnvart hinum skráða og 3. tölul. um að þær séu nægilegar, viðeigandi og ekki umfram það sem nauðsynlegt er miðað við tilgang vinnslunnar. Í því sambandi er litið til þess að verði skýrslan afhent kvartanda óbreytt verða upplýsingar um aðra skráða einstaklinga afhentar kvartanda. Þá verður að telja að auðvelt geti reynst að rekja einstakar frásagnir til ákveðinna aðila þrátt fyrir að þær séu ekki auðkenndar með nafni. Hvorki verður það talið sanngjarnt né viðeigandi miðað við tilganginn með afhendingu skýrslunnar, þ.e. að kvartandi fái aðgang að persónuupplýsingum um sig, að hann fái aðgang að upplýsingum um frásagnir annarra einstaklinga.

Í yfirlýsingu Lífs og sálar vegna eineltisathugunarinnar, [dags.], kom fram að frá athuguninni og niðurstöðum hennar yrði greint í skýrslu sem verkbeiðandi fengi í hendur og að skýrslugerð lokinni myndi starfsfólk Lífs og sálar ekki ræða skýrsluna eða einstaka þætti hennar við aðra en verkbeiðanda. Vegna framangreinds skal áréttað að Líf og sál getur ekki samið sig frá því að veita skráðum einstaklingi aðgang að upplýsingum um sig, eigi hann rétt á þeim samkvæmt 2. mgr. 17. gr. laga nr. 90/2018 og 15. gr. reglugerðar (ESB) 2016/679.

Með vísan til framangreinds telur Persónuvernd að [Y], [X] og Líf og sál hafi ekki gætt að aðgangsrétti kvartanda samkvæmt lögum nr. 90/2018 með því að neita honum alfarið um afhendingu skýrslunnar. Er það álit Persónuverndar að ábyrgðaraðilum beri að afhenda kvartanda umrædda eineltisskýrslu, að því gættu að allar upplýsingar um aðra einstaklinga en kvartanda verði afmáðar úr skýrslunni áður en hún verður afhent kvartanda. Tekið skal fram að veiti þessir einstaklingar samþykki sitt fyrir því að upplýsingar um þá úr skýrslunni verði afhentar kvartanda er slík afhending heimil, en þess skal þá gætt að samþykkið uppfylli skilyrði laga nr. 90/2018 og reglugerðar (ESB) 2016/679.

Í samræmi við þessa niðurstöðu, og með vísan til 3. tölul. 42. gr. laga nr. 90/2018, er hér með lagt fyrir [Y], sem vörsluaðila eineltisskýrslunnar, að afhenda kvartanda afrit af skýrslunni í samræmi við framangreint, eftir að allar persónuupplýsingar um aðra einstaklinga en kvartanda sjálfan, þar með frásagnir þeirra, hafa verið afmáðar úr henni. Skal staðfesting á því að farið hafi verið að þessum fyrirmælum berast Persónuvernd eigi síðar en 27. maí 2021.


Ú r s k u r ð a r o r ð:

Þeim hluta kvörtunarinnar er snýr að umfjöllun [Y] og [X] um kvartanda í fjölmiðlum er vísað frá.

Vinnsla [Y], sem fólst í birtingu upplýsinga um eineltismál kvartanda í fréttabréfi og fundargerðum á vefsíðu félagsins, samrýmdist lögum nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.

Vinnsla [Y], sem fólst í birtingu upplýsinga um afgreiðslu á umsókn kvartanda í sjúkrasjóð [X] í fundargerð á vefsíðu félagsins, samrýmdist ekki lögum nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.

Afgreiðsla [Y], [X] og Lífs og sálar ehf. á beiðni kvartanda um afhendingu eineltisskýrslunnar samrýmdist ekki lögum nr. 90/2018 og reglugerð (ESB) 2016/679.

Með vísan til 3. tölul. 42. gr. laga nr. 90/2018 er lagt fyrir [Y] að afhenda kvartanda skýrsluna, að því gættu að allar persónuupplýsingar annarra einstaklinga en kvartanda hafi áður verið afmáðar. Skal staðfesting á því að farið hafi verið að þessum fyrirmælum berast Persónuvernd eigi síðar en 27. maí 2021.

Persónuvernd, 29. apríl 2021

Ólafur Garðarsson
starfandi formaður

Björn Geirsson                 Vilhelmína Haraldsdóttir

Þorvarður Kári ÓlafssonVar efnið hjálplegt? Nei