Úrlausnir

Úrskurður Persónuverndar í máli er varðar miðlun upplýsinga úr félagaskrá og notkun upplýsinganna við beina markaðssetningu

3.12.2007

Persónuvernd barst kvörtun A yfir því að Félag íslenskra bifreiðaeigenda (FÍB) hafi afhent Atlantsolíu félagaskrá sína og Atlantsolía því næst notað félagaskrána við beina markaðssetningu.

I.

Bréfaskipti

Persónuvernd barst kvörtun A (hér eftir nefndur „málshefjandi"), dags. 15. ágúst 2007, yfir því að Félag íslenskra bifreiðaeigenda (FÍB) hafi afhent Atlantsolíu félagaskrá sína og Atlantsolía því næst notað félagaskrána við beina markaðssetningu. Hafi hann fengið símtal frá fyrirtækinu þar sem honum hafi verið boðinn ókeypis dælulykill. Hann telur umrædda afhendingu og eftirfarandi notkun upplýsinga um aðild hans að FÍB brjóta í bága við lög og óskar álits Persónuverndar á því. Um þetta segir nánar í kvörtuninni:

„Fyrir tveimur dögum var hringt í heimasíma minn og beðið um mig með nafni. Í símanum var sölumaður, stúlka. Hún hóf símtalið svona: „Þar sem þú ert félagsmaður í FÍB stendur þér til boða ókeypis orkulykill frá Atlantsolíu" (Umræddur lykill er aðgangslykill að bensín- og olíusölustöðvum Atlantsolíu og ætlaður þeim viðskiptavinum, sem ákveðið hafa að skipta við það fyrirtæki fremur en önnur). Ég spurði stúlkuna hvernig hún vissi að ég væri félagsmaður í FÍB. Svarið við þeirri spurningar var önnur: „Ert þú það ekki?" Þá spurði ég hvort leyfi væri fyrir því að sölumaðurinn notaði félagaskrá FÍB. Við því kom ekkert svar. Svo lauk samtalinu.

Í dag hringdi ég svo í FÍB og spurði um framkvæmdastjóra. Stúlka, sem í símann svaraði, upplýsti að hann væri fjarverandi og yrði það fram yfir helgi. Spurði hún hvert væri erindið. Ég sagði frá umræddu samtali við sölumann Atlantsolíu og spurði, hvort félagaskrá FÍB hefði verið notuð með þeirra leyfi. Svarið var: „Já, við erum í samstarfi við Atlantsolíu."

Nú hef ég ekkert á móti því fyrirtæki og er ekkert í föstum viðskiptum við önnur af þeim toga. Ég hef hins vegar ítrekað rekið mig á að sölumenn virðast vera með í höndunum félagaskrár félaga, sem þeir síðan nota í sölustarfseminni. Þetta er að sjálfsögðu bæði ólöglegt og hvimleitt en þarna er gengið lengra en viðurkennt hefur verið til þessa þegar félagsmönnum, sem verða fyrir slíkri misnotkun á upplýsingum um félagsaðild sína, er einfaldlega tjáð að svo sé gert vegna þess að umræddir aðilar – félagið og söluaðilinn – séu í samstarfi."

Með bréfum, dags. 30. ágúst og 27. september 2007 bauð Persónuvernd FÍB og Atlantsolíu að tjá sig um kvörtunina. Ekki hefur borist svar frá Atlantsolíu. FÍB svaraði hins vegar með bréfi, dags. 19. september 2007. Þar segir:

„Allt frá stofnun FÍB fyrir 75 árum hefur starfsemi félagsins verið tvíþætt, persónuleg þjónusta við félagsmenn og almenn hagsmunagæsla. Afslættir af vörum og þjónustu eru hluti af kostum félagsaðildar. Sá liður í þjónustunni er áberandi og reglulega til umfjöllunar með áberandi hætti í félagsgögnum FÍB. Félagið hefur náð góðum kjörum á vörum og þjónustu fyrir hönd félagsmanna á grundvelli þess að um er að ræða frjáls fjöldasamtök sem vinna að hagsmunagæslu og bættum hag félagsmanna.

Fyrir um 2 árum sendi FÍB erindi á olíufélögin í landinu og óskaði eftir samningi fyrir hönd félagsmanna um betri kjör á eldsneyti. Aðeins tvö félög voru tilbúin að skoða málið og þegar upp var staðið var eingöngu raunverulegur vilji til að bjóða félagsmönnum betri kjör hjá Atlantsolíu. Í kjölfarið var gengið til samninga við Atlantsolíu um sérkjör til félagsmanna.

Samningur var undirritaður snemma árs 2006 á milli Atlantsolíu og FÍB um sérkjör til FÍB-félaga á eldsneyti á bensínstöðvum Atlantsolíu. Til að njóta þessara sérkjara er notast við nýjung í greiðsluformi eða svokallaðan dælulykil sem gefur félagsmönnum 2 krónur í afslátt af hverjum lítra af bensíni og dísilolíu.

