Úrlausnir

Eftirlit sýslumannsembættisins á Keflavíkurflugvelli með innflutningi flugliða á vörum inn í landið

3.11.2006

Hinn 23. október sl. komst Persónuvernd að niðurstöðu um eftirlit sýslumannsembættisins á Keflavíkurflugvelli með innflutningi flugliða á vörum inn í landið.

Hinn 23. október sl. komst Persónuvernd að niðurstöðu um eftirlit sýslumannsembættisins á Keflavíkurflugvelli með innflutningi flugliða á vörum inn í landið.

A kvartaði yfir því að á eyðublaðinu „Komuskýrsla/Brottfararskýrsla" sem flugliðum ber að skila til tollvarða við komu loftfars til Íslands væri ekki einungis beðið um upplýsingar um magn áfengis og tóbaks sem flutt væri til landsins, heldur þyrfti einnig að tilgreina nákvæmlega tegund, magn og tölu annarrar vöru.

Hann kvartaði einnig yfir því að flugliðar væru beðnir um að slá svonefnda einkennisstafi, þ.e. stafi, sem notaðir eru til auðkenningar þeirra innan flugfélags, fyrir framan undirskrift sína. Einkennisstafirnir væru því næst slegnir inn í tölvukerfi tollyfirvalda til þess að unnt væri að reikna út fjölda klukkustunda frá því að flugliði kom síðast til landsins og væri þannig fylgst með ferðum flugliða.

Litið var til þess að í tollalögum er kveðið á um að öllum sé skylt að láta tollstjóra í té allar nauðsynlegar upplýsingar og gögn sem hann fari fram á og snerta innflutning vöru eða sendingar. Þá væri í reglugerð um tollmeðferð vara sem ferðamenn og farmenn hafa með sér til landsins, kveðið á um að ferðamenn og farmenn skuli ekki njóta undanþágu frá aðflutningsgjöldum oftar en einu sinni á hverjum 72 klukkustundum og það væri með vísan til þessarar reglu sem einkennisstafir flugliða væru skráðir í tölvukerfi tollgæslunnar á Keflavíkurflugvelli, þ.e. til að kanna hvort nægilega langt sé um liðið frá síðustu ferð til að viðkomandi njóti undanþágu frá tollskyldu. Umrædd vinnsla persónuupplýsinga var því talin heimil.

Þá var talið að varðveislutími upplýsinganna væri málefnalegur, en fram hafði komið að þær upplýsingar um áhafnarmeðlimi sem skráðar væru í tölvukerfi tollgæslunnar á Keflavíkurflugvelli, þ. á m. einkennisstafir þeirra, tengdust aðeins síðustu ferð þeirra en eldri upplýsingum væri eytt og að upplýsingum sem skráðar væru á pappír væri eytt þegar málum sem þær tengjast væri lokið.

Einnig var talið að tilgangurinn með vinnslu upplýsinganna væri skýr, yfirlýstur og málefnalegur, enda lá ekki fyrir að upplýsingarnar væru nýttar til annars en hefðbundins tolleftirlits. Í ljósi rúmra heimilda tollyfirvalda að lögum voru umræddar upplýsingar ekki taldar vera umfram það sem eðlilegt má telja í þágu tolleftirlits

Niðurstaða Persónuverndar var því sú að ekki lægi fyrir að vinnsla sýslumannsembættisins á Keflavíkurflugvelli á persónuupplýsingum um innflutning kvartanda á vörum inn í landið væri í ósamræmi við ákvæði laga nr. 77/2000.

Niðurstöðuna má lesa í heild hér.
Var efnið hjálplegt? Nei