Úrlausnir

Sýslumanni bar ekki að sjá til þess að upplýsingar um greiðslu skuldar bærust Lánstrausti

27.12.2006

Hinn 19. desember sl. gaf Persónuvernd frá sér álit í máli er varðaði meðferð sýslumannsins í Reykjavík á upplýsingum í tengslum við kröfu sem varð tilefni árangurslauss fjárnáms.

Málavextir voru þeir að hinn 20. september sl. gerði sýslumaðurinn í Reykjavík árangurslaust fjárnám í fyrirtækinu B. Krafan var greidd hinn 21. september en þó barst A bréf frá Lánstrausti hf., dags. næsta dag, með tilkynningu um að upplýsingar um fjárnámið yrðu færðar á vanskilaskrá að 14 dögum liðnum. Lánstraust hefur aðgang að upplýsingum um fjárnám í gegnum Tölvumiðstöð dómsmálaráðuneytisins.

A taldi að sýslumannsembættinu hefði borið að koma upplýsingum um greiðslu kröfunnar til Lánstrausts og kvartaði til Persónuverndar.

Í áliti Persónuverndar kemur fram að samkvæmt starfsleyfi Lánstrausts skuli fyrirtækið láta hinn skráða vita með 14 daga fyrirvara ef til stendur að færa upplýsingar um hann á vanskilaskrá. Þessi regla hafi þann tilgang að gera honum kleift að gæta hagsmuna sinna, s.s. greina frá því ef krafan er greidd, en þá er skráning upplýsinga um hana óheimil. Þannig sé byggt á því að hinn skráði geri sjálfur reka að því að gæta hagsmuna sinna í aðdraganda þess að upplýsingar eru færðar á vanskilaskrá.

Persónuvernd taldi því að það væri hvorki hlutverk stjórnvalds, sem gert hefði aðför hjá hinum skráða vegna vanskila á kröfu, né á þess færi að sjá til þess að upplýsingar væru ekki færðar á skrána þar eð krafan hefði verið greidd og taldi ekki tilefni til athugasemda við vinnslu sýslumannsembættisins í Reykjavík á upplýsingum í tengslum við kröfu á hendur B.

Álit

Hinn 19. desember 2006 gaf stjórn Persónuverndar svohljóðandi álit í máli nr. 2006/558:

 

I.

Bréfaskipti

1.

Hinn 16. október 2006 barst Persónuvernd tölvubréf frá A eiganda B ehf. (hér eftir nefndur „kvartandi“). Í tölvubréfinu segir:

 

„Hér með er þess óskað að Persónuvernd taki til skoðunar upplýsingagjöf opinberra aðila um fjárnám til þriðja aðila, s.s. Lánstrausts hf. eða annarra slíkra fyrirtækja. Vísað er til samskipta undirritaðs við Sýslumannsembættið í Reykjavík, sbr. tölvuskeyti frá undirrituðum dags. 05. okt. sl. og í dag og send voru „Cc“ á postur [hjá] personuvernd.is. Þess er vænst að undirritaður fái að lyktum upplýsingar um afgreiðslu málsins.“

 

Í framangreindu tölvubréfi til Sýslumannsembættisins í Reykjavík frá 5. október 2006 vísar kvartandi til þess að hinn 20. september s.á. hafi embættið gert árangurslaust fjárnám hjá B ehf. að kröfu Tollstjórans í Reykjavík. Hafi þá verið greint frá því af hálfu embættisins að upplýsingar um fjárnámið kæmu hvergi fram ef viðkomandi krafa væri greidd fyrir helgina 23. og 24. september. Þrátt fyrir að krafan hafi verið greidd hinn 21. s.m. hafi hins vegar borist bréf frá Lánstrausti hf., dags. næsta dag, með tilkynningu um að fyrirtækinu hafi borist tilkynning um fjárnámið og að upplýsingar um það verði færðar á vanskilaskrá að 14 dögum liðnum. Hins vegar hafi sýslumannsembættið látið hjá líða að senda upplýsingar um fjárnámið til Tollstjóra sem aftur hefði þá þurft að koma upplýsingum um greiðslu kröfunnar til Lánstrausts hf. Þessu næst segir: „Þetta þýðir að hefði undirrituðum af einhverjum ástæðum ekki borist bréf LT hf. í tíma væri fyrirtækið skráð í vanskilaskrá, sem er opin öllum, aðeins vegna vanrækslu embættis yðar.“

 

Sýslumannsembættið svaraði framangreindu erindi með tölvubréfi hinn 12. október 2006 og er þar ásökunum um vanrækslu mótmælt. Því tölvubréfi svaraði kvartandi með framangreindu tölvubréfi hinn 16. s.m. þar sem hann rökstyður mál sitt frekar.

 

2.

