Úrlausnir

Nýtt starfsleyfi Creditinfo til vinnslu upplýsinga um lögaðila

Mál nr. 2016/1822

19.6.2017

Persónuvernd hefur gefið út starfsleyfi til Creditinfo Lánstrausts hf. til vinnslu upplýsinga um fjárhagsmálefni og lánstraust lögaðila í því skyni að miðla þeim til annarra. Leyfið gildir til 31. desember 2018.

Bréf dags., 23. desember 2016.

Efni: Starfsleyfi til vinnslu upplýsinga um fjárhagsmálefni og lánstraust lögaðila í því skyni að miðla þeim til annarra


Samkvæmt 2. mgr. 45. gr. laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga þarf leyfi Persónuverndar til söfnunar og skráningar upplýsinga, sem varða fjárhagsmálefni og lánstraust fyrirtækja, svo og annarra lögaðila, í því skyni að miðla til annarra upplýsingum um það efni. Með stoð í ákvæðinu hefur verið sett reglugerð nr. 246/2001 um söfnun og miðlun upplýsinga um fjárhagsmálefni og lánstraust sem hefur að geyma nánari reglur um það hvernig slíkri upplýsingavinnslu skuli hagað.

Fyrir liggur beiðni Creditinfo Lánstrausts hf. frá 16. desember 2016 um endurnýjun starfsleyfis samkvæmt framangreindum ákvæðum til vinnslu fjárhagsupplýsinga um lögaðila, en til dagsins í dag hefur um þá vinnslu gilt leyfi, dags. 19. desember 2014 (mál nr. 2014/1690), sbr. einnig framlengingu á gildistíma í tölvupósti hinn 21. s.m.

Hér með tilkynnist sú ákvörðun Persónuverndar að veita Creditinfo-Lánstrausti hf. nýtt starfsleyfi til söfnunar og skráningar upplýsinga, sem varða fjárhagsmálefni og lánstraust fyrirtækja, svo og annarra lögaðila, í því skyni að miðla til annarra upplýsingum um það efni. Leyfið, sem gildir til 31. desember 2018, er bundið því skilyrði að við meðferð upplýsinganna sé í einu og öllu farið að ákvæðum reglugerðar nr. 246/2001.

Athugasemd

Gildistími leyfisins hefur verið framlengdur, nú síðast til 10. maí 2021.Var efnið hjálplegt? Nei