Úrlausnir

Nafnbirting í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins

12.11.2015

Persónuvernd hefur úrskurðað að birting á nafni starfsmanns fyrirtækis í tiltekinni ákvörðun Samkeppniseftirlitsins hafi ekki verið í samræmi við lög nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.

Úrskurður

 

Á fundi stjórnar Persónuverndar þann 3. nóvember 2015 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli nr. 2015/920:

 

I.

Málavextir og bréfaskipti

 

1.

Tildrög máls

Þann 16. júní 2015 barst Persónuvernd kvörtun frá [A], f.h. [B] (hér eftir nefndur kvartandi), vegna birtingar nafns kvartanda í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins, dags. 15. maí s.á, í máli stofnunarinnar nr. […]. Varðaði mál Samkeppniseftirlitsins brot [C] á 10. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005, en kvartandi starfaði fyrir [D] sem sumarstarfsmaður í þjónustuveri og samhliða námi á því tímabili sem ákvörðun embættisins tekur til.

Í kvörtuninni segir meðal annars að nafn kvartanda hafi birst alls 30 sinnum í ákvörðuninni. Þá hafi lögmaður kvartanda þann 29. maí s.á. sent Samkeppniseftirlitinu bréf þar sem þess var óskað að nafn kvartanda yrði afmáð úr ákvörðuninni, en embættið hafi ekki orðið við þeirri beiðni.

 

2.

Bréfaskipti við Samkeppniseftirlitið

Með bréfi, dags. 22. júní 2015, var Samkeppniseftirlitinu boðið að koma á framfæri skýringum vegna kvörtunarinnar til samræmis við 10. og 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Svarbréf Samkeppniseftirlitsins, dags. 17. júlí 2015, barst Persónuvernd þann 20. s.m.

Í bréfinu segir meðal annars að ákvörðun embættisins sé 421 bls. að lengd og að nafn kvartanda komi fyrir tvisvar sinnum í henni. Þá sé um að ræða tilvísun í tölvupósta sem hann sendi í starfi sínu sem starfsmaður í þjónustuveri [D] til framkvæmdastjóra vörustýringarsviðs fyrirtækisins. Bendir Samkeppniseftirlitið á að samkeppnislög nr. 44/2015 taki til atvinnustarfsemi fyrirtækja og hafi embættið tilteknar valdheimildir varðandi t.d. öflun gagna og upplýsinga frá fyrirtækjum, samtökum þeirra og öðrum stjórnvöldum. Aftur á móti taki lögin ekki til einstaklinga og hafi því embættið ekki heimild til þess að afla gagna frá einstaklingum, úrskurða um sekt þeirra eða beita þá viðurlögum. Með öðrum orðum hafi fyrirtæki aðild að málum hjá Samkeppniseftirlitinu, en ekki einstakir starfsmenn þeirra. Sé það því ekki á valdi embættisins að fjalla um málefni einstaklinga.

Varðandi öflun sönnunargagna og birtingu þeirra bendir Samkeppniseftirlitið á að tölvupóstar, minnisblöð og önnur samtímagögn sem stafi frá starfsmönnum grunaðra fyrirtækja geti haft mikla þýðingu varðandi sönnun brota. Þá geti mikilvægi slíkra gagna kallað á að gerð sé nákvæm grein fyrir þeim og höfundum þeirra, sbr. t.d. úrskurð áfrýjunarnefndar samkeppnismála í máli nr. 3/2004 (Ker hf. o.fl. gegn Samkeppniseftirlitinu). Telji embættið að það hafi almenna og rúma heimild samkvæmt ákvæði 36. gr. samkeppnislaga til þess að birta opinberlega upplýsingar um athafnir sem raskað geti samkeppni, enda sé opinber upplýsingamiðlun mikilvægur þáttur í nútíma samkepppnisstefnu samkvæmt athugasemdum við sambærilegt ákvæði í frumvarpi sem varð að samkeppnislögum nr. 8/1993.

