Úrlausnir

Rafræn vöktun á heimavist

1.6.2006

Ákvörðun

Á fundi sínum hinn 25. janúar 2006 komst stjórn Persónuverndar að eftirfarandi niðurstöðu í máli nr. 2005/444:


I.
Tildrög máls og bréfaskipti


Í ágúst 2005 bárust Persónuvernd símleiðis ábendingar nemenda við A um að rafræn vöktun á heimavist skólans kynni að fara í bága við lög nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Af því tilefni óskaði Persónuvernd, með bréfi dags. 23. ágúst sl., eftir upplýsingum um þá vöktun sem fram fer á heimavist A, sbr. eftirfarandi spurningar sem lagðar voru fyrir skólayfirvöld:

"1. Þess er óskað að þér upplýsið um fjölda og staðsetningu eftirlitsmyndavéla á heimavistinni og það hverjir fara að jafnaði um hin vöktuðu svæði.
2. Þess er óskað að þér upplýsið um tilgang vöktunarinnar, sýnið fram á að hennar sé sérstök þörf vegna eðlis þeirrar starfsemi sem fer fram á heimavistinni og rökstyðjið að ekki sé unnt að ná markmiðinu með vöktuninni með öðrum og vægari raunhæfum úrræðum.
3. Þess er óskað að þér upplýsið um hversu lengi myndefnið er geymt.
4. Þess er óskað að þér upplýsið um hvernig öryggi persónuupplýsinga er tryggt, t.d. hvað varðar aðgengi að myndefninu. Hvar er myndefnið geymt, hverjir hafa aðgang að því, hvernig er komið í veg fyrir að óviðkomandi aðilar komist í það og er skráð sérstaklega hverjir skoða myndefnið og hvers vegna?
5. Þess er óskað að þér upplýsið um hvort upplýsingaréttur heimavistarbúa samkvæmt 18. gr. laga nr. 77/2000 og 11. gr. reglna nr. 888/2004 sé virtur. Þá er þess óskað að þér upplýsið um hvort skólinn hafi sett skriflegar reglur um vöktunina og kunngjört efni þeirra íbúum heimavistarinnar.
6. Með hvaða hætti er gert viðvart um vöktunina, eru til staðar merkingar og, ef svo er, hvar eru þær staðsettar?
7. Þess er óskað að þér upplýsið um hvort eingöngu fer fram söfnun myndefnis eða hvort fylgst er sérstaklega með hinum vöktuðu svæðum, s.s. af tölvuskjá í vöktunarherbergi."

Í svarbréfi B skólameistara, dags. 6. september sl., sagði eftirfarandi:

"Rétt er að taka fram í upphafi að öryggismyndavélar á vegum [A] eru staðsettar í um 3600 m2 húsnæði sem hýsir heimavist skólans, mötuneyti, hátíðarsal, skólabókasafn og aðstöðu fyrir stjórnun og kennslu. Kennsluhús skólans er of lítið til að hýsa alla þá starfsemi sem fer fram í venjulegum framhaldsskóla án heimavistar. Við þessar aðstæður verða skil milli heimavistar- og kennsluhúsnæðis mjög óglögg. Allir nemendur skólans eru á ferli um bygginguna bæði dagskólanemendur og kvöldskólanemendur. Sama gildir um starfsfólk skólans og alla utanaðkomandi sem eiga erindi við stjórnendur og starfsfólk. Við þetta má bæta að verðmæt tæki er að finna í hinu vaktaða húsnæði skólans bæði inni á herbergjum nemenda (sjónvörp, hljómflutningstæki, borð- og fartölvur og leikjatölvur) og í tölvu- og fjarfundaverum skólans.


1) Til eru í skólanum 14 öryggismyndavélar en tvær af þeim eru ekki í notkun.
Þrjár vélar eru utanhúss við innganga í mötuneytis- og heimavistarhús.
Ein vél er í aðalandyri heimavistarhúss.
Ein í tölvuveri skólans og önnur á gangi framan við tölvuver en við þann gang er einnig fjarfundaver skólans og miðstöð tölvukerfis.
Ein vél er á gangi sem liggur að heimavist en við þann gang eru kennslustofur og skrifstofur starfsfólks og nemendafélags.
Ein myndavél er í þvottahúsi heimavistar og beinist að inngangi í þvottahúsið.
Þá eru ótaldar 4 myndavélar á 4 herbergjagöngum hinnar eiginlegu heimavistar. Gangarnir eru opnir á báða enda með tengingum í stigahús. Við þessa ganga eru alls 52 herbergi sem rúma að hámarki 117 nemendur.


