Úrlausnir

Uppflettingar læknis í sjúkraskrá fyrrum sjúklings – 2013/1085

28.2.2014

Persónuvernd hefur úrskurðað um að tilteknar uppflettingar læknis í sjúkraskrá kvartanda hafi, eins og á stóð, verið óheimilar.

Úrskurður

 

Á fundi stjórnar Persónuverndar þann 13. febrúar 2014 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli nr. 2013/1085:

 

I.

Grundvöllur máls

Málavextir og bréfaskipti

1.

Tildrög máls

Þann 13. september 2013 barst Persónuvernd kvörtun frá [A] (hér eftir nefndur kvartandi), vegna meintra óeðlilegra uppflettinga í sjúkraskrá hans hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands (HSU). Í kvörtuninni segir m.a.:

„Þann 17.12.2012 sendi ég formlega kvörtun til [B] hjá HSU vegna ófagmannlegrar framkomu og hegðunar [[C], læknis á HSU] í minn garð dagana [...]2012 og aftur [...]2012 þegar ég var í afplánun í stuttan tíma [í fangelsinu X].[...]

Mér barst svo svarbréf frá [C] í byrjun feb. 2013 sem var skrifað þann 31.01.2013 þar sem hann leitast við að svara athugasemdum mínum og lýsir sinni hlið á málinu sem honum er að sjálfsögðu frjálst og eðlilegt að gera. Það sem ég vill kvarta hér [yfir] er að þann 05.01.2013 og nokkrum sinnum eftir það þá fer [C] inn á mína sjúkraskrá og nýtir sér upplýsingar sem ég gaf [K] geðlækni til að svara ágreiningi okkar á milli.[...]

Ég hef útprentun þar sem [C] fer inn í mína sjúkraskrá þann 05.01.2013[,] tvisvar sinnum þann 03.02.2013[,] aftur þann 08.02.2013[,] fjórum sinnum þann 11.02.2013 og svo aftur þann 16.02.2013[. Þ]etta eru alls 9 sinnum og allt án þess að ég hafði hugmynd um það og ekki í neinum læknisfræðilegum tilgangi.“

Í kvörtuninni er einnig tiltekið að framkvæmdastjóri lækninga á HSU hafi með bréfi þann 19. apríl 2013 vísað kvörtun [A] til HSU til landlæknis. Með kvörtun [A] til Persónuverndar fylgdi afrit af framangreindu bréfi framkvæmdastjóra lækninga á HSU til landlæknis, en þar segir m.a.:

„1. [A]kvartar undan því að [C], sérfræðingur í heimilislækningum, hafi verið æstur og ekki sinnt sér vel þegar hann leitaði til hans í fyrsta viðtal og það er viðtal sem vísað er í. Um er að ræða viðtal [í apríl] 2012. [A] lýsir því að hann hafi, út af sjúkdómi sínum, ætlað að ræða við [C] um ýmiss vandamál m.a. að hann taki lyf sem hann þarf nauðsynlega á að halda.[...] Kvartað er um ótilhlýðilega hegðun læknis.[...]

2. Hann gerir athugasemd við svarbréf [C].[...] Hann bendir á að [C] hafi enga heimild til þess að fletta upp í sjúkraskrá til þess að svara þessu og allra síst að skoða viðtal geðlæknis. Ég mun þó hafa tjáð [A]að [C] eigi erfitt með að svara ásökunum hans nema skoða sjúkraskrána. Ég er sammála því að það sé umdeilanlegt hvort þessar upplýsingar eigi erindi í þetta svarbréf.[...]

3. [A] telur að um ósannindi sé að ræða.[...]

[C] er nú í löngu leyfi [og] hefur klárað málið frá sínum bæjardyrum sé[ð], ég hef beðist afsökunar f.h. stofnunarinnar á misheppnuðum samskiptum. Það sem eftir stendur er að svara því hvort [C] hafi haft heimild til þess að skoða sjúkraskrána og hvort upplýsingarnar í því bréfi sem hann sendi séu eðlilegar.“

Með kvörtuninni fylgdi einnig afrit af svarbréfi landlæknis til framkvæmdastjóra lækninga á HSU, dags. 28. júní 2013, en þar segir m.a.:

„[A] hefur beint erindi sínu til Heilbrigðisstofnunar Suðurlands sem athugasemd vegna þjónustu, svo sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 28. gr. laga um réttindi sjúklinga nr. 74/1997 og hefur erindið fengið umfjöllun og afgreiðslu í samræmi við það.