Þá hafi birting sönnunargagna, með sama hætti og gert var í máli nr. […], tíðkast hjá samkeppnisyfirvöldum í mörg ár. Hafi þau mál einnig hlotið staðfestingu áfrýjunarnefndar samkeppnismála og síðar dómstóla, þ. á m. Hæstaréttar, þar sem sams konar birting á nöfnum starfsmanna hafi verið viðhöfð án nokkurra athugasemda. Í tengslum við framangreint bendir embættið meðal annars á ákvörðun samkeppnisráðs nr. 13/2001, sbr. dóm Hæstaréttar 30. október 2003 (Sölufélag garðyrkjumanna o.fl.) og ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 4/2010, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 355/2012 (Lyf og heilsa hf.). Hafi áfrýjunarnefnd samkeppnismála til að mynda í hinu síðarnefnda máli ekki fallist á málatilbúnað Lyfja og heilsu hf. um að ekki hafi verið heimilt að afla og birta tölvupósta og minnisblöð fyrirtækisins þar sem um trúnaðarmál hefði verið að ræða í samskiptum milli starfsmanna og stjórnenda um viðskiptaleg málefni félagsins. Í niðurstöðu úrskurðar áfrýjunarnefndarinnar í máli nr. 5/2010, sem síðar var staðfestur af Hæstarétti, hafi sérstaklega sagt eftirfarandi:

„Varðandi meðferð trúnaðarupplýsinga telur áfrýjunarnefnd að Samkeppniseftirlitið hafi ekki gengið lengra í birtingu upplýsinga en því var heimilt.“

Í ljósi þess að Samkeppniseftirlitið fjallar ekki um málefni einstaklinga bendir embættið á að ekki sé unnt að líta til og lögjafna út frá reglum Dómstólaráðs nr. 4/2012, um birtingu dóma og úrskurða á heimasíðu héraðsdómstólanna, líkt og kvartandi bendir á í kvörtun sinni.

Þá telji embættið að birting gagna, sem eru frá starfsmönnum grunaðra fyrirtækja og eru sett fram í nafni viðkomandi fyrirtækis eða varða þann erindisrekstur fyrir fyrirtækið sem er hluti af störfum þeirra, sé liður í sönnunarfærslu þess gagnvart viðkomandi fyrirtæki, enda þótt þar geti eftir atvikum komið fram starfsheiti eða nöfn viðkomandi starfsmanna.

Næst bendir Samkeppniseftirlitið á að það telji ekki augljóst að meðferð sönnunargagna í samkeppnismálum sem varði fyrirtæki teljist til vinnslu persónuupplýsinga í skilningi laga nr. 77/2000. Telji Persónuvernd engu að síður að svo sé tekur embættið fram að það hafi heimild til vinnslu persónuupplýsinga skv. 6. tölul. 1. mgr. 8. gr. laganna, þar sem um nauðsynlega vinnslu er að ræða við beitingu opinbers valds og töku stjórnvaldsákvörðunar af hálfu embættisins. Þá telji embættið að ekki sé um viðkvæmar persónuupplýsingar að ræða, en engu að síður hafi það heimild til birtingar slíkra sönnunargagna skv. 2. tölul. 1. mgr. 9. gr. sömu laga. Einnig telji það að meðferð upplýsinganna hafi verið í samræmi við ákvæði 7. gr. laganna um gæði gagna, enda hafi það aflað gagnanna með lögmætum hætti, birt gögnin með lögmætum hætti skv. 36. gr. samkeppnislaga, auk þess sem það telji ekki að gengið hafi verið lengra í birtingu gagnanna en nauðsyn krafði.

 

3.

Andmæli kvartanda

Með bréfi sendu þann 20. júlí 2015 var kvartanda boðið að koma á framfæri athugasemdum sínum við framkomnar skýringar Samkeppniseftirlitsins til samræmis við 10. og 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Svarbréf kvartanda, dags. 28. júlí 2015, barst Persónuvernd þann 30. s.m. Þar segir meðal annars að ekki sé hægt að fallast á þau rök Samkeppniseftirlitsins að almennir starfsmenn, svo sem starfsmenn í þjónustuveri, þurfi vegna starfa sinna að þola að blandast í opinbera umræðu, enda þótt að slíkt gæti fremur átt við um fyrirsvarsmenn fyrirtækja, þ.e. stjórnarmenn og framkvæmdastjóra. Í ljósi meginreglna vinnuréttar eru starfsmenn af fyrrnefndum toga bundnir hlýðnisskyldu og ber þeim því að hlýða fyrirmælum yfirmanna nema þau séu bersýnilega ólögmæt.

