Úrlausnir

Rafræn vöktun við fjöleignarhús

Mál nr. 2022010208

23.11.2022

Ef setja á upp eftirlitsmyndavélar við fjöleignarhús þarf að taka ákvörðun um það á löglega boðuðum húsfundi. Þá þarf að gæta sérstaklega að sjónsviði eftirlitsmyndavélarinnar.

Í þessu máli var samþykkis annarra íbúa fjöleignarhússins ekki aflað og því var vöktunin talin óheimil.

----

 

Persónuvernd úrskurðaði í máli þar sem kvartað var yfir rafrænni vöktun með eftirlitsmyndavél í glugga og snjalldyrabjöllu í fjöleignarhúsi. Ekki lá fyrir samþykki íbúa fjöleignarhússins fyrir vöktuninni.

Niðurstaða Persónuverndar var sú að rafræna vöktunin samræmdist ekki lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Var einstaklingunum gert að láta tafarlaust af allri vöktun.

Úrskurður


um kvörtun yfir rafrænni vöktun með eftirlitsmyndavél að [...] í Reykjavík af hálfu [I] og [J] í máli nr. 2022010208:

I.
Málsmeðferð

Hinn 24. janúar 2022 barst Persónuvernd kvörtun frá [A], [B], [C], [D], [E], [F], [G] og [H] (hér eftir kvartendur) yfir rafrænni vöktun [I] og [J] með eftirlitsmyndavél í glugga og snjalldyrabjöllu í fjöleignarhúsi að [...] í Reykjavík.

Persónuvernd bauð [I] og [J] að tjá sig um kvörtunina með bréfi, dags. 21. febrúar 2022, og bárust svör þeirra með bréfi dags. 14. mars s.á. Þá var kvartendum veittur kostur á að koma á framfæri athugasemdum við svör [I] og [J] með bréfi, dags. 10. júní s.á., og bárust þær með tölvupósti 17. s.m. Við úrlausn málsins hefur verið tekið tillit til allra framangreindra gagna, þó ekki sé gerð sérstaklega grein fyrir þeim öllum í eftirfarandi úrskurði.

___________________

Ágreiningur er um hvort [I] og [J] sé heimilt að viðhafa rafræna vöktun á sameignarsvæði fyrir framan íbúð þeirra, hvort heldur það er með myndavél í glugga sem beint er að sameign íbúa eða með snjalldyrabjöllu (Video Doorbell Ring 3) við sameiginlegan inngang hússins sem fer í gang við hreyfingu og/eða þegar þrýst er á bjölluna.

Kvartendur telja að þar sem ekki liggi fyrir samþykki íbúa fjöleignarhússins hafi [I] og [J] ekki heimild til að vakta aðkomu að aðalinngangi hússins. Upphaflega hafi vöktunin farið fram með myndavél í innanverðum glugga íbúðar þeirra, en hún hafi verið fjarlægð fyrir nokkrum vikum og í stað hennar hafi þær sett upp snjalldyrabjöllu við inngang hússins. Samþykkis íbúa hafi ekki verið aflað fyrir uppsetningunni og óski kvartendur eftir því að hún verði fjarlægð. Þá andmæli þeir því sem röngu með öllu að vera valdar að tjóni á bifreið [I] og [J].

[I] og [J] kveðast tímabundið hafa sett upp eftirlitsmyndavél við innanverðan glugga íbúðar sinnar, til að auka öryggi barns þeirra þegar það væri eitt heima, en dyrabjallan hafi sýnt mynd af þeim sem staðið hafi um metra frá dyrunum. Þá hafi einn íbúa fjöleignarhússins reynt að valda tjóni á bifreið í þeirra umráðum auk þess sem vissir íbúar hafi vegið að mannorði þeirra á samfélagsmiðlum. Myndavélin hafi hins vegar verið tekin niður fyrir nokkrum vikum, ekki hafi farið fram upptaka og því hafi ekkert myndefni verið varðveitt.

II.
Niðurstaða
1.
Lögmæti vinnslu

Mál þetta lýtur að rafrænni vöktun á sameign fjöleignarhússins að [...] í Reykjavík. Varðar það því vinnslu persónuupplýsinga sem fellur undir valdsvið Persónuverndar. Sá sem ákveður að setja upp eftirlitsmyndavél og viðhafa með henni rafræna vöktun telst vera ábyrgðaraðili að umræddri vinnslu samkvæmt lögum nr. 90/2018, um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, og reglugerð (ESB) 2016/679. [I] og [J] teljast því vera ábyrgðaraðilar vöktunarinnar.

Persónuvernd hefur almennt litið svo á að til þess að rafræn vöktun á sameign fjöleignarhúss sé heimil þurfi að taka um hana ákvörðun á löglega boðuðum húsfundi. Á það jafnt við um þegar rafræn vöktun fer fram með eftirlitsmyndavélum eða með snjalldyrabjöllu.

Slíkt samþykki liggur ekki fyrir og hafa íbúar fjöleignarhússins tjáð sig um að þeim standi ami af vöktuninni og óskað eftir að henni verði hætt. Ábyrgðaraðilar byggja því umrædda vinnslu persónuupplýsinga ekki á lögmætri heimild og telst hún þegar af þeirri ástæðu ólögmæt.

Að framangreindu virtu er það niðurstaða Persónuverndar að hin rafræna vöktun sem fram fer á sameign fjöleignarhússins að [...] samrýmist ekki lögum nr. 90/2018, um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, sbr. reglugerð (ESB) 2016/679.

Í samræmi við þessa niðurstöðu, og með vísan til 6. og 7. tölul. 42. gr. laga nr. 90/2018, sbr. f- og g-lið 2. mgr. 58. gr. reglugerðar (ESB) 2016/679, er hér með lagt fyrir [I] og [J] að láta þegar af allri rafrænni vöktun á sameign að [...], hvort sem er með eftirlitsmyndavél eða snjalldyrabjöllu, og eyða öllu uppteknu efni, hafi því verið safnað. Skal staðfesting á því að farið hafi verið að þessum fyrirmælum berast Persónuvernd eigi síðar en 20. desember 2022.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Rafræn vöktun [I] og [J] að [...] í Reykjavík samrýmist ekki ákvæðum laga nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga og reglugerð (ESB) 2016/679 um vinnsluheimild.

Skulu [I] og [J] láta af vöktuninni tafarlaust og eyða vöktunarefni sem safnast hefur til þessa.

Skal staðfesting á því að farið hafi verið að þessum fyrirmælum berast Persónuvernd eigi síðar en 20. desember 2022.

 Persónuvernd, 23. nóvember 2022

Helga Sigríður Þórhallsdóttir                        Rebekka Rán Samper



Var efnið hjálplegt? Nei