Úrlausnir

Útdráttur í máli Persónuverndar nr. 2016/181

5.4.2017

Kvartað var yfir umfjöllun tveggja dagblaða um einstakling sem sóttist eftir opinberri stöðu á þeim tíma sem umfjöllunin var birt. Umfjöllunin sneri að persónu kvartanda og var hann þar sakaður um brot og ámælisverða háttsemi. Umfjöllunin var birt á vefnum Tímarit.is og fór kvartandi fram á að hún yrði fjarlægð. Þá fór hann jafnframt fram á að Persónuvernd endurskoðaði niðurstöðu Google Inc., sem hafði hafnað beiðni kvartanda um að fjarlægðar yrðu leitarniðurstöður, sem vísuðu á fyrrgreinda umfjöllun á vefnum Tímarit.is þegar leitað var eftir nafni kvartanda á leitarvélinni Google.

Niðurstaða Persónuverndar um kvörtunina gagnvart vefnum Tímarit.is var á sama veg og í fyrra málinu og var þeim hluta kvörtunarinnar því vísað frá.

Hins vegar komst Persónuvernd að þeirri niðurstöðu að Google bæri að fjarlægja leitarniðurstöðurnar sem kvörtunin sneri að.

Persónuvernd taldi að við mat á því hvort kvartandi ætti rétt á því að fá eytt tilteknum leitarniðurstöðum, sem birtust þegar nafn hans var slegið inn í leitarvél Google, þyrfti í fyrsta lagi að kanna hvort sú vinnsla persónuupplýsinga, sem fram færi með notkun leitarvélarinnar, styddist við heimild í lögum nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, sbr. 8. og 9. gr. laganna. Í öðru lagi þyrfti að meta hvort kvartandi ætti rétt á að fá persónuupplýsingunum, þ.e. þeim tenglum og þeim upplýsingum sem birtar væru með leitarniðurstöðunum, eytt á grundvelli 25. eða 26. gr. sömu laga.

Í úrskurði Persónuverndar er tekið fram að sú vinnsla persónuupplýsinga, sem þar er til skoðunar, sé eingöngu sú vinnsla sem fram fari á vegum leitarvélarinnar Google en lögmæti þeirrar vinnslu beri að meta sérstaklega og óháð lögmæti þeirrar vinnslu sem fram fari hjá vefnum Tímarit.is, sem hýsi efnið sem leitarniðurstöðurnar vísi til. Sú vinnsla persónuupplýsinga sem fram fari á vegum leitarvélarinnar Google, og Google Inc. sé ábyrgðaraðili að, sé nánar tiltekið fólgin í því að afla upplýsinga um efni sem vistað er á Netinu, vista þær upplýsingar í gagnagrunni og gera þær aðgengilegar í gegnum leit á Netinu. Af þeirri ástæðu komi 5. gr. laga nr. 77/2000, um tengsl við tjáningarfrelsi, ekki til skoðunar í þessu samhengi, þótt hún kunni eftir atvikum að hafa þýðingu varðandi birtingu sömu upplýsinga á þeirri vefsíðu sem niðurstöður leitarinnar vísi á hverju sinni.

Persónuvernd taldi að ekki yrði séð að umrædd vinnsla persónuupplýsinga hjá Google Inc. gæti stuðst við aðrar heimildir í 8. gr. laga nr. 77/2000 en 7. tölul. 1. mgr. ákvæðisins þar sem mælt er fyrir um að vinnsla persónuupplýsinga sé heimil sé hún nauðsynleg til að ábyrgðaraðili, eða þriðji maður eða aðilar sem upplýsingunum er miðlað til, geti gætt lögmætra hagsmuna nema grundvallarréttindi og frelsi hins skráða sem vernda ber samkvæmt lögum vegi þyngra. Reyndi þá annars vegar á fjárhagslega hagsmuni Google Inc. tengda leitarvélinni, sem og hagsmuni almennings af því að geta nálgast upplýsingar á Netinu. Hins vegar reyndi á einkalífsverndarhagsmuni kvartanda, en líta yrði til þess að markmið laga nr. 77/2000 væri meðal annars að stuðla að því að með persónuupplýsingar væri farið í samræmi við grundvallarsjónarmið og reglur um persónuvernd og friðhelgi einkalífs, sbr. 1. mgr. 1. gr. þeirra.

Í niðurstöðu Persónuverndar er þess getið að það geti haft áhrif á hagsmunamat á grundvelli 7. tölul. 1. mgr. 8. gr. ef hinn skráði er opinber persóna eða hefur gegnt opinberu hlutverki. Slíkt geti leitt til þess að hann njóti, stöðu sinnar vegna, ekki sömu einkalífsverndar og óþekktir einstaklingar vegna mikilvægis umræðu um málefni sem kunna að eiga erindi við almenning. Með hliðsjón af málsatvikum voru þessi sjónarmið ekki talin vega þungt í tilviki kvartanda og höfðu þau því ekki áhrif á niðurstöðu hagsmunamatsins.

Niðurstaða Persónuverndar var því sú að vinnsla persónuupplýsinga um kvartanda, sem fólst í því að birta fyrrnefndar niðurstöður í leitarvél Google þrátt fyrir andmæli kvartanda, samrýmdist ekki 8. gr. laga nr. 77/2000. Væri vinnslan óheimil þegar af þeirri ástæðu.

Þá var það niðurstaða Persónuverndar að Google bæri að fjarlægja þær vefsíður sem kvörtunin tæki til úr niðurstöðum leitar að nafni kvartanda í leitarvél Google. Var sú niðurstaða byggð á 1. mgr. 25. gr. laga nr. 77/2000, þar sem fram kemur að ef persónuupplýsingar hafi verið skráðar án tilskilinnar heimildar skuli ábyrgðaraðili sjá til þess að upplýsingarnar verði leiðréttar, þeim eytt eða við þær aukið ef sá annmarki, sem um ræðir, getur haft áhrif á hagsmuni hins skráða. 



Var efnið hjálplegt? Nei