Næst bendir kvartandi á að tilvísun embættisins til fyrri úrskurða áfrýjunarnefndar samkeppnismála hafi ekkert að segja um endanlega túlkun á samkeppnislögum eða reglum um persónuvernd frekar en Samkeppniseftirlitið sjálft. Jafnframt sé ályktun embættisins um túlkun Hæstaréttar á niðurstöðu áfrýjunarnefndar samkeppnismála, í dómi sínum nr. 355/2012, ekki rétt, enda reyndi ekki á persónuverndarsjónarmið eða mat á birtingu upplýsinga í dómsmálinu sem slíku, þó svo að að um þau hafi verið fjallað í úrskurði áfrýjunarnefndarinnar. Einnig komi fram í réttarframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu að nafnabirtingar einstaklinga á Internetinu séu alltaf einkamálefni viðkomandi einstaklings. Um framangreint segir meðal annars eftirfarandi í bréfi lögmannsins:

„Þannig segir í dómi Mannréttindadómstóls Evrópu frá 16. júní 2009 í máli nr. 38079/06: „Samkvæmt réttarframkvæmd mannréttindadómstólsins fellur söfnun og varsla persónulegra upplýsinga, sem tengjast tölvupósti manns, undir hugtökin bréfaskipti og einkalíf, sbr. 1. mgr. 8. gr. sáttmálans (sjá Copland gegn Bretlandi, nr. 62617/00, 41. og 44. lið, ECHR 2007 - ...). Jafnvel þegar gengið er á rétt þennan í tengslum við atvinnustarfsemi eða á vinnustað kann það að varða friðhelgi einkalífs í skilningi þessarar greinar[...]“.“

Varðandi birtingu nafns hans bendir kvartandi á að hann hafi valið sér starfsvettvang sem lögfræðingur og þegar leitað sé að nafni hans á leitarvefsíðum birtist hlekkur inn á umrædda ákvörðun Samkeppniseftirlitsins. Þegar málið sé lesið er ekki hægt að ráða annað en að hann sé þátttakandi í samkeppnislagabroti fyrirtækis, þó svo að hann hafi ekki starfað fyrir það fyrirtæki sem Samkeppniseftirlitið sektar. Hafi framangreint því áhrif á mannorð hans og möguleika til atvinnu.

Þá er kvartandi sammála athugasemdum Samkeppniseftirlitsins um að rannsókn um ólögmætt samráð fyrirtækja snúist ekki um „rannsókn á hendur tilteknum einstaklingum“, en í ljósi þess sé ómögulegt að skilja þá ákvörðun embættisins að vísa til hans með fullu nafni og sem starfsmanns í þjónustuveri, í stað þess að notast við t.d. „A, starfsmaður í þjónustuveri“, enda væri slík tilvísun fremur í samræmi við réttmætisreglu stjórnsýsluréttar og persónuverndarsjónarmið.

Þá er því ekki mótmælt að tölvupóstur eða önnur gögn geti haft mikla þýðingu varðandi sönnun brota og að tölvupóstsamskiptin í þessu máli embættisins séu málefnalegur liður í sönnunarfærslu þess. Hins vegar sé því mótmælt hvernig opinber birting á nöfnum starfsmanna grunaðra fyrirtækja geti haft áhrif á sönnunarmatið sem fram þurfi að fara vegna ætlaðra brota eða að birting nafnsins hafi þýðingu varðandi sönnunarfærsluna. Eðli máls samkvæmt þurfi að gera grein fyrir höfundum gagnanna við rannsókn og sönnun brots, en Samkeppniseftirlitið bendir ekki á nein rök fyrir þeirri íþyngjandi ákvörðun sinni að birta sömu nöfn opinberlega. Þá geti ekki almennt og matskennt ákvæði 36. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005 gengið framar reglum um persónuvernd eða stjórnarskrárvörðum rétti til friðhelgis.

Sú staðhæfing Samkeppniseftirlitsins um að nafn kvartanda birtist einungis tvisvar sé röng, enda birtist það alls 30 sinnum, en fjöldi birtinga leiði einnig til þess að ákvörðunin eigi greiðari leið inn í leitarvélar Internetsins.

