Úrlausnir

Birting kjörskrár vegna prestskosninga- mál nr. 2014/1120

17.10.2014

Persónuvernd hefur tekið ákvörðun um að birting kjörskrár vegna prestskosninga þjóðkirkjunnar í Seljaprestakalli hafi verið ólögmæt.

Ákvörðun

 

Hinn 17. september 2014 tók stjórn Persónuverndar eftirfarandi ákvörðun í máli nr. 2014/1120:

I.

Málsatvik og bréfaskipti

1.

Þann 15. ágúst 2014 barst Persónuvernd ábending um að kjörskrá vegna prestskosninga í Seljaprestakalli væri aðgengileg á vefsíðu þjóðkirkjunnar, www.kirkjan.is, en viðkomandi aðili vakti athygli á því að í kjörskránni væru upplýsingar um trúarskoðanir þeirra einstaklinga sem væru tilgreindir á skránni.

Forstjóri Persónuverndar ákvað að víkja sæti við frekari meðferð ábendingarinnar vegna starfa sinna fyrir kjörstjórn þjóðirkjunnar. Hafði formaður stjórnar Persónuverndar umsjón með málinu.

Í tilefni af ábendingunni ákvað Persónuvernd að óska skýringa frá þjóðkirkjunni. Með bréfi, dags. 20. ágúst 2014, vakti Persónuvernd athygli þjóðkirkjunnar á fyrrnefndri ábendingu og var óskað svara við því á grundvelli hvaða heimildar í 1. mgr. 8. gr. og 1. mgr. 9. gr. laga nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, birting á kjörskránni byggðist.

Með bréfi framkvæmdastjóra kirkjuráðs, dags. 26. ágúst 2014, bárust Persónuvernd skýringar þjóðkirkjunnar. Í bréfinu sagði m.a. að í 18. gr. starfsreglna nr. 1109/2011, um val og veitingu prestsembætta, sem settar væru af kirkjuþingi með heimild í 59. gr. laga nr. 78/1997, um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar, segði:

„Kjörstjórn annast gerð kjörskrár í hverri sókn. Skal hún lögð fram til sýnir á biskupsstofu og hjá prófasti eigi síðar en þremur vikum fyrir kjördag. Einnig skal hún birt á vef þjóðkirkjunnar.“

Í bréfinu kom einnig fram að kirkjuráð teldi ljóst að fyrirmæli starfsreglna kirkjuþings um birtingu kjörskrár vegna kosninga á vegum þjóðkirkjunnar samræmdust ekki ákvæðum laga nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Af þeirri ástæðu hygðist kirkjuráð beita sér fyrir því að starfsreglum um framlagningu kjörskráa á vegum þjóðkirkjunnar, yrði breytt á Kirkjuþingi sem haldið verður í október 2014 til þess að tryggt væri að upplýsingar um trúarskoðanir fólks yrðu ekki aðgengilegar almenningi. Loks kom fram að að kjörskráin hefði verið fjarlægð af heimasíðunni.


II.

Ákvörðun Persónuverndar

1.

Gildissvið o.fl.

Þau lög, sem Persónuvernd framfylgir og starfar eftir, þ.e. lög nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, gilda um vinnslu persónuupplýsinga, sbr. 1. mgr. 3. gr. laganna. Persónuupplýsingar eru sérhverjar persónugreindar eða persónugreinanlegar upplýsingar, þ.e. upplýsingar sem beint eða óbeint má rekja til tiltekins einstaklings, látins eða lifandi, sbr. 1. tölul. 2. gr. laganna; og vinnsla er sérhver aðgerð eða röð aðgerða þar sem unnið er með persónuupplýsingar, hvort heldur sem vinnslan er handvirk eða rafræn, sbr. 2. tölul. 2. gr. Í athugasemdum við 2. tölul. 2. gr. í því frumvarpi, sem varð að lögum nr. 77/2000, kemur fram að hver sú aðferð, sem nota má til að gera upplýsingar tiltækar, telst til vinnslu.

Kjörskrá til prestskosninga í Seljaprestakalli, sem birt var á vefsíðu þjóðkirkjunnar, innihélt upplýsingar um nöfn einstaklinga, 18 ára og eldri, sem skráðir voru með lögheimili í Seljasókn og jafnframt skráðir í þjóðkirkjuna. Af því leiðir að með birtingu fyrrnefndar upplýsingar fór fram vinnsla persónuupplýsinga sem fellur undir lög nr. 77/2000.

 

2.

Lagaumhverfi og sjónarmið

Öll vinnsla persónuupplýsinga verður að samrýmast einhverri af kröfum 8. gr. laga nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Þá verður vinnsla viðkvæmra persónuupplýsinga, sbr. 8. tölul. 2. gr. sömu laga, að samrýmast einhverju af viðbótarskilyrðum 9. gr. laganna. Í a-lið 8. tölul. 2. gr. segir að upplýsingar um trúar- eða aðrar lífsskoðanir teljist viðkvæmar persónuupplýsingar.

 

3.

Niðurstaða

Í máli þessu liggur ekki fyrir að umrædd vinnsla hafi átt sér stoð í framangreindum ákvæðum. Þvert á móti hefur kirkjuráð í bréfi sínu frá 20. ágúst sl., bent á að starfsreglur kirkjuþings, um birtingu kjörskrár vegna kosninga á vegum þjóðkirkjunnar, stangist á við lög um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Þar sem ábyrgðaraðili hefur ekki bent á fullnægjandi heimild fyrir umræddri vinnslu er það mat Persónuverndar að umrædd birting viðkvæmra persónuupplýsinga í kjörskrá, í tengslum við prestskosningar í Seljaprestakalli, hafi ekki samrýmst lögum nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.

Í ljósi þess sem fram kemur í bréfi kirkjuráðs, um að ráðið muni beita sér fyrir því að ákvæðum starfsreglna kirkjuþings, um birtingu kjörskrár vegna kosnina á vegum þjóðkirkjunnar, verði breytt á næsta kirkjuþingi, í október 2014, telur Persónuvernd athugun sinni lokið. Engu að síður beinir stofnunin þeim tilmælum til þjóðkirkjunnar að stöðva sambærilegar birtingar kjörskráa vegna kosninga á hennar vegum og fjarlægja þær kjörskrár sem nú þegar eru birtar á vefsíðu þjóðkirkjunnar, sbr. 1. mgr. 40. gr. laga nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.

 

 

Á k v ö r ð u n a r o r ð:

Birting kjörskrár vegna prestskosninga í Seljaprestakalli á vefsíðu þjóðkirkjunnar samrýmdist ekki lögum nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.

Persónuvernd beinir þeim tilmælum til þjóðkirkjunnar að láta af birtingu kjörskráa vegna kosninga á hennar vegum og fjarlægja þær kjörskrár sem nú eru birtar á vefsíðu þjóðkirkjunnar.



Var efnið hjálplegt? Nei