Úrlausnir

Birting persónuupplýsinga á vefsíðu héraðsdómstólanna

Mál nr. 2016/1783

16.6.2017

Persónuvernd hefur úrskurðað um að vinnsla Héraðsdóms Reykjaness og Héraðsdóms Reykjavíkur á persónuupplýsingum við birtingu tveggja dóma hafi ekki samrýmst lögum nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.

Úrskurður

 

Á fundi stjórnar Persónuverndar þann 16. júní 2017 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli nr. 2016/1783:

I.

Málsmeðferð 

1.

Tildrög máls

Þann 13. desember 2016 barst Persónuvernd kvörtun frá [A] (hér eftir nefndur kvartandi) yfir birtingu tveggja héraðsdóma á vefsíðunni domstolar.is. Í kvörtuninni, sem beint er gegn Héraðsdómi Reykjaness, Héraðsdómi Reykjavíkur og dómstólaráði, segir að um sé að ræða tvo dóma.

 

Fyrri dómurinn sem vísað er til er dómur Héraðsdóms Reykjaness frá […] 2013 í máli nr. […]. Í málinu var fjallað um birtingu siðanefndar Læknafélags Íslands á viðkvæmum persónuupplýsingum um kvartanda í Læknablaðinu. Voru Læknafélag Íslands og ritstjóri og ábyrgðarmaður Læknablaðsins dæmdir til að greiða kvartanda miskabætur. Dómurinn var birtur á vefsíðunni domstolar.is, án þess að nafn kvartanda eða hinar viðkvæmu persónuupplýsingar væru afmáðar, en í dómnum var m.a. birt nafn kvartanda, aldur, bæjarfélag og upplýsingar úr sjúkraskrá hans. Dómurinn var aðgengilegur almenningi á vefsíðunni allt þar til kvartandi varð þess áskynja tæpum fjórum árum síðar. Fór lögmaður hans fram á það með bréfi til dómstólsins, dags. […] 2016, að dómurinn yrði fjarlægður af vefsíðunni og ekki birtur á ný fyrr en upplýsingar um kvartanda hefðu verið gerðar ópersónugreinanlegar. Varð Héraðsdómur Reykjaness við þeirri beiðni og fjarlægði dóminn.

 

Síðari dómurinn sem vísað er til er dómur Héraðsdóms Reykjavíkur frá […] 2016 í máli nr. […]. Í málinu voru kvartanda dæmdar miskabætur vegna þeirrar háttsemi læknis að senda siðanefnd Læknafélags Íslands upplýsingar úr sjúkraskrá hans. Í dóminum voru meðal annars birtar upplýsingar um nafn kvartanda og heilsuhagi hans, ásamt tilvísun í fyrrnefndan dóm Héraðsdóms Reykjaness frá […] 2013.

 

Kvartandi telur birtingu beggja dómanna meðal annars hafa verið í andstöðu við ákvæði laga nr. 77/2000 og grundvallarreglur stjórnarskrár og mannréttindasáttmála um persónuvernd og friðhelgi einkalífs. Þá fjallar kvartandi sérstaklega um niðurstöðu Persónuverndar í máli nr. 2011/1339, þar sem kvörtun gegn dómstólaráði yfir nafnbirtingu í héraðsdómi sem birtur var á vefsíðunni domstolar.is var vísað frá með þeim rökum að það félli utan valdheimilda Persónuverndar að úrskurða um lögmæti ákvörðunar dómara varðandi netbirtingu dóms. Kvartandi vísar til þess að birting dóma og dómsúrskurða á Netinu sé eðli sínu samkvæmt ekki dómsathöfn heldur sé um að ræða handhöfn og meðferð stjórnsýsluvalds dómstóla. Máli sínu til stuðnings vísar kvartandi til 22. gr. a dómstólalaga nr. 15/1998, sem tók gildi 1. ágúst 2015, reglna um birtingu héraðsdóma á heimasíðu héraðsdómstólanna, sbr. tilkynningu dómstólaráðs nr. 1/2016, og niðurstöðu Persónuverndar í máli nr. 2015/590. Í síðastnefnda málinu kvað Persónuvernd upp efnisúrskurð vegna kvörtunar yfir tölvupósti sem sendur var til margra viðtakenda frá skrifstofu Hæstaréttar og var netfang kvartanda þar sýnilegt öðrum viðtakendum póstsins.

 

2.