Telur kvartandi að augljóst sé að um vinnslu persónuupplýsinga sé að ræða í þessu tilviki, sbr. einnig úrskurð Persónuverndar í máli nr. 2011/1339, varðandi birtingu nafna í dómsniðurstöðum á heimasíðunni www.domstolar.is. Skipti þannig engu máli þótt viðkomandi einstaklingur sé starfsmaður fyrirtækis, enda sé með hugtakinu persónuupplýsingar átt við sérhverjar persónugreindar eða persónugreinanlegar upplýsingar, sbr. einnig úrskurð Persónuverndar í máli nr. 2011/1005. Mótmælir kvartandi því einnig að birtingin hafi verið nauðsynleg á grundvelli 6. tölul. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 77/2000, enda hafi Samkepppniseftirlitið ekki sýnt fram á hvernig birtingin hafi verið nauðsynlegur hluti af sönnunarfærslu málsins og þannig nauðsynlegur þáttur við beitingu opinbers valds.

Loks telur kvartandi að um séu að ræða viðkvæmar persónuupplýsingar, enda sé hægt að ráða af ákvörðun Samkeppniseftirlitsins að hann sé grunaður um brot gegn samkeppnislögum, þó svo að sú hafi ekki orðið raunin, sbr. b-lið 8. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 77/2000. Þá hafi embættið ekki sýnt fram á að birtingin hafi verið í samræmi við ákvæði 7. gr. sömu laga, n.t.t. að birtingin á nafni hans hafi verið sanngjörn, málefnaleg eða lögmæt, enda engin lagaheimild fyrir birtingunni. Enda þótt embættinu sé nauðsynlegt að afla sönnunargagna hafi það þó ekki þýðingu að birta nöfn úr sönnunargögnum máls, nema sýnt sé fram á að slík birting sé ófrjúfanlegur hluti þess að sönnun takist, en embættið hafi ekki sýnt fram á það.

 

II.

Forsendur og niðurstaða

 

1.

Afmörkun úrlausnarefnis

Að því er varðar valdheimildir og úrræði Samkeppniseftirlitsins við rannsókn samkeppnismála samkvæmt samkeppnislögum nr. 44/2005 vill Persónuvernd árétta að það fellur í hlut Samkeppniseftirlitsins meðal annars að meta hvaða gögn það telji nauðsynlegt að afla vegna rannsóknar máls og hvernig haga eigi sönnunarfærslu í niðurstöðum slíkra mála. Umfjöllun um það fellur ekki í hlut Persónuverndar og tekur hún því ekki afstöðu til þess hvort heimilt hafi verið að afla umræddra tölvupóstsamskipta kvartanda við tiltekinn framkvæmdastjóra [D] eða hvort eða hvernig þau gögn skipti máli við rannsókn eða niðurstöðu málsins. Tekur eftirfarandi umfjöllun því mið af framangreindu og varðar hún einungis lögmæti á birtingu nafns kvartanda samkvæmt lögum nr. 77/2000.

 

2.

Gildissvið laga nr. 77/2000

Þau lög sem Persónuvernd framfylgir og starfar eftir, þ.e. lög nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, gilda um vinnslu persónuupplýsinga, sbr. 1. mgr. 3. gr. og 1. og 2. mgr. 37. gr. laganna. Persónuupplýsingar eru sérhverjar persónugreindar eða persónugreinanlegar upplýsingar, þ.e. upplýsingar sem beint eða óbeint má rekja til tiltekins einstaklings, látins eða lifandi, sbr. 1. tölul. 2. gr. laganna; og vinnsla er sérhver aðgerð eða röð aðgerða þar sem unnið er með persónuupplýsingar, hvort heldur sem vinnslan er handvirk eða rafræn, sbr. 2. tölul. 2. gr. Í athugasemdum við 2. tölul. 2. gr. í því frumvarpi, sem varð að lögum nr. 77/2000, kemur fram að hver sú aðferð, sem nota má til að gera upplýsingar tiltækar, telst til vinnslu. Af framangreindu er ljóst að sú aðgerð, að birta nafn kvartanda í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. […], sem birt er á heimasíðu stofnunarinnar, felur í sér vinnslu persónuupplýsinga sem fellur undir gildissvið laga nr. 77/2000 og þar með valdsvið Persónuverndar.

