Úrlausnir

Birting upplýsinga um að umsókn um greiðsluaðlögun hafi verið samþykkt

25.11.2013

Persónuvernd hefur úrskurðað í máli varðandi birtingu Creditinfo Lánstraust hf. á upplýsingum um það hvort umsókn kvartanda, um greiðsluaðlögun hjá Umboðsmanni skuldara, hefði verið samþykkt. Persónuvernd úrskurðaði að heimilt hefði verið að birta upplýsingarnar en ekki eftir að greiðsluaðlögun kvartanda hefði verið endanlega samþykkt.

Úrskurður

 

Á fundi stjórnar Persónuverndar þann 12. nóvember 2013 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli nr. 2013/920:

 

I.

Grundvöllur máls

Málavextir og bréfaskipti

 

1.

Tildrög máls

Þann 8. ágúst 2013 barst Persónuvernd kvörtun frá [A] (hér eftir nefndur kvartandi), vegna birtingar upplýsinga um hann í skránni VOG – sem er samsett skrá hjá Creditinfo Lánstrausti hf. með upplýsingum um vanskil og opinberar gerðir – og miðlun þeirra upplýsinga til þriðja aðila. Nánar tiltekið telur kvartandi að Creditinfo Lánstraust hf. hafi með ólögmætum hætti birt tilteknar upplýsingar um sig í VOG og í kjölfarið hafi óviðkomandi aðilar séð þær upplýsingar þegar þeir flettu kvartanda upp í kerfinu.

 

Með kvörtuninni fylgdi útprentun úr skránni VOG um kvartanda. Undir liðnum „Úr Lögbirtingablaði“ er unnt að skrá upplýsingar meðal annars undir liðnum „Annað“. Undir þeim lið er birt eftirfarandi færsla um kvartanda:

      Tilv.nr.       Dags. auglýsingar     Auðkenni       Tegund

       […]             […]2013                 2013[…]A       Umsókn um greiðsluaðlögun samþykkt hjá UMS

 

Með tölvupósti, mótteknum þann 1. september 2013, bendir kvartandi á að hann telji einnig að Creditinfo Lánstraust hf. hafi átt að fjarlægja umræddar upplýsingar um sig úr VOG þegar hann fékk endanlega samþykkta greiðsluaðlögun.

2.

Bréfaskipti

Með bréfi, dags. 11. september 2013, var Creditinfo Lánstrausti hf. boðið að koma á framfæri skýringum vegna kvörtunarinnar til samræmis við 10. og 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

 

Barst Persónuvernd svarbréf Creditinfo Lánstrausts hf. með tölvupósti þann 26. september 2013. Í svarbréfinu segir m.a. að Creditinfo hvorki skrái né miðli upplýsingum um endanlega samþykkta greiðsluaðlögun, hvorki í vanskilaskrá né annars staðar, í fullu samræmi við 2. mgr. 2.1. gr. í starfsleyfi félagsins þar sem segir m.a.:

 

Heimil er vinnsla persónuupplýsinga sem hafa verið löglega birtar í opinberum auglýsingum, þó ekki um endanlega samþykkta greiðsluaðlögun.

 

Segir félagið í bréfi sínu að einu not þess af opinberum auglýsingum um endanlega samþykkta greiðsluaðlögun felist í því að nota upplýsingarnar til að afskrá færslur af vanskilaskrá. Aftur á móti líti Creditinfo ekki á upplýsingar sem umboðsmaður skuldara (UMS) auglýsi um greiðsluaðlögun sem upplýsingar um vanskil og eru þær því ekki skráðar í vanskilaskrá. Þá feli greiðsluaðlögunarferlið í sér nokkrar mismunandi auglýsingar frá UMS, m.a. um að umsókn um greiðsluaðlögun hafi verið samþykkt. Skráir Creditinfo það í VOG undir lið sem nefnist „Úr Lögbirtingablaði“. Áréttar félagið að í tilviki kvartanda hafi ekki verið birtar upplýsingar í VOG um endanlega samþykkta greiðsluaðlögun.

