Úrlausnir

Greiðslukvittanir frá Tryggingastofnun ríkisins vegna fylgdar í sjúkraflutningum

14.11.2007

1.

Vísað er til fyrri bréfaskipta af tilefni erindis Heilbrigðisstofnunarinnar Hvammstanga til Persónuverndar, dags. 4. júní 2007. Í bréfinu bendir heilbrigðisstofnunin Persónuvernd á að Tryggingastofnun ríkisins (TR) hefur sent inn á heimili hjúkrunarfræðings hjá heilbrigðisstofnuninni greiðslukvittanir vegna sjúkraflutnings þar sem í viðhengi koma fram nafn, kennitala og lögheimili þess sem fluttur var. Með bréfinu er hjálagt ljósrit af slíkri kvittun og sést þar að hún er fyrir greiðslu til viðkomandi hjúkrunarfræðings fyrir að hafa verið fylgdarmaður sjúklings við sjúkraflutning. Kemur fram að heilbrigðisstofnunin telur þetta fyrirkomulag ekki fullnægja þeim kröfum sem gera verði til verndar persónuupplýsinga og að fremur ætti að senda kvittanir til viðkomandi heilbrigðisstofnunar sem hefði þá milligöngu um að koma greiðslu til viðkomandi.

Persónuvernd bauð TR að tjá sig um þetta erindi með bréfi, dags. 25. júlí 2007. TR svaraði með bréfi, dags. 8. ágúst s.á. Með bréfi, dags. 31. s.m., var Heilbrigðisstofnuninni Hvammstanga boðið að tjá sig um það svar. Það gerði hún með bréfi, dags. 5. september s.á., og var TR boðið að tjá sig um það svar með bréfi, dags. 26. s.m.

Þar kom fram að málið yrði tekið fyrir á fundi stjórnar Persónuverndar hinn 5. október 2007. Á þeim fundi var málið rætt og taldi stjórnin þörf á að afla frekari skýringa frá TR. Var það gert með bréfi, dags. 15. s.m. Að auki var óskað tiltekinna skýringa frá TR með bréfi, dags. 23. s.m. Meðal þess sem óskað var skýringa á var hvort ekki kæmi til greina að sleppa persónuauðkennum á kvittunum sem sendar væru heim til fylgdarmanna við sjúkraflutning, sem og hvort til greina kæmi að kvittanir væru sendar til heilbrigðisstofnunar, sem falið hefði fylgdarmanni að fylgja sjúklingi, í stað þess að senda þær til viðkomandi fylgdarmanna sjálfra.

TR svaraði með bréfi, dags. 30. október 2007. Þar kemur fram að TR getur fallist á að nöfn og kennitölur sjúklinga komi ekki fram á umræddum greiðslukvittunum. Að auki segir að mögulegt sé að senda greiðslukvittanir til þeirra heilbrigðisstofnana sem óskað hafi eftir sjúkraflutningi í einstökum tilvikum þegar um sé að ræða starfsmenn þeirra. Þegar lögreglumenn eða sjúkraflutningamenn hafi veitt fylgd verði hins vegar að senda kvittanir heim til þeirra sjálfra.

Auk framangreinds sendi Persónuvernd Sjúkraflutningaráði bréf, dags. 15. október 2007, þar sem óskað var eftir afstöðu ráðsins til þess hvernig hátta skyldi sendingu greiðslukvittana til fylgdarmanna við sjúkraflutninga. Persónuvernd hefur nú borist svar ráðsins, dags. 7. nóvember 2007, þar sem segir að það telji greiðslur fyrir fylgd við sjúkraflutning eiga að fara í gegnum heilsugæslustöð á því svæði sem sjúkrabíllinn tilheyrir eða í gegnum þann aðila sem sér um rekstur viðkomandi sjúkrabíls. Sá aðili, sem taki við greiðslunni, muni síðan sjá til þess að koma henni áfram til viðkomandi starfsmanns án þess að nafn þess sem fluttur var komi fram.

2.

Í ljósi þess sem fram hefur komið af hálfu TR, þ.e. að ekki sé talin þörf á að hafa persónuauðkenni sjúklinga á greiðslukvittunum vegna sjúkraflutninga, sem og í ljósi framangreindrar afstöðu Sjúkraflutningaráðs, telur Persónuvernd ekki þörf á frekari umfjöllun um mál þetta að svo stöddu nema henni berist rökstudd beiðni þar að lútandi. Til þess kann hins vegar að koma síðar að stofnunin athugi framkvæmd TR á sendingu greiðslukvittana vegna sjúkraflutninga og hvort unnið sé í samræmi við þau sjónarmið sem lýst er í bréfi TR, dags. 30. október 2007.

Persónuvernd.





Var efnið hjálplegt? Nei