Úrlausnir

Umsögn Persónuverndar um frumvarp til laga um almannavarnir

6.12.2007

Persónuvernd vísar til bréfs allsherjarnefndar Alþingis, dags. 15. nóvember 2007, þar sem óskað er umsagnar stofnunarinnar um frumvarp til laga um almannavarnir (þskj. 204, 190. mál á 135. löggjafarþingi). Þau ákvæði frumvarpsins, sem einkum varða vinnslu persónuupplýsinga, eru eftirfarandi:

3. mgr. 12. gr. um öruggt fjarskiptakerfi sem sérstök samhæfingar- og stjórnstöð skuli hafa aðgang að, en eins og fram kemur í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpinu gæti slíkt fjarskiptakerfi nýst við ferilvöktun leitarmanna.

1. mgr. 18. gr. um skyldu til að veita nauðsynlegar upplýsingar við gerð viðbragðsáætlana ríkis og sveitarfélaga. Segir að komi upp ágreiningur um hvað teljist nauðsynlegar upplýsingar samkvæmt ákvæðinu sé heimilt að leita dómsúrskurðar um málið. Ekki er hægt að útiloka að hér geti verið um persónuupplýsingar að ræða.

28.–31. gr. um störf og heimildir sérstakrar rannsóknarnefndar almannavarna. Samkvæmt 28. og 29. gr. skal hún rannsaka og semja skýrslur um viðbrögð við hættuástandi. Í 2. mgr. 30. gr. er mælt fyrir um þagnarskyldu nefndarinnar um m.a. hvers kyns upplýsingar um einkahagi manna. Og í 31. gr. er mælt fyrir um óhindraðan aðgang nefndarinnar að gögnum viðbragðsaðila almannavarna. Jafnframt er hins vegar tekið fram að henni sé óheimilt að veita aðgang að trúnaðargögnum, m.a. álitsgerðum og skýrslum vitna og annarra.

3. mgr. 34. gr. um að dómsmálaráðherra skuli setja reglugerð um starfsemi nefndarinnar þar sem m.a. sé fjallað um vinnslu persónuupplýsinga hjá nefndinni að svo miklu leyti sem hún fellur ekki undir lög um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.

Persónuvernd gerir ekki athugasemdir við framangreind ákvæði, þ. á m. síðastnefnda ákvæðið sem gerir ráð fyrir því að lög nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga gildi ekki ekki alfarið um þá vinnslu slíkra upplýsinga sem fellur undir frumvarpið. Ástæðan er sú – eins og tekið er fram í athugasemdum greinargerðar með frumvarpinu við 31. gr. – að samkvæmt 2. mgr. 3. gr. umræddra laga er vinnsla persónuupplýsinga, sem varða almannaöryggi, undanþegin vissum ákvæðum laganna.





Var efnið hjálplegt? Nei