Úrlausnir

Umsögn Persónuverndar um frumvarp til laga um breytingu á almennum hegningarlögum

6.12.2007

Persónuvernd vísar til bréfs allsherjarnefndar Alþingis, dags. 15. nóvember 2007, þar sem óskað er umsagnar stofnunarinnar um frumvarp til laga um breytingar á almennum hegningarlögum, n.t.t. í tengslum við upptöku eigna, hryðjuverk, mansal o.fl. (þskj. 197, 184. mál á 135. löggjafarþingi).

Ljóst er að öll refsiákvæði geta haft í för með sér skerðingu á friðhelgi einkalífs, enda kallar rannsókn mála iðulega á að kannaðir séu hagir sakbornings, auk þess sem sakaður maður hlýtur að verða fyrir opinberum afskiptum af persónulegum högum sínum með einum eða öðrum hætti. Slíkt felur ávallt í sér einhverja vinnslu persónuupplýsinga um sakaðan mann.

Í umræddu frumvarpi eru lagðar til breytingar á verknaðarlýsingum, refsingum fyrir tiltekin brot o.fl. Að baki tillögum þar að lútandi liggur þjóðfélagslegt og refsipólitískt mat sem Persónuvernd telur að mestu, þegar litið er til efnis umræddra tillagna, þess eðlis að það falli utan verksviðs stofnunarinnar að fjalla um það sérstaklega.

Þó telur stofnunin það ekki eiga við um 2. gr. frumvarpsins þar sem lagt er til að heimildir til eignaupptöku verði rýmkaðar. Er þá litið til þess að m.a. tölvubúnaður kann að vera gerður upptækur við eignaupptöku, en í tölvum geta verið vistuð persónuleg gögn og margs konar persónuupplýsingar, eftir atvikum viðkvæmar.

Í c-lið 2. gr. frumvarpsins er að finna reglur um upptöku á eignum sakbornings, sem og maka eða sambúðaramaka hans, þegar framið hefur verið brot sem er til þess fallið að hafa í för með sér verulegan ávinning. Er þá ekki gert að skilyrði að þær eignir, sem gerðar eru upptækar, feli í sér ávinning af því tiltekna broti. Þess í stað er miðað við að tekjur og eignir sakbornings, sem og maka hans (enda sé mögulegt að hann hafi skráð eignir á maka sinn til að koma þeim undan), kunni að vera afrakstur annarra brota, eins og fram kemur í athugasemdum frumvarpsins við c-lið 2. gr. Þess vegna megi gera þær upptækar, enda sýni sakborningur ekki fram á að verðmætanna hafi verið aflað á lögmætan hátt.

Í IV. kafla almennra athugasemda með frumvarpinu er vísað til dóms mannréttindadómstóls Evrópu frá 5. júlí 2001 í máli nr. 41087/98 í þessu sambandi, þ.e. er í máli Phillips gegn Bretlandi. Þar komst dómstóllinn að þeirri niðurstöðu að það hefði ekki falið í sér brot gegn nánar tilteknum ákvæðum sáttmálans að gerð var eignaupptaka hjá stefnanda vegna fíkniefnabrots, þrátt fyrir að ekki hefði verið um að ræða ávinning af því broti sem hann var dæmdur fyrir.

Eignaupptakan byggðist á lögum um refsingar fyrir eiturlyfjasölu frá 1994 (Drug Trafficking Act 1994), þ.e. 2. og 3. mgr. 4. gr. laganna. Þar er mælt fyrir um að dómstóll skuli, þegar dæmt er fyrir eiturlyfjasölu, líta á allar eignir sakbornings, sem og eyðslu hans, á síðustu sex árum áður en ákærumeðferð hófst sem ágóða fyrir slíka sölu. Skuli eignaupptaka af sakborningi taka mið af þessu, enda sýni sakborningur ekki fram á að tilteknar eignir eða tiltekin eyðsla tengist ekki slíkum brotum, auk þess sem beiting reglunnar má ekki leiða til verulegrar hættu á óréttlátri niðurstöðu. Í 8. mgr. 2. gr. kemur fram að um sönnun fer eftir reglum um meðferð einkamála (sjá 21. og 22. efnisgrein dómsins).

Eins og fram kemur í frumvarpinu taldi dómstóllinn að ekki hefði verið brotið gegn 2. mgr. 6. mannréttindasáttmálans um að hver skal teljast saklaus uns sekt er sönnuð. Ástæðan var sú að eignaupptakan var talin til viðurlaga fyrir það brot sem sakborningurinn var dæmdur fyrir. Ekki var, m.ö.o., litið svo á að með eignaupptökunni væri í raun verið að bera hann sökum um fleiri brot í þeim skilningi sem leggja bæri í orðin „borinn er sökum" í umræddu ákvæði sáttmálans (sjá 31.–36. efnisgrein dómsins).

