Úrlausnir

Eftirlit með innflutningi flugliða

23.10.2006

Efni: Vinnsla persónuupplýsinga í þágu eftirlits með því að varningur, sem flugliðar flytja inn til landsins án þess að aðflutningsgjöld séu greidd, sé innan leyfilegra marka

I.

Bréfaskipti

Persónuvernd vísar til fyrri bréfaskipta af tilefni tölvubréfs A (hér eftir nefndur „kvartandi") frá 12. apríl 2006 þar sem í viðhengi er gerð athugasemd við eyðublaðið „Komuskýrsla/Brottfararskýrsla" sem flugliðum ber að skila til tollvarða við komu loftfars til Íslands. Er þar beðið um upplýsingar um magn áfengis og tóbaks sem viðkomandi flugliði flytur inn til landsins, sem og „[a]ðrar vörur þar sem tilgreina skal nákvæmlega tegund vöru, magn eða tölu. Annað ófullnægjandi."

Einnig gerir kvartandi athugasemd við eftirfarandi framkvæmd: Flugliðar séu beðnir um að slá svonefnda einkennisstafi, þ.e. stafi, sem notaðir eru til auðkenningar þeirra innan flugfélags, fyrir framan undirskrift sína. Einkennisstafirnir séu því næst slegnir inn í tölvukerfi tollyfirvalda. Með þessu sé unnt að reikna út fjölda klukkustunda frá því að flugliði kom síðast til landsins og sé þannig fylgst með ferðum flugliða.

Telur kvartandi að með þessu hvoru tveggja sé gengið nær friðhelgi einkalífs en góðu hófi gegni og óskar þess að Persónuvernd fjalli um málið. Um þetta segir nánar í erindi kvartanda:

„Undirritaður vill gera athugasemd við Komuskýrslu/brottfararskýrslu, sem skila ber til tolleftirlitsaðila við komu loftfars til Íslands. Á bakhlið skýrslunnar, er ber titilinn "SKRÁ – LIST" og merkt er "Afgreiðslublað nr.14 Áhafnarlisti" efst í vinstra horni, ber flugstjóra og öðrum áhfafnameðlimum að staðfesta með undirskrift eftirfarandi atriði:

Stöðu (Duties on board)

Magn sterks áfengis í lítrum (Spirits Litres)

Magn annars áfengis í lítrum (Wine Litres)

Magn öls yfir 2.25% áfengismagni í lítrum (Strong beer Litres)

Stykkjafjölda vindlinga eða magn annars tóbaks (Cigarettes pcs. / other tob.)

Stykkjafjölda vindla (Cigars pcs.)

Aðrar vörur þar sem tilgreina skal nákvæmlega tegund vöru, magn eða tölu. Annað ófullnægjandi.

Ég vil gera sérstaka athugasemd við síðasta lið skýrslunnar, feitletraðan hér að ofan. Samkvæmt lögum má áhafnarmeðlimur sem kemur til landsins nýta sér tollheimild á 72ja klukkustunda fresti, sem heimilar niðurfellingu tolla og tengdra gjalda upp að ákveðinni fjárhæð. Sama gildir um almenna farþega þó heimild þeirra sé rýmri. En það að áhafnarmeðlimur skuli þurfa að gera nákvæma grein fyrir því hvernig hann kýs að nýta þá heimild sem honum er úthlutuð, tel ég stinga í meira lagi í stúf. Ég tel verulega vegið að friðhelgi einkalífs að yfirvöld geymi í 6 ár[…] nákvæma skriflega lýsingu (tegund og magn) þess varnings sem viðkomandi áhafnarmeðlimur ber til landsins hverju sinni. Skýrsla þessi og upplýsingarnar sem á henni koma fram eru aðgengilegar öllum öðrum meðlimum viðkomandi áhafnar og flugstjóra, [öllum] tollv[örðum] og líkleg[…]a [öllum] starfsm[önnum] tollstjóraembættisins sem vilja láta sig málið varða. Að minnsta kosti eru engar vísbendingar um annað.