Bréfaskipti við Héraðsdóm Reykjaness

Með bréfi, dags. 1. febrúar 2017, ítrekuðu 1. mars s.á., var Héraðsdómi Reykjaness boðið að koma á framfæri skýringum vegna kvörtunarinnar. Í svarbréfi dómstólsins, dags. 3. mars 2017, segir að fallist sé á að mistök hafi verið gerð þegar umræddur dómur var birtur á vef héraðsdómstólanna án þess að áður hefðu verið afmáðar úr honum þær upplýsingar sem kvörtunin tæki til. Strax í kjölfar þess að dómstjóri hafi fengið vitneskju um þetta, en það hafi verið með bréfi lögmanns kvartanda, dags. […] 2016, hafi verið brugðist við með því að fjarlægja dóminn af vef héraðsdómstólanna.

 

3.

Bréfaskipti við Héraðsdóm Reykjavíkur

Með bréfi, dags. 1. febrúar 2017, var Héraðsdómi Reykjavíkur boðið að koma á framfæri skýringum vegna kvörtunarinnar. Í svarbréfi dómstólsins, dags. 20. febrúar 2017, segir að eftir skoðun telji Héraðsdómur Reykjavíkur að fallast megi á að dóminn hefði átt að nafnhreinsa og hreinsa af persónurekjanlegum upplýsingum fyrir birtingu. Þrátt fyrir ákvæði tilvitnaðra laga og birtingarreglna virðist sem eitthvað hafi farið úrskeiðis í framkvæmd birtingar dómsins og hann því birtur í heild. Þá er beðist velvirðingar á þeim mistökum fyrir hönd Héraðsdóms Reykjavíkur og upplýst að dómurinn hafi verið fjarlægður af vefsíðunni.

 

4.

Bréfaskipti við dómstólaráð

Með bréfi, dags. 10. mars 2017, var dómstólaráði boðið að koma á framfæri skýringum vegna kvörtunarinnar. Í svarbréfi dómstólaráðs, dags. 23. mars 2017, kemur fram að dómur Héraðsdóms Reykjaness frá […] 2013 hafi verið birtur á heimasíðu dómstólaráðs og héraðsdómstólanna í gildistíð tilkynningar dómstólaráðs nr. 4/2010 um reglur um birtingu héraðsdóma á heimasíðu héraðsdómstólanna. Ljóst sé að á þeim tíma hafi héraðsdómstólum ekki verið skylt að birta úrlausnir sínar opinberlega en þeim hafi verið það heimilt, með takmörkunum þó. Ekki hafi verið vikið að opinberri birtingu dóma í lögum nr. 91/1991 um meðferð einkamála en í 4. mgr. 16. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála hafi á hinn bóginn verið mælt fyrir um að áður en endurrit af dómi væri afhent skyldi, ef sérstök ástæða væri til, afmá úr þeim atriði sem eðlilegt væri að leynt færu með tilliti til almanna- eða einkahagsmuna og að hið sama ætti við ef dómar eða aðrar úrlausnir væru birtar opinberlega, svo sem á vefsíðum. Þá hafi dómstólaráði samkvæmt 17. gr. laganna meðal annars verið veitt heimild til að setja reglur um birtingu dóma og annarra dómsúrlausna, til dæmis á vefsíðum dómstóla. Með 20. og 34. gr. laga nr. 78/2015, um breytingu á lögum um meðferð einkamála, lögum um meðferð sakamála og lögum um dómstóla o.fl., hafi fyrrnefndri 17. gr. laga nr. 88/2008 verið breytt og fyrrgreind heimild tekin út, en nýtt ákvæði sama efnis, 22. gr. a, hafi jafnframt verið fært inn í lög nr. 15/1998 um dómstóla. Í síðastnefnda ákvæðinu, sem tók gildi 1. ágúst 2015, er fjallað um útgáfu héraðsdóma og hvaða upplýsingar er heimilt og óheimilt að birta, auk þess sem dómstólaráði er falið að setja nánari reglur um hvaða dómar skuli ekki gefnir út og hvernig standa skuli að brottnámi upplýsinga úr öðrum dómum.

 

Í svarbréfi dómstólaráðs er vísað til þess að samkvæmt 4. mgr. 3. gr. þeirra reglna dómstólaráðs, sem giltu þegar dómur Héraðsdóms Reykjaness frá […] 2013 var kveðinn upp, sbr. tilkynningu nr. 4/2010, skyldi gæta nafnleyndar í einkamálum sem fjölluðu um mjög viðkvæm persónuleg málefni, svo sem í málum þar sem fjallað var um viðkvæmar heilsufarsupplýsingar. Samkvæmt 3. mgr. 1. gr. sömu tilkynningar skyldi dómstólaráð annast birtingu dómanna í samráði við héraðsdómstólana. Framkvæmdin hafi hins vegar verið sú að hver og einn dómstóll hafi annast birtingu dóma á heimasíðu dómstólanna beint úr málaskrárkerfi viðkomandi dómstóls og hafi dómstólaráð ekki haft neina umsjón með því ferli.