Sá sem ber ábyrgð á að vinnsla persónuupplýsinga samrýmist lögum nr. 77/2000 er nefndur ábyrgðaraðili. Samkvæmt 4. tölul. 2. gr. laganna er þar átt við þann sem ákveður tilgang vinnslu persónuupplýsinga, þann búnað sem notaður er, aðferð við vinnsluna og aðra ráðstöfun upplýsinganna. Eins og hér háttar til telst Samkeppniseftirlitið vera ábyrgðaraðili að þeirri vinnslu persónuupplýsinga sem hér um ræðir, þ.e. birtingu nafnsins í ákvörðuninni.

 

3.

Lögmæti vinnslu

Öll vinnsla persónuupplýsinga verður að eiga sér stoð í lögum nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Í því felst meðal annars að ávallt verður að vera fullnægt einhverju af skilyrðum 8. gr. laganna. Þá verður vinnsla viðkvæmra persónuupplýsinga, s.s. upplýsingar um hvort maður hafi verið grunaður, kærður, ákærður eða dæmdur fyrir refsiverðan verknað, sbr. 8. tölul. 2. gr. sömu laga, að samrýmast einhverju af viðbótarskilyrðum 9. gr. laganna. Eins og hér háttar til verður ekki fallist á það með kvartanda að um sé að ræða viðkvæmar persónuupplýsingar, enda er ekki um að ræða upplýsingar af framangreindum toga. Ber því ekki að meta hvort viðbótarskilyrði 9. gr. laga nr. 77/2000 séu uppfyllt varðandi lögmæti birtingarinnar.

Til viðbótar ákvæði 8. gr. laga nr. 77/2000 verður öll vinnsla persónuupplýsinga að fullnægja grunnkröfum 1. mgr. 7. gr. laganna um gæði gagna og vinnslu. Þar er mælt fyrir um að persónuupplýsingar skuli unnar með sanngjörnum, málefnalegum og lögmætum hætti og í samræmi við vandaða vinnsluhætti persónuupplýsinga (1. tölul.), og að þær skuli vera nægilegar og ekki umfram það sem nauðsynlegt er miðað við tilgang vinnslunnar (3. tölul.).

Þau ákvæði 8. gr. laga nr. 77/2000, sem einkum reynir á í tengslum við vinnslu persónuupplýsinga hjá stjórnvöldum eins og hér um ræðir, eru 3. og 6. tölul. 1. mgr. ákvæðisins, þess efnis að vinnsla persónuupplýsinga sé heimil sé hún nauðsynleg til að fullnægja lagaskyldu eða hún sé nauðsynleg við beitingu opinbers valds. Við mat á því hvort sú vinnsla persónuupplýsinga sem hér um ræðir, þ.e. birting nafns kvartanda í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins, sé heimil verður að líta til þeirra lagareglna sem um málefnið gilda. Þá verður einnig að líta til þess að samkvæmt hinni almennu lögmætisreglu stjórnsýsluréttarins ber stjórnvöldum að starfa innan þess ramma sem lög setja þeim.

Hefur Samkeppniseftirlitið í bréfi sínu til Persónuverndar bent á að nafn kvartanda birtist einungis tvisvar í ákvörðun sinni nr.[...]. Aftur á móti liggur ljóst fyrir að nafn kvartanda í heild sinni birtist alls 28 sinnum í ákvörðuninni, en auk þess er vísað til „[gælunafn] á [staðarnafn]“ eða „[gælunafn] í þjónustuverinu“ tvisvar sinnum í tilvitnunum úr tölvupóstsamskiptum í ákvörðuninni.

Samkeppniseftirlitið telur að nafnbirtingin sé heimil á grundvelli ákvæðis 36. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005, auk þess sem það bendir á að löng hefð sé fyrir birtingu upplýsinga með þessum hætti hjá samkeppnisyfirvöldum, sem hafi einnig hlotið staðfestingu æðra stjórnvalds og dómstóla. Jafnframt vísar embættið til þess að birtingin sé liður í sönnunarfærslu þess gagnvart viðkomandi fyrirtæki og nauðsynleg við beitingu opinbers valds og töku stjórnvaldsákvörðunar, sbr. 6. tölul. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 77/2000. Loks bendir embættið á að birtingin sé í samræmi við 7. gr. sömu laga, enda hafi það aflað gagnanna með lögmætum hætti og birt með heimild í 36. gr. samkeppnislaga sem embættið telur að hafi verið nauðsynlegt og málefnalegt.