2) Tilgangur vöktunar samkvæmt tilkynningu til Persónuverndar (nr. S1900) er "Eignavarsla og eftirlit með húsakynnum skólans, sérílagi þegar gæslufólk er ekki í húsakynnunum."
Reynslan af öryggismyndavélum í húsum [A] er í meginatriðum eftirfarandi:
Algjörlega hefur verið tekið fyrir skemmdarverk á vistargöngum og öðru almennu rými. Aldrei hefur verið kvartað yfir þjófnaði úr þvottahúsi eftir uppsetningu myndavélar þar. Þjófnaður úr herbergjum nemenda er hefur undanfarið verið fátíður og raunar hefur ekki verið tilkynnt um hvarf neinna verulegra verðmæta (mest kr. 3000 í peningum). Lítil sem engin vandræði hafa verið vegna utanaðkomandi "gesta" í húsnæði skólans svo líklega er fælingarmáttur öryggismyndavéla verulegur. Öryggismyndavélar í [A] hafa reynst mikilvæg hjálpartæki fyrir okkur sem berum ábyrgð á húsakynnum skólans og yfir 100 ungmennum á heimavist sem flest eru yngri en 18 ára. Öryggismyndavélarnar geta þó ekki komið í veg fyrir sólarhringsvöktun öryggisvarða. Fjárveitingar til skólans hafa ekki gert það mögulegt að ráða fleira starfsfólk til umönnunar barna/ungmenna á heimavist. Einungis er fjárveiting fyrir einu stöðugildi starfsmanns á heimavist og þar varð engin breyting á við hækkun sjálfræðisaldurs í 18 ár. Við núverandi aðstæður er því ekki um að ræða nein vægari úrræði en þau sem felast í myndavélavöktun þess húsnæðis sem heimavist skólans er hluti af. Skólameistari [A] telur að leggja verði niður heimavist skólans í núverandi mynd ef ekki verður hægt að veita vistarbúum það öryggi sem þeir búa nú við.


3) Myndefnið verður varla eldra en 5-6 daga miðað við reynsluna en varðveislutímann hefur ekki þurft að stilla sérstaklega því geymsludiskurinn í móðurstöð myndavélakerfisins er alltaf fullur og tekið er yfir eldra efni jafnóðum.


4) Myndefni er geymt í móðurstöð fyrir myndavélakerfið og er þessi móðurstöð staðsett í aðsetri húsfreyju heimavistar sem er við aðalandyri heimavistarhúss. Móðurstöðin er í læsanlegum skáp sem hýsir einnig símkerfi skólans. Skólameistari (eða staðgengill hans) hefur einn aðgang að móðurstöðinni til að fletta upp eldra myndefni. Aðgangur skólameistara er í gegnum tölvutengingu og er varinn með leyniorði að tölvu meistara og öðru að forriti móðurstöðvar. Einungis er opið fyrir eina ákveðna IP tölu inn í móðurstöðina og er sú tala faststillt á tölvu skólameistara. Skólameistari hefur til þessa ekki skráð sérstaklega þau skipti sem hann hefur flett upp í varðveittu myndefni en telur slíkt ætti að gera og mun gera það eftirleiðis.


5) Upplýsingar um vöktun húsnæðis: Við upphaf hverrar annar eru haldnir fundir með íbúum á hverjum heimavistargangi og þar er ítarlega fjallað um vöktunina, í hverju hún felst og til hvers hún er. Skriflegar reglur hafa enn ekki verið settar en slíkt er nauðsynlegt að gera og verður gert á haustönn 2005 í samvinnu við vistarbúa í heimavistarráði.


6) Merkingar eru á hurðum við inngangi í heimavistarhúsið. Sjá meðfylgjandi sýnishorn.


7) Í aðsetri húsfreyju heimavistar (sbr. 4) er skjár þar sem getur sýnt myndefni myndavélanna á rauntíma. Í móðurstöð er stillt frá hvað vélum er sýnt "beint." Venjulega er stillt á 4 myndavélar (opna þarf skáp með lykli til að breyta stillingum á takkaborði móðurstöðvar). Þeir sem geta stöðvað myndir á skjánum í aðsetri húsfreyju eru auk húsfreyju þeir sem sjá um gæslu á heimavist um helgar (undanfarið einn kennari ásamt skólameistara)."

II.
Vettvangsheimsókn

Vettvangsheimsókn á heimavist A fór fram hinn 12. október sl. Vettvangsskýrsla, dags. 3. nóvember sl., var send B skólameistara og honum veitt færi á að tjá sig um efni skýrslunnar í samræmi við 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Efni skýrslunnar er eftirfarandi:

1.
Upphaf vettvangsathugunar
Almennt um heimavist A

"[B] skólameistari tók á móti [. . .] starfsmönnum Persónuverndar, svaraði spurningum þeirra og sýndi þemi hvernig rafrænni vöktun er háttað á heimavistinni.


Í upphafi var tilgangur heimsóknarinnar útskýrður. Farið var yfir að staðreyna þyrfti hvort eftirlit og vinnsla myndefnis væri í samræmi við lög og reglur um persónuvernd og að finna þyrfti samræmi á milli öryggis- og eftirlitshagsmuna annars vegar og einkalífshagsmuna hins vegar. Þá var skólameistara bent á að stjórn Persónuverndar hefði nýlega tekið ákvörðun um stöðvun rafrænnar vöktunar innan veggja annarrar heimavistar. Skólameistari taldi hins vegar nokkuð önnur sjónarmið eiga við um heimavist [A] þar sem heimavistarhúsnæðið væri einnig nýtt undir kennslu og stjórnun og því færu fleiri um húsið en ella.