Eftir því sem ég kemst næst þurfa aðrir þegnar landsins, t.d. skipverjar ekki að gera varningi sínum jafn ítarleg skil þar sem á komuskýrslu þeirra er aðeins […] farið fram á samtölu innkaupsverðs annars varnings en áfengis, tóbaks og matvæla.

Fyrir utan ofangreint er áhafnameðlimum uppálagt af tollvörðum að "skrifa stafina" fyrir framan undirskrift sína eins og þeir hafa komist að orði. Hér eiga þeir við einkennisstafi starfsmanns sem vinnuveitandi gefur viðkomandi til auðkenningar innan fyrirtækisins sem hann eða hún vinnur hjá. Tollverðir slá svo stafi þessa inn í tölvu sem reiknar út fjölda klukkustunda frá síðustu komu starfsmannsins til landsins. Engar reglur eða lög virðast [búa] að baki þessu "heimatilbúna" kerfi sem gerir yfirvöldum kleift að fylgjast með ferðum áhafnameðlima ekki síður en því sem þeir kunna að kaupa í útlöndum. Ég tel í hæsta máta óeðlilegt að íslenska ríkið geti fært sér í nyt með þessum hætti, auðkenningarkerfi starfsmanna einkarekins fyrirtækis í landinu í þeim tilgangi að fylgjast með ferðum þess einstaklings og skrá niður neyslu hans í ofanálag.

Nefna má í þessu samhengi að þeim fer mjög fjölgandi sem ferðast oft í viku sem farþegar til og frá landinu, t.d. vegna vinnu sinnar. Þeir einstaklingar eru ekki skyldugir til að skila inn skriflegum yfirlýsingum um varning sem þeir hafa í fórum sínum heldur er treyst til að hafa kynnt sér reglur og lög landsins er þetta varðar og sæta almennu eftirliti. Líklega þætti þeim sem öðrum farþegum nóg komið ef yfirvöld færu fram á að þeir skiluðu inn álíka greinargerð og áhöfnum er uppálagt að gera við komu til landsins. Mismunun er því orðið sem manni dettur fyrst í hug varðandi þetta atriði og á það e.t.v.ekki síður heima inni á borðinu hjá Jafnréttisráði.

Það skal tekið fram að eðli málsins samkvæmt leggja flugfélög jafnan ríka áherslu á að kynna áhafnameðlimum þær reglur og lög sem við eiga.

Hér er því annað dæmi um að yfirvöld gangi nær friðhelgi einkalífs einstaklinga en góðu hófi gegnir og ég vil gera athugasemd við.

Að lokum vil ég taka fram að ég átta mig á því að yfirvöld hafa heimildir til að sjá til þess að lögum um tolla og innflutning varnings til landsins sé framfylgt og hafa til þess ýmsar aðferðir eins og að opna töskur, vigta matvæli og leita af sér grun er kann að vakna um ólöglegt athæfi eða við reglubundið eftirlit. Það hljóta þó að vera takmörk fyrir því hversu langt er hægt að ganga í öflun og meðferð persónulegra upplýsinga og tel ég þau tvö atriði sem ég hef hér lýst þarfnast frekari athugunar með hliðsjón af persónuvernd og friðhelgi einkalífs.

Ég óska hér með eftir að Persónuvernd taki málið að sér."

Með bréfi, dags. 16. júní 2006, bauð Persónuvernd sýslumannsembættinu á Keflavíkurflugvelli að tjá sig um framangreint erindi. Svarað var með bréfi, dags. 3. júlí 2006. Þar segir:

„Meginregla tollalaga nr. 88, 2005 er að hver sá sem flytur vörur til landsins þarf að greiða af þeim toll sbr. 3. gr. laganna, þ.e. þeim er heimilt að hafa með sér varning hingað til lands eða kaupa í tollfrjálsri verslun hér á landi að tilteknu hámarki sem ráðherra ákveður í reglugerð.

