Úrlausnir

Ákvörðun um að fella niður mál um óheimila miðlun

23.6.2009

Mál vegna kvörtunar yfir óheimilli miðlun á vinnustaðaskýrslu frá vinnuveitanda til Kennarasambands Íslands var fellt niður vegna óljósra málavaxta o.fl.

Ákvörðun

Á fundi stjórnar Persónuverndar hinn 10. júní 2009 var tekin ákvörðun í máli nr. 2009/266:

I.

Málavextir og bréfaskipti

1.

Þann 23. febrúar barst Persónuvernd kvörtun [K] (hér eftir nefnd „kvartandi") yfir því að vinnuveitandi hennar, [C], hafi án heimildar miðlað persónuupplýsingum um hana til Kennarasambands Íslands (K.Í).

[C] er miðstöð símenntunar sem þjónar fötluðu fólki 20 ára og eldri. Í desember 2005 kom til árekstra milli kvartanda og annarra starfsmanna þar. Kvartandi leitaði til Vinnueftirlitsins og [C] óskaði aðstoðar fyrirtækisins [L] og fékk þaðan skýrslu um málið. Sú kvörtun sem mál þetta varðar lýtur að miðlun þeirrar skýrslu frá [C] til KÍ, en hún var unnin af sálfræðingunum [A] og [B]. Kvartandi stefndi [C] síðar til greiðslu miskabóta vegna eineltis og var dómur héraðsdóms Reykjavíkur kveðinn upp þann 3. nóvember 2008. Þar var m.a. byggt á efni umræddrar skýrslu.

2.

Með bréfi, dags. 3. mars 2009, veitti Persónuvernd [C] færi á að tjá sig um framangreinda kvörtun. [D], lögmaður, svaraði fyrir hönd [C] með bréfi, dags. 17. mars 2009. Þar segir m.a.:

„Kannast [C] hins vegar ekki við að hafa afhent Kennarasambandinu eintak af framangreindri skýrslu en telur líklegt með hliðsjón af afskiptum félagsins af málinu að það hafi fengið ljósrit af skýrslunni frá [K]"

Segir einnig að [C] hafi einungis afhent skýrsluna [K], lögmanni hennar og lögmanni [C].

Með bréfi, dags. 24. mars 2009, gaf Persónuvernd kvartanda kost á að tjá sig um þetta svar. Hún svaraði með bréfi, dags. 17. maí 2009, og gerði athugasemdir við svör lögmanns [C]. Í bréfi hennar segir m.a.:

„Ég hef vissu fyrir því að umrædd skýrsla, var kynnt á fundi yfirmanna og sviðsstjóra, vorið 2006. – Ég hef einnig vissu fyrir því að, umrædd skýrsla lá á glámbekk í vinnuherbergi kennara. – Því er ljóst að skýrslunni var dreift í hendur á óviðkomandi aðila og upplýsingum komið á framfæri við aðila, sem málið var óskylt."

Enfremur segir í bréfinu:

„Í byrjun júní 2006, fór ég í viðtal á skrifstofu [E], formanns Félags Framhaldsskólakennara, í húsi Kennarasambands Íslands. Og var hún að skoða skýrsluna fyrir framan mig. Því finnst mér það eðlileg ágiskun að [C] hafi afhent henni skýrsluna, enda var hvorki ég né lögmaður minn [R] búin að fá hana í hendur. "

Persónuvernd óskaði upplýsinga frá Kennarasambandi Íslands, með bréfi dags. 24. mars 2009. Svar barst með bréfi dags. 20. apríl 2009. Skilningur Persónuverndar á efni þess var að Kennarasambandið hefði ekki fengið umrædda skýrslu frá [C]. Persónuvernd óskaði staðfestingar á þessum skilningi. Barst henni þá annað bréf frá sambandinu, dags. 11. maí 2009. Þar var m.a. fjallað um hvenær sambandið tekur að sér að kosta lögfræðiaðstoð fyrir félagsmenn félagsins. Ekki kom skýrt fram hvort umræddri skýrslu hefði verið miðlað frá [C] til sambandsins. Í símtali starfsmanns Persónuverndar, þann 27. maí 2009, við fulltrúa sambandsins kom fram að umrædd skýrsla hefði að beiðni KÍ borist frá [C]. Þetta var staðfest með tölvubréfum 27. maí og 3. júní 2009, frá formanni félags framhaldsskólakennara, sem er eitt af aðildarfélögum KÍ. Þar segir m.a.:

„Félag framhaldsskólakennara leitaði til [C] með það fyrir augum að fá afrit af umræddri vinnustaðaskýrslu í máli [K] þar sem það félag var í fyrirsvari um samskipti um hennar mál gagnvart einum af lögmönnum KÍ sem fór með mál hennar. Þetta gerði félagið í þeim tilgangi að afla gagna fyrir lögmann svo hann gæti sem best gætt hagsmuna [K].