Heimavist [A] tók til starfa árið 1979. Á heimavistinni eru fjórir íbúðargangar með herbergjum fyrir um 120 manns. Hreinlætisaðstaða er inni á herbergjunum. Í heimavistarhúsinu eru einnig tölvuver, þvottahús, mötuneyti, bókasafn, kennslustofur, skrifstofur, hátíðarsalur, sjónvarpsherbergi á hverjum heimavistargangi og sameiginlegt rými þar sem m.a. er rekin sjoppa. Kennsla og stjórnun fer fram í heimavistarhúsinu vegna plássleysis í hinu eiginlega kennsluhúsnæði og hefur það, að sögn skólameistara, m.a. bitnað á félagsaðstöðu heimavistarbúa. Það eru því ekki aðeins íbúar og starfsfólk heimavistarinnar auk gesta þeirra sem fara þar um að jafnaði, heldur einnig aðrir nemendur í bæði dagskóla og kvöldskóla, starfsfólk og stjórnendur skólans, og þeir sem eiga við þá erindi. Nemendur í kvöldskóla sækja tíma allt til klukkan 22 á kvöldin, en heimavistin lokar á miðnætti. Þess má geta að nú er í byggingu ný álma kennsluhúsnæðis við skólann.


Flestir íbúa heimavistarinnar eru ólögráða. Skólinn hefur einnig aðstöðu í [D], en engin rafræn vöktun er viðhöfð í því húsi og þar búa aðeins lögráða nemendur. Húsfreyja sér um daglega stjórn heimavistarinnar og er innangengt í híbýli hennar úr heimavistinni. Á milli klukkan 18 og 02 hefur hún eftirlit með heimavistinni og hefur til þess aðstöðu í litlu herbergi sem snýr að aðalanddyri. Í herberginu er stór gluggi sem snýr að útidyrum og sjónvarpsskjár sem sýnir myndir úr þeim fjórum eftirlitsmyndavélum sem eru á heimavistargöngunum. Húsfreyja er á bakvakt um nætur á virkum dögum en gæsla á milli 22 og 02 um helgar er í annarra höndum, undanfarið skólameistara og eins kennara. Þegar haldin eru böll eru þó fleiri sem hafa viðveru á vistinni til að sinna gæslu. Áður voru nemendur fengnir til að aðstoða við gæslu um helgar en það hefur ekki tíðkast um nokkurn tíma. Að öllu jöfnu eru fáir nemendur á heimavistinni um helgar, en flestir þeirra eiga heima í nágrenni við [E] og fara heim til sín. Þá er heimavistin lokuð aðra hvora helgi og engin gæsla viðhöfð, en nemendum er þó leyft að vera þar ef þeir skrá sig sérstaklega. Fjöldi nemenda sem dvelja á heimavistinni þær helgar sem hún er lokuð er að jafnaði um 20 manns. Fyrirkomulag er með þeim hætti að nemendur fá lykla sem ganga að hliðarinngangi og eiga að nota þann inngang. Ætlast er til að inngangurinn sé læstur og að ekki sé komið með óviðomandi aðila inn á heimavistina.


Myndavélar voru settar upp á heimavistinni haustið 2003. Að sögn skólameistara hafa viðbrögð nemenda við vöktuninni verið misjöfn, en flestir skilji þó í hvaða tilgangi hún fer fram. Forjársmenn vistarbúa hafa ekki gert athugasemdir við vöktunina. Þess ber að geta að í september 2004 barst Persónuvernd fyrirspurn frá nemendafélagi skólans varðandi eftirlitsmyndavélarnar.

2.
Tilgangur vöktunarinnar

Fram kom að tilgangur vöktunarinnar er öryggis- og eignavarsla. Eitthvað hefur verið um að utanaðkomandi aðilar sæki inn á heimavistina. Í sumum tilvikum hefur verið um að ræða aðila sem ætla að hitta íbúa heimavistarinnar á þeim tíma sem vistin er lokuð, en í öðrum tilvikum hefur verið um eiginleg húsbrot að ræða. Þá hafa komið upp þjófnaðarmál þegar íbúar hafa ekki gætt að því að læsa herbergjum. Eina ofbeldismálið sem hefur komið upp var árás á kennara sem var við helgargæslu. Árásin var framin inni í herbergi en ekki frammi á gangi. Aldrei hefur reynst nauðsynlegt að afhenda lögreglu myndefni úr eftirlitsmyndavélum heimavistarinnar.


Ummæli skólameistara þess efnis að leggja þyrfti heimavist skólans niður ef myndavélarnar yrðu fjarlægðar höfðu vakið nokkra athygli starfsmanna Persónuverndar. Var hann beðinn um skýringu á þeim ummælum og spurður hvers vegna rafræn vöktun væri forsenda reksturs heimavistarinnar núna, en hefði ekki verið það fyrir árið 2003. Skólameistari vísaði til þess að hækkun sjálfræðisaldursins með gildistöku laga nr. 71/1997 (1. janúar 1998) hefði leitt til þess að skólinn bæri ríkari skyldur gagnvart ólögráða nemendum sínum og að ekki hefði fengist fjármagn til að mæta þeim skyldum. Hann teldi ekki forsvaranlegt að aðeins ein manneskja hefði gæslu með þeim fjölda ólögráða ungmenna sem byggi á heimavistinni og að vöktunin væri nauðsynleg til að tryggja öryggi þeirra.