 

Þá vísar dómstólaráð til þess að dómur Héraðsdóms Reykjavíkur frá […] 2016 hafi verið birtur í gildistíð núgildandi reglna dómstólaráðs, sbr. tilkynningu nr. 1/2016, sem styðjist við heimild í 22. gr. a laga um dómstóla nr. 15/1998. Samkvæmt 2. mgr. 5. gr. reglnanna skuli dómari meta áður en dómur er sendur til birtingar hvort afmá beri atriði úr dómsúrlausninni sem eðlilegt er að leynt fari og auk þess huga að því hvort gæta skuli nafnleyndar, sbr. 2. mgr. 4. gr. reglnanna.

 

Að lokum segir að samkvæmt 2. gr. reglna dómstólaráðs, sbr. tilkynningu nr. 1/2016, sé umsjón og ábyrgð með birtingu dóms á herðum skrifstofu viðkomandi dómstóls. Dómstólaráð hafi því hvorki afskipti af framkvæmd við birtingu dóma né beri ábyrgð á því hvernig að birtingu sé staðið.

 

5.

Bréfaskipti við kvartanda

Með bréfi, dags. 27. mars 2017, var kvartanda boðið að tjá sig um fyrrnefnd svarbréf Héraðsdóms Reykjaness, Héraðsdóms Reykjavíkur og dómstólaráðs. Óskaði Persónuvernd sérstaklega eftir afstöðu kvartanda til þess hvort hann teldi ágreining enn vera til staðar í málinu.

 

Athugasemdir kvartanda bárust Persónuvernd í tölvupósti 2. maí 2017. Þar segir meðal annars að kvartandi telji héraðsdómstólana hafa brotið gegn æru hans og friðhelgi á heimildarlausan og ólögmætan hátt með birtingu dómanna. Áréttar kvartandi því kröfu sína um rannsókn og úrskurð í málinu. Þá vekur kvartandi athygli á því að við lauslega skoðun á heimasíðu héraðsdómstólanna megi sjá fleiri dóma þar sem persónuupplýsingar séu birtar í andstöðu við lög.

 

Kvartandi telur ríkt tilefni til beitingar úrræða samkvæmt 40. gr. laga nr. 77/2000, þar sem fjallað er um heimild Persónuverndar til að mæla fyrir um stöðvun vinnslu persónuupplýsinga o.fl., og til þess að kæra málið til lögreglu, ásamt öðrum tilvikum ólögmætrar birtingar persónuupplýsinga í dómum á heimasíðu héraðsdómstólanna. Birting dóma með viðkvæmum persónuupplýsingum geti hamlað því að þeir sem telji á sér brotið leiti réttar síns fyrir dómum. Dómstólum og dómurum megi öðrum fremur vera kunnugt um viðkvæmni upplýsinganna og þýðingu þess að gera þær ópersónugreinanlegar áður en dómar eru birtir á Netinu. Ríkt tilefni sé til að kæra málið til lögreglu, og vísar kvartandi til forsendna Persónuverndar í máli nr. 2011/62 hjá stofnuninni því til stuðnings.

 

Í athugasemdum kvartanda segir að héraðsdómstólarnir og dómstólaráð hafi sett sér reglur um birtingu dóma en þeim sé ekki framfylgt vegna þess að enginn beri ábyrgð og ekkert raunhæft eftirlit hafi verið með dómabirtingum dómstóla. Reglur um birtingu dóma tryggi ekki fullnægjandi upplýsingaöryggi og friðhelgi einkalífs við birtingu dóma. Íslenskir dómstólar hafi vanrækt að innleiða verklag og gæðaeftirlit sem tryggi að ávallt sé farið að lögum um persónuvernd og reglum við framkvæmd dómabirtingar.

 

Kvartandi vísar einnig til þess að sænska persónuverndarstofnunin hafi eftirlit með meðferð sænskra dómstóla á persónuupplýsingum og hiki ekki við að úrskurða um brot þeirra ef svo beri við. Vísar kvartandi til fjögurra ákvarðana Datainspektionen í Svíþjóð frá 30. september 2014 því til stuðnings. Ekki sé kveðið á um birtingu dóma í stjórnarskrá en réttur manna til friðhelgi einkalífs sé hins vegar stjórnarskrárbundinn, sbr. 71. gr. stjórnarskrárinnar.

