Úrlausnir

Staðlaður samningur um flutning erfðaefnis til Bandaríkjanna

13. júní

13.6.2005

Ákvörðun Persónuverndar um að gera að skilyrði, við veitingu leyfis til sendingar erfðaefnis til fyritækis í Bandaríkjunum, að gerður verði staðlaður samningur við fyrirtækið.

X ehf. fór fram á heimild Persónuverndar til sendingar erfðaefnis til SNP-arfgerðargreiningar hjá fyrirtækinu Y, í San Diego, Kaliforníu, Bandaríkjunum. Persónuvernd spurði X hvort fyrirtækið myndi fá samþykki hjá því fólki sem erfðaefnið stafaði frá. X svaraði því til að það yrði ekki gert. Þá gaf Persónuvernd X kost á að tjá sig um að heimild til flutningsins yrði bundin því skilyrði að fyrirtækið gerði staðlaðan samning við Y, samkvæmt ákvörðun framkvæmdastjórnar EB um vernd persónuupplýsinga. X hafnaði því með vísan til þess að ekki væri um persónuupplýsingar að ræða þar sem lífsýni yrðu aðeins auðkennd með rannsóknarnúmerum og greiningarlykill skilinn eftir hér á landi.


Hinn 13. júní 2005 gaf stjórn Persónuverndar út ákvörðun þar sem leyst var úr þessu máli. Í ljósi þess að til verður greiningarlykill er um persónuupplýsingar að ræða. Bandaríkin eru meðal þeirra þriðju landa, þ.e. landa utan ESB og EES, sem ekki veita slíkum upplýsingum fullnægjandi vernd í skilningi tilskipunar EB um vernd persónuupplýsinga. Því er óheimilt að flytja slíkar upplýsingar þangað nema uppfyllt sé eitthvert af sérskilyrðum þeirrar tilskipunar og íslenskra persónuupplýsingalaga. Þar sem engu hinna almennu skilyrða, s.s. um öflun samþykkis, var fullnægt gat flutningurinn aðeins helgast af leyfi frá Persónuvernd. Ákvað Persónuvernd að binda það leyfi þeim skilmála að gerður yrði staðlaður samningur í samræmi við ákvörðun framkvæmdastjórn EB.

Á k v ö r ð u n a r o r ð:


Við veitingu leyfis til sendingar erfðaefnis frá X til SNP-arfgerðargreiningar hjá Y, San Diego, CA 92121-1975, er gert að skilyrði að X geri við það fyrirtæki staðlaðan samning í samræmi við ákvörðun framkvæmdastjórnar Evrópubandalagsins nr. 2002/16/EB.

Ákvörðunin er birt í heild hér.





Var efnið hjálplegt? Nei