Vilji sjúklingur hins vegar kvarta yfir meðferð getur hann beint kvörtun til landlæknis, sbr. 2. mgr. 28. gr. laga um réttindi sjúklinga nr. 74/1997 og 2. mgr. 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu nr. 41/2007. Þarf sjúklingur þá að senda landlækni kvörtun og gera skýra grein fyrir því í hverju hann telur meinta vanrækslu, mistök eða ótilhlýðilega framkomu hafa verið fólgin. Ennfremur hvar og hvenær slíkt hafi átt sér stað. Embætti landlæknis hefur ekki borist kvörtun vegna heilbrigðisþjónustu frá [A].

Í bréfi þínu segir að þú hafir farið yfir nokkur mál með honum og vísir máli sem nánar er tilgreint til landlæknis til skoðunar. Ekki verður séð að málið heyri undir embætti landlæknis til skoðunar og því verður erindi þitt með bréfi dags. 19. apríl 2013 því ekki tekið til efnislegrar umfjöllunar hjá landlækni.“

Með tölvupósti, mótteknum þann 24. september 2013, staðfesti kvartandi að engin kvörtun væri til meðferðar hjá embætti landlæknis varðandi uppflettingar [C] í sjúkraskrám hans.

2.

Bréfaskipti

Með bréfi, dags. 25. september 2014, var HSU boðið að koma á framfæri skýringum vegna kvörtunarinnar til samræmis við 10. og 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

 

Persónuvernd barst ódagsett svarbréf [B], þann 18. október 2013. Í því er einkum vísað til bréfs frá [C] til HSU, dags. 31. janúar 2013, þar sem hann skýrir út hvers vegna hann taldi sig þurfa að skoða sjúkraskrá kvartanda en HSU hafði óskað skýringa frá honum þann 17. desember 2012 vegna erindis kvartanda til HSU um framkomu og hegðun [C] gagnvart kvartanda vorið 2012. Hafði kvartandi áður haft samskipti við [B] af sama tilefni, 7. og 26. október 2012. Í bréfi [C] til HSU sagði frá komum kvartanda til hans dagana […] og […] 2012 þegar kvartandi var í afplánun í fangelsinu [í fangelsinu X], en [C] sinnti einnig störfum sem læknir í fangelsinu á þeim tíma. Lauk kvartandi afplánun sinni þann 30. september 2012 og mun ekki hafa leitað læknismeðferðar hjá [C] eða HSU eftir það.

 

Persónuvernd óskaði eftir frekari upplýsingum frá framkvæmdastjóra lækninga á HSU með bréfi, dags. 24. október 2013. Nánar tiltekið benti stofnunin á að kvörtunin lúti að óeðlilegum uppflettingum [C] í sjúkraskrá kvartanda á tímabilinu október 2012 til febrúar 2013, en kvartandi tilgreini m.a. sérstaklega uppflettingar sem áttu sér stað eftir ritun áðurnefnds bréfs [C] til HSU, dags. 31. janúar 2013. Þá fjallaði bréf [C] einnig einungis um samskipti hans og kvartanda [í apríl] og [maí] 2012. Af þeim sökum skýrði bréf [C] ekki meintar uppflettingar hans í sjúkraskrá kvartanda á tímabilinu október 2012 til febrúar 2013 og þess vegna hefði framkvæmdastjóri lækninga ekki veitt fullnægjandi skýringar á því hvort uppflettingarnar væru lögmætar að mati HSU, enda væri HSU ábyrgðaraðili þeirra sjúkraskráa sem hér um ræðir í skilningi laga nr. 55/2009 um sjúkraskrár. Óskaði Persónuvernd því eftir nánari skýringum frá HSU um þær uppflettingar sem kvörtunin lúti að, í hvaða tilgangi þær voru gerðar og hvort [C] hafi verið starfsmaður HSU á þeim tíma sem þær voru gerðar.

 

Í svarbréfi framkvæmdastjóra lækninga á HSU, dags. 6. nóvember 2013, er barst Persónuvernd þann 14. nóvember 2013, segir að litið sé svo á að beiðni kvartanda um skýringu [C] á athæfi sínu og hegðun krefðist þess að hann liti í sjúkraskrá kvartanda og því hefði slík beiðni falið í sér leyfi til handa viðkomandi lækni fyrir uppflettingu í sjúkraskrá kvartanda. Þá segir í bréfinu að tilgangurinn með uppflettingunum hafi verið sá að svara fyrir umrædda kvörtun á hendur [C]. Loks staðfesti framkvæmdastjóri lækninga að [C] væri starfsmaður HSU og hefði enn aðgang að sjúkraskrám til þess að sinna þeim sjúklingum sem á þurfi að halda.