Með bréfi Persónuverndar, dags. 18. október 2006, var Sýslumannsembættinu í Reykjavík boðið að tjá sig um framangreint erindi kvartanda frá 16. s.m. Svarað var með bréfi, dags. 1. nóvember 2006. Þar segir:

 

„Eins og fram kemur í kvörtun kæranda, [A], þá var gert árangurslaust fjárnám hjá fyrirtækinu [B], að kröfu Tollstjórans í Reykjavík, við fyrirtöku málsins þann 20. september sl. Mætti kærandi f.h. gerðarþola samkvæmt boðunarbréfi sýslumanns sem birt var honum s[j]álfum þann 13. september sl. Við fyrirtöku málsins gat kærandi ekki bent á eignir til fjárnáms og lauk málinu því eins og áður sagði með árangurslausu fjárnámi.

 

Í kvörtun kæranda kemur fram að þær upplýsingar hafi verið gefnar af fulltrúa sýslumannsins í Reykjavík að fjárnámið kæmi hvergi fram ef viðkomandi greiddi kröfuna fyrir tiltekinn tíma. Það skal tekið fram að það er ekki hlutverk sýslumannsins í Reykjavík að ákveða hverjar eru afleiðingar árangurslauss fjárnáms. Árangurslaust fjárnám getur haft í för með [sér] viss réttaráhrif sem ákveðin[…] eru lögum samkvæmt. Það er gerðarbeiðandi í hverju tilviki sem tekur um það ákvörðun hvert verður framhald máls að loknu fjárnámi. Hafi kærandi misskilið leiðbeiningar sýslumanns að þessu leyti eða þær verið óljósar er það harmað og mun embættið árétta við sitt starfsfólk að þessar leiðbeiningar séu skýrar. Í erindi kæranda kemur og fram að embætti sýslumanns hafi látið hjá líða að senda upplýsingar um fjárnámið til Tollstjóra. Þetta er á misskilningi byggt þar sem fulltrúi Tollstjóra var að sjálfsögðu viðstaddur fjárnámið og það gert samkvæmt kröfu hans eins og lög gera ráð fyrir.

 

Hvað síðan gerðist í kjölfar fjárnámsins getur sýslumaður ekki sagt til um. Fjárnámið er skráð í aðfararkerfi embættisins eins og allar fjárnámsgerðir. Sýslumaður sendir ekki tilkynningu til Lánstrausts hf. um fjárnám. Lánstraust hf. mun hins vegar hafa aðgang að þessum upplýsingum í gegnum Tölvumiðstöð Dómsmálaráðuneytisins og er það ekki á færi sýslumanns að svara fyrir um notkun á þeim upplýsingum eða heimildir til að afla þeirra.

 

Þær upplýsingar sem kærandi fær í tölvubréfi 12. október sl. frá fulltrúa sýsluma[n]ns sem framkvæmdi fjárnámið […] eru byggðar á þekkingu fulltrúans á þessu ferli eftir að málum er lokið með þeim hætti sem hér um ræðir. Fulltrúinn er með þessu tölvubréfi að svara erindi kæranda til sýsluma[n]ns frá 5. október sl. eftir sinni vitneskju en ekki vegna þess að sýslumaður hafi um það að segja hvernig upplýsingar um árangurslaus fjárnám eru notaðar eða geti haft áhrif á það, sbr. það sem að framan hefur verið rakið.“

 

3.

Með bréfi, dags. 6. nóvember 2006, kynnti Persónuvernd kvartanda framangreint bréf Sýslumannsembættisins í Reykjavík, auk þess sem honum var kynnt lagaumhverfi vanskilaskrár, þ. á m. heimildir til öflunar upplýsinga í skrána. Var tekið fram að teldi hann skýringar stofnunarinnar og Sýslumannsembættisins ekki fullnægjandi þyrfti afstaða hans þar að lútandi að berast fyrir tiltekinn tíma; ella mætti vænta þess að málinu yrði lokað. Í framhaldinu barst Persónuvernd bréf frá honum, dags. 21. nóvember 2006, en þar segir:

 

„Nokkurs misskilnings virðist gæta um efni kvörtunar. Umkvörtun undirritaðs lýtur ekki að því að upplýsingar um fjárnámið hafi verið gefnar, heldur að meðferð upplýsinganna.

 

Kjarni þessa máls er eftirfarandi:

 

Sýslumaður gerir fjárnám hjá fyrirtæki undirritaðs.

Þriðji aðili fær upplýsingar um fjárnámið og sendir undirrituðum bréf um væntanlega birtingu upplýsinganna eftir 14 daga frest þrátt fyrir að skuld við gerðarbeiðanda hafi verið greidd skömmu eftir fjárnámið.

Rétt fyrir lok 14 daga frestsins hafa umræddum þriðja aðila engar upplýsingar borist, hvort frá gerðarbeiðanda né sýslumanni, um að skuldin hafi verið greidd.