Samkvæmt ákvæði 36. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005 er Samkeppniseftirlitinu heimilt við framkvæmd laganna að birta opinberlega upplýsingar um samninga, skilmála og athafnir sem hafa eða er ætlað að hafa þau áhrif að hamla samkeppni. Þá skuli tillit tekið til réttmætra hagsmuna fyrirtækja til að halda leynilegum viðskiptalegum og tæknilegum upplýsingum.

Enda þótt heimilt og jafnvel nauðsynlegt kunni að vera að birta upplýsingar um gögn sem safnað var við rannsókn máls, sem liður í sönnunarfærslu stjórnvalds, ber engu að síður að meta hvort ákvæði 36. gr. samkeppnislaga heimili birtingu á nafni kvartanda í þessu tilviki í ljósi 3. tölul. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 77/2000, en í ákvæðinu segir að vinnslan verði að vera nauðsynleg til að fullnægja lagaskyldu sem hvílir á ábyrgðaraðila. Þótt nafn kvartanda teljist ekki til leynilegra viðskiptalegra eða tæknilegra upplýsinga, í skilningi 2. mgr. 36. gr. samkeppnislaga, fæst ekki séð að ákvæðið kveði á um slíka skyldu eða heimild til handa Samkeppniseftirlitinu. Fremur virðist ákvæðið, og lögin í heild sinni, taka til upplýsinga er varða fyrirtækin sjálf og starfsemi þeirra, líkt og embættið benti sjálft á í svarbréfi sínu til Persónuverndar. Af framangreinu leiðir að aðgreina verður nafn kvartanda frá þeim gögnum sem embættið telur nauðsynleg að notast við í sönnunarfærslu sinni, sbr. einnig umfjöllun ofar í kafla II. - 1. Með vísun til framangreinds telur Persónuvernd að ekki sé unnt að byggja nafnbirtinguna á ákvæði 3. tölul. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 77/2000.

Þá fæst ekki séð af svörum Samkeppniseftirlitsins að nauðsynlegt hafi verið að birta nafn kvartanda við birtingu stjórnvaldsákvörðunarinnar, sbr. 6. tölul. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 77/2000. Hefur embættið einungis sýnt fram á að nauðsynlegt hafi verið að afla þeirra og nota sem lið í sönnunarfærslu í málinu, en umfjöllun Persónuverndar tekur ekki til þeirra þátta, líkt og áður segir.

Einnig ber að nefna að í ljósi grundvallarsjónarmiða um meðalhóf og málefnalega vinnslu persónuupplýsinga, samkvæmt 1. og 3. tölul. 1. mgr. 7. gr. laga nr. 77/2000, fæst ekki séð að birtingin sé sanngjörn og málefnaleg, enda virðist mega ráða í þessu tilviki að nafn kvartanda hafi ekki skipt sköpum fyrir sönnunarfærslu embættisins eða niðurstöðu málsins, einkum í ljósi þess að hann var starfsmaður í þjónustuveri á því tímabili sem rannsókn málsins tók til, auk þess sem hann var starfsmaður [D] - en ekki [C] sem málið beinist gegn. Þá bar hann enga slíka ábyrgð í starfi sínu að þýðingu hefði fyrir úrlausn málsins.

Loks telur Persónuvernd að almennt verði að standa lagaheimild til vinnslu persónuupplýsinga sem fram fer á vegum stjórnvalda. Af ofangreindri umfjöllun verður ráðið að slík lagaheimild sé ekki til staðar og því telur Persónuvernd að kveða þyrfti á um slíka heimild til handa Samkeppniseftirlitinu í lögum, í samræmi við lögmætisreglu stjórnsýsluréttar, sé talin þörf á að birta nöfn starfsmanna í tilvikum sem þessum.

 

4.

Fyrirmæli

Með vísun til alls framangreinds beinir Persónuvernd þeim fyrirmælum til Samkeppniseftirlitsins að afmá nafn kvartanda úr ákvörðun sinni nr. […], til að mynda með því að setja hornklofa með einum bókstaf í stað nafns kvartanda. Ber embættinu að senda Persónuvernd staðfestingu um að svo hafi verið gert eigi síðar en 25. nóvember næstkomandi.

 

 

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Birting á nafni [B] í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. […] var ekki í samræmi við lög nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Samkeppniseftirlitinu ber að senda Persónuvernd staðfestingu um að nafn hans hafi verið afmáð eigi síðar en 25. nóvember 2015.
Var efnið hjálplegt? Nei