 

Kvartandi bendir á að samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laga nr. 77/2000 gildi lögin um sérhverja rafræna vinnslu persónuupplýsinga. Undantekningarákvæði 2. mgr. ákvæðisins eigi ekki við um birtingu dómsúrlausna. Ljóst sé af framangreindu að löggjafinn hafi ekki undanskilið dómsvaldið og birtingu dómstóla á persónuupplýsingum frá lögunum og eftirliti Persónuverndar, sbr. einnig 1. og 2. mgr. 37. gr. laganna.

 

Þá áréttar kvartandi að lokum að birting dóma sé lögum og eðli sínu samkvæmt ekki dómsathöfn heldur stjórnsýsla eða umsýsla. Ljóst megi vera að sá grundvallarmunur sé á annars vegar dómsvaldi, sem felist í stjórn dómara á málsmeðferð fyrir dómi og samningu dóms, og hins vegar birtingu dóms að síðarnefnda athöfnin sé ekkert annað en stjórnsýsluverkefni, hvort heldur sem dómari eða starfsmaður dómstóls taki ákvörðun og birti dóminn samkvæmt reglum dómstólaráðs.  Slík birting sé því ekki undanþegin eftirliti og valdsviði Persónuverndar.

 

II.

Forsendur og niðurstaða

 

1.

Gildissvið laga nr. 77/2000

Lög nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga gilda um sérhverja rafræna vinnslu persónuupplýsinga og handvirka vinnslu persónuupplýsinga sem eru eða eiga að verða hluti af skrá, sbr. 1. mgr. 3. gr. laganna. Persónuupplýsingar eru skilgreindar í 1. tölul. 2. gr. laganna sem sérhverjar persónugreindar eða persónugreinanlegar upplýsingar um hinn skráða, þ.e. upplýsingar sem beint eða óbeint má rekja til tiltekins einstaklings, látins eða lifandi. Hugtakið vinnsla er skilgreint sem sérhver aðgerð eða röð aðgerða þar sem unnið er með persónuupplýsingar, hvort heldur vinnslan er handvirk eða rafræn, sbr. 2. tölul. 2. gr. laganna. Í athugasemdum við það ákvæði í því frumvarpi, sem varð að lögum nr. 77/2000, kemur fram að hver sú aðferð, sem nota má til að gera upplýsingar tiltækar, telst til vinnslu.

 

Eins og rakið hefur verið hefur Persónuvernd áður komist að þeirri niðurstöðu í máli nr. 2011/1339 hjá stofnuninni að ekki væru lagaskilyrði til þess að Persónuvernd úrskurðaði um það hvort heimilt hefði verið að birta nafn einstaklings í dómi á heimasíðunni domstolar.is. Var nefndu máli vísað frá Persónuvernd. Í rökstuðningi Persónuverndar í málinu kom fram að ekki yrði annað ráðið af þágildandi 17. gr. laga nr. 88/2008 um sakamál og ákvæðum þágildandi reglna dómstólaráðs um birtingu héraðsdóma á heimasíðu héraðsdómstólanna, sbr. tilkynningu nr. 4/2010, en að það væri hlutverk dómara í hverju máli að taka ákvarðanir um opinbera birtingu dóma eða annarra úrlausna, svo sem á vefsíðum. Með vísan til ákvæða stjórnarskrár um þrískiptingu ríkisvalds væru því rík takmörk sett að hvaða marki Persónuvernd, sem handhafi framkvæmdarvalds, gæti hlutast til um mál sem væru á forræði annarra sjálfstæðra handhafa ríkisvaldsins, Alþingis og dómstóla.

 

Þrátt fyrir fyrrgreinda niðurstöðu Persónuverndar í máli nr. 2011/1339, og með hliðsjón af úrskurði Persónuverndar í máli nr. 2015/590, sem áður var nefndur, sem og úrskurði Persónuverndar í máli nr. 2016/1133 og niðurstöðum sænsku persónuverndarstofnunarinnar, Datainspektionen, í sambærilegum málum (nr. 1316-2013, 1317-2013, 1318-2013 og 1319-2013), er það hins vegar niðurstaða Persónuverndar að sú meðferð persónuupplýsinga, sem kvartað er yfir í máli þessu, heyri undir valdsvið Persónuverndar. Þótt valdsvið Persónuverndar geti ekki náð til vinnslu dómstóla á persónuupplýsingum þegar þeir fara með dómsvald sitt er það mat Persónuverndar að birting dóma á Netinu, sbr. m.a. 22. gr. a laga nr. 15/1998 um dómstóla, sbr. lög nr. 78/2015, feli ekki í sér dómsathöfn. Á það jafnframt við þótt ákvörðun um nafnleynd og afmáningu persónuupplýsinga sé tekin af dómara. Slík ákvörðun lýtur enda ekki að efni dómsins sjálfs heldur einungis að því hvaða upplýsingar skuli birtar á Netinu.

 

2.

Ábyrgðaraðilar vinnslu

Sá sem ber ábyrgð á að vinnsla persónuupplýsinga samrýmist lögum nr. 77/2000 er nefndur ábyrgðaraðili. Samkvæmt 4. tölul. 2. gr. laganna er þar átt við þann sem ákveður tilgang vinnslu persónuupplýsinga, þann búnað sem notaður er, aðferð við vinnsluna og aðra ráðstöfun upplýsinganna.

 

2.1.

Ábyrgðaraðili vegna birtingar dóms Héraðsdóms Reykjaness

Samkvæmt þeim lögum og reglum, sem í gildi voru þegar dómur Héraðsdóms Reykjaness frá […] 2013 var kveðinn upp, bar dómstólaráði að annast birtingu í samráði við héraðsdómstólana, sbr. 3. mgr. 1. gr. reglna um birtingu héraðsdóma á heimasíðu héraðsdómstólanna, sbr. tilkynningu dómstólaráðs nr. 4/2010. Í svarbréfi dómstólaráðs, dags. 23. mars 2017, kemur þó fram að framkvæmdin hafi verið sú að hver og einn dómstóll hafi annast birtingu dóma á heimasíðu dómstólanna beint úr málaskrárkerfi viðkomandi dómstóls og hafi dómstólaráð ekki haft neina umsjón með því ferli. Þá kom fram í 4. gr. reglnanna að áður en dómari sendi dóm eða úrskurð til birtingar mæti hann hvort afmá bæri atriði úr úrlausninni og bæri ábyrgð á að hún færi fram í samræmi við áðurnefnd ákvæði. Gæta skyldi þess að það sem eftir stæði væri ekki hægt að tengja þeim hagsmunum sem ætlunin væri að vernda. Með vísan til framangreinds telst Héraðsdómur Reykjaness ábyrgðaraðili þeirrar vinnslu persónuupplýsinga sem fólst í birtingu fyrrgreinds dóms frá […] 2013.

 

2.2.

Ábyrgðaraðili vegna birtingar dóms Héraðsdóms Reykjavíkur

Hvað varðar birtingu dóms Héraðsdóms Reykjavíkur frá […] 2016 ber að líta til þess að samkvæmt 2. gr. núgildandi reglna dómstólaráðs, sbr. tilkynningu nr. 1/2016, skal dómsúrlausn birt af hálfu skrifstofu dómstóls. Þá segir í 2. mgr. 5. gr. reglnanna að áður en dómari sendi dóm eða úrskurð til birtingar meti hann hvort afmá beri atriði úr úrlausninni í samræmi við önnur ákvæði reglnanna. Gæta skuli þess að það sem eftir standi sé ekki hægt að tengja þeim hagsmunum sem ætlunin er að vernda, sbr. 2. mgr. ákvæðisins. Með vísan til framangreinds telst Héraðsdómur Reykjavíkur því ábyrgðaraðili þeirrar vinnslu persónuupplýsinga sem fólst í birtingu dóms dómstólsins frá […] 2016.

 

2.3.

Dómstólaráð

Hlutverk dómstólaráðs er skilgreint í lögum nr. 15/1998 um dómstóla, sbr. einkum 14. gr. laganna. Samkvæmt 4. tölul. 1. mgr. þess ákvæðis hefur ráðið meðal annars það hlutverk að setja starfsreglur um samræmda framkvæmd við héraðsdómstóla. Þá má nefna að dómstólaráð kemur fram gagnvart stjórnvöldum og öðrum í þágu héraðsdómstólanna sameiginlega, sbr. 7. tölul. ákvæðisins, og gerir tillögur um hvað eina sem getur orðið til úrbóta í störfum héraðsdómstóla eða löggjöf sem um þá gildir, sbr. 8. tölul. ákvæðisins.

 

Eins og áður hefur komið fram hefur dómstólaráð upplýst að framkvæmdin hafi verið sú að hver og einn dómstóll hafi annast birtingu dóma á heimasíðu dómstólanna beint úr málaskrárkerfi viðkomandi dómstóls og hafi dómstólaráð ekki haft neina umsjón með því ferli. Með hliðsjón af því, sem og því hlutverki sem dómstólaráð hefur samkvæmt lögum nr. 15/1998 um dómstóla, er það mat Persónuverndar að dómstólaráð teljist ekki ábyrgðaraðili þeirrar vinnslu persónuupplýsinga sem kvörtun þessi tekur til, sbr. 4. tölul. 2. gr. laga nr. 77/2000.