Í 8. gr. reglugerðar nr. 526/2000 um tollmeðferð vara sem ferðamenn og farmenn hafa með sér við komu til landsins kemur fram að ferðamenn og farmenn skulu ekki njóta undanþágu frá aðflutningsgjöldum oftar en einu sinni á hverjum 72 klukkustundum.

Við komu flugáhafna til landsins þurfa þær að skrá niður nöfn sín ásamt þeim varning sem að fluttur er inn til landsins á þar til gerða skýrslu sbr. 3. mgr. 30. gr. tollalaga og jafnframt gefa upp hvort að heimildin hafi verið nýtt innan síðustu 72 tíma sbr. 8. gr. rgl. 526/2000. Þessar upplýsingar eru síðan afhentar Tollgæslunni og eru upphafsstafir viðkomandi áhafnarmeðlima færðir inn í tölvukerfi Tollgæslunnar til þess að staðfesta að viðkomandi hafi heimild skv. 8. gr. regl. 526/2000 til tollfrjálsrar verslunar. Verður að taka fram að einungis síðasta ferð viðkomandi geymist í tölvukerfinu og engar upplýsingar eru skráðar um tollfrjálsan varning sem viðkomandi hefur meðferðis. Eingöngu er sleginn inn lendingartími viðkomandi. Hafi viðkomandi ekki meðferðis tollfrjálsan varning er ekkert slegið inn í forritið. Lögmæti framangreindrar skráningar á sér stoð í 3. tl., 6. tl. og 7. tl. 1. mgr. 8. gr. og 7. tl. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 77, 2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Þá ber að virða meginreglur 7. gr. laganna, þ.m.t. að upplýsingar skuli fengnar í yfirlýstum, skýrum og málefnalegum tilgangi, vera nægilegar, viðeigandi og ekki umfram það sem að nauðsynlegt er miðað við tilgang vinnslunnar og varðveittar í því formi að ekki [sé] unnt að bera kennsl á hinn skráða lengur en þörf krefur miðað við tilgang vinnslunnar. Vegna tíðra ferða áhafnarmeðlima þá verður að telja að sérstakt eftirlit með þeim eigi sér yfirlýstan, skýran og málefnalegan tilgang. Hvað varðar skýrslurnar sjálfar þá hefur Tollgæslan þær aðeins eins lengi undir höndum sem að nauðsyn ber til. Við skráningu í tölvukerfi er alltaf möguleiki […] á mistökum. Ef að slíkt atvik k[emur] upp þá er nauðsynlegt að hafa frumritin, en eftir að málum hefur verið lokið þá er skýrslunum eytt. Verður að telja að þetta uppfylli skilyrði meginreglna 7. gr. laganna, þ.e. að ekki sé aflað of mikill[a] upplýsinga eða þær séu varðveittar of lengi.

Að öðru leyti vísast til álits Persónuverndar (Tilv. 2003040251) í bréfi dags. 9. janúar 2004 (ranglega dagsett 2003) í sambærilegu kvörtunarmáli."

Í því bréfi Persónuverndar, sem getið er í niðurlagi framangreinds bréfs sýslumannsembættisins á Keflavíkurflugvelli, er m.a. fjallað um hvort lögmætt sé að skrá upplýsingar um áhafnarmeðlimi í því skyni að kanna hvenær viðkomandi kom síðast til landsins og með hvað. Vísaði Persónuvernd þar til 20. gr. þágildandi tollalaga nr. 55/1987 þar sem mælt var fyrir um eftirlit tollyfirvalda með því að varningur, sem fluttur væri inn til landsins án þess að aðflutningsgjöld væru greidd, væri innan leyfilegra marka. Með vísan til þess ákvæðis, sem og framangreindra ákvæða laga nr. 77/2000 og 8. gr. reglugerðar nr. 526/2000 um tollmeðferð vara, sem ferðamenn og farmenn hafa með sér við komu til landsins, áleit Persónuvernd að á það mætti fallast að vegna tíðra ferða áhafnarmeðlima ætti sérstakt eftirlit með þeim umfram aðra farþega sér yfirlýstan, skýran og málefnalegan tilgang. Með vísan til þess sem fram hafði komið í skýringum sýslumannsembættisins, sbr. einnig framangreint bréf þess um að einungis væru varðveittar upplýsingar um síðustu ferð, sem og að í tölvukerfi þess væru ekki skráðar upplýsingar um tollfrjálsan varning, taldi Persónuvernd að ekki yrði séð að of mikilla upplýsinga væri aflað eða þær varðveittar of lengi.