 

Með tölvupósti 18. nóvember 2013 óskaði Persónuvernd aftur eftir frekari upplýsingum frá framkvæmdastjóra lækninga á HSU um þær uppflettingar sem kvörtunin varðar, einkum í hvaða tilgangi uppflettingar voru gerðar í sjúkraskrá kvartanda eftir þann 31. janúar 2013, þegar bréf [C] til HSU er ritað, og hvaða heimild var fyrir þeim. Benti stofnunin sérstaklega á það sem sagði í kvörtuninni, um að sjúkraskrá kvartanda hafi verið skoðuð alls átta sinnum eftir þann dag.

 

Bárust Persónuvernd eftirfarandi skýringar frá framkvæmdastjóra lækninga með tölvupósti þann 3. desember 2013:

„1) Í fyrsta lagi var [C] að lesa svarbréfið sem hann skrifaði, vegna athugasemda viðkomandi skjólstæðings, til að kanna hvort gleymst hefði að koma einhverju marktæku á framfæri í svarbréfinu. [C] hafði ekki annan aðgang að bréfi sínu nema í gegnum Sögu, undir kennitölu viðkomandi skjólstæðings.

2) Í annan stað var læknirinn að fylgjast með vegferð viðkomandi skjólstæðings, hvort hann hefði hitt geðlækni, hvaða lyf hann hefði fengið o.sv.frv. Á þessum tíma og allt frá árinu […] var [C] sá heilsugæslulæknir sem sinnti skjólstæðingum [í fangelsinu X]. Í tilviki téðs einstaklings man [C] ekki betur en að sér hafi verið annt um að sjá hvort hann hefði fylgt ráðleggingum sínum um að fækka lyfjainntöku sinni, hvort hann hefði fengið ný lyf hjá öðrum læknum, hvort einhver önnur meðferð hafi verið sett í gang o.sv.frv. Á þessum tíma var þessi skjólstæðingur eins og aðrir [í fangelsinu X] skilgreindir sem „[C]“-skjólstæðingar, allt til 28.02.2013 en [í kjölfarið] fór hann í [langt] leyfi.“

Með bréfi, dags. 4. desember 2013, var kvartanda boðið að koma á framfæri athugasemdum sínum við framangreind svör framkvæmdastjóra lækninga á HSU, móttekin 18. október, 14. nóvember og 3. desember 2013, til samræmis við 10. og 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Var svara óskað fyrir 19. desember 2013, en með tölvupósti mótteknum þann 10. desember s.á. óskaði kvartandi eftir viðbótarfresti til 2. janúar sl. Var sá frestur veittur með tölvupósti samdægurs.

 

Í svarbréfi kvartanda, dags. 2. janúar 2013, sem móttekið var með tölvupósti þann sama dag ítrekar kvartandi það sem sagði í upphaflegri kvörtun hans, þ.e. að honum þyki óeðlilegar uppflettingar [C] í sjúkraskrá hans í febrúar 2013, enda telji hann að hann hafi ekki verið skjólstæðingur [C], eins og haldið sé fram í bréfi framkvæmdastjóra lækninga á HSU, eftir að hann lauk afplánun [í fangelsinu X] þann [í] september 2013. Að mati kvartanda hafi [C] því ekki átt að vera unnt að fletta upp í sjúkraskrá hans í meðferðartilgangi eftir þann tíma. Telur kvartandi því að skýringar HSU séu ófullnægjandi.

 

Með símtali þann 27. janúar 2014 staðfesti framkvæmdastjóri lækninga á HSU við starfsmann Persónuverndar að sérstök Öryggisnefnd hefur verið starfandi á HSU frá árinu 2012. Að sögn framkvæmdastjóra lækninga á HSU hefur nefndin m.a. það hlutverk að yfirfara atburðaskráningar og notkun starfsmanna á upplýsingatæknikerfum stofnunarinnar, þ. á m. meta hvort uppflettingar í sjúkraskrárkerfi HSU hafi verið eðlilegar og málefnalegar. Öryggisnefnd HSU hefur ekki fjallað um þær uppflettingar er mál þetta lýtur að, enda hafði framkvæmdastjóri lækninga sjálfur þegar farið yfir uppflettingarnar áður en Öryggisnefndin tók til starfa, í þeim tilgangi að meta hvort þær væru málefnalegar og lögmætar.

II.

Forsendur og niðurstaða

1.

Gildissvið laga nr. 77/2000

Lög nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, gilda um sérhverja rafræna vinnslu persónuupplýsinga, sem og um handvirka vinnslu persónuupplýsinga sem eru eða eiga að verða hluti af skrá, sbr. 1. mgr. 3. gr. laganna.