 

3.

Lögmæti vinnslu

3.1.

Öll vinnsla persónuupplýsinga verður að samrýmast einhverri af kröfum 1. mgr. 8. gr. laga nr. 77/2000. Þá verður vinnsla viðkvæmra persónuupplýsinga, svo sem upplýsinga um heilsuhagi, sbr. c-lið 8. tölul. 2. gr. sömu laga, að samrýmast einhverju af viðbótarskilyrðum 9. gr. laganna.

 

Að auki verður öll vinnsla persónuupplýsinga að fullnægja grunnkröfum 1. mgr. 7. gr. laga nr. 77/2000 um gæði gagna og vinnslu. Þar er mælt fyrir um að persónuupplýsingar skuli unnar með sanngjörnum, málefnalegum og lögmætum hætti og í samræmi við vandaða vinnsluhætti persónuupplýsinga (1. tölul.); að þær skuli fengnar í yfirlýstum, skýrum, málefnalegum tilgangi og ekki unnar frekar í öðrum og ósamrýmanlegum tilgangi (2. tölul.); að þær skuli vera nægilegar og ekki umfram það sem nauðsynlegt er miðað við tilgang vinnslunnar (3. tölul.); að þær skuli vera áreiðanlegar og uppfærðar eftir þörfum, en persónuupplýsingar, sem séu óáreiðanlegar eða ófullkomnar, miðað við tilgang vinnslu þeirra, skuli afmá eða leiðrétta (4. tölul.); og að þær skuli varðveittar í því formi að ekki sé unnt að bera kennsl á hina skráðu lengur en þörf krefur miðað við tilgang vinnslu (5. tölul.).

 

3.2.

Dómur Héraðsdóms Reykjaness frá […] 2013

Fyrir liggur að í dómi Héraðsdóms Reykjaness frá […] 2013 voru birtar viðkvæmar upplýsingar um heilsuhagi kvartanda ásamt nafni hans. Samkvæmt framansögðu þarf slík vinnsla persónuupplýsinga að styðjast við heimild í 1. mgr. 8. gr. og 1. mgr. 9. gr. laga nr. 77/2000.

 

Samkvæmt 3. tölul. 1. mgr. 8. gr. laganna er vinnsla persónuupplýsinga heimil sé hún nauðsynleg til að fullnægja lagaskyldu sem hvílir á ábyrgðaraðila. Þá er vinnslan einnig heimil sé hún nauðsynleg vegna verks sem unnið er í þágu almannahagsmuna, sbr. 5. tölul. ákvæðisins, eða til að ábyrgðaraðili, eða þriðji maður eða aðilar sem upplýsingum er miðlað til, geti gætt lögmætra hagsmuna nema grundvallarréttindi og frelsi hins skráða sem vernda ber samkvæmt lögum vegi þyngra, sbr. 7. tölul. ákvæðisins. Ef litið er til 1. mgr. 9. gr. laganna kemur einkum til greina að styðjast við 2. tölul. ákvæðisins sem heimilar vinnslu viðkvæmra persónuupplýsinga standi sérstök heimild til hennar samkvæmt öðrum lögum. Í því tilviki sem hér um ræðir er ágreiningur um birtingu viðkvæmra persónuupplýsinga. Með vísan til framangreinds er því nauðsynlegt að kanna lagastoð birtingarinnar.

 

Við úrlausn máls þessa ber að hafa hliðsjón af því að breytingar hafa verið gerðar á lögum og reglum um birtingu dóma á Netinu frá því að umræddur dómur var fyrst birtur í ársbyrjun 2013. Á þeim tíma var ekki kveðið á um heimild eða skyldu til að birta héraðsdóma öðrum en málsaðilum án þess að beðið væri um það. Nánar tiltekið kom fram í 1. mgr. 14. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála að dómara væri skylt að láta þeim sem hefðu lögvarinna hagsmuna að gæta í té staðfest eftirrit af málsskjölum og úr þingbók eða dómabók. Þá sagði í 2. mgr. ákvæðisins að áður en endurrit úr þingbókum og dómabókum væru afhent öðrum en aðilum máls skyldi, ef sérstök ástæða væri til, afmá úr þeim atriði sem eðlilegt væri að leynt færu með tilliti til almanna- eða einkahagsmuna.