Með bréfi, dags. 6. júlí 2006, bauð Persónuvernd kvartanda að tjá sig um framangreint bréf sýslumannsembættisins á Keflavíkurflugvelli í ljósi þeirrar úrlausnar stofnunarinnar sem lýst er hér að ofan. Kvartandi svaraði með tölvubréfi hinn 13. s.m. þar sem í viðhengi eru gerðar athugasemdir við efni bréfsins. Í viðhenginu segir:

„Í framhaldi af bréfi sem barst mér frá Persónuvernd dags. 6. júlí 2006, ásamt fylgibréfi frá Sýslumanninum á Keflavíkurflugvelli dags. 3. júlí 2006, óska ég hér með eftir að Persónuvernd haldi áfram umfjöllun […] sinni um athugasemdir mínar sem fram komu í tölvupósti frá mér til Persónuverndar frá 12. apríl 2006.

Þrátt fyrir að Sýslumaðurinn á Keflavíkurflugvelli vitni í hin ýmsu lög í bréfi sínu máli sínu til stuðnings útskýrir hann ekki nema að litlu leyti hluta þeirra athugasemda er ég geri og óska ég eftir að Persónuvernd athugi hvort mögulegt sé að sum atriði þeirra laga sem bent er á, stangist á við núgildandi lög og reglur um persónuvernd og friðhelgi einkalífs.

Ég ítreka sérstaklega athugasemd mína um að flugliðum sé gert að útlista nákvæmlega með skriflegum hætti hvaða vörur eða hluti þeir kjósa að flytja með sér við komu til landsins, jafnvel þó ekki sé um tollskyldan varning að ræða. Ég vitna aftur í ofangreindan tölvupóst frá mér til Persónuverndar og minni á að upplýsingarnar eru aðgengilegar öllum öðrum meðlimum viðkomandi áhafnar, starfsmönnum tolleftirlits og líklega mun fleiri starfsmönnum ríkisins sem gætu viljað láta sig málið varða. Jafn fráleitt þykir mér svo að slíkar upplýsingar séu varðveittar í 7 ár samkvæmt upplýsingum frá viðkomandi ráðuneyti. Ég vil benda aftur á komuskýrslu skipsáhafna þar sem áhafnameðlimir skipa tilgreina aðeins hvort þeir fari umfram löglega tollheimild í hvert skipti, eður ei, án nánari útlistunar á því nákvæmlega um hvaða varning sé að ræða. Allir sæta svo að sjálfsögðu almennu tolleftirliti eftir sem áður.

Ég er ennfremur ósáttur við útskýringar Sýslumannsins á Keflavíkurflugvelli á "upphafsstafakerfinu" svokallaða. Ég bendi á að ekki er um upphafstafi áhafnarmeðlima að ræða, eins og Sýslumaður heldur fram, heldur einkennisstafi viðkomandi starfsmanns innan síns félags. Það eru einungis orð Sýslumannsins sem fram koma í bréfi hans sem fara fyrir því að komutímar áhafnameðlima séu ekki varðveittir í þessu tölvukerfi tolleftirlitsmanna. Skráning upplýsinganna hefur þá þegar farið fram á tollskýrslu og hún svo varðveitt, eins og fram kemur hér að framan. Gildir þá einu, tölvukerfi eða pappírsform. Ég hef enn ekki fundið neinar reglur sem um kerfið gilda né opinberar vinnureglur sem fara skal eftir en hinsvegar hlýtur málið að falla undir lög um persónuvernd, friðhelgi einkalífs og meðferð persónulegra upplýsinga.

Getur verið að í þessum atriðum stangist á annarsvegar heimildir yfirvalda í lögum (m.a. þeirra sem Sýslumaður bendir á í bréfi sínu) og svo lög um persónuvernd? Stenst það að yfirvöld geti tekið einn hóp þjóðfélagsþegna sem starfs síns vegna þurfa að fara oft til og frá landinu og farið fram úr öllum velsæmismörkum við öflun og varðveislu mjög persónulegra upplýsinga eins og magn og lýsingu allra hluta og vöru til einkanota?

Í ljósi breyttra aðstæðna í íslensku viðskiptalífi og ferðahátta landsmanna tel ég mig beittan verulegu[…] misrétti vegna starfs míns. Ég get ekki komið auga á það hvort það skipti máli hvort starfsmaður íslensks fyrirtækis pikki á tölvu um borð í flugvél, sem starfsmaður bankastofnunnar eða helli upp á kaffi, sem starfsmaður flugfélags. Hundruð ef ekki þúsundir íslendinga ferðast mjög oft á vegum og vegna vinnu sinnar og margir hverjir ekki sjaldnar en áhafnameðlimir. Væri þá ekki rétt að halda slíka skráningu um fleiri starf[s]stéttir sem þurfa að ferðast? Sérstaklega á þetta við um þá fjölmörgu áhafnarmeðlimi sem gegna hlutastarfi og ferðast því mun sjaldnar en aðrir kollegar þeirra. Fyrir liggur að áhafnameðlimir njóta ekki sömu tollheimilda og aðrir við komu sína til landsins, einmitt vegna tíðni ferða þeirra. Það er þó þessi öflun skriflegra upplýsinga[,] geymsla þeirra og tölvuskráning yfirvalda sem ég tel enn að hljóti að vera ólögleg sem svo fríar áhafnameðlimi flugvéla á engan hátt frá almennu tolleftirliti sem allir þurfa að sæta við komuna til landsins."

Með bréfi, dags. 7. september 2006, bauð Persónuvernd sýslumannsembættinu á Keflavíkurflugvelli að tjá sig um framangreint bréf kvartanda. Svarað var með bréfi, dags. 11. október s.á., og er þar vísað til þeirra sjónarmiða sem áður höfðu komið fram. Að auki staðhæfir sýslumaður að sú fullyrðing kvartanda sé röng að umræddar upplýsingar séu „aðgengilegar öllum öðrum meðlimum viðkomandi áhafnar, starfsmönnum tolleftirlits og líklega mun fleiri starfsmönnum ríkisisns sem gætu viljað láta sig málið varða".

II.

Úrlausn Persónuverndar

1.

Gildissvið laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, sbr. 1. mgr. 3. gr. þeirra laga, og þar með valdsvið Persónuverndar, sbr. 1. og 2. mgr. 37. gr. laganna, nær til sérhverrar rafrænnar vinnslu persónuupplýsinga, sem og handvirkrar vinnslu slíkra upplýsinga sem eru eða eiga að verða hluti af skrá. Persónuupplýsingar eru sérhverjar persónugreindar eða persónugreinanlegar upplýsingar, þ.e. upplýsingar sem beint eða óbeint má rekja til tiltekins einstaklings, látins eða lifandi, sbr. 1. tölul. 2. gr. laganna; og vinnsla er sérhver aðgerð eða röð aðgerða þar sem unnið er með persónuupplýsingar, hvort heldur sem vinnslan er handvirk eða rafræn, sbr. 2. tölul. 2. gr. Af þessu leiðir að efni máls þessa lýtur að vinnslu persónuupplýsinga og þar með fellur umfjöllun um efni þess undir valdsvið Persónuverndar.

2.

Svo að vinnsla persónuupplýsinga sé heimil þarf hún ávallt að fullnægja einhverju af skilyrðum 8. gr. laga nr. 77/2000. Sé unnið með viðkvæmar persónuupplýsingar þarf að auki að vera fullnægt einhverju af skilyrðum 9. gr. sömu laga. Meðal viðkvæmra persónuupplýsinga teljast upplýsingar um hvort maður hafi verið grunaður, kærður, ákærður eða dæmdur fyrir refsiverðan verknað, sbr. b-lið 8. tölul. 2. gr. laganna. Ljóst er að sú skráning, sem hér um ræðir, kann að fela í sér eða getur leitt til vinnslu með slíkar upplýsingar, s.s. um að einstaklingur kunni að hafa gerst brotlegur við tollalöggjöf.

