Úrlausnir

Ákvörðun Persónuverndar í máli nr. 2016/581

7.11.2016

Ákvörðun

 

Á fundi stjórnar Persónuverndar þann 26. október 2016 var tekin svohljóðandi ákvörðun í máli nr. 2016/581:

 

I.

Málsmeðferð

1.

Tildrög máls

Þann 18. mars 2016 barst Persónuvernd kvörtun frá [A] (hér eftir nefndur kvartandi) yfir birtingu viðkvæmra persónuupplýsinga um hann á Facebook-síðu [B], barnsmóður hans. Í kvörtuninni segir m.a. að þann [...] hafi barnaverndarnefnd Kópavogs fengið afhenta lögregluskýrslu, dags. [...] s.m., vegna atviks á heimili kvartanda. Kvartandi lýsir atvikinu svo að hann hafi verið færður í fangageymslu vegna ölvunar á heimili og rifrildis milli hans og unnustu hans, sem hafi endað í hávaða, stympingum og látum milli þeirra.

Þann [...] hafi starfsmaður barnaverndarnefndar Kópavogs hringt í [B] til að fá frekari upplýsingar um forsjá barns þeirra. Í símtalinu hafi starfsmaðurinn sagt [B]  frá umræddri lögregluskýrslu. Í framhaldi af símtalinu hafi [B] komið á starfsstöð barnaverndarnefndarinnar og fengið að sjá lögregluskýrsluna auk þess sem allt efni hennar hafi verið lesið upp fyrir hana. [B] hafi svo birt efni skýrslunnar á Facebook-síðu sinni.

Kvörtuninni fylgir afrit af umræddri Facebook-færslu. Þar segir [B] frá sambandi sínu og kvartanda og segir þar meðal annars að kvartandi hafi drukkið illa annað slagið. Hún hafi svo komist að því að hann notaði einnig vímuefni. Kvartandi hafi viðurkennt að hafa ekið undir áhrifum fíkniefna með barn þeirra í bílnum og hugsað um barnið þegar hann hafi verið undir áhrifum. Kvartandi hafi komið mjög illa fram við hana andlega og hann hafi brotið hana niður. Eftir að þau hafi slitið sambandi sínu hafi hann neitað að taka vímuefnapróf áður en hann fékk barnið til sín yfir nótt. Þann [...] hafi hún fengið símhringingu frá barnaverndarnefnd Kópavogs og fengið upplýsingar um að nefndinni hefði borist lögregluskýrsla vegna alvarlegs heimilisofbeldis af hálfu kvartanda í garð unnustu sinnar. Upplýst hefði verið að kvartandi hefði verið handtekinn í annarlegu ástandi og að alvarlegir hlutir hefðu átt sér stað á heimilinu. Nokkru síðar hafi kvartandi mætt til að sækja barnið en hann hafi verið drukkinn og rauðeygður.

Kvartandi telur að þótt [B] hafi fengið aðgang að viðkvæmum persónuupplýsingum um hann hafi hún ekki haft heimild til að miðla þeim áfram né fara með rangt mál um kvartanda, en staðhæfingar hennar á Facebook-síðu sinni um að kvartandi hafi ekið undir áhrifum fíkniefna, m.a. með barn sitt í bílnum, gengið í skrokk á unnustu sinni og liggi undir grun um alvarlegt heimilisofbeldi séu ósannar. Þá tekur kvartandi fram að Facebook-færslan sem um ræðir hafi ekki verið birt fyrr en [...], eða þremur vikum eftir að úrskurður sýslumanns féll þar sem kvartanda hafi verið veitt full umgengni við barn sitt og [B]. Hvorki lögregla né barnaverndarnefnd hafi séð ástæðu til að fylgja málinu eftir auk þess sem það hafi ekki haft áhrif á niðurstöðu sýslumanns.


2.

Bréfaskipti

Með bréfi, dags. 2. júní 2016, var [B] boðið að koma á framfæri skýringum vegna kvörtunarinnar til samræmis við 10. og 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í svarbréfi [B], dags. 15. júní 2016, kemur fram að starfsmaður barnaverndarnefndar Kópavogs hafi ekki lesið lögregluskýrsluna upp fyrir hana í heild, heldur hafi henni aðeins verið tilkynnt að kvartandi hefði verið handtekinn fyrir að ganga í skrokk á unnustu sinni, hann væri grunaður um alvarlegt ofbeldi og hefði verið undir áhrifum í umrætt sinn. Frekari upplýsingar hafi hún ekki fengið, hvorki skriflega né munnlega.

Þá segir [B] að þær staðhæfingar, sem kvartandi segi ósannar, hafi verið byggðar á frásögn kvartanda sjálfs og upplýsingum frá barnarverndarnefnd Kópavogs. Henni hafi ekki verið ljóst að upplýsingarnar væru verulega viðkvæmar, en ekki hafi verið tiltekið sérstaklega að um trúnaðarupplýsingar væri að ræða. Þá megi deila um hvort færsla á Facebook-síðu hennar, sem aðeins sé opin vinum hennar, teljist opinber.