Afsláttarkjörin hjá Atlantsolíu voru kynnt sérstaklega í þjónustubók FÍB 2006, sem gefin er út árlega með upplýsingum um afslætti, sparnað, hagnað og sértilboð til félagsmanna. Í kynningunni var vísun í nánari upplýsingar á heimasíðu félagsins. Ljóst er að til að njóta þessara kjara verður félagsmaður að óska eftir FÍB/Atlantsolíu-dælulykli. Dælulykillinn er ókeypis fyrir félagsmenn og engar þóknanir eru tengdar honum.

Til viðbótar við það að tryggja félagsmönnum hagstæðari kjör þá er það mat stjórnar félagsins að samningur við einn aðila á olíusölumarkaði efli samkeppni á þessum fákeppnismarkaði. Í þessu tilviki er um að ræða minnsta olíufyrirtækið þannig að góð viðbrögð félagsmanna senda ákveðin skilaboð inn á markaðinn sem stjórnin metur jákvæð fyrir hagsmuni bifreiðaeigenda í heild sinni.

FÍB áskilur sér rétt til að miðla upplýsingum til FÍB-félaga um það sem félagið telur þeim hagstætt hverju sinni. Í tilvikinu sem fjallað er um í erindi Persónuverndar þá sá starfsmaður Atlantsolíu um miðlun upplýsinga um afsláttarkjör samkvæmt samningi FÍB og Atlantsolíu til afmarkaðs hóps félagsmanna í FÍB. Þessi miðlun var unnin í samræmi við samkomulag félaganna og FÍB samþykkti þá kynningu. FÍB miðlaði eingöngu nöfnum og símanúmerum félagsmanna sem ekki höfðu pantað FÍB/Atlantsolíu-dælulykil hjá skrifstofu FÍB vegna þessa verkefnis. Eingöngu var notast við skráð símanúmer sem félagsmenn hafa gefið félaginu upp við skráningu eða í tengslum við þjónustu sem þeir hafa fengið sem félagsmenn. Engar aðrar persónulegar upplýsingar fóru til úthringistarfsmanns Atlantsolíu.

Samhliða kynningu á FÍB/Atlantsolíu-dælulykli var félagsmönnum boðin viðbótarkróna í afslátt á hvern eldsneytislítra fyrsta mánuðinn. Svo sem fram hefur komið ber félagsmaður engan kostnað þó hann fái til sín dælulykil óháð því hvort hann nýtir sér afsláttarkjörin eða ekki. FÍB telur réttlætanlegt í tilviki sem þessu að samningsaðili miðli upplýsingum til félagsmanna um afslátt af eldsneyti sem getur bætt hans hag. Jafnframt er ljóst að þessi framkvæmd er ekki íþyngjandi fyrir félagssjóð þar sem FÍB þarf ekki að bera kostnað af úthringingunni og getur þannig aukið við félagaþjónustuna án þess að hækka félagsgjöld.

Stjórn FÍB fellst ekki á það að frjáls félagasamtök geti ekki miðlað upplýsingum til félagsmanna sem tengjast yfirlýstum tilgangi og hlutverki þeirra. Félagsaðild að FÍB er valkvæð og félagið miðlar upplýsingum sem það telur félagsmönnum til hagsbóta og/eða efla almenna hagsmunagæslu fyrir hönd bifreiðaeigenda.

Í ljósi erindis Persónuverndar fyrir hönd A og með vísan í 5. mgr. 28. gr. laga nr. 77/2000, sér félagið að betur fari á því að upplýsingar af hálfu félagsins verði veittar undir stjórn þess sjálfs í framtíðinni og að félagaskrá verði samkeyrð með bannskrá [Þjóðskrár] svo ekki verði haft samband við þá sem óska þess ekki."

Með bréfi, dags. 27. september 2007, var málshefjanda boðið að tjá sig um framangreint bréf FÍB. Hann svaraði með bréfi, dags. 2. október s.á. Þar segir:

„Ég fæ ekki betur séð af bréfi FÍB en að þar sé staðfest, að í fyrsta lagi hafi félagið samið við Atlantsolíu h.f. um samstarf, sem felur í sér sérkjör í boði fyrir félagsmenn FÍB og í öðru lagi hafi FÍB afhent Atlantsolíu félagatal sitt svo Atlantsolíu gæfist tækifæri á að hafa beint og milliliðalaust samband við þá félagsmenn FÍB, sem ekki hefðu þegið boðið í því skyni að Atlantsolía gæti beitt þá fortölum eða ástundað milliliðalausa sölumennsku. Ég fæ því ekki betur séð, en FÍB viðurkenni brot á 5. mgr. 28. gr. laga nr. 77/2000 þó félagið beri því við að hafa aðeins miðlað upplýsingum til félagsmanna um sérkjör, sem félaginu er að sjálfsögðu fyllilega heimilt að gera t.d. fyrir tilverknað félagsbréfs, sem út er gefið á vegum FÍB og sent til allra félagsmanna – en við slíka kynningu gerði undirritaður engar athugasemdir. Sú skýring er enda aðeins ótilhlýðileg afsökun því í niðurlagi bréfsins telur félagið sjálft með vísan til umræddra laga að „betur fari á því að upplýsingar af hálfu félagsins verði veittar undir stjórn þess sjálfs í framtíðinni" og viðurkennir þar með að ekki hafi verið rétt að málum staðið.