Þau tilvik sem helst hafa gefið tilefni til að fara í myndefni hafa verið þegar íbúar heimavistarinnar biðja skólameistara að athuga hvort einhver hafi farið inn í herbergi þeirra.

3.
Lýsing á vöktun

3.1 Anddyrisherbergi og skrifstofa skólameistara

Sú rafræna vöktun sem fram fer á heimavist [A] felur ekki einungis í sér söfnun myndefnis heldur er einnig viðhaft virkt eftirlit. Hægt er að fylgjast með því sem fram fer á hinum vöktuðu svæðum á tveimur stöðum, á skrifstofu skólameistara og í herbergi því sem snýr inn af anddyri heimavistarinnar.


Eins og fyrr segir er gæsla á heimavistinni til klukkan 02 alla daga. Gæslan er í höndum húsfreyju virka daga, en skólameistara eða kennara þær helgar sem heimavistin er opin. Óviðkomandi aðilar eiga að vera farnir af heimavistinni á miðnætti. Að sögn skólameistara nýtast eftirlitsmyndavélarnar gæsluaðilum m.a. til þess að fylgjast með því hvort óviðkomandi aðilar séu á vistinni eftir þann tíma og komi þær þannig í veg fyrir að ganga þurfi um íbúðargangana í jafn ríkum mæli og ella.


Vélbúnaður er geymdur í læstum skáp í anddyrisherbergi. Þar er einnig lítill sjónvarpsskjár sem á að sýna myndir úr þeim fjórum eftirlitsmyndavélum sem eru á íbúðargöngum heimavistarinnar. Þegar starfsmenn Persónuverndar bar að garði sýndi skjárinn hins vegar myndir úr öðrum eftirlitsmyndavélum og vissi skólameistari ekki hvernig á því stóð. Í anddyrirsherberginu er hvorki tölvuskjár né lyklaborð tengt við vélbúnaðinn. Þar er því ekki hægt að breyta stillingum eða fara í eldra myndefni.


Á skrifstofu skólameistara er hægt að tengjast stýriforriti eftirlitskerfisins í gegnum tölvu sem einnig er notuð við aðra vinnu skólameistara. Skrifstofan er læst þegar skólameistari er ekki staddur á henni. Tölvan er nettengd og varin lykilorði. Skjáhvíla læsir tölvunni ef ekki er unnið á hana í tiltekinn tíma. Sérstakt lykilorð, sem aðeins skólameistari hefur, þarf til að nota stýriforrit eftirlitskerfisins. Í heimsókninni kom í ljós að það lykilorð var sjálfkrafa vistað í minni tölvunnar og því unnt að nota forritið án þess að þekkja lykilorðið. Skólameistari sagði þetta ekki eiga að vera með þeim hætti og hugðist breyta því. Myndavélakerfið er keypt af Nýherja, en skólinn hefur engan þjónustuaðila til að annast viðhald o.þ.h.


Skólinn á 14 myndavélar en einungis 12 þeirra eru í notkun. ein myndavélin hefur aldrei virkað, önnur sýnir bara móðu. Myndavélarnar taka stöðugt upp og því er myndefni vistað jafnvel þótt engin hreyfing sé á hinu vaktaða svæði. Efnið er vistað svo lengi sem pláss er á hörðum diski og síðan er tekið yfir það. Reynslan hefur sýnt að efnið verður ekki eldra en fimm daga gamalt. Beðið var um að fá að sjá elsta varðveitta efni og var það frá 7. október. Hægt er að leita í myndefni eftir tíma og dagsetningu. Ein skjámynd stýriforritsins sýnir allar myndir úr öllum eftirlitsmyndavélum heimavistarinnar. Þá er hægt að fá mynd úr hverri og einni myndavél fyrir sig upp á skjáinn. Allar myndir eru í lit. Ekki var hægt að gera breytingar á aðdrætti eða sjónarhorni eftirlitsmyndavélanna. Að sögn skólameistara hefur ekki verið skráð sérstaklega þegar farið hefur verið í myndefni, en til stendur að breyta því.


3.2 Staðsetning myndavéla og viðvaranir
Staðsetning myndavélanna er eftirfarandi:
- Þrjár myndavélar utanhúss við inngang
- Ein vél í aðalanddyri
- Ein vél í tölvuveri
- Ein vél á gangi fyrir framan tölvuver
- Ein vél á gangi sem liggur að heimavist
- Ein myndavél í þvottahúsi
- Fjórar myndavélar á heimavistargöngum

Myndavélarnar sem staðsettar eru utanhúss sýna aðkomu að aðalanddyri, bílastæði og eina hlið heimavistarhússins. Myndavél í aðalanddyri sýnir útidyr, fatahengi og skógeymslu. Sófar sem eru til afnota fyrir nemendur í anddyrinu eru ekki í mynd.


