Úrlausnir

Miðlun upplýsinga um fyrndar kröfur - mál nr. 2014/753

4.12.2014

Persónuvernd hefur úrskurðað að miðlun upplýsinga um fyrndar kröfur frá Landsbanka til  Creditinfo-Lánstrausts hafi verið óheimil.

Úrskurður

 

Hinn 19. nóvember 2014 kvað stjórn Persónuverndar upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. 2014/753:

 

I.

Málavextir og bréfaskipti

Persónuvernd hefur borist kvörtun frá [A], dags. 30. apríl 2014, yfir að Landsbankinn hf. hafi ekki fjarlægt úr lánayfirliti hjá Creditinfo Lánstrausti hf. tilteknar, fyrndar kröfur á hendur honum þrátt fyrir beiðni hans þar að lútandi. Fyrir liggur að kvartandi varð gjaldþrota árið 201[x], en samkvæmt 2. mgr. 165. gr. laga nr. 91/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. lög nr. 142/2010, fyrnast kröfur á tveimur árum frá því að gjaldþrotaskiptum lýkur. Þá liggur fyrir um að er að ræða upplýsingar sem bankinn miðlaði í skuldastöðukerfi Lánstrausts hf., en slík miðlun á sér stað þegar fyrir liggur beiðni hins skráða þar að lútandi í tengslum við lánafyrirgreiðslu. Verða þá upplýsingar úr kerfinu, sem í það hefur verið miðlað samkvæmt beiðninni, aðgengilegar þeim sem sótt er um lánafyrirgreiðslu hjá.

Með bréfi, dags. 1. júlí 2014, var Landsbankanum veitt færi á að tjá sig um kvörtunina. Hann svaraði með bréfi, dags. 29. s.m. Þar segir meðal annars:

„Í tilefni af ofangreindri kvörtun hafði Landsbankinn samband við Creditinfo Lánstraust og óskaði eftir því að umræddar kröfur yrðu fjarlægðar af lánayfirliti. Samkvæmt upplýsingum þaðan var ekki unnt að verða við þeirri beiðni þar sem Creditinfo Lánstraust sækir umræddar upplýsingar úr kerfum bankans. Landsbankinn hefur því í kjölfarið látið fjarlægja umræddar kröfur á hendur [A] úr kerfum bankans. Kröfurnar ættu því að hverfa úr lánayfirliti Creditinfo Lánstrausts.“

 Með bréfi, dags. 21. október 2014, var kvartanda veitt færi á að tjá sig um framangreint svar Landsbankans. Í símtali hinn 18. nóvember s.á. áréttaði hann fyrri afstöðu.

 

II.

Forsendur og niðurstaða

1.

Lög nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga gilda um sérhverja rafræna vinnslu persónuupplýsinga og handvirka vinnslu persónuupplýsinga sem eru eða eiga að verða hluti af skrá, sbr. 1. mgr. 3. gr. laganna. Persónuupplýsingar eru skilgreindar í 1. tölul. 2. gr. laganna sem sérhverjar persónugreindar eða persónugreinanlegar upplýsingar um hinn skráða, þ.e. upplýsingar sem beint eða óbeint má rekja til tiltekins einstaklings, látins eða lifandi. Hugtakið vinnsla er skilgreint sem sérhver aðgerð eða röð aðgerða þar sem unnið er með persónuupplýsingar, hvort heldur vinnslan er handvirk eða rafræn, sbr. 2. tölul. 2. gr. laganna. Af þessu öllu er ljóst að mál þetta lýtur að vinnslu persónuupplýsinga sem fellur undir valdsvið Persónuverndar.

 

2.

Svo að vinnsla persónuupplýsinga sé heimil verður ávallt að vera fullnægt einhverju af skilyrðum 1. mgr. 8. gr. laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Það ákvæði laganna, sem hér kemur einkum til álita, er 7. tölul. þeirrar málsgreinar, þess efnis  að vinna má með persónuupplýsingar sé það nauðsynlegt til að gæta lögmætra hagsmuna nema grundvallarréttindi og frelsi hins skráða vegi þyngra.

 

Í ljósi þessa ákvæðis má telja fjármálastofnunum heimilt að miðla upplýsingum í skuldastöðukerfi Creditinfo Lánstrausts hf. svo að þær megi gera aðgengilegar annarri fjármálastofnun sem hefur til meðferðar umsókn einstaklings um fyrirgreiðslu. Þeirri fjármálastofnun skal þó hafa borist beiðni viðkomandi einstaklings um uppflettingu, en auk þess verður miðlunin að samrýmast grunnreglum 1. mgr. 7. gr. laga nr. 77/2000, þ. á. m. 3. tölul. um að við vinnslu persónuupplýsinga skal þess gætt að upplýsingarnar séu nægilegar, viðeigandi og ekki umfram það sem nauðsynlegt er miðað við tilgang vinnslunnar. Það ákvæði hefur í för með sér að fjármálastofnun, sem miðlar upplýsingum inn í umrætt kerfi, ber að gæta þess að um sé að ræða gildar kröfur, en upplýsingum um fyrndar kröfur á því ekki að miðla. Samkvæmt 2. mgr. 165. gr. laga nr. 91/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. lög nr. 142/2010, fyrnast kröfur á tveimur árum frá því að gjaldþrotaskiptum lýkur. Ljóst er að þegar kröfur eru fyrndar á grundvelli þessa ákvæðis stríðir miðlun þeirra í umrætt skuldastöðukerfi gegn fyrrgreindu ákvæði 7. gr. laga nr. 77/2000.

 

Fyrir liggur að kröfur Landsbankans hf., sem miðlað var í umrætt skuldastöðukerfi, voru fyrndar samkvæmt framangreindu. Af því leiðir að miðlunin var óheimil.

 

 Ú r s k u r ð a r o r ð:

Landsbankanum hf. var óheimilt að miðla upplýsingum um fyrndar kröfur á hendur [A] í skuldastöðukerfi Creditinfo Lánstrausts hf.Var efnið hjálplegt? Nei