 

Varðandi þann lið kvörtunarinnar er lýtur að eyðingu upplýsinganna í VOG þegar kvartandi fékk endanlega samþykkta umsókn um greiðsluaðlögun segir í svarbréfi Creditinfo að ákvæði 2. mgr. 2.1. gr. starfsleyfis félagsins sé afdráttarlaust, enda segi þar að vinnsla upplýsinga sem hafi verið löglega birtar í opinberum auglýsingum sé heimil, svo fremi sem þær eru yngri en 4 ára. Í þessu tilviki séu upplýsingarnar ekki rangar enda feli þær einungis í sér staðfestingu á tiltekinni athöfn opinbers aðila er varðar hinn skráða.

 

Þá telji félagið að umrædd vinnsla feli í sér söfnun og miðlun á gerðum opinbers aðila sem alla jafna varði lánveitendur miklu enda ljóst að tilgangur greiðsluaðlögunar sé að tryggja greiðslugetu einstaklings á meðan á samþykktri greiðsluaðlögun stendur. Þá megi einnig vera ljóst að hagsmunir lánveitenda, sem eiga aðild að greiðsluaðlögunarsamningi, séu ríkari en hagsmunir einstaklingsins sjálfs. Telur félagið að hinu sama gegni um hagsmuni annarra lánveitenda þar sem upplýsingar um ofangreint staðfesti að greiðslugetu kunni að skorta fyrir frekari skuldsetningu.

 

Loks bendir félagið á að sé staðfest að samningur um greiðsluaðlögun hafi verið efndur innan þeirra 4 ára sem miðlun umræddra upplýsinga nær til, sé ekkert því til fyrirstöðu að afskrá upplýsingarnar.

 

Með bréfi, dags. 10. október 2013, var kvartanda boðið að koma á framfæri athugasemdum sínum við framkomnar skýringar Creditinfo til samræmis við 10. og 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í svarbréfi hans, dags. 21. október 2013, segir m.a. að Creditinfo beri að sjá til þess að upplýsingar sem unnið er með séu ekki rangar, villandi eða ófullkomnar, sbr. 5. gr. reglugerðar nr. 246/2001 um söfnun og miðlun upplýsinga um fjárhagsmálefni og lánstraust. Þá er í svarinu bent á að í 5. gr. reglugerðarinnar sé mælt fyrir um að „hafi fjárhagsupplýsingastofa unnið með upplýsingar sem eru rangar, villandi eða ófullkomnar, eða hafi persónuupplýsingar verið skráðar án tilskilinnar heimildar [skuli] hún sjá til þess að upplýsingarnar verði leiðréttar, þeim eytt eða við þær aukið ef umræddur annmarki getur haft áhrif á hagsmuni hins skráða“, eins og segir í ákvæðinu.

 

Þá vísar kvartandi einnig til ákvörðunar Persónuverndar í máli nr. 2009/680, þar sem Creditinfo var synjað um leyfi til að skrá persónuupplýsingar um einstaklinga sem fengið hafa greiðsluaðlögun samkvæmt X. kafla a í lögum nr. 21/1991 og lögum nr. 101/2010, sbr. ákvæði 2. mgr. 2.1. gr. í núgildandi starfsleyfi félagsins. Telur kvartandi að þótt hér sé um að ræða auglýsingu um samþykkta umsókn um greiðsluaðlögun breyti það ekki hinu íþyngjandi eðli skráningarinnar. Samkvæmt 8. gr. laga nr. 101/2010 felur samþykki UMS á umsókn um greiðsluaðlögun einungis í sér að með því hefjist tímabil greiðsluaðlögunarumleitana, sem geti staðið í allt að þrjá mánuði. Er það mat kvartanda að þær upplýsingar, að einstaklingur sem fengið hefur endanlega samþykkta greiðsluaðlögun hafi fengið samþykkta umsókn um greiðsluaðlögun, hljóti í hlutarins eðli að vera órjúfanlegur hluti af því ferli og órjúfanlegur þáttur í framvindu úrræðisins. Auglýsing um að einstaklingur hafi fengið samþykkta umsókn um greiðsluaðlögun feli í sér mjög ónákvæmar upplýsingar er varða fjárhagsstöðu hans, og af þeirri ástæðu hljóti slík vinnsla að vera andstæð 5. gr. reglugerðar nr. 246/2001. Þar að auki telur kvartandi að Creditinfo geti ekki verið heimilt að birta slíkar upplýsingar í 4 ár í ljósi þess að greiðsluaðlögunartímabilið skuli að jafnaði vera í eitt til þrjú ár.