 

Samkvæmt f-lið 17. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála setti dómstólaráð nánari reglur um birtingu dóma og annarra dómsúrlausna, til dæmis á vefsíðum dómstóla. Við birtingu dóms Héraðsdóms Reykjaness frá […] 2013 voru í gildi reglur dómstólaráðs um birtingu héraðsdóma á heimasíðu héraðsdómstólanna, sbr. tilkynningu dómstólaráðs nr. 4/2010, en í 4. mgr. 3. gr. þeirra sagði að gæta skyldi nafnleyndar í einkamálum sem fjölluðu um mjög viðkvæm persónuleg málefni, svo sem í málum þar sem fjallað væri um viðkvæmar heilsufarsupplýsingar.

 

Við mat á því hvort fyrrgreind ákvæði laga og reglna fela í sér heimild til vinnslu viðkvæmra persónuupplýsinga þarf meðal annars að líta til þess sem segir í athugasemdum við 9. gr. frumvarps þess er varð að lögum nr. 77/2000. Þar kemur fram að mat á því hvort lagastoð sé fyrir hendi ráðist hverju sinni af skýringu viðkomandi sérlagaákvæðis, en því meiri íhlutun í einkalíf einstaklingsins sem umrædd vinnsla hafi í för með sér þeim mun ótvíræðari þurfi lagaheimildin að vera. Skýring slíks ákvæðis ráðist þá meðal annars af því hvort löggjafinn hafi í raun tekið tillit til þeirra almennu persónuverndarsjónarmiða sem á reynir við meðferð viðkvæmra persónuupplýsinga. Verði skilyrði 2. tölul. 1. mgr. 9. gr. tæplega talið uppfyllt nema fyrir liggi að löggjafinn hafi skoðað slík sjónarmið en engu síður talið vinnsluna nauðsynlega vegna almannahagsmuna.

 

Með vísan til alls framangreinds telur Persónuvernd að birting viðkvæmra persónuupplýsinga um kvartanda í dómi Héraðsdóms Reykjaness frá […] 2013 hafi ekki getað stuðst við heimild í 2. tölul. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 77/2000 þegar dómurinn var birtur. Þá verður ekki séð að birtingin hafi getað stuðst við aðra heimild í 1. mgr. 9. gr. laganna. Þegar af þeirri ástæðu samrýmdist hún ekki lögum nr. 77/2000.

 

Eins og greint er frá í málavaxtalýsingu hér að framan var umræddur dómur birtur á vefsíðunni domstolar.is allt þar til lögmaður kvartanda fór fram á það með bréfi, dags. 2. nóvember 2016, að hann yrði fjarlægður af vefsíðunni.

 

Þann 1. ágúst 2015 tóku gildi lög nr. 78/2015 um breytingu á lögum um meðferð einkamála, lögum um meðferð sakamála, lögum um aðför, lögum um gjaldþrotaskipti o.fl. og lögum um dómstóla (einföldun réttarfars). Með 34. gr. þeirra laga var nýju ákvæði, 22. gr. a, bætt inn í lög nr. 15/1998 um dómstóla. Í 1. mgr. ákvæðisins segir að dómar héraðsdómstóla skuli gefnir út, en um tilhögun útgáfunnar fari eftir ákvörðun dómstólaráðs að fengnu samþykki ráðherra. Þá segir í 2. mgr. ákvæðisins að héraðsdómar í einkamálum sem varði viðkvæm persónuleg málefni aðila, svo sem lögræði, sifjar, erfðir, forsjá barna og umgengni við þau, skuli ekki gefnir út. Við útgáfu annarra dóma skuli nema brott úr þeim upplýsingar um einka-, fjárhags- eða viðskiptahagsmuni einstaklinga ellegar lögpersóna, svo og upplýsingar um öryggi ríkisins og varnarmál, sem eðlilegt er að leynt fari. Í því skyni skuli í dómum í sakamálum gæta nafnleyndar um þá sem þar eru greindir, þó ekki um ákærða sé hann sakfelldur, nema um sé að ræða börn. Einnig skuli gæta nafnleyndar í dómum í einkamálum ef sérstök ástæða sé til. Þegar nöfnum sé haldið leyndum skuli jafnframt afmá önnur atriði úr dómi sem tengt geti aðila eða aðra við sakarefnið. Dómstólaráð skuli setja nánari reglur um hvaða dómar skuli ekki gefnir út og hvernig standa skuli að brottnámi upplýsinga úr öðrum dómum.