Við vinnsluna þarf, eins og endranær, að vera fullnægt öllum skilyrðum 1. mgr. 7. gr. laganna, þ. á m. að upplýsingar skulu fengnar í yfirlýstum, skýrum, málefnalegum tilgangi og ekki unnar frekar í öðrum og ósamrýmanlegum tilgangi (2. tölul.); að þær skulu vera nægilegar, viðeigandi og ekki umfram það sem nauðsynlegt er miðað við tilgang vinnslunnar (3. tölul.); og að þær skulu varðveittar í því formi að ekki sé unnt að bera kennsl á skráða aðila lengur en þörf krefur miðað við tilgang vinnslu (5. tölul.).)

3.

Eftirlit með því að farið sé að tollalöggjöfinni er í höndum tollstjóra í hverju einstöku tollumdæmi. Samkvæmt 40. gr. tollalaga nr. 88/2005 eru tollstjórar annars vegar tollstjórinn í stjórnsýsluumdæmi Reykjavíkur og hins vegar sýslumenn í öðrum stjórnsýsluumdæmum. Fer sýslumaðurinn á Keflavíkurflugvelli því með vald tollstjóra þar. Kvartandi hefur hins vegar vísað til upplýsinga sem hann hafi fengið um hvernig vinnslu persónuupplýsinga sé háttað hjá Tollstjóranum í Reykjavík. Tekið skal fram að þar sem hann fer ekki með tolleftirlit á Keflavíkurflugvelli er ekki unnt að byggja á upplýsingum frá honum, s.s. um varðveislutíma upplýsinga, við úrlausn máls þessa. Þá skal tekið fram að Persónuvernd telur að ekki verði staðhæft, gegn fullyrðingum sýslumannsins á Keflavíkurflugvelli, að hann viðhafi vinnslu sem felur í sér miðlun upplýsinga um flugliða til annarra áhafnarmeðlima.

Í 3. mgr. 30. gr. laga nr. 88/2005 er kveðið á um að öllum, bæði tollskyldum og öðrum, sé skylt að láta tollstjóra í té ókeypis og í því formi, sem óskað sé, allar nauðsynlegar upplýsingar og gögn, til nota við almennt tolleftirlit og áhættugreiningu, sem hann fari fram á og snerta innflutning vöru eða sendingar, sem og flutning farþega til og frá landinu. Þá er í 1. mgr. 8. gr. reglugerðar nr. 526/2000 um tollmeðferð vara, sem ferðamenn og farmenn hafa með sér til landsins, sbr. m.a. 193. gr. laga nr. 88/2005, kveðið á um að ferðamenn og farmenn skuli ekki njóta undanþágu frá aðflutningsgjöldum oftar en einu sinni á hverjum 72 klukkustundum; er það með vísan til þessarar reglu, eins og fyrr hefur komið fram, að einkennisstafir flugmanna eru skráðir í tölvukerfi tollgæslunnar á Keflavíkurflugvelli, þ.e. til að kanna hvort nægilega langt sé um liðið frá síðustu ferð til að viðkomandi njóti undanþágu frá tollskyldu.

Þegar litið er til þessara ákvæða telst umrædd vinnsla einkum geta stuðst við þær reglur 1. mgr. 8. gr. laga nr. 77/2000 að vinnsla persónuupplýsinga sé heimil sé hún nauðsynleg til að fullnægja lagaskyldu (3. tölul.), við beitingu opinbers valds (6. tölul.) og til að gæta lögmætra hagsmuna nema grundvallarréttindi og frelsi hins skráða vegi þyngra (7. tölul.). Hvað varðar þá vinnslu viðkvæmra persónuupplýsinga, sem kann að fara fram, kemur einkum til greina sú regla 1. mgr. 9. gr. laganna að vinnsla slíkra upplýsinga sé heimil sé hún nauðsynleg til að krafa verði afmörkuð, sett fram eða varin vegna dómsmáls eða annarra slíkra laganauðsynja (7. tölul.).

