Úrlausnir

Ekki unnt að leysa úr ágreiningi um töku ljósmynda – mál nr. 2016/666

7.2.2014

Persónuvernd hefur lokið afskiptum af máli þar sem kvartað var yfir töku ljósmynda af sameign fjöleignarhúss í þeim tilgangi að lýsa umgengni kvartanda. Ágreiningur var uppi um staðreyndir máls, m.a. hvort brýnt og málefnalegt tilefni hefði verið til að taka umræddar ljósmyndir, sem og hverjar kringumstæður hefðu verið að öðru leyti. Taldi Persónuvernd sig ekki hafa úrræði að lögum til að greiða úr þeim ágreiningi.

Ákvörðun

 

Í samræmi við niðurstöðu á fundi stjórnar Persónuverndar hinn 16. janúar 2014 hefur verið tekin eftirfarandi ákvörðun í máli nr. 2013/666:

                       

I.

Málavextir og bréfaskipti

Hinn 23. maí 2013 barst Persónuvernd kvörtun frá [A] (hér eftir nefnd „kvartandi“), dags. s.d., yfir að [B], nágranni hennar og íbúi í sama húsi, hafi tekið ljósmyndir af henni og börnum hennar úti í garði við heimili þeirra, sett í möppu og farið með á fund Húseigendafélagsins. Ítrekað hafi kvartandi óskað eftir að [B] léti af þessari háttsemi en árangurslaust.

Með bréfi, dags. 10. september 2013, var [B] veitt færi á að tjá sig um framangreinda kvörtun. Hún svaraði með tölvubréfi hinn 24. s.m. þar sem fram kemur að á árinu 2007 hafi verið tekin ljósmynd af trampólíni sem komið hafi verið fyrir við svefnherbergisglugga íbúðar hennar en síðar fært til. Á ljósmyndinni, sem sé í möppu sem farið hafi verið með á aðalfund Húseigendafélagsins árið 2012, megi sjá dóttur kvartanda og tvær aðrar stúlkur. Aðrar myndir í möppunni sýni óviðunandi umgengnishætti kvartanda innanhúss sem utan.

Með bréfi, dags. 14. október 2013, var kvartanda veitt færi á að tjá sig um framangreint svar [B]. Kvartandi svaraði með tölvubréfi hinn 27. október 2013. Þar segir að í umræddu albúmi hafi verið alls kyns myndir, s.s. af hlutum í eigu kvartanda sem hún hafi talið í lagi að leggja frá sér um stundarsakir í sameiginlegu þvottahúsi. Þá hafi hún orðið vör við að ljósmyndir væru teknar í laumi, en þegar hún hafi verið að færa til framangreint trampólín árið 2007 hafi hún tekið eftir flassi út um svefnherbergisglugga efri hæðar, litið upp og séð [B] loka glugganum með myndavél í hendi. Með vísan til þessa spyr kvartandi hvort einhver lög nái yfir umræddar myndatökur sem fari fram í laumi og án nokkurs leyfis á hennar eigin heimili í því skyni að sverta persónu hennar. Þá er þess krafist að [B] verði látin afhenda Persónuvernd albúmið til vörslu hjá stofnuninni.

 

II.

Forsendur og niðurstaða

1.

Lög nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga gilda um sérhverja rafræna vinnslu persónuupplýsinga og handvirka vinnslu slíkra upplýsinga sem eru eða eiga að verða hluti af skrá, sbr. 1. mgr. 3. gr. laganna. Persónuupplýsingar eru skilgreindar í 1. tölul. 2. gr. laganna sem sérhverjar persónugreindar eða persónugreinanlegar upplýsingar um hinn skráða, þ.e. upplýsingar sem beint eða óbeint má rekja til tiltekins einstaklings, látins eða lifandi. Hugtakið vinnsla er skilgreint sem sérhver aðgerð eða röð aðgerða þar sem unnið er með persónuupplýsingar, hvort heldur vinnslan er handvirk eða rafræn, sbr. 2. tölul. 2. gr. laganna. Í athugasemdum við það ákvæði í því frumvarpi, sem varð að lögum nr. 77/2000, kemur fram að hver sú aðferð, sem nota má til að gera upplýsingar tiltækar, telst til vinnslu.

Óumdeilt er að tekin hefur verið ljósmynd af dóttur kvartanda, sem og að teknar hafa verið ljósmyndir af munum í eigu kvartanda í þeim tilgangi að lýsa umgengni hennar um sameign. Í þessu felst vinnsla persónuupplýsinga í framangreindum skilningi.

 

2.

Til að vinna megi með persónuupplýsingar þarf ávallt að vera fullnægt einhverju þeirra skilyrða fyrir vinnslu slíkra upplýsinga sem mælt er fyrir um í 8. gr. laga nr. 77/2000 nema annað sé sérstaklega tekið fram í lögunum. Í 2. mgr. 3. gr. laganna er að finna slíkt undanþáguákvæði, þess efnis að lögin gilda ekki um meðferð einstaklings á persónuupplýsingum sem einvörðungu eru ætlaðar til persónulegra nota. Ljóst er að ef upplýsingar eru gerðar aðgengilegar þriðja aðila getur undanþága samkvæmt þessu ákvæði ekki átt við. Svo háttar til í máli þessu og þarf því umrædd vinnsla að samrýmast einhverju framangreindra skilyrða 8. gr.

Það ákvæði 8. gr. laga nr. 77/2000, sem einkum getur reynt á í máli þessu, er 7. tölul. 1. mgr., en þar er mælt fyrir um heimild til vinnslu persónuupplýsinga sem nauðsynleg er til að gæta lögmætra hagsmuna nema grundvallarréttindi og frelsi hins skráða vegi þyngra. Ekki er hægt að útiloka að taka á ljósmyndum, sem sýna umgengni tiltekins íbúa í sameign fjöleignarhúss, geti samrýmst þessu ákvæði. Sé íbúi úr húsinu á meðal myndefnis þarf strangari skilyrðum en ella að vera fullnægt. Í því felst þó ekki að taka ljósmynda, þar sem einstaklingur kemur fyrir án hans samþykkis, sé með öllu óheimil heldur getur það farið eftir aðstæðum, m.a. hvort ljósmyndin sé viðkomandi á einhvern hátt til hnjóðs, hvort viðkomandi hafi verið fylgt eftir í því skyni að taka ljósmyndir af honum leynilega eða hvort viðkomandi birtist aðeins á ljósmynd af tilviljun.

Í gögnum málsins kemur fram að ágreiningur er um hvort brýnt og málefnalegt tilefni hafi verið til að taka umræddar ljósmyndir, sem og hverjar kringumstæður hafi verið að öðru leyti. Þar er um að ræða ágreining um staðreyndir máls sem Persónuvernd hefur ekki úrræði að lögum til að greiða úr. Í samræmi við það er niðurstaða stofnunarinnar sú að ekki sé unnt að skera úr um hvort brotið hafi verið gegn lögum nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.Var efnið hjálplegt? Nei