Úrlausnir

Athugasemdir við frumvarp til laga um Hagstofu Íslands

5.12.2007

Persónuvernd vísar til bréfs allsherjarnefndar Alþingis, dags. 22. október 2007, þar sem óskað er umsagnar stofnunarinnar um frumvarp til laga um Hagstofu Íslands og opinbera hagskýrslugerð (þskj. 129, 128. mál á 135. löggjafarþingi). Sú umsögn var veitt með bréfi, dags. 2. nóvember 2007.

Nú hefur Persónuvernd borist afrit af umsögn Ríkisskattstjóra um frumvarpið. Í umsögn hans er m.a. vikið að 6. og 9. gr. þar sem fjallað er um heimildir Hagstofunnar til öflunar gagna frá stjórnvöldum, sem og samtengingu gagna. Um þetta segir m.a.:

„Gæta verður varúðar í þessu tilliti og huga vel að persónuvernd, sem verður æ mikilvægari eftir því sem söfnun upplýsinga og samkeyrslur skráa verða umfangsmeiri. Einnig er mikilvægt að höfð séu í heiðri þau grundvallarsjónarmið sem lágu að baki upphaflegum skyldum til upplýsingagjafar t.d. til skattyfirvalda þegar önnur stjórnvöld áskilja sér aðgang að upplýsingum sem þessum."

Persónuvernd tekur undir þessi sjónarmið. Til að þeirra sé gætt er nauðsynlegt að farið sé við umrædda vinnslu að lögum nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Af frumvarpinu verður ekki séð að undanskilja eigi vinnsluna gildissviði þeirra laga. Í ljósi þess hversu víðtæka vinnslu hér getur verið um að ræða telur Persónuvernd hins vegar, við nánari athugun, æskilegt að við frumvarpið sé bætt ákvæði sem sérstaklega vísi til þessara laga til nánari áréttingar. Slíku ákvæði mætti koma fyrir í nýrri 10. gr., en síðari ákvæði frumvarpsins fengju þá ný greinarnúmer. Leggur Persónuvernd til að ákvæði nýrrar 10. gr. hljóði svo:

„Við alla upplýsingaöflun samkvæmt ákvæðum þessa kafla og eftirfarandi meðferð upplýsinganna skal farið að lögum nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Við samtengingu upplýsinga um einstaklinga samkvæmt 9. gr. skal beita ráðstöfunum sem tryggja nægilegt öryggi miðað við áhættu af samtengingunni og eðli þeirra gagna sem verja á, með hliðsjón af nýjustu tækni og kostnaði við framkvæmd þeirra. Í ljósi þess skulu persónauðkenni einstaklinga dulkóðuð eftir því sem við á."

Var efnið hjálplegt? Nei