Úrlausnir

Bréf Persónuverndar til FME vegna tilmæla

26.8.2009

Persónuvernd vísar til fyrri bréfaskipta vegna kvörtunar [R], dags. 2. júní 2009, yfir vinnslu persónuupplýsinga í kjölfar stofnunar reiknings hjá s24 og vegna leiðbeinandi tilmæla Fjármálaeftirlitsins um upplýsingaöflun við könnun á áreiðanleika viðskiptamanna.

Að fenginni framangreindri kvörtun óskaði Persónuvernd eftir skýringum viðkomandi ábyrgðaraðila. Í svörum þeirra var m.a. vísað til tilmæla FME nr. 2/2008. Var málið þá borið undir eftirlitið. Persónuvernd óskaði skýringa á misræmi, annars vegar á gr. 2.3.2. í tilmælunum og hins vegar á 5. gr. laga nr. 64/2006, um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Þá var sérstaklega spurt um d.–f. liði greinar 2.3.2.1.

Persónuvernd barst svar með bréfi Fjármálaeftirlitsins, dags. 20. júlí sl. Þar er gefin sú skýring að FME sé heimilt að gefa út og birta opinberlega almenn leiðbeinandi tilmæli um starfsemi eftirlitsskyldra aðila, enda varði málefnið hóp eftirlitsskyldra aðila sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 87/1998, um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Í bréfinu segir m.a.: „Leiðbeinandi tilmæli hafa ekki lagastoð í hefðbundnum skilningi og eru því ekki skuldbindandi á sama hátt og ákvæði reglugerða og reglna sem settar eru með sérstakri heimild í lögum." Tekur FME fram að tilmælin hafi að geyma leiðbeiningar um það hvernig aðilar, sem falla undir a.–e. liði 1. mgr. 2. gr. laga nr. 64/2006, skuli framfylgja ákvæðum laganna.

Þrátt fyrir framangreint má ráða að meðal eftirlitsskyldra aðila sé sá skilningur að tilmælin hafi að geyma bindandi stjórnvaldsfyrirmæli. Orðalag tilmæla nr. 2/2008 er og þannig. Til dæmis er fyrirsögn 2.3.2. í tilmælum FME eftirfarandi: „Upplýsingar sem afla skal". Auk þess segir undir lið 2.3.2.1.: „Fjármálaeftirlitið telur nauðsynlegt að eftirfarandi upplýsinga sé einnig aflað frá einstaklingum: [upptalning persónuupplýsinga í 11 liðum]."

Af tilefni framangreinds vill Persónuvernd beina því til FME að taka til skoðunar að breyta orðalagi tilmælanna þannig að skýrara verði að um leiðbeiningar er að ræða en ekki skuldbindandi reglur í skilningi 3. tl. 8. gr. laga nr. 77/2000.

 Var efnið hjálplegt? Nei