Persónuvernd telur umrædda vinnslu vera heimila í ljósi framangreindra ákvæða að því marki sem skilyrðum 1. mgr. 7. gr. laga nr. 77/2000 er fullnægt. Reynir þar m.a. á hvort varðveislutími persónuupplýsinga sé málefnalegur. Fram hefur komið að þær upplýsingar um áhafnarmeðlimi, sem skráðar eru í tölvukerfi tollgæslunnar á Keflavíkurflugvelli, þ. á m. einkennisstafir þeirra, tengjast aðeins síðustu ferð þeirra; eldri upplýsingum er þannig eytt. Þá hefur komið fram að upplýsingum, sem skráðar eru á pappír, er eytt þegar málum, sem þær tengjast, hefur verið lokið. Telur Persónuvernd í ljósi þessa að varðveislutími umræddra upplýsinga fái samrýmst reglum 1. mgr. 7. gr. laga nr. 77/2000, þ. á m. þeim reglum að upplýsingar skulu ekki vera umfram það sem nauðsynlegt er (3. tölul.) og að upplýsingar skulu varðveittar á því formi að ekki sé unnt að bera kennsl á einstaklinga lengur en þörf krefur (5. tölul.).

Einnig reynir hér á hvort tilgangurinn með vinnslu upplýsinganna sé skýr, yfirlýstur og málefnalegur, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 7. gr., sem og hvort upplýsingarnar sjálfar fái samrýmst þeim tilgangi og séu því ekki umfram það sem nauðsynlegt er, sbr. áðurnefnt ákvæði 3. tölul. sömu málsgreinar. Persónuvernd telur ljóst að fyrra skilyrðinu sé fullnægt, enda liggur ekki fyrir að upplýsingarnar séu nýttar til annars en hefðbundins tolleftirlits. Hvað síðarnefnda skilyrðið varðar ber að líta til þess að löggjafinn ætlar tollyfirvöldum, að því er ráðið verður af lögum, mjög rúmar heimildir. Má þar m.a. nefna framangreint ákvæði 3. mgr. 30. gr. laga nr. 88/2005, sem og 1. mgr. 167. gr. sömu laga, en þar er kveðið á um skyldu þeirra sem flytja inn vöru til að aðstoða við tollskoðun með því að framvísa vöru að beiðni tollgæslu, opna töskur og aðrar umbúðir, taka upp úr þeim, loka þeim aftur að skoðun lokinni og veita alla þá aðstoð og upplýsingar sem leitað er eftir. Þegar litið er til þessa verða umræddar upplýsingar ekki taldar vera umfram það sem eðlilegt má telja í þágu tolleftirlits. Verður því ekki séð að brotið sé í bága við framangreint ákvæði 3. tölul. 1. mgr. 7. gr. laga nr. 77/2000. Ekki verður og heldur séð að unnið sé í ósamræmi við önnur ákvæði 7. gr.

Af tilefni athugasemdar kvartanda um að óeðlilegt misræmi sé í eftirliti með innkaupum flugliða og annarra einstaklinga, sem ferðist álíka mikið, skal eftirfarandi tekið fram: Persónuvernd telur þennan aðstöðumun byggjast á viðhlítandi lagaheimild í ljósi þeirra ótvíræðu valdheimilda sem sýslumaðurinn á Keflavíkurflugvelli byggir á við umrædda vinnslu persónuupplýsinga.

4.

Niðurstaða Persónuverndar

Ekki liggur fyrir að vinnsla sýslumannsembættisins á Keflavíkurflugvelli á persónuupplýsingum um innflutning kvartanda á vörum inn í landið sé í ósamræmi við ákvæði laga nr. 77/2000.

Reykjavík, 23. október 2006

Var efnið hjálplegt? Nei