Jafnframt segir í svarbréfinu að hugsanlega hafi verið of langt gengið með því að skrifa umrædda færslu á Facebook. Þetta hafi hins vegar verið erfiður tími fyrir hana auk þess sem kvartandi hafi sjálfur rætt umgengnisdeilu þeirra á Facebook. Hún hafi því talið þörf á að svara fyrir sig. [B] hafnar því alfarið að hafa birt persónugögn og ósannindi um kvartanda. Hún hafi aðeins birt upplýsingar um stöðu mála vegna ágreinings þeirra um umgengni við barn þeirra.

Með bréfi, dags. 8. júlí 2016, ítrekuðu 16. ágúst og 12. september s.á., var kvartanda boðið að koma á framfæri athugasemdum sínum við framkomnar skýringar [B] til samræmis við 10. og 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Engin svör bárust frá kvartanda.

 

II.

Forsendur og niðurstaða

1.

Gildissvið laga nr. 77/2000

Gildissvið laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, sbr. 1. mgr. 3. gr. þeirra laga, og þar með valdsvið Persónuverndar, sbr. 1. og 2. mgr. 37. gr. laganna, nær til sérhverrar rafrænnar vinnslu persónuupplýsinga, sem og handvirkrar vinnslu slíkra upplýsinga sem eru eða eiga að verða hluti af skrá.

Með hugtakinu „persónuupplýsingar“ er átt við sérhverjar persónugreindar eða persónugreinanlegar upplýsingar um hinn skráða, þ.e. upplýsingar sem beint eða óbeint má rekja til tiltekins einstaklings, látins eða lifandi, sbr. 1. tölul. 2. gr. laga nr. 77/2000. Með hugtakinu „vinnsla“ er átt við sérhverja aðgerð eða röð aðgerða þar sem unnið er með persónuupplýsingar, hvort heldur sem vinnslan er handvirk eða rafræn, sbr. 2. tölul. 2. gr. laga nr. 77/2000.

Sá sem ber ábyrgð á að vinnsla persónuupplýsinga samrýmist lögum nr. 77/2000 er nefndur ábyrgðaraðili. Samkvæmt 4. tölul. 2. gr. laganna er þar átt við þann sem ákveður tilgang vinnslu persónuupplýsinga, þann búnað sem notaður er, aðferð við vinnsluna og aðra ráðstöfun upplýsinganna. Eins og hér háttar til telst [B] vera ábyrgðaraðili að umræddri vinnslu.

Birting [B] á upplýsingum um ætlað heimilisofbeldi af hálfu kvartanda og áfengis- og vímuefnanotkun á Facebook-síðu sinni felur í sér rafræna vinnslu persónuupplýsinga sem fellur undir gildissvið laga nr. 77/2000. Eru upplýsingarnar viðkvæmar, sbr. b- og c-lið 8. tölul. 2. gr. sömu laga.

 

 

2.

Lögmæti vinnslu

Í 1. málsl. 5. gr. laga nr. 77/2000 er ákvæði sem hefur þann tilgang að samrýma sjónarmið um einkalífsvernd og tjáningarfrelsi. Er þar mælt fyrir um að víkja megi frá ákvæðum laganna að því marki sem það sé nauðsynlegt til að samræma sjónarmið um rétt til einkalífs annars vegar, sbr. 71. gr. stjórnarskrárinnar, og tjáningarfrelsis hins vegar, sbr. 73. gr. stjórnarskrárinnar.

Verkefnum Persónuverndar er lýst í 37. gr. laga nr. 77/2000 en þar segir meðal annars að Persónuvernd skuli úrskurða í ágreiningsmálum sem upp kunni að koma um vinnslu persónuupplýsinga á Íslandi. Að mati Persónuverndar verður ekki litið svo á að í þessu felist að stofnunin hafi vald til að taka bindandi ákvörðun um það hvort einhver hafi bakað sér ábyrgð að lögum með misnotkun á tjáningarfrelsi sínu samkvæmt 73. gr. stjórnarskrárinnar, heldur verður slíkt talið heyra undir dómstóla.

Kvörtun í máli þessu lýtur að því að barnsmóðir kvartanda hafi birt viðkvæmar persónuupplýsingar um hann á Facebook. Í færslunni sem kvörtunin lýtur að fjallar barnsmóðir kvartanda um samband þeirra tveggja og ágreining þeirra um umgengni hans við barn sitt. Upplýsingar um ætlað heimilisofbeldi af hálfu kvartanda og áfengis- og vímuefnanotkun eru þar settar fram í frásögn hennar af sambandsslitum þeirra og ágreiningi um umgengni kvartanda við barn sitt. Tengist umrædd birting því mjög persónubundnum hagsmunum barnsmóður kvartanda sjálfrar.

Eins og hér háttar lyti efnisleg úrlausn Persónuverndar að því hvort með tiltekinni tjáningu hafi verið farið út fyrir ramma stjórnarskrárvarins tjáningarfrelsis. Í ljósi framangreinds er málinu því vísað frá.



Var efnið hjálplegt? Nei