Í fyrsta lagi með tilliti til þess að taka varð afstöðu til hvort réttur hennar var sá að fá alla skýrsluna afhenta, hluta hennar eða aðeins kynningu á hluta hennar. Í öðru lagi með tilliti til þess að bregðast varð við þeirri fyrirætlan [C] að boða [K] til fundar um hennar mál en þar átti m.a. að fara yfir efni skýrslunnar að viðstöddum lögmanni [C] og fleiri aðilum. Í þriðja lagi með tiliti til þess að veita [K] ráðgjöf um fyrirætlanir [C] að öðru leyti og vera í forsvari fyrir hana gagnvart lögmanni [C].

Það er meginregla hjá Kennarasambandinu/félögum þess þegar lögmenn sambandsins eru beðnir að taka að sér mál einstakra félagsmanna að hafa milligöngu um að útvega viðkomandi lögmanni KÍ sem hefur með hvert mál að gera öll viðeigandi málsgögn svo að sú þjónusta sem lögmaður veitir félagsmanni sé sem áreiðanlegust.

Umrædd vinnustaðaskýrsla var alfarið varðveitt hjá undirritaðri sem er formaður FF áður en hún fór til þess lögmanns KÍ sem hafði með mál [K] að gera.

Það leiðir því af öllu eðli málsins að þar sem [K] ætlaðist til þess að félagið veitti henni aðstoð þá var félagið ekki þess umkomið að gera það nema að fá afrit af umræddri vinnustaðaskýrslu  svo að sá lögmaður KÍ sem fór með mál hennar gæti gætt hagsmuna hennar með sem áreiðanlegustum hætti."

Kvartanda var veitt færi á að tjá sig um framagreint. Hún gerði grein fyrir afstöðu sinni með tölvupósti, dags. 9. júní 2009. Þar segir:

Í janúar 2006, nýtti ég mér rétt minn sem félagsmaður KÍ og leitaði ég til lögmanns félagsins, varðandi bolun úr starfi. En ég var ólöglega sett í veikindaleyfi, og leitaði ég til umrædds lögmanns vegna þess máls.

En umrædd skýrsla var unnin vegna ásakana undirritaðarar um einelti og ofbeldishótanir af hálfu annars starfsmanns [C] og átti því ekkert erindi inn í það mál og því engin ástæða til að afhenda Félagi framhaldsskóla kennara, skýrsluna.

Hvorki [C] né [E] formaður FF höfðu leyfi frá undirritaðri til að afhenda skýrsluna. En síðan líða 7 mánuðir, þar til ég fæ aðstoð sama lögmanns, við að fá skýrsluna í hendur."

Einnig segir í tölvupóstinum:

Ég leitaði til [E] í lok maí 2006, með ósk um að hún hlutaðist til um að framkvæmdastjóri [C] afhenti mér umrædda skýrslu og er það algjörlega óskylt mál.

En í ágúst mánuði það sama ár, bauð [E] formaður FF, mér það að fá aðstoð eins af lögmönnum félagsins til að koma með mér á fund, þar sem umrædd skýrsla yrði afhent, ellegar að ég gæti ráðið mér lögmann á minn eigin kostnað og valdi ég ódýrari kostinn, því miður. En þá þegar hafði [E] skýrsluna undir höndum, þar að segja frá því í lok maí, eða byrjun júní, þetta sama ár."

Í símtali starfsmanns Persónuverndar, þann 9. júní 2009, við lögmann [C], var mál þetta rætt. Daginn eftir barst svohljóðandi tölvubréf frá honum:

„Hef kannað að nýju hjá núverandi framkvæmdastjóra [C], [F], og fyrrverandi framkvæmdastjóra, [G], hvort þau reki minni til að hafa afhent Kennarasambandi Íslands eða aðilum á þeirra vegum, umrædda skýrslu sem [L] sálfræðistofa vann í byrjun árs 2006. Þau telja að svo hafi ekki verið gert. Þau vekja hins vegar athygli á því að þrjú ár eru liðin frá því að þessi skýrsla var til meðferðar og getur það haft áhrif á skýrslugjöf allra þeirra sem að málinu hafa komið.  [F] staðfestir jafnframt að skýrslan var afhent  [K] á fundi með henni og lögmanni hennar sumarið 2006. Þá man hún að [E] hjá Kennarasambandinu var að vinna fyrir [K] í hennar málum strax frá upphafi ásamt lögmanni sambandsins.

Þá leyfi ég mér að vekja athygli á ákveðinni þversögn sem kemur fram í því þeirri fullyrðingu að skýrslan hafi verið afhent [E] hjá Kennarasambandinu að hennar ósk í þeim tilgangi að afla gagna fyrir lögmann sambandsins til að gæta hagsmuna [K] á fyrirætluðum fundi.  Eini fundur aðila sem efnt var til eftir að skýrslan kom út var fundur sem  undirritaður boðaði til með ábyrgðarbréfi til að kynna efni framangreindrar skýrslu. Var í bréfinu tekið fram að [K] gæti tekið með á fundinn sinn lögmann eða þann aðila sem hún óskaði að taka með.  Mætti hún á fundinn með lögmann sinn. Rekur undirritaður ekki minni til þess að mál hafi verið rædd á þann veg að fram hafi komið að lögmaður hennar hefði haft tækifæri til að kynna sér skýrsluna fyrir fundinn."

II.

Niðurstaða

Svo að vinna megi með persónuupplýsingar verður ávallt að vera fullnægt einhverju skilyrðanna í 8. gr. laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Sé um að ræða viðkvæmar persónuupplýsingar þarf að auki að vera fullnægt einhverju þeirra viðbótarskilyrða sem greinir í 9. gr. sömu laga.

Þær upplýsingar sem teljast vera viðkvæmar í skilningi laganna eru taldar upp í 2. tl. 1. mgr. 2. gr. laganna, en þar undir falla upplýsingar um heilsuhagi. Í þeirri skýrslu sem mál þetta varðar eru upplýsingar um samskiptavanda og ástand sem hafði skapast við kennslu hjá [C]. Í skýrslunni er að finna frásagnir kvartanda og annars starfsmanns, auk frásagna tveggja annarra starfsmanna, af umræddum samskiptum. Í frásögnum annarra en kvartanda kemur m.a. fram gagnrýni á störf hennar. Í lok skýrslunnar er að finna túlkun sálfræðinganna á atburðum í ljósi frásagnanna, sem og þá ályktun þeirra að nauðsynlegt sé að stjórnendur gefi kvartanda skýr skilaboð um framtíð hennar í starfi. Geta má þess að í dómi héraðsdóms, sem kveðinn var upp 3. nóvember 2008, í máli milli kvartanda og [C], er fjallað um efni þessarar skýrslu og segir að hún, og önnur skýrsla, verði ekki túlkaðar sem staðfesting á veikindum. Með vísun til alls framangreinds er það niðurstaða Persónuverndar að skýrslan hafi ekki að geyma viðkvæmar persónuupplýsingar í skilningi 8. tölul. 2. gr. laga nr. 77/2000.

Miðlun persónuupplýsinga sem ekki teljast viðkvæmar í skilningi laga nr. 77/2000 þarf að eiga sér stoð í 8. gr. laganna. Samkvæmt 1. tl. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 77/2000 er vinnsla heimil hafi hinn skráði samþykkt hana. Getur slíkt samþykki bæði verið veitt með formlegri yfirlýsingu eða í verki, með athöfn eða athafnaleysi. Við mat á því hvort kvartandi hafi veitt slíkt samþykki ber að líta til að hún leitaði liðsinnis kennarasambandsins, m.a. við að fá skýrsluna í hendur. Er ljóst að forsenda þess að umbeðin aðstoð yrði veitt var í mörgum tilvikum sú að kennarasambandið sæi skýrsluna. Fyrir liggur og að kvartandi lagði umrædda skýrslu fram í því máli sem hún höfðaði gegn [C]. Við mat á lögmæti vinnslu ber einnig að líta til þess hvort unnið hafi verið í samræmi við grunnkröfur 1. mgr. 7. gr. laga nr. 77/2000. Þar er m.a. að finna skilyrði um að meðferð slíkra upplýsinga skuli hagað með sanngjörnum og málefnalegum hætti. Af svörum Kennarasambandsins má ráða að vinnslan hafi átt sér málefnalegan tilgang og verið ætluð til þess að gera sambandinu kleift að veita kvartanda umbeðna aðstoð. Þar á meðal í tengslum við umsókn hennar um styrk og að veita henni ráðgjöf og lögmannsaðstoð.

Þrátt fyrir framangreint verður ekki litið framhjá því að samkvæmt orðalagi 1. tl. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 77/2000 er skilyrði að samþykki hins skráða sé ótvírætt. Með því er átt við að fyllilega þarf að vera skýrt til hvaða vinnslu það tekur. Skiptir einnig máli á hvaða tímamarki þetta á sér stað og síðan hvernig staðið er að vinnslu. Í máli þessu eru atvik hins vegar óljós, einkum um þessi tvö atriði, en langt er um liðið frá því að atvikin gerðust. Greini menn á um málsatvik með þeim hætti sem hér er eru því rík takmörk sett að hvaða marki Persónuvernd getur, með þeim úrræðum sem henni eru búin að lögum, leyst úr málum. Af þeirri ástæðu, og að virtum þeim hagsmunum sem eru af frekari umfjöllun um mál þetta, þykja ekki efni til frekari meðferðar þess. Verður málið því fellt niður.





Var efnið hjálplegt? Nei