Myndavél á gangi á neðstu hæð heimavistarhússins er staðsett þar til að hafa eftirlit með inngangi sem er notaður af nemendum þær helgar sem heimavistin er lokuð. Með því móti er unnt að fylgjast með því að nemendur læsi á eftir sér og komi ekki með óviðkomandi aðila inn á heimavistina.


Myndavél í þvottahúsi sýnir inngang, þvottavélar, hillur og þvottasnúrur. Nemendur sjá sjálfir um að þvo af sér.


Ein myndavél er á hverjum heimavistargangi. Á hverjum gangi er innskot með setustofu fyrir nemendur.


Viðvörun um rafræna vöktun er við aðalinngang heimavistarinnar. Viðvörunin er hvít að lit, ábyrgðaraðili er tilgreindur og símanúmer hans gefið upp og vísað er til laga nr. 77/2000.


3.3 Fræðsluskylda
Ekki hafa verið settar sérstakar reglur um hina rafrænu vöktun, en skólameistari afhenti starfsmönnum Persónuverndar drög að reglum um notkun öryggismyndavélakerfis [A], dags. 10. október sl. Í reglunum er m.a. kveðið á um tilgang vöktunarinnar, viðvaranir, varðveislutíma, heimildir til aðgangs að myndefni, öryggi, atburðaskráningar o.fl.


Þá hefur verið fjallað um vöktunina á fundum með íbúum hvers heimavistargangs á haustin."


Eins og áður greinir var framangreind skýrsla send B skólameistara hinn 3. nóvember sl. og honum veitt færi á að tjá sig um efni skýrslunnar. Í svarbréfi hans, dags. 7. desember sl., sagði eftirfarandi:

"Undirritaður gerir ekki athugasemdir við vettvangsskýrsluna sem slíka. Þó er rétt að taka fram að þær helgar sem heimavist [A] telst "lokuð" þá dvelja um 5-12 nemendur á vistinni. Þetta eru nemendur sem eru að vinna hér á [E] um helgar eða eiga langt heim að sækja. Þær helgar sem teljast "opnar" fara flestir heim en þó eru alltaf eftir á vistinni 20-30 nemendur, fleiri ef böll á vegum nemendafélags eru um helgar. Að meðaltali er vistin lokuð um aðra hverja helgi. Í vettvangsskýrsluna mætti ef til vill bæta eftirfarandi tölulegum upplýsingum sem undirritaður hafði ekki á takteinum 12. okt. s.l.: Þann 1. sept. sl. voru 115 íbúar skráðir í heimavist [A] auk 26 nemenda í leiguhúsnæði í [D]. Af þessum 115 íbúum voru 99 íbúar undir 18 ára aldri (86%) en allir íbúarnir í [D] voru 18 ára eða eldri.


Ef Persónuvernd krefst þess að öryggismyndavélar á heimavist skólans verði teknar niður mun það hafa margvíslegar afleiðingar í för með sér fyrir þá nemendur skólans sem þurfa að dvelja á heimavist. Undirritaður telur sig ekki geta borið ábyrgð á öryggi nemenda nema með því að ráða starfsmenn til sólarhringsvöktunar. Fjárveitingar til slíks eru ekki fyrir hendi og því þarf að stórhækkal leigugjöld nemenda. Einnig kemur til greina að hætta að taka við þeim nemendum inn á heimavist sem eru ekki orðnir lögráða (18 ára). Ef Persónuvernd lætur rífa niður öryggismyndavélar í heimavistarhúsi [A] verður það að teljast íþyngjandi stjórnvaldsákvörðun, að mati undirritaðs, og skólinn getur ekki brugðist við þeirri ákvörðun fyrr en með nýju skólaári næsta haust. Líta verður á heimavistir framhaldsskóla sem tímabundna gististaði fremur en venjulegt leiguhúsnæði þrátt fyrir að íbúar heimavista geti fengið húsaleigubætur frá viðkomandi sveitarfélagi. Ef gerð er sú krafa að taka niður öryggismyndavélar á heimavistum þá hlýtur að verða að gera slíkt hið sama á öllum gistiheimilum og hótelum ef gæta á jafnræðisreglu þeirrar sem Persónuvernd virðist láta sér sérlega annt um."

III.
Forsendur og niðurstaða

1. Gildissvið

Lög nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga gilda um sérhverja rafræna vinnslu persónuupplýsinga, sem og handvirka vinnslu persónuupplýsinga sem eru eða eiga að verða hluti af skrá, sbr. 1. mgr. 3. gr. laganna. Með "persónuupplýsingum" er átt við sérhverjar persónugreindar eða persónugreinanlegar upplýsingar, þ.e. upplýsingar sem rekja má beint eða óbeint til tiltekins einstaklings, látins eða lifandi, sbr. 1. tölul. 2. gr. laganna. Með "vinnslu" er átt við sérhverja aðgerð eða röð aðgerða þar sem unnið er með persónuupplýsingar, sbr. 2. tölul. 2. gr. Þar undir falla m.a. söfnun, geymsla, notkun, miðlun, dreifing og birting, sbr. það sem fram kemur í athugasemdum í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum nr. 77/2000, sem og b-lið 2. gr. tilskipunar nr. 95/46/EB.


