Úrlausnir

Miðlun upplýsinga til fjármálafyrirtækja um framvísun falsaðrar bankaábyrgðar og handtöku

22.12.2006

Hinn 19. desember sl. kvað Persónuvernd upp úrskurð um lögmæti miðlunar Glitnis, áður Íslandsbanka, og SBV á persónuupplýsingum til annarra fjármálafyrirtækja í tengslum við atburði í Íslandsbanka hinn 19. janúar sl.

Hinn 19. desember sl. kvað Persónuvernd upp úrskurð um lögmæti miðlunar Glitnis, áður Íslandsbanka, og SBV á persónuupplýsingum til annarra fjármálafyrirtækja í tengslum við atburði í Íslandsbanka hinn 19. janúar sl.

Málsatvik voru þau að í janúarbyrjun á þessu ári hafði maður samband við Glitni banka (þá Íslandsbanka) með það fyrir augum að selja bankanum, fyrir hönd annars aðila, bankaábyrgð að upphæð 60 milljón evrur. Í ljós kom að bankaábyrgðin var fölsuð og í kjölfarið, eða hinn 19. janúar, voru hann og tveir viðskiptafélagar hans handteknir í Íslandsbanka. Hinn 20. janúar sendi regluvörður Íslandsbanka tölvubréf til SBV þar sem hann upplýsti um þessa atburði og varaði aðrar fjármálastofnanir við því að eiga viðskipti við mennina. SBV framsendi tilkynninguna til fulltrúa annarra fjármálafyrirtækja sem hafa með öryggismál að gera.

Í héraðsdómi Reykjavíkur var kröfu um farbann yfir mönnunum hafnað. Mál þeirra var fellt niður hjá lögreglu hinn 29. júní sl. þar sem ekki lágu fyrir gögn sem gerðu það líklegt að viðkomandi hefðu haft vitneskju um að skjalið væri falsað.

Einn mannanna kvartaði til Persónuverndar og krafðist úrskurðar um lögmæti upplýsingamiðlunar Glitnis og SBV, auk þess að krefjast þess að upplýsingunum yrði eytt.

 

Í niðurstöðu Persónuverndar kemur fram að í tilkynningunni sem um ræðir hafi verið upplýsingar um að bankaábyrgð sem kvartandi og viðskiptafélagar hans reyndu að koma í verð hefði reynst fölsuð, að þeir hefðu verið handteknir, að óskað yrði eftir gæsluvarðhaldi yfir þeim og að önnur skjöl hefðu fundist í fórum þeirra.

 

Persónuvernd taldi að upplýsingar um það eitt að tiltekinn einstaklingur hefði framvísað falsaðri bankaábyrgð eða haft skjöl í fórum sínum fælu ekki í sér upplýsingar um hvort viðkomandi einstaklingur væri grunaður um refsiverðan verknað eða hefði gerst brotlegur við lög. Upplýsingar um að tiltekinn einstaklingur hefði verið handtekinn í tengslum við slíkt bæru hins vegar með sér að sá einstaklingur væri grunaður um refsiverðan verknað, enda væri það skilyrði handtöku að rökstuddur grunur léki á broti sem sætt gæti ákæru.

 

Með vísan til þessa taldi Persónuvernd að upplýsingar í umræddri tilkynningu um handtöku kvartanda teldust viðkvæmar persónuupplýsingar í skilningi b-liðar 8. tölul. 2. gr. laga nr. 77/2000, en að aðrar upplýsingar í tilkynningunni hins vegar ekki.

 

Með hliðsjón af því að í málinu voru uppi sérstakar aðstæður, að um háar fjárhæðir var að ræða, og að tilkynningin sem um ræðir var send í varúðarskyni og eingöngu til tengiliða fjármálafyrirtækja sem hafa eftirlit með öryggismálum var talið að hagsmunir fjármálafyrirtækjanna af upplýsingum um að kvartandi hefði framvísað falsaðri bankaábyrgð og haft fleiri skjöl í fórum sínum hefðu vegið þyngra en hagsmunir kvartanda af því að þær yrðu ekki sendar. Var m.a. bent á að fjármálafyrirtæki kynnu að vilja kanna falsleysi annarra skjala sem kvartandi hefur framvísað, án þess þó að hann lægi endilega undir grun um að hafa vitneskju um fals eða falsleysi slíkra skjala.

 

Í lögum eru hins vegar gerðar strangari kröfur til miðlunar viðkvæmra persónuupplýsinga og var því talið að miðlun upplýsinga um handtöku kvartanda hefði þurft að eiga sér lagastoð. Slík lagastoð var ekki fyrir hendi og var því miðlun þeirra upplýsinga talin óheimil.

 

Ekki var fallist á kröfu kvartanda um eyðingu upplýsinganna þar sem Glitni og SBV kynni að vera þörf á að varðveita tilkynninguma ef til málshöfðunar af hálfu kvartanda kæmi.

 

Niðurstaðan varð því sú að miðlun Glitnis, áður Íslandsbanka, til SBV á upplýsingum um að kvartandi hefði framvísað falsaðri bankaábyrgð og haft fleiri skjöl í fórum sínum hefði verið heimil. Miðlun upplýsinga á milli sömu aðila um handtöku kvartanda hefði hins vegar verið óheimil. Sama gilti um miðlun sömu upplýsinga á milli SBV og annarra fjármálafyrirtækja. Ekki var fallist á eyðingu upplýsinganna.

 

Niðurstaðan er birt í heild sinni hér.




Var efnið hjálplegt? Nei