Úrlausnir

Birting upplýsinga um greiðslur TR til einstakra tannlækna, sem og um verð hjá einstökum tannlæknum, á heimasíðu stofnunarinnar

2.11.2007

Efni: Birting upplýsinga um greiðslur TR til einstakra tannlækna, sem og um verð hjá einstökum tannlæknum, á heimasíðu stofnunarinnar

1.

Vísað er til bréfs Tryggingastofnunar ríkisins (TR), dags. 28. september 2007, sem barst Persónuvernd hinn 8. október s.á. Í bréfinu segir:

„Það tilkynnist hér með að Tryggingastofnun ríkisins hyggst birta reglulega á heimasíðu stofnunarinnar upplýsingar um ýmsar greiðslur stofnunarinnar til tannlækna.

Eins og kunnugt er eiga sjúkratryggðir einstaklingar rétt á greiðsluþátttöku Tryggingastofnunar í kostnaði við tannmeðferð þegar um er að ræða börn og elli- og örorkulífeyrisþega og þegar um alvarlega sjúkdóma og slys er að ræða sbr. 38. og 42. gr. almannatryggingalaga nr. 100/2007 sem nánar er útfært í reglugerð nr. 576/2005. Þar sem tannlæknar eru ekki með samning við Tryggingastofnun greiðir stofnunin skv. gjaldskrá nr. 898/2002 sem sett er af ráðherra. Gjaldskrá tannlækna er hins vegar frjáls.

Þar sem verðlagning tannlækna er frjáls er mjög mismunandi hvað sjúklingar þurfa að greiða fyrir þjónustu þeirra. Til þess að stuðla að upplýsingum til sjúklinag voru árið 2004 settar reglur um verðupplýsingar um þjónustu tannlækna þar sem kveðið var á um að tannlæknar skyldu láta gjaldskrá sína liggja frammi á tannlæknastofum sínum og gera skriflega kostnaðaráætlun við fyrirhugaða meðferð muni hún fara yfir 100.000 kr. Því miður hafa tannlæknar ekki fylgt þessum reglum nema í litlum mæli.

Það er augljóslega mikið hagsmunamál fyrir almenning að fá að vita hvaða greiðslu tannlæknar krefjast fyrir þjónustu sína. Reynsla Tryggingastofnunar er sú að verðbil milli tannlækna getur hlaupið á tugum eða hundruðum þúsunda króna fyrir sambærilega þjónustu. Við núverandi fyrirkomulag eru sjúklingar algerlega óvarðir gagnvart slíku.

Tryggingastofnun greiðir tugi þúsunda tannlæknareikninga á ári hverju og er nú með gott tölvukerfi sem heldur utan um greiðslurnar. Það er því auðvelt fyrir stofnunina að fá ýmsar upplýsingar út úr kerfinu sem nýst gætu sjúklingum er þurfa tannmeðferðar við. Tryggingastofnun hefur því ákveðið að birta á heimasíðu stofnunarinnar ýmsar verðupplýsingar almenningi til hagsbóta.

Tryggingastofnun er fullljóst að ýmsar skýringar kunna að liggja að baki mismunandi gjaldtöku tannlækna fyrir að því er virðist sama verkið. Því mun stofnunin leitast við að birta aðeins marktækar samantektir og ávallt með þeim fyrirvara að um sambærileg verk sé að ræða og að fjárhæðir séu eingöngu unnar upp úr þeim gögnum sem stofnunin hefur undir höndum.

Hjálagðar eru samantektir um meðalkostnað Tryggingastofnunar vegna þjónustu einstakra tannlækna fyrir hvert barn sem þeir sinna sem Tryggingastofnun hyggst birta. Fyrirhugað er að uppfæra listann reglulega á heimasíðu TR. Fram kemur nafn tannlæknis og hvað Tryggingastofnun hefur greitt honum að meðaltali á barn á ákv. tímabili. Einnig sést fjöldi viðgerða hvers tannlæknis [vegna hvers barns], að meðaltali. Einnig er fyrirhugað að birta meðalverð tannlækna, eins og það birtist í reikningum sem Tryggingastofnun greiðir, á ákveðnum gjaldliðum. Í því tilviki verða nöfn tannlækna ekki birt en sjúklingar geta borið saman verð síns tannlæknis og meðalverð allra tannlækna. Loks hyggst Tryggingastofnun birta lista með nöfnum allra tannlækna, sem stofnunin hefur greitt reikninga frá, þar sem fram komi hversu langt yfir eða undir gjaldskrá ráðherra heildarupphæð reikninga viðkomandi tannlæknis hafa verið undanfarna 6-12 mánuði.

Eins og áður segir hyggst Tryggingastofnun birta umræddar upplýsingar á heimasíðu stofnunarinnar um miðjan október nk. komi ekki fram athugasemdir um annað frá móttakendum þessa bréfs fyrir þann tíma."

Með framangreindu bréfi fylgir viðauki þar sem skýrt er nánar hvaða upplýsingar fyrirhugað er að birta um verð tannlækna. Þar má sjá dæmi um hvernig upplýsingarnar eiga að birtast. Þá segir í upphafi viðaukans:

„#1 og 2

Í fyrsta lagi eru upplýsingar um hversu mikið það hefur kostað Tryggingastofnun að meðaltali fyrir hvert barn, á tilteknu ári, að einstakir tannlæknar sinni tannmeðferð barna. Listann má birta hvort heldur sem er, raðað í stafrófsröð eða verðröð. Mismunur á kostnaði TR samkvæmt þessum listum liggur ekki í mismunandi verði einstakra tannlækna heldur í mismunandi fjölda verka sem þeir veita börnum.

#3

Í öðru lagi er stuttur listi yfir helstu verkþætti sem stofnunin hefur greitt fyrir á tilteknu tímabili. Gefið verður upp meðalverð hvers verks fyrir sig eins og það er hjá öllum tannlæknum í heild. Almenningur getur þannig borið verð hjá sínum tannlækni við meðalverðið í landinu. Í stað bókstafa í fylgiskjali 3 kemur meðalverðið (sem nú er verið að reikna út).

#4

Loks er listi sem sýnir hversu mikið allir reikningar sem TR hefur greitt á tilteknu tímabili, frá hverjum tannlækni, víkja frá verði samkvæmt gjaldskrá nr. 898/2002 sem TR greiðir eftir. Þar getur almenningur séð hvernig verðlagningu einstakra tannlækna er almennt háttað. Í stað Sérfræðingar 1,2,3? og Almennir 1,2,3 o.s.frv., koma nöfn tannlæknanna."

2.

Þau lög, sem Persónuvernd starfar eftir og hefur það hlutverk að framfylgja, eru lög nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Þau lög gilda um það þegar unnið er með persónuupplýsingar, sbr. 3. gr. laganna, n.t.t. persónugreindar eða persónugreinanlegar upplýsingar um hinn skráða, þ.e. upplýsingar sem beint eða óbeint má rekja til tiltekins einstaklings, látins eða lifandi, sbr. 1. tölul. 2. gr. laganna.

Eins og að ofan greinir hyggst TR m.a. birta upplýsingar um meðalverð fyrir ákveðin verk hjá öllum tannlæknum. Þær upplýsingar teljast ekki til persónuupplýsinga. Að öðru leyti er hins vegar um að ræða slíkar upplýsingar, enda lúta þær að einstökum nafngreindum tannlæknum. Verður þá birting upplýsinganna að samrýmast ákvæðum laga nr. 77/2000, en það felur m.a. í sér að einhverju skilyrðanna í 8. gr. laganna þarf að vera fullnægt. Í þessu tilviki gæti helst átt við það skilyrði að vinnsla persónuupplýsinga sé nauðsynleg til að gæta lögmætra hagsmuna nema grundvallarréttindi og frelsi hins skráða (þ.e. viðkomandi tannlæknis) vegi þyngra, sbr. 7. tölul. 1. mgr. 8. gr. Við mat á því hvort heimilt sé að birta upplýsingar um greiðslur TR til einstakra tannlækna, sem og um verð hjá einstökum tannlæknum, þarf þannig að vega hagsmuni af birtingu slíkra upplýsinga andspænis hagsmunum af vernd persónuupplýsinga.