 

Í 2. mgr. 4. gr. reglna um birtingu dóma og úrskurða á heimasíðu héraðsdómstólanna, sbr. tilkynningu dómstólaráðs nr. 1/2016, kemur fram að gæta skuli nafnleyndar í dómum í einkamálum ef sérstök ástæða sé til. Þegar nöfnum sé haldið leyndum skuli jafnframt afmá önnur atriði úr dómi sem tengt geti aðila eða aðra við sakarefnið. Í eldri reglum um sama efni, sbr. tilkynningu dómstólaráðs nr. 4/2014, kom fram að nafnleyndar skyldi gæta um aðila og vitni við birtingu dóma í einkamálum sem fjölluðu um viðkvæm persónuleg málefni, svo sem í málum er vörðuðu læknamistök.

 

Eins og áður var rakið voru viðkvæmar persónuupplýsingar um heilsuhagi kvartanda birtar í umræddum dómi. Með vísan til fyrrgreindra reglna um nafnleynd við birtingu dóma í einkamálum er það mat Persónuverndar að birtingin hafi ekki getað stuðst við heimild í 2. tölul. 1. mgr. 9. gr. laganna. Þá hafi hún ekki getað stuðst við aðra heimild í 1. mgr. 9. gr. Samrýmdist birtingin því ekki lögum nr. 77/2000. 

 

3.3.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur frá […] 2016

Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá […] 2016 var nafn kvartanda birt ásamt upplýsingum um heilsuhagi hans og tilvísun í dóm Héraðsdóms Reykjaness frá […] 2013. Sem fyrr er það einkum 2. tölul. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 77/2000 sem kemur til greina sem heimild til vinnslunnar.

 

Þegar dómur Héraðsdóms Reykjavíkur var birtur höfðu verið gerðar þær breytingar á lögum nr. 15/1998 um dómstóla, sem áður var greint frá. Þá voru jafnframt í gildi reglur um birtingu dóma og úrskurða á heimasíðu héraðsdómstólanna, sbr. tilkynningu dómstólaráðs nr. 1/2016, sem einnig var fjallað um í kafla 3.2. hér að framan. Í 2. mgr. 4. gr. reglnanna segir að gæta skuli nafnleyndar í dómum í einkamálum ef sérstök ástæða sé til. Þegar nöfnum sé haldið leyndum skuli jafnframt afmá önnur atriði úr dómi sem tengt geti aðila eða aðra við sakarefnið.

 

Eins og fram hefur komið voru viðkvæmar persónuupplýsingar um heilsuhagi kvartanda birtar í umræddum dómi. Með vísan til fyrrgreindra reglna um nafnleynd við birtingu dóma í einkamálum er það mat Persónuverndar að birtingin hafi ekki getað stuðst við heimild í 2. tölul. 1. mgr. 9. gr. laganna. Þá hafi hún ekki getað stuðst við aðra heimild í 1. mgr. 9. gr. Samrýmdist birtingin því ekki lögum nr. 77/2000. 

 

3.3.

Krafa kvartanda um kæru til lögreglu og stöðvun vinnslu

 

Í svarbréfi kvartanda, dags. 2. maí 2017, kemur fram að kvartandi telji ríkt tilefni til beitingar úrræða samkvæmt 40. gr. laga nr. 77/2000, þar sem fjallað er um heimild Persónuverndar til að mæla fyrir um stöðvun vinnslu persónuupplýsinga o.fl., og til þess að kæra málið til lögreglu.

 

Hvað varðar ábendingar kvartanda um að fleiri dæmi séu um birtingu persónuupplýsinga í dómum á Netinu í andstöðu við lög er til þess að líta að kvörtun þessi tekur einungis til birtingar tveggja nánar tilgreindra héraðsdóma. Báðir dómarnir hafa verið teknir úr birtingu, en dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá […] 2016 var þó áfrýjað til Hæstaréttar og er hann birtur á heimasíðu réttarins ásamt niðurstöðu Hæstaréttar. Hefur nafn kvartanda verið afmáð úr dómnum fyrir birtingu, ásamt tilvísun til dóms Héraðsdóms Reykjaness frá […] 2013.

 

Með vísan til framangreinds telur Persónuvernd ekki tilefni til að beita þeim valdheimildum sem kveðið er á um í 40. gr. laga nr. 77/2000 í máli þessu. Þá verður ekki fallist á að tilefni sé til að Persónuvernd kæri málið til lögreglu.

 

 

Ú r s k u r ð a r o r ð:

 

Vinnsla Héraðsdóms Reykjaness á persónuupplýsingum um kvartanda við birtingu dóms í máli nr. […] frá […] 2013 samrýmdist ekki lögum nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.

 

Vinnsla Héraðsdóms Reykjavíkur á persónuupplýsingum um kvartanda við birtingu dóms í máli nr. […] frá […] 2016 samrýmdist ekki lögum nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.

 

 

 

 

 

 

 



Var efnið hjálplegt? Nei