Úrlausnir

Afhending skattframtala til lífeyrissjóðs

8.12.2006

Hinn 30. nóvember sl. kvað Persónuvernd upp úrskurð í máli sem varðaði afhendingu skattframtala til lífeyrissjóðs.

Hinn 30. nóvember sl. kvað Persónuvernd upp úrskurð í máli sem varðaði afhendingu skattframtala til lífeyrissjóðs.

A kvartaði yfir því að skattstofan í Reykjavík hefði afhent lífeyrissjóði skattframtöl hans. Tilefni kvörtunarinnar var ákvörðun fjórtán lífeyrissjóða hinn 1. ágúst 2006 um skerðingu eða niðurfellingu lífeyrisgreiðslna til þeirra öryrkja sem hefðu þá hærri árstekjur en þeir höfðu fyrir þann tíma sem þeir voru metnir til örorku.

A hafði skrifað undir svohljóðandi samþykki árið 1992: „Heimila sjóðsstjórn að fá afrit af skattframtölum mínum hjá skattstjóra, sem farið verður [með] sem trúnaðarmál.“ Hann taldi sig hins vegar aðeins hafa veitt lífeyrissjóðnum heimild til að afla skattframtala sem nauðsynleg voru til að afgreiða umsókn hans, en ekki til aðgangs að skattframtölum „um aldur og ævi.“

Kvartandi hafði sjálfur afhent skattskýrslur fyrir árin 1987 til 1991 með umsókn sinni um lífeyrisgreiðslur. Persónuvernd fjallaði því aðeins um lögmæti upplýsingamiðlunar frá árunum 1992 til 2005.

Í niðurstöðu Persónuverndar kemur fram að upplýsingar um fjárhagsmálefni teljist ekki til viðkvæmra persónuupplýsinga í skilningi laga um persónuvernd. Því nægi almennt að afla svokallaðs „ótvíræðs samþykkis“ og nægi í vissum tilvikum að samþykki sé gefið til kynna með látbragði eða í verki. Hins vegar þurfi samþykki að vera öllu skýrara en það þegar unnið er með upplýsingar úr skattskýrslum.

Litið var til þess að á umsóknareyðublaði því sem kvartandi ritaði undir hinn 5. júní 1992 kom ótvírætt fram hvaða upplýsinga afla ætti, auk þess sem talið var honum hefði mátt vera kunnugt um í hvaða tilgangi upplýsinganna væri aflað, þ.e. til þess að meta fjárhæð lífeyrisgreiðslna.

Persónuvernd taldi því kröfum til skýrleika samþykkis vera fullnægt og að kvartandi hefði veitt samþykki, í skilningi 1. tölul. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 77/2000, fyrir umræddri öflun skattskýrslna og upplýsinga úr skattskýrslum hjá skattstofunni í Reykjavík að því marki sem slík upplýsingaöflun samrýmdist tilgangi starfsemi sjóðsins. Þá var ekki talið að umrædd upplýsingamiðlun hefði brotið í bága við 7. gr. laga nr. 77/200.

Sérstaklega var tekið fram að úrlausn ágreinings um hvort tilgangur upplýsingaöflunarinnar hafi verið málefnalegur í ljósi eignaréttarákvæðis 72. gr. stjórnarskrárinnar og ákvæði 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar um rétt manna til aðstoðar vegna örorku eða sjúkleika heyrir ekki undir Persónuvernd. Hins vegar gætu dómstólar skorið úr um slík atriði.

Úrskurðurinn er birtur í heild sinni hér.




Var efnið hjálplegt? Nei