Rafræn vöktun er vöktun sem er viðvarandi eða endurtekin reglulega og felur í sér eftirlit með einstaklingum með fjarstýrðum eða sjálfvirkum búnaði, og fer fram á almannafæri eða á svæði sem takmarkaður hópur fólks fer um að jafnaði, sbr. 6. tölul. 2. gr. laga nr. 77/2000. Hugtakið tekur til vöktunar sem leiðir, á að leiða eða getur leitt til vinnslu persónuupplýsinga og sjónvarpsvöktunar sem fer fram með notkun sjónvarpsmyndavéla, vefmyndavéla eða annars samsvarandi búnaðar, án þess að fram fari söfnun myndefnis eða aðrar aðgerðir sem jafngilda vinnslu persónuupplýsinga.


Af framangreindu er ljóst að myndavélaeftirlit það sem fram fer á heimavist A er í eðli sínu rafræn vöktun og rafræn vinnsla persónuupplýsinga í skilningi laga nr. 77/2000 og fellur þar með undir gildissvið þeirra laga.


2. Lögmæti

2.1 Lögmæti - almennt
Vinnsla persónuupplýsinga er því aðeins heimil að uppfyllt séu skilyrði 1. mgr. 8. gr., og eftir atvikum, 1. mgr. 9. gr. laga nr. 77/2000. Samkvæmt 2. mgr. 9. gr. er heimilt, þrátt fyrir að framangreind skilyrði séu ekki uppfyllt, í tengslum við framkvæmd rafrænnar vöktunar, að safna efni sem verður til við vöktunina að því gefnu að:

1. vöktunin sé nauðsynleg og fari fram í öryggis- og eignavörsluskyni;

2. það efni sem til verður við vöktunina verði ekki afhent öðrum eða unnið frekar nema með samþykki þess sem upptaka er af eða samkvæmt ákvörðun Persónuverndar; heimilt er þó að afhenda lögreglu efni með upplýsingum um slys eða refsiverðan verknað en þá skal þess gætt að eyða öllum öðrum eintökum af efninu;

3. því efni sem safnast við vöktunina verði eytt þegar ekki er lengur málefnaleg ástæða til að varðveita það, nema sérstök heimild Persónuverndar skv. 3. mgr. standi til frekari varðveislu.


Einnig ber að gæta ákvæða 7. gr. laganna í hvívetna. Þar er m.a. kveðið á um að persónuupplýsingar skuli unnar með sanngjörnum, málefnalegum og lögmætum hætti og að öll meðferð þeirra sé í samræmi við vandaða vinnsluhætti persónuupplýsinga (1. tölul.), að þær skuli fengnar í yfirlýstum, skýrum og málefnalegum tilgangi og ekki unnar frekar í öðrum og ósamrýmanlegum tilgangi (2. tölul.), að þær séu nægilegar, viðeigandi og ekki umfram það sem nauðsynlegt er miðað við tilgang vinnslunnar (3. tölul.), að þær séu áreiðanlegar og uppfærðar eftir þörfum (4. tölul.) og ekki varðveittar á persónugreinanlegu formi lengur en þörf krefur miðað við tilgang vinnslunnar (5. tölul.)


Fari vöktunin fram á svæði þar sem takmarkaður hópur fólks fer um að jafnaði er hún jafnframt háð því skilyrði að hennar sé sérstök þörf vegna eðlis þeirrar starfsemi sem þar fer fram, sbr. 1. mgr. 4. gr. laganna.


Þá er, í 3. gr. reglna nr. 888/2004 um rafræna vöktun, kveðið á um að rafræn vöktun verði að fara fram í málefnalegum tilgangi, s.s. í öryggis- og eignavörsluskyni. Í 2. mgr. 3. gr. segir að við alla rafræna vöktun skuli þess gætt að ganga ekki lengra en brýna nauðsyn ber til miðað við þann tilgang sem stefnt er að. Skal þess gætt að virða einkalífsrétt þeirra sem sæta vöktun og forðast alla óþarfa íhlutun í einkalíf þeirra. Við ákvörðun um hvort viðhafa skuli rafræna vöktun skal því ávallt gengið úr skugga um hvort markmiði sem stefnt er að með slíkri vöktun megi ná með vægari úrræðum.


2.2 Lögmæti vöktunar á heimavist A

a. Heimildarákvæði 2. mgr. 9. gr. laga nr. 77/2000
Í bréfi B skólameistara, dags. 6. september sl., og í tilkynningu nr. S1900 til Persónuverndar kemur fram að tilgangur vöktunarinnar sé "eignavarsla og eftirlit með húsakynnum skólans, sérílagi þegar gæslufólk er ekki í húsakynnunum." Í vettvangsheimsókn starfsmanna Persónuverndar hinn 12. október sl. kom einnig fram að tilgangur þeirrar rafrænu vöktunar sem hér um ræðir sé öryggis- og eignavarsla.


