Úrlausnir

Skrá yfir einstaklinga er hafa hlotið refsidóma vegna tiltekinna brota

14.5.2004

Fjármálafyrirtæki óskaði álits Persónuverndar á því hvort það gæti sótt um vinnsluleyfi til að halda skrá yfir einstaklinga er hafa hlotið refsidóma vegna brota á nánar tilteknum ákvæðum íslenskra laga.

Fjármálafyrirtæki óskaði álits Persónuverndar á því hvort það gæti sótt um vinnsluleyfi til að halda skrá yfir einstaklinga er hafa hlotið refsidóma vegna brota á nánar tilteknum ákvæðum íslenskra laga. Einstaklingarnir sem fjármálafyritækið hafði í huga eru einstaklingar sem fara frá einni lánastofnun til annarrar í þeim tilgangi að komast yfir greiðslukort, ávísanahefti eða til að fá aðra lánafyrirgreiðslu, en misnoti hana síðan með þeim hætti að varði við lög.

Persónuvernd taldi að fyrirtækið hefði ekki sýnt fram á að málefnalegu markiði þess um að draga úr útlánatapi vegna saknæmrar háttsemi viðskiptavina yrði ekki náð með annarri og vægari aðferð, s.s. með því að biðja viðskiptavini sjálfa um sakavottorð þegar þess teldist þörf, eða með því að meta lánshæfi þeirra og lánstraust á grundvelli fyrirliggjandi upplýsinga í vörslu fyrirtækisins, upplýsinga sem viðskiptavinir létu sjálfir í té og loks upplýsinga frá Lánstrausti hf.

Persónuvernd taldi því að umrædd vinnsla persónuupplýsinga, þ.e. gerð skrár um einstaklinga er hafa hlotið refsidóma vegna brota á nánar tilteknum lagaákvæðum íslenskra laga, uppfylli ekki skilyrði 3. mgr. 9. gr. laga nr. 77/2000, þess efnis að brýnir almannahagsmunir mæli með henni og ekki unnt að gefa út slíkt vinnsluleyfi.

Var efnið hjálplegt? Nei