Við þessa niðurstöðu félagsins gerir undirritaður því engar athugasemdir en bendir aðeins á, að einkar æskilegt er að fyrir liggi skýr afstaða Persónuverndar til þeirrar háttsemi FÍB, sem athugasemd mín beindist að, þannig að ljóst sé að slíkir starfshættir séu ekki í samræmi við ákvæði laga."

II.

Álit Persónuverndar

1.

Gildissvið laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, sbr. 1. mgr. 3. gr. þeirra laga, og þar með valdsvið Persónuverndar, sbr. 1. og 2. mgr. 37. gr. laganna, nær til sérhverrar rafrænnar vinnslu persónuupplýsinga, sem og handvirkrar vinnslu slíkra upplýsinga sem eru eða eiga að verða hluti af skrá. Persónuupplýsingar eru sérhverjar persónugreindar eða persónugreinanlegar upplýsingar, þ.e. upplýsingar sem beint eða óbeint má rekja til tiltekins einstaklings, látins eða lifandi, sbr. 1. tölul. 2. gr. laganna; og vinnsla er sérhver aðgerð eða röð aðgerða þar sem unnið er með persónuupplýsingar, hvort heldur sem vinnslan er handvirk eða rafræn, sbr. 2. tölul. 2. gr. Í athugasemdum við 2. tölul. 2. gr. í því frumvarpi, sem varð að lögum nr. 77/2000, kemur fram að hver sú aðferð, sem nota má til að gera upplýsingar tiltækar, telst til vinnslu. Af þessu öllu er ljóst að mál þetta lýtur að vinnslu persónuupplýsinga sem fellur undir valdsvið Persónuverndar.

2.

Í 28. gr. laga nr. 77/2000 er að finna reglur um vinnslu persónuupplýsinga við beina markaðssetningu. Í 2. mgr. er mælt fyrir um svonefnda bannskrá sem Þjóðskrá heldur, en óheimilt er að beina beinni markaðsetningu til einstaklinga sem látið hafa færa nafn sitt á þá skrá. Þeir sem stunda beina markaðssetningu skulu því ávallt bera útsendingarskrá saman við bannskrána til að girða fyrir að beinni markaðssetningu sé beint að þeim sem þar eru skráðir.

Þá er í 5. mgr. að finna sérstaka reglu um það hvenær heimilt sé að afhenda félaga-, starfsmanna- og viðskiptamannaskrár þriðja aðila til nota í tengslum við markaðssetningu. Þar segir að slíkt sé heimilt að því gefnu að:

ekki séu afhentar viðkvæmar persónuupplýsingar;

hinum skráðu sé veittur kostur á að andmæla því fyrir afhendinguna, hverjum fyrir sitt leyti, að upplýsingar um þá birtist á hinni afhentu skrá;

slíkt fari ekki gegn reglum eða samþykktum viðkomandi félags; og

kannað sé hvort einhver hinna skráðu hafi látið færa nafn sitt á bannskrá, en upplýsingum um viðkomandi skuli þá eytt áður en skráin er látin af hendi.

Í máli þessu liggur fyrir að persónuupplýsingar úr félagaskrá FÍB, þ.e. nöfn og símanúmer, voru afhentar Atlantsolíu hf. til að það fyrirtæki gæti notað þær til beinnar markaðssetningar gagnvart viðkomandi félagsmönnum, n.t.t. þeim sem ekki höfðu þegar nýtt sér tilboð til félagsmanna í FÍB um að fá dælulykil. Af bréfi FÍB til Persónuverndar, dags. 19. september 2007, verður ráðið að þeim hafi ekki verið veittur kostur á að andmæla því að þessar upplýsingar yrðu afhentar.

Slíkt hefði t.d. mátt gera með bréfi eða tölvubréfi til viðkomandi félagsmanna. Þar hefði orðið að koma fram hvert þeir skyldu snúa sér til að koma að andmælum. Ekki hefði mátt afhenda upplýsingar um þá sem hefðu nýtt þann rétt.

Þar sem þetta var ekki gert var afhending umræddra upplýsinga um félagsmenn í FÍB til Atlantsolíu óheimil.

Tekið skal fram, þar sem kvörtun málshefjanda lýtur einnig að notkun Atlantsolíu á umræddum upplýsingum, að ekki verður séð að hún hafi farið í bága við lög nr. 77/2000. Er þá litið til þess að ábyrgðin á því að veita kost á andmælum gegn afhendingu upplýsinga úr félagaskrá til nota við markaðssetningu hvílir á félaginu sjálfu en ekki viðtakanda skrárinnar.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Afhending Félags íslenskra bifreiðaeigenda á upplýsingum um nöfn og símanúmer félagsmanna til Atlantsolíu hf. til nota við beina markaðssetningu á dælulyklum, þ.e. til þeirra sem ekki höfðu nýtt sér tilboð til félagsmanna í FÍB um að fá slíka lykla, var óheimil.





Var efnið hjálplegt? Nei