Heimild til rafrænnar vöktunar í öryggis- og eignavörsluskyni, og söfnun myndefnis í tengslum við framkvæmd hennar, á sér stoð í 2. mgr. 9. gr. laga nr. 77/2000. Öryggis- og eignavörslutilgangur er einnig almennt talinn málefnalegur, sbr. t.d. 3. gr. reglna nr. 888/2004, og teljast hagsmunir sem honum er ætlað að vernda vera lögmætir. Verður því að telja að rafræn vöktun á heimavist A sé heimil.


b. Meðalhóf
Þrátt fyrir að rafræn vöktun kunni að vera heimil verður hún einnig að standast þær kröfur sem lög og reglur gera um meðalhóf. Í 1. mgr. 4. gr. og 1.-3. tölul. 7. gr. laga nr. 77/2000, sem og í 3. gr. reglna nr. 888/2004, felst áskilnaður um að við rafræna vöktun skuli gætt meðalhófs, þ.e. að slík vöktun sé ekki viðhöfð nema hennar sé nauðsyn í þágu lögmætra hagsmuna sem ólíklegt er að nái framgangi sínum nema hún sé viðhöfð og að ekki sé gengið lengra en nauðsynlegt er í þágu tilgangsins.


Fyrir liggur að heimavistarhús A er ekki einungis notað til íbúðar fyrir vistarbúa heldur fer þar einnig fram kennsla og stjórnun. Um ganga húsnæðisins fara því ekki aðeins íbúar og starfsfólk heimavistarinnar, heldur einnig annað starfsfólk skólans og nemendur í dag- og kvöldskóla. Hins vegar verður ekki talið að húsnæðið sé í almannafæri eða að hver sem er eigi þangað erindi. Einnig liggur fyrir að ekki er ætlast til þess að utanaðkomandi aðilar séu inni á heimavistinni eftir klukkan tólf á kvöldin. Þá er húsnæðið lokað aðra hvora helgi. Heimavistarhúsnæði A verður að teljast svæði sem takmarkaður hópur fólks fer um að jafnaði og verður því að gera enn ríkari kröfur til nauðsynjar vöktunarinnar en ella, sbr. síðari málslið 1. mgr. 4. gr., þar sem gerður er áskilnaður um að sérstök þörf verði að vera á slíkri vöktun.


Í bréfi skólameistara, dags. 7. desember sl., er því haldið fram að líta verði á heimavistir framhaldsskóla sem ,,tímabundna gististaði fremur en venjulegt leiguhúsnæði" og að ef gerð væri sú krafa að taka niður öryggismyndavélar á heimavistum þá hlyti slíkt hið sama að gilda um gistiheimili og hótel. Þessi staðhæfing er þó ekki studd neinum rökum. Heimavist er það húsnæði skóla sem nýtt er til íbúðar fyrir námsmenn. Heimavist er fastur dvalarstaður vistarbúa stóran hluta árs, þeir verja þar frítíma sínum og stendur yfirleitt til boða að nýta sér þjónustu mötuneytis. Íbúar á heimavist hafa að jafnaði þinglýsta húsaleigusamninga og hafa rétt til húsaleigubóta, sbr. 5. mgr. 7. gr. laga nr. 138/1997 um húsaleigubætur, sbr. 3. gr. laga nr. 52/2001. Í athugasemdum í greinargerð frumvarps til laga nr. 52/2001 segir að aðstaða nemenda á heimavist skuli teljast ,,íbúðarhúsnæði". Á gististöðum eru ekki gerðir húsaleigusamningar heldur eru keyptar gistinætur og um slíka staði gilda ákvæði laga nr. 67/1985 um veitinga- og gististaði, sem og ákvæði reglugerðar nr. 288/1987 með síðari breytingum. Af þessu er ljóst að á heimavist annars vegar og gististað hins vegar er verulegur munur að lögum. Breytir þar engu þótt húsnæði sem nýtt er undir heimavist að vetri til sé nýtt sem gististaður á sumrin. Einnig ber að árétta að Persónuvernd hefur ekki fjallað um rafræna vöktun á gististöðum. Þar af leiðandi liggur afstaða stofnunarinnar til slíkrar vöktunar ekki fyrir. Af framangreindu er einnig ljóst að herbergi eða íbúð sem námsmaður leigir á heimavist telst til heimilis hans og nýtur friðhelgi sem slíkt. Aðrir hlutar heimavistar, s.s. sameiginleg aðstaða ýmiss konar teljast ekki til ,,heimilis" námsmanns í þeim þrönga skilningi orðsins að hann geti hamlað öðrum aðgang að þeim. Hins vegar eru þetta svæði sem eru í svo nánum tengslum við heimili námsmanns að eðlilegt og sanngjarnt er að hann njóti þar nokkuð ríkrar verndar um einkalíf sitt.


Fyrir liggur að hluti þeirra myndavéla sem notaðar eru við rafræna vöktun á heimavist A eru staðsettar á svæðum sem eru í nánum tengslum við heimili nemenda. Þá fer ekki einungis fram söfnun myndefnis heldur er einnig fylgst með því sem fram fer á hinum vöktuðu svæðum.


