Úrlausnir

Stéttarfélög krefjast afrits af beiðni læknis um sjúkraþjálfun

11.1.2002

Félag sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfara óskaði álits Persónuverndar á því hvort það að stéttarfélög krefjist afrits af beiðni læknis um sjúkraþjálfun og geri það jafnvel að skilyrði fyrir endurgreiðslu kostnaðar sé í samræmi við lög.

Félag sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfara óskaði álits Persónuverndar á því hvort það að stéttarfélög krefjist afrits af beiðni læknis um sjúkraþjálfun og geri það jafnvel að skilyrði fyrir endurgreiðslu kostnaðar sé í samræmi við lög. Á beiðnirnar eru iðulega skráðar viðkvæmar persónuupplýsingar um viðkomandi sjúkling þótt í mismunandi mæli sé, en sjúklingur fær jafnframt dagsett og undirritað vottorð frá sjúkraþjálfaranum þar sem fram kemur á hvaða sjúkraþjálfunarstöð hann hafi fengið meðferð.

Í áliti Persónuverndar kemur fram að mikilvægt sé að stéttarfélög gæti þess við afgreiðslu beiðna um endurgreiðslu kostnaðar vegna sjúkraþjálfunar að óska ekki eftir frekari gögnum en nauðsynlegt er hverju sinni. Telji stéttarfélag sér vera nauðsynlegt að fá, auk vottorðs sjúkraþjálfara, læknisvottorð er rétt að leiðbeina viðkomandi umsækjanda um að ekki sé nauðsynlegt að á læknisvottorði komi fram um hvaða sjúkdóm sé að ræða, heldur einungis að viðkomandi læknir hafi vísað viðkomandi til meðferðar sjúkraþjálfara.

Álitið er birt hér.





Var efnið hjálplegt? Nei