Úrlausnir

Miðlun viðkvæmra persónuupplýsinga úr lögregluskýrslu

7.11.2016

Persónuvernd hefur kveðið upp tvo úrskurði og tekið eina ákvörðun vegna miðlunar viðkvæmra persónuupplýsinga úr lögregluskýrslu.

Persónuvernd hefur kveðið upp tvo úrskurði og tekið eina ákvörðun vegna miðlunar viðkvæmra persónuupplýsinga úr lögregluskýrslu.

Fyrri úrskurðurinn (mál nr. 2016/584) fjallar um miðlun lögreglu á upplýsingum um ætlað heimilisofbeldi á heimili kvartanda til barnaverndarnefndar Kópavogs. Persónuvernd taldi miðlunina samrýmast lögum nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, m.a. með vísan til 1. mgr. 18. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002, þar sem segir að ef lögregla verði þess vör að barn búi við aðstæður eins og lýst er í 16. gr. laganna skuli hún tilkynna barnaverndarnefnd um það. Þeirri afstöðu var lýst af hálfu lögreglu að það hvort barn hefði verið viðstatt ætlað heimilisofbeldi þyrfti ekki að skipta máli um hvort aðstæður á heimili væru þess eðlis að tilkynningarskyldan ætti við. Persónuvernd taldi það ekki falla í sinn hlut að endurskoða þetta mat lögreglu, enda hefði mátt gera ráð fyrir að kvartandi nyti umgengni við barn sitt.

Seinni úrskurðurinn (mál nr. 2016/582) varðaði miðlun barnaverndar Kópavogs á upplýsingum um efni lögregluskýrslunnar til barnsmóður kvartanda. Persónuvernd taldi að sú miðlun hefði samrýmst lögum nr. 77/2000. Var sú niðurstaða á því byggð að miðlunin hefði stuðst við heimild í 1. mgr. 21. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002, en þar segir að barnaverndarnefnd skuli tilkynna foreldrum um að borist hafi tilkynning um að barn búi við aðstæður eins og lýst er í 16. gr. laganna.

Ákvörðun Persónuverndar í máli nr. 2016/581 lýtur að því að barnsmóðir kvartanda birti viðkvæmar persónuupplýsingar um hann á Facebook, þar á meðal upplýsingar um efni áðurnefndar lögregluskýrslu. Í færslunni sem kvörtunin laut að fjallaði barnsmóðir kvartanda um samband þeirra tveggja og ágreining þeirra um umgengni hans við barn sitt. Tengdist umrædd birting því mjög persónubundnum hagsmunum hennar sjálfrar. Persónuvernd taldi að efnisleg úrslausn málsins lyti að því hvort barnsmóðir kvartanda hefði farið út fyrir ramma stjórnarskrárvarins tjáningarfrelsis síns. Það væri ekki á valdi Persónuverndar að ákveða hvort einhver hefði bakað sér ábyrgð að lögum með misnotkun á tjáningarfrelsi sínu samkvæmt 73. gr. stjórnarskrárinnar, heldur yrði slíkt talið heyra undir dómstóla. Var málinu því vísað frá.


Var efnið hjálplegt? Nei