 

Loks bendir kvartandi á að ekki fáist séð hvaða mikilsverðu hagsmuni kröfuhafar hafa af birtingu umræddra upplýsinga í þeim tilvikum sem einstaklingur hefur kosið að nýta sér ekki greiðsluaðlögunarúrræðið eftir að umsókn hans um greiðsluaðlögun var samþykkt.

 

II.

Forsendur og niðurstaða

 

1.

Gildissvið laga nr. 77/2000

Lög nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, gilda um sérhverja rafræna vinnslu persónuupplýsinga, sem og um handvirka vinnslu persónuupplýsinga sem eru eða eiga að verða hluti af skrá, sbr. 1. mgr. 3. gr. laganna. Með hugtakinu „persónuupplýsingar“ er átt við sérhverjar persónugreindar eða persónugreinanlegar upplýsingar um hinn skráða, þ.e. upplýsingar sem beint eða óbeint má rekja til tiltekins einstaklings, látins eða lifandi, sbr. 1. tölul. 2. gr. laga nr. 77/2000. Með hugtakinu „vinnsla“ er átt við sérhverja aðgerð eða röð aðgerða þar sem unnið er með persónuupplýsingar, hvort heldur sem vinnslan er handvirk eða rafræn, sbr. 2. tölul. 2. gr. laga nr. 77/2000. Af þessu öllu er ljóst að mál þetta lýtur að vinnslu persónuupplýsinga sem fellur undir valdsvið Persónuverndar.

 

2.

Lögmæti vinnslu

Öll vinnsla persónuupplýsinga verður að eiga sér stoð í lögum nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Í því felst m.a. að ávallt verður að vera fullnægt einhverju af skilyrðum 8. gr. laganna. Litið hefur verið svo á að vinnsla upplýsinga um fjárhagsmálefni og lánstraust geti m.a. átt sér stoð í 7. tölul. 1. mgr. 8. gr., þ.e. á þeim grundvelli að vinnsla sé nauðsynleg í þágu lögmætra hagsmuna nema grundvallarréttindi og frelsi hins skráða vegi þyngra.

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 246/2001, sbr. 45. gr. laga nr. 77/2000, sbr. einnig 4. tölul. 1. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 712/2008 um tilkynningarskylda og leyfisskylda vinnslu persónuupplýsinga, sbr. 33. gr. laganna, er söfnun og skráning upplýsinga um fjárhagsmálefni einstaklinga, í því skyni að miðla þeim til annarra, óheimil án starfsleyfis Persónuverndar.

 

Hefur Creditinfo Lánstraust hf. haft með höndum vinnslu persónuupplýsinga á grundvelli slíkra starfsleyfa Persónuverndar. Starfar félagið nú á grundvelli starfsleyfis, dags. 19. september 2012 (mál nr. 2012/266). Í 2.1. gr. leyfisins er talið upp hvaða upplýsingar handhafi slíks leyfis, þ.e. svonefnd fjárhagsupplýsingastofa, megi skrá, en sú upptalning byggist á 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 246/2001 þar sem segir að fjárhagsupplýsingastofu sé einungis heimilt að vinna með upplýsingar sem eðli sínu samkvæmt hafa afgerandi þýðingu við mat á fjárhag og lánstrausti hins skráða.

 

Í starfsleyfinu er sérstaklega vísað til þess í 2. mgr. 2.1. gr. að vinnsla upplýsinga sem hafa verið löglega birtar í opinberum auglýsingum sé heimil, þó ekki um endanlega samþykkta greiðsluaðlögun. Byggist framangreint ákvæði einkum á afstöðu Persónuverndar í ákvörðun hennar, dags. 18. janúar 2011, í máli nr. 2009/680. Í þeirri ákvörðun Persónuverndar var Creditinfo Lánstrausti hf. synjað um leyfi til að skrá persónuupplýsingar um einstaklinga sem hafa fengið greiðsluaðlögun samkvæmt X. kafla a í lögum nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. og lögum nr. 101/2010 um greiðsluaðlögun einstaklinga. Í  ákvörðuninni kom m.a. fram að ákvæði um greiðsluaðlögun einstaklinga séu að hluta reist á danskri fyrirmynd. Um þetta segir í ákvörðuninni:

 