Þeir hagsmunir, sem TR hyggst gæta með birtingunni, eru hagsmunir foreldra og almennings. Persónuvernd telur hagsmuni af birtingu á upplýsingum um greiðslur TR til einstakra tannlækna geta átt undir framangreint ákvæði 8. gr. laga nr. 77/2000, enda er ljóst að þær koma til frádráttar því verði sem foreldrar verða að greiða tannlæknum vegna einstakra aðgerða. Hið sama telur Persónuvernd eiga við um birtingu upplýsinga um verð hjá einstökum tannlæknum. Í því sambandi skipta máli ákvæði laga nr. 57/2005 um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins. Í III. kafla þeirra, þ.e. 17.–19. gr., er fjallað um skyldu fyrirtækja til að hafa verð á vörum og þjónustu opinbert. Með fyrirtækjum í skilningi laganna er m.a. átt við einstaklinga sem stunda atvinnurekstur, sbr. 3. tölul. 3. gr.

Í framangreindum ákvæðum 17.–19. gr. laga nr. 57/2005 segir:

„17. gr. Fyrirtæki, sem selur vörur eða þjónustu til neytenda, skal merkja vöru sína og þjónustu með verði eða sýna það á svo áberandi hátt á sölustaðnum að auðvelt sé fyrir neytendur að sjá það. Neytendastofa getur sett nánari ákvæði um verðmerkingar með opinberri tilkynningu.

18. gr. Neytendastofa getur gefið fyrirtækjum sérstök fyrirmæli um að gera ráðstafanir til að auðvelda viðskiptavinum að meta verð og gæði. Fyrirmælin geta falist í skyldu til að tilgreina verð, viðskiptakjör, gæði og aðra eiginleika og hvernig vara skal mæld, vegin og flokkuð. Neytendastofa getur gefið slík fyrirmæli með opinberri tilkynningu.

19. gr. Í því skyni að upplýsa neytendur og efla verðskyn þeirra aflar Neytendastofa upplýsinga um verð, verðmyndun og önnur viðskiptakjör og birtir niðurstöður eftir því sem ástæða þykir til. Neytendastofa skal setja verklagsreglur um öflun slíkra upplýsinga, meðferð þeirra og birtingu."

Með vísan til framangreinds telur Persónuvernd ljóst að heimild til birtingar upplýsinga um verð á vörum og þjónustu sé rúm. Persónuvernd bendir hins vegar á að ef stjórnvöld hyggjast birta slíkar upplýsingar verður það að samrýmast hlutverki þeirra samkvæmt lögum. Samkvæmt framangreindu ákvæði 19. gr. laga nr. 57/2005 fellur það undir Neytendastofu að birta upplýsingar um verð, verðmyndun og önnur viðskiptakjör. Það er því álitamál hvort birting upplýsinga um verð hjá einstökum tannlæknum falli undir stjórnsýslulegt hlutverk TR eða hvort hún sé fremur í verkahring Neytendastofu.

Að lokum skal tekið fram að hér hefur ekki verið tekin endanleg og bindandi afstaða til þess álitaefnis hvort TR sé birting umræddra upplýsinga heimil, enda yrði Persónuvernd að geta tekið afstöðu til þess með hlutlausum hætti bærist henni erindi frá tannlækni sem teldi það brjóta gegn lögum nr. 77/2000.

 

Virðingarfyllst

f.h. forstjóra Persónuverndar

 

 

Þórður Sveinsson

lögfræðingur





Var efnið hjálplegt? Nei