Úrlausnir

Öflun upplýsinga úr málaskrá lögreglu í tengslum við starfsumsókn

24. maí

24.5.2005

A lagði fram kvörtun vegna öflunar tollstjóraembættisins í Reykjavík á upplýsingum úr málaskrá lögreglu og tollgæslu í tengslum við starfsumsókn hennar. Taldi hún umrædda vinnslu persónuupplýsinga vera í bága við 7.-9. gr. laga nr. 77/2000 og krafðist þess að látið yrði af vinnslunni. Jafnframt krafðist A þess að upplýsingum um hana yrði eytt án tafar.

A lagði fram kvörtun vegna öflunar tollstjóraembættisins í Reykjavík á upplýsingum úr málaskrá lögreglu og tollgæslu í tengslum við starfsumsókn hennar. Taldi hún umrædda vinnslu persónuupplýsinga vera í bága við 7.-9. gr. laga nr. 77/2000 og krafðist þess að látið yrði af vinnslunni. Jafnframt krafðist A þess að upplýsingum um hana yrði eytt án tafar.


Tollstjóraembættið byggði heimild sína til vinnslunnar á skriflegu samþykki sem A hafði veitt í starfsviðtali og taldi, með hliðsjón af eðli starfa embættisins, að nauðsynlegt væri að fá umæddar upplýsingar.


Persónuvernd taldi að samþykki gæti ekki orðið grundvöllur lögmætis vinnslu sem ekki samrýmist kröfum 7. gr. laga nr. 77/2000 og því yrði að kanna hvort öll skilyrði þess ákvæðis hefðu verið uppfyllt af hálfu tollstjóra.


Í málinu lá fyrir að í starfsauglýsingu þeirri sem A svaraði hafði ekki komið fram að embættið færi hugsanlega fram á heimild til upplýsingaöflunar úr málaskrá lögreglu og tollgæslu. A var ekki frædd um að þessara upplýsinga yrði aflað fyrr en í atvinnuviðtali og taldi Persónuvernd að það væri of seint til að hún hefði getað gætt hagsmuna sinna. Því var talið að upplýsingaöflunin hefði ekki verið í samræmi við sanngirniskröfur 1. tölul. 1. mgr. 7. gr., sem fela í sér skilyrði um ákveðinn fyrirsjáanleika og gagnsæi vinnslu.


Þá taldi Persónuvernd að öflun upplýsinga um staðfestan brotaferil umsækjenda úr sakaskrá ríkisins um starf það sem A sótti um gæti samrýmst kröfum 2. tölul. 1. mgr. 7. gr. um málefnalegan tilgang. Hins vegar var ekki talið, með hliðsjón af eðli þess starfs sem A sótti um, eðli þeirra gagna sem er að finna í málaskrá lögreglu og meginreglu 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrár um að hver maður skuli teljast saklaus uns sekt er sönnuð, að öflun upplýsinga úr málaskrá lögreglu væri í samræmi við kröfu 2. tölul. 1. mgr. 7. gr. um málefnalegan tilgangi.


Upplýsinga í málaskrá lögreglu er upphaflega aflað í löggæslutilgangi, til nota við rannsókn mála og uppljóstran brota. Tollstjóraembættið aflaði upplýsinganna hins vegar í því skyni að meta hæfi A sem umsækjanda um starf hjá embættinu. Vinnsla upplýsinganna í öðrum tilgangi en þeim sem upphaflega var ákveðinn verður að byggja á heimild í 1. mgr. 8. gr. og 1. mgr. 9. gr. Þar sem ekki lá fyrir gilt samþykki A og ekki var talið að aðrar heimildir stæðu til vinnslunnar taldi Persónuvernd að umrædd upplýsingaöflun færi í bága við þá kröfu 2. tölul. 1. mgr. 7. gr. um að ekki skuli unnið með persónuupplýsingar í öðrum tilgangi en þeirra var upphaflega aflað í.


Að lokum gerði Persónuvernd ekki athugasemdir við að umræddum upplýsingum væri haldið til haga hjá tollstjóraembættinu á meðan mál A væru til meðferðar hjá yfirvöldum eða dómstólum, að því gefnu að öryggi þeirra væri tryggt með ráðstöfunum sem koma í veg fyrir óleyfilegan aðgang að þeim, sbr. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 77/200

Úrskurðarorð:


Tollstjóranum í Reykjavík var óheimilt að afla upplýsinga um A úr málaskrá lögreglu í tengslum við umsókn hennar um starf þjónustufulltrúa í lögfræðideild á innheimtusviði embættisins. Persónuvernd gerir ekki athugasemdir við að umræddum gögnum verði haldið til haga á meðan mál kvartanda eru til meðferðar hjá yfirvöldum eða dómstólum, að því gefnu að öryggi þeirra sé tryggt með ráðstöfunum sem koma í veg fyrir óleyfilegan aðgang að þeim, sbr. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 77/2000.

Úrskurðinn má lesa í heild sinn hér.





Var efnið hjálplegt? Nei