Af hálfu skólayfirvalda hefur komið fram að tilgangur vöktunarinnar sé að koma í veg fyrir skemmdarverk og þjófnaði, tryggja öryggi vistarbúa gagnvart utanaðkomandi aðilum sem sækja inn á heimavistina og einnig nýtist eftirlitsmyndavélarnar til að fylgjast með því hvort óviðkomandi aðilar séu á vistinni eftir að henni er lokað og komi þannig í veg fyrir að ganga þurfi um íbúðargangana í jafn ríkum mæli og ella. Þá hefur verið bent á að í húsnæðinu fari fram kennsla í kvöldskóla til klukkan 22 á virkum dögum og því séu þar fleiri á ferli en vistarbúar á kvöldin.


Fallast má á að sérstök þörf geti verið á rafrænni vöktun í þvottahúsi heimavistarinnar, enda hafa allir íbúar vistarinnar aðgang að því og er því hættara við þjófnaði á fatnaði og öðru sem þar er geymt en ella. Sérstök þörf getur einnig verið á rafrænni vöktun í tölvuveri til að koma í veg fyrir skemmdarverk á tækjabúnaði sem þar er að finna, enda verði sjónarhorn myndavélanna áfram á þann veg að ekki sjáist á tölvuskjái þeirra sem nota tölvuverið. Persónuvernd leggur hins vegar fyrir skólayfirvöld að meta hvort reynsla hafi leitt í ljóst sérstaka þörf á að viðhafa vöktunina allan sólarhringinn, eða einungis þegar kennsla fer ekki fram í tölvuverinu og hættara er við skemmdarverkum. Þá má, í þágu öryggis og eignavörslu, staðsetja eftirlitsmyndavélar í anddyrum og utandyra þannig að þær snúi að heimavistinni og nái á mynd þeim sem leita inngöngu á hana. Myndavél þeirri, sem ætlað er að tryggja að nemendur komi ekki með utanaðkomandi inn á heimavistina þær helgar sem hún er lokuð, má snúa að útgangi þannig að þeir sem koma inn á vistina náist á mynd.


Hins vegar verður ekki talið sýnt fram á sérstaka þörf á eftirlitsmyndavélum á göngum heimavistarinnar. Fram hefur komið að húsfreyja hafi eftirlit með heimavistinni til klukkan 02 á virkum dögum, þ.e. allt að tveimur tímum eftir að heimavistinni hefur verið lokað og utanaðkomandi aðilar eiga að hafa haft sig í brott, og sé á bakvakt um nætur, en híbýli hennar eru áföst heimavistinni. Einnig er viðhöfð gæsla til klukkan 02 þær helgar sem heimavistin er opin. Þá hefur ofbeldi ekki verið vandamál á heimavistinni, sem hefur verið starfrækt frá árinu 1979, en einungis eitt slíkt mál hefur komið upp - utan hinna vöktuðu svæða. Herbergjum er hægt að læsa til að koma í veg fyrir þjófnað. Þá verður að telja að gangaeftirliti á kvöldin sé unnt að ná með öðrum og vægari raunhæfum úrræðum en að viðhafa rafræna vöktun, þ.e. með því að ganga um heimavistargangana. Því verður ekki séð að sérstök þörf sé á því að koma eftirlitsmyndavélum fyrir inni á göngum heimavistarinnar.


Með vísan til framangreinds verður að telja að sú rafræna vöktun sem fram fer í þvottahúsi, tölvuveri, anddyrum og utandyra á heimavist A fái samrýmst 3. gr. reglna nr. 888/2004, sbr. og 1. mgr. 4. gr. og 1.-3. tölul. 7. gr. laga nr. 77/2000. Hins vegar fer sú rafræna vöktun sem nú fer fram á göngum heimavistarinnar í bága við framangreind ákvæði laga og reglna. Persónuvernd hefur því ákveðið, á grundvelli 1. mgr. 40. gr. laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, að leggja fyrir A að stöðva þá vöktun sem fram fer á göngum heimavistar skólans. Í bréfi skólameistara, dags. 7. desember 2005, kemur fram sú skoðun skólameistara að ekki yrði unnt að verða við fyrirmælum um stöðvun vöktunarinnar fyrr en með nýju skólaári. Er því lagt fyrir skólann að láta af þeirri vöktun sem hér um ræðir áður en nemendur koma á heimavist haustið 2006.


Ekki verður tekin afstaða til staðsetningar þeirra myndavéla sem ekki eru virkar.


Ákvörðunarorð:

Rafræn vöktun er heimil á heimavist A. Þær sjö eftirlitsmyndavélar sem heimilt er að nota eru þrjár myndavélar sem eru staðsettar utanhúss, ein myndavél í aðalanddyri, ein myndavél í tölvuveri, ein myndavél í þvottahúsi og ein myndavél sem ætlað er að vakta hliðarinngang sem notaður er um helgar. Síðasttöldu myndavélinni skal þó snúið að innganginum. Önnur rafræn vökun sem nú fer fram á heimavistinni er óheimil og skal A stöðva hana áður en nemendur koma á heimavist skólans haustið 2006.



Var efnið hjálplegt? Nei