Í þessu tilfelli voru gerðarþola gefnar rangar upplýsingar við fjárnámið, sem er slæmt en þó aukaatriði, en stjórnsýsluaðili lét undir höfuð leggjast að koma upplýsingum um lúkningu málsins til nefnds þriðja aðila.

 

Stjórnsýslan veitir þriðja aðila þessar upplýsingar OG þarf óhjákvæmilega að staðfesta við þennan sama þriðja aðila að málinu sé lokið. Því virðist augljóst að stjórnsýslan og aðeins stjórnsýslan verður að loka hringnum - án þess að gerðarþoli komi þar nokkuð nærri.

 

Að öllu samanlögðu virðist mér að mál þetta snúi beint að Persónuvernd; að sjá til þess að meðferð þessara upplýsinga sé með þeim hætti að einstaklingar og fyrirtæki verði ekki fyrir skaða að óþörfu. Bréf frá LT hf., sem auðveldlega getur misfarist, er ekki nægileg trygging fyrir því að skráning/birting sé stöðvuð þegar við á, auk þess að augljóst virðist að það geti ekki verið á ábyrgð gerðarþola að sjá til þess. Skýrt þarf að vera hvaða stjórnsýsluaðili beri ábyrgð á því að koma viðeigandi upplýsingum til skráningaraðila. Í þessu tilfelli vísar hver á annan. Óeðlilegt er að utanaðkomandi aðilar hafi opinn og sjálfkrafa aðgang að upplýsingum um fjárhagsmálefni einstaklinga og fyrirtækja án þess að tryggt sé að þær séu réttar á hverjum tíma.“

 

II.

Álit Persónuverndar

Í 2. mgr. 45. gr. laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga er mælt fyrir um heimild dómsmálaráðherra til að setja reglugerð um heimild til söfnunar og skráningar upplýsinga sem varða fjárhagsmálefni og lánstraust fyrirtækja, svo og annarra lögaðila, í því skyni að miðla til annarra upplýsingum um það efni. Þessa heimild hefur ráðherra nýtt til setningar reglugerðar nr. 246/2001 um söfnun og miðlun upplýsinga um fjárhagsmálefni og lánstraust. Í 2. gr. reglugerðarinnar er mælt fyrir um að slík starfsemi skuli háð leyfi frá Persónuvernd. Með vísan til þess hefur stofnunin veitt Lánstrausti hf. leyfi til starfrækslu vanskilaskrár með upplýsingum um fjárhagsmálefni og lánstraust lögaðila, nú síðast 1. september 2006.

 

Samkvæmt starfsleyfinu hefur Lánstraust hf. m.a. rétt til aðgangs að upplýsingum um árangurslaus fjárnám, sbr. 2. tölul. b-liðar 2. gr. leyfisins. Eftir öflun upplýsinga þar að lútandi ber Lánstrausti hf., sem endranær, að láta hinn skráða vita af upplýsingaöfluninni 14 dögum áður en upplýsingum er miðlað í fyrsta sinn, sbr. 2. mgr. 21. gr. laga nr. 77/2000, sbr. og 1. mgr. greinar 7.1 í starfsleyfinu. Svo að tryggt sé að þetta sé virt verður í framkvæmd að senda hinum skráða slíka tilkynningu í það minnsta 14 dögum áður en upplýsingarnar eru færðar á vanskilaskrá, enda verða þær þá aðgengilegar öllum áskrifendum að þeirri skrá.

 

Reglan um að hinn skráði skuli látinn vita með 14 daga fyrirvara um miðlun upplýsinga um fjárhagsmálefni og lánstraust hefur þann tilgang að gera honum kleift að gæta hagsmuna sinna, s.s. greina frá því ef krafan er greidd, en þá er skráning upplýsinga um hana óheimil, sbr. 1. mgr. 5. gr. framangreinds starfsleyfis. Eins og sjá má af þessu er á því byggt að hinn skráði geri sjálfur reka að því að gæta hagsmuna sinna í aðdraganda þess að upplýsingar eru færðar á vanskilaskrá.

 

Að framansögðu athuguðu, og í ljósi þess hvernig mál þetta er vaxið, er það því hvorki hlutverk stjórnvalds, sem gert hefur aðför hjá hinum skráða vegna vanskila á kröfunni, né á þess færi að sjá til þess að upplýsingar séu ekki færðar á skrána þar eð krafan hafi verið greidd.

 

Í ljósi framangreinds telur Persónuvernd ekki annað hafa komið fram en að vinnsla persónuupplýsinga í tengslum við umrædda kröfu hafi verið lögum samkvæm.

 

 

Á l i t s o r ð:

 

Ekki er tilefni til athugasemda við vinnslu sýslumannsembættisins í Reykjavík á persónuupplýsingum í tengslum við kröfu á hendur B ehf., sem varð tilefni árangurslauss fjárnáms hjá því félagi hinn 20. september 2006, í ljósi ákvæða laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.

 

 

Reykjavík, 19. desember 2006

Var efnið hjálplegt? Nei