Einnig var metið hvort brotið hefði verið gegn 1. mgr. 6. gr. sáttmálans um rétt til réttlátrar málsmeðferðar. Eins og fyrr greinir var litið til þess að samkvæmt breskum lögum á sakborningur kost á því að færa sönnur á að tilteknar eignir eða tiltekin eyðsla tengist ekki eiturlyfjasölu, sem og að beiting umræddrar reglu má ekki fela í sér verulega hættu á óréttlátri niðurstöðu. Í ljósi þess taldi dómstóllinn að til staðar væru tryggingar (safeguards) fyrir því í löggjöf að ekki væri brotið gegn umræddu ákvæði sáttmálans (43. efnisgrein dómsins). Í ljósi þess, sem og þess hvernig löggjöfinni var beitt af breskum dómstólum, taldi mannréttindadómstóllinn að ekki hefði verið brotið gegn þessu ákvæði (sjá 47. efnisgrein dómsins).

Að svo búnu fjallaði dómstóllinn um það hvort brotið hefði verið gegn 1. gr. 1. viðauka við mannréttindasáttmálann um friðhelgi eignaréttarins. Dómstóllinn leit sérstaklega til þess að umræddum ákvæðum breskra laga er stefnt gegn eiturlyfjasölu (52. efnisgrein dómsins). Taldi dómstóllinn, m.a. í ljósi mikilvægis þessa markmiðs, að ekki hefði verið brotið gegn framangreindu ákvæði sáttmálans (54. efnisgrein dómsins).

Þegar litið er til þess sem síðast greinir telur Persónuvernd ekki unnt að fullyrða að það myndi samrýmast mannréttindasáttmála Evrópu að lögfesta ákvæði 2. gr. frumvarpsins óbreytt. Sá dómur, sem vísað er til í frumvarpinu, verður að skoðast í ljósi atvika þess tiltekna máls sem þar var til umfjöllunar. Það mál varðaði eiturlyfjasölu og kemur fram í dóminum að dómstóllinn taldi að baráttan gegn henni væri það mikilvæg að setning framangreindra ákvæða breskra laga væri réttlætanleg. Í frumvarpinu eiga sambærileg ákvæði hins vegar að gilda um öll brot sem eru til þess fallin að hafa verulegan ávinning í för með sér. Dómur mannréttindadómstólsins, einn og sér, verður ekki talinn nægja til að álíta slíka lagasetningu samrýmast sáttmálanum.

Þá verður að líta til þess að í frumvarpinu er ekki að finna ákvæði sambærilegt við það ákvæði umræddra breskra laga að eignir skulu ekki gerðar upptækar sé á því veruleg hætta að slíkt leiði til óréttlátrar niðurstöðu. Að auki er ekki í frumvarpstextanum tekið fram hvaða kröfur skuli gera til sönnunar sakbornings á því að eignir tengist ekki afbrotum, s.s. hvort sönnunarkröfur í einkamálum eða refsimálum eigi að gilda. Slíkt er hins vegar gert í bresku lögunum og eru þar tilteknar sönnunarkröfur einkamála eins og fyrr greinir. Loks ber að nefna að þau ákvæði, sem vísað er til í dómi mannréttindadómstólins, gera ekki ráð fyrir upptöku á eignum maka eða sambúðarmaka sakbornings.

Samkvæmt þessu er gildissvið reglna frumvarpsins bæði víðtækara en bresku laganna, auk þess sem ekki er þar að finna allar sömu tryggingarnar fyrir því að réttinda sakbornings sé gætt og í bresku lögunum.

Með vísan til framangreinds telur Persónuvernd að hér beri að sýna varúð í ljósi sjónarmiða um friðhelgi einkalífs, en eins og fyrr greinir gæti umrædd eignaupptaka m.a. beinst að tölvum sem kunna að hafa að geyma viðkvæmar persónuupplýsingar. Telur stofnunin því mikilvægt að eftirfarandi sé haft í huga áður en tekin er ákvörðun um lögfestingu heimilda eins og þeirra sem hér um ræðir:

Hvaða afbrot séu það alvarleg, og það brýnir þjóðfélagshagsmunir af að barist sé gegn, að rétt sé að lögfesta slíkar heimildir.

Hvort raunverulega sé þörf á að láta heimild til eignaupptöku ná til eigna maka og sambúðarmaka.

Hvort ekki sé nauðsynlegt að mæla fyrir um það með skýrari hætti hvernig tryggt skuli að réttinda sakbornings (og eftir atvikum annarra) sé gætt við eignaupptökuna.

Var efnið hjálplegt? Nei