 

Með hugtakinu „persónuupplýsingar“ er átt við sérhverjar persónugreindar eða persónugreinanlegar upplýsingar um hinn skráða, þ.e. upplýsingar sem beint eða óbeint má rekja til tiltekins einstaklings, látins eða lifandi, sbr. 1. tölul. 2. gr. laga nr. 77/2000. Með hugtakinu „vinnsla“ er átt við sérhverja aðgerð eða röð aðgerða þar sem unnið er með persónuupplýsingar, hvort heldur sem vinnslan er handvirk eða rafræn, sbr. 2. tölul. 2. gr. laga nr. 77/2000.

 

Af framangreindu leiðir að uppflettingar í sjúkraskrá kvartanda á HSU fela í sér vinnslu persónuupplýsinga sem fellur undir gildissvið laga nr. 77/2000.

 

2.

Um lögmæti vinnslu persónuupplýsinga og öryggisráðstafanir

Upplýsingar um heilsuhagi teljast til viðkvæmra persónuupplýsinga, sbr. c-lið 8. tölul. 2. gr. laga nr. 77/2000. Öll vinnsla persónuupplýsinga verður að eiga sér stoð í lögum nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Svo að vinnsla viðkvæmra persónuupplýsinga sé heimil þarf hún að uppfylla eitthvert af skilyrðum 1. mgr. 8. gr. sem og eitthvert af skilyrðum 1. mgr. 9. gr. laganna.

 

Jafnframt verður öll vinnsla persónuupplýsinga að samrýmast öllum skilyrðum 7. gr. laga nr. 77/2000. Þar er meðal annars mælt fyrir um að þess skuli gætt við vinnslu persónuupplýsinga að þær séu unnar með sanngjörnum, málefnalegum og lögmætum hætti og að öll meðferð þeirra sé í samræmi við vandaða vinnsluhætti persónuupplýsinga (1. tölul.). Liður í því að tryggja vandaða vinnsluhætti er að uppfylla kröfur um upplýsingaöryggi.

 

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laga nr. 55/2009 um sjúkraskrár skulu heilbrigðisstarfsmenn, sem koma að meðferð sjúklings og þurfa á sjúkraskrárupplýsingum hans að halda vegna meðferðarinnar, hafa aðgang að sjúkraskrám sjúklings með þeim takmörkunum sem leiðir af ákvæðum laganna og reglum settum samkvæmt þeim. Þá segir í 4. mgr. ákvæðisins að sjúklingur geti lagt bann við því að tiltekinn starfsmaður hafi aðgang að sjúkraskrá hans.

 

Einnig segir í 4. mgr. 14. gr. laganna að sjúklingur eigi rétt á því að fá upplýsingar frá umsjónaraðila sjúkraskráa um það hverjir hafi aflað upplýsinga úr sjúkraskrá hans, hvar og hvenær upplýsinga var aflað og í hvaða tilgangi. Þá ber ábyrgðar- og umsjónaraðila sjúkraskráa að hafa eftirlit með því að framfylgt sé ákvæðum laga nr. 55/2009, sbr. 1. mgr. 22. gr. laganna. Hefur Persónuvernd eftirlit með öryggi og vinnslu persónuupplýsinga í sjúkraskrám í samræmi við ákvæði laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, sbr. ákvæði 3. mgr. 22. gr. um sjúkraskrár.

 

3.

Niðurstaða

Í því tilviki sem hér um ræðir er óumdeilt að [C], læknir á HSU og [í fangelsinu X], fletti upp í sjúkraskrá kvartanda í þau skipti sem kvartað er yfir. Lýtur ágreiningur aðila að því hvort [C] hafi verið heimilt að fletta upp í sjúkraskrá kvartanda á tímabilinu október 2012 til febrúar 2013.

 

Í tilvikum þar sem sjúklingur kvartar yfir framkomu læknis við veitingu heilbrigðisþjónustu telur Persónuvernd að málefnalegt og nauðsynlegt geti verið fyrir viðkomandi lækni að fletta upp í sjúkraskrá sjúklingsins þegar framkvæmdastjóri lækninga á viðkomandi heilbrigðisstofnun óskar skýringa frá honum um meðferð sjúklingsins og samskipti læknisins við hann, líkt og gerðist í því tilviki sem hér um ræðir. Þá geti einnig verið lögmæt ástæða fyrir lækni að fletta upp í sjúkraskrá sjúklings eftir ritun slíkra skýringa til þess að ganga úr skugga um að öll nauðsynleg atriði hafi komið fram við meðferð kvörtunar sem beinist að lækni tiltekinnar heilbrigðisstofnunar. Geta uppflettingar í sjúkraskrám í framangreindum tilgangi verið talinn málefnalegur og heimill á grundvelli 1. mgr. 7. gr., 7. tölul. 1. mgr. 8. gr. og 8. tölul. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 77/2000.

 

Þá getur verið málefnaleg og lögmæt ástæða fyrir uppflettingu í sjúkraskrá sjúklings ef ljóst er að hún fer fram í þágu meðferðar viðkomandi sjúklings hjá tilteknum lækni. Getur slíkur aðgangur verið heimill á grundvelli 3. tölul. 1. mgr. 8. gr. og 2. og 8. tölul. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 77/2000, sbr. ákvæði 1. mgr. 13. gr. laga nr. 55/2009 um sjúkraskrár. Hefur framkvæmdastjóri lækninga á HSU vísað til þess að uppflettingar [C] í sjúkraskrá kvartanda hafi að hluta til átt sér stað í framangreindum tilgangi, þ.e. í þágu læknismeðferðar sem [C] veitti kvartanda þegar hann var í afplánun [í fangelsinu X].

 

Persónuvernd telur að málefnaleg ástæða hafi legið að baki uppflettingum í sjúkraskrá kvartanda þegar þær voru gerðar í þeim tilgangi að veita framkvæmdastjóra lækninga á HSU skýringar um samskipti hans við kvartanda, sbr. 1. mgr. 7. gr., 7. tölul. 1. mgr. 8. gr. og 8. tölul. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 77/2000. Framkvæmdastjóri lækninga á HSU hefur aftur á móti einnig bent á að uppflettingarnar hafi jafnframt verið gerðar í þágu læknismeðferðar, eins og áður segir. Af gögnum málsins liggur ljóst fyrir að kvartandi lauk læknismeðferð hjá [C] þegar hann lauk afplánun [í fangelsinu X í] september 2012 og hafði hann ekki önnur samskipti við [C] eftir þann tíma. Auk þess sótti kvartandi þjónustu heimilislæknis í Reykjavík eftir að hann lauk afplánun [í fangelsinu X], en ekki á HSU. Þá liggur fyrir að í október 2012 kvartaði [A] yfir framkomu [C] við framkvæmdastjóra lækninga á HSU, n.t.t. yfir framkomu [C] í apríl og maí  2012 þegar kvartandi var í afplánun. Verður því að ætla eins og atvikum er háttað í málinu að [C] hafi mátt vita, eftir að honum var kunnugt um framkomna kvörtun [A] til framkvæmdastjóra lækninga á HSU um afskipti [C] af honum, að kvartandi óskaði ekki eftir frekari samskiptum við [C] í tengslum við þá læknisþjónustu er hann hlaut á meðan hann var í afplánun [í fangelsinu X]. Með vísan til þeirra sérstöku aðstæðna sem uppi eru í málinu, sem og þess að framkvæmdastjóri lækninga á HSU hefur ekki bent á að aðrar brýnar eða málefnalegar ástæður hafi legið að baki uppflettingum á umræddum tímabili, verður að ætla að rík ástæða hafi verið fyrir [C] til að ætla að kvartandi óskaði þess að hann hefði ekki aðgang að sjúkraskrá kvartanda í þágu læknismeðferðar, sbr. ákvæði 4. mgr. 13. gr. laga nr. 55/2009 um sjúkraskrár, enda hefur ekki verið sýnt fram á að [C] hafi verið nauðsynlegt að fletta upp í sjúkraskrá kvartanda vegna meðferðar hans. Telur Persónuvernd því að uppflettingar [C] í sjúkraskrá kvartanda í þágu meðferðar á tímabilinu janúar til febrúar 2013 hafi ekki verið gerðar í málefnalegum tilgangi, sbr. 1. tölul. 7. gr. laga nr. 77/2000, og samrýmdust þær því ekki ákvæðum 1. mgr. 8. og 9. gr. laga nr. 77/2000.

 

Ú r s k u r ð a r o r ð:

[C] lækni á Heilbrigðisstofnun Suðurlands var heimilt að fletta upp í sjúkraskrá [A] á HSU á tímabilinu október 2012 til febrúar 2013, vegna reksturs ágreiningsmáls hjá HSU um samskipti hans við kvartanda. Aðrar uppflettingar [C] á tímabilinu, sem gerðar voru í þágu læknismeðferðar kvartanda, samrýmdust ekki lögum nr. 77/2000.Var efnið hjálplegt? Nei