Þetta kemur m.a. fram í niðurlagi II. kafla almennra athugasemda með því frumvarpi, sem varð að lögum nr. 101/2010. Ólíkt því sem er hér á landi er þar að finna ákvæði í settum lögum sem hafa að geyma efnislegar reglur um skráningu upplýsinga um fjárhagsmálefni og lánstraust einstaklinga í því skyni að miðla þeim til annarra. Meðal þess sem mælt er fyrir um í þarlendum lögum í því sambandi er að óheimilt sé að miðla upplýsingum um greiðsluaðlögun einstaklinga (d. gældssanering) sem hefur endanlega verið staðfest, sbr. 3. mgr. 23. gr. dönsku persónuupplýsingalaganna nr. 429 frá 31. maí 2000 (d. lov om behandling af personoplysninger).

 

3.

Niðurstaða

Fyrir liggur að Creditinfo hefur ekki birt upplýsingar um endanlega samþykkta greiðsluaðlögun kvartanda. Aftur á móti lýtur kvörtunin að því hvort birting upplýsinga um að umsókn kvartanda um greiðsluaðlögun hjá UMS hafi verið samþykkt sé lögmæt.

Svo sem að framan greinir er heimil vinnsla persónuupplýsinga sem hafa verið löglega birtar í opinberum auglýsingum. Birting upplýsinga í VOG skrá Creditinfo Lánstrausts hf., um að umsókn kvartanda um greiðsluaðlögun hefði verið samþykkt hjá umboðsmanni skuldara, var birt í kjölfar opinberrar birting[ar] þeirra upplýsinga í Lögbirtingablaði. Þá verður ekki talið að bann í starfsleyfi Creditinfo Lánstrausti hf. við vinnslu upplýsinga um „endanlega samþykkta greiðsluaðlögun“ taki til annarra upplýsinga, svo sem um að umsókn um starfsleyfi hafi verið samþykkt hjá UMS enda er bannákvæðið skýrt orðað undanþáguákvæði sem tilgreinir með tæmandi hætti til hvaða upplýsinga bannið tekur. Creditinfo Lánstrausti hf. var því heimilt að birta upplýsingarnar, sbr. núgildandi ákvæði 2.1. í starfsleyfi félagsins.

 

Eins og fram kemur hér að framan markar samþykkt umsóknar um greiðsluaðlögun upphaf tímafrests sem skuldara gefst til að ná samningum við kröfuhafa sína. Því verður ekki talið eðlilegt að skráningu um samþykkt umsóknarinnar verði viðhaldið eftir að slíkur samningur hefur komist á og greiðsluaðlögunin hefur þar með verið endanlega samþykkt, í ljósi banns starfsleyfisins um að birta upplýsingar um endanlega samþykkta greiðsluaðlögun, enda myndi slík skráning að öðrum kosti gefa ranglega í skyn að samningaumleitanir stæðu enn yfir.

 

Samkvæmt ákvæði 2.1. í starfsleyfi Creditinfo Lánstrausts hf. má aðeins vinna með persónuupplýsingar sem eðli sínu samkvæmt geta haft þýðingu við mat á fjárhag og lánstrausti hins skráða. Af ákvæðinu leiðir að ekki megi vinna með aðrar upplýsingar en þar eru tilgreindar. Persónuvernd telur að þar sem birting upplýsinga um endanlega samþykkta greiðsluaðlögun sé bönnuð þá geti upplýsingar um að umsókn um greiðsluaðlögun hafi verið samþykkt hjá umboðsmanni skuldara verið villandi eftir að greiðsluaðlögun hefur verið endanlega samþykkt og hafi því ekki réttmæta þýðingu við mat á fjárhag og lánstrausti hins skráða eftir það tímamark. Því telur stofnunin að birting upplýsinganna eftir þann tíma sé óheimil. Ber Creditinfo því að eyða umræddri færslu um kvartanda í VOG þar sem kvartandi hefur nú fengið endanlega samþykkta greiðsluaðlögun.

 

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Creditinfo Lánstrausti hf. var heimilt að birta upplýsingar um að umsókn [A] um greiðsluaðlögun hjá umboðsmanni skuldara hefði verið samþykkt, en ekki eftir að greiðsluaðlögun hans var endanlega samþykkt. Ber Creditinfo Lánstrausti hf. því að eyða án tafar færslu þess efnis um kvartanda úr skrám sínum, þar á meðal svonefndri VOG skrá.

 
Var efnið hjálplegt? Nei