Úrlausnir

Miðlun upplýsinga um ástand húss - mál nr. 2012/237

30.10.2012

A kvartaði yfir því að Þjóðskrá Íslands (Þ) hefði miðlað upplýsingum um fasteign sína til Viðlagatryggingar Íslands (V). A hafði óskað  breytingar á tjónamati hjá V og V þá óskað eftir matslýsingu frá Þ. A taldi Þ hafa mátt miðla lýsingu vegna brunabótamats en ekki vegna fasteignamats. Í ljós kom að um eina og sömu lýsingu var að ræða og var málið þá að þessu leyti fellt niður. Í öðru lagi taldi A matslýsinguna vera ranga og kvartaði yfir að sér hefði ekki verið veittur andmælaréttur í skilningi stjórnsýslulaga. Persónuvernd taldi það bæði falla utan síns verksviðs að endurskoða ákvarðanir annarra stjórnvalda um ástand/virði hússins og að leysa úr málum um hvort farið hafi verið að ákvæðum stjórnsýslulaga.

Ákvörðun


Þann 8. október 2012 tók Persónuvernd eftirfarandi ákvörðun í máli nr. 2012/237:


I.
Upphaf máls, málavextir og bréfaskipti

1.
Upphaf og efni máls
1.1.
Þann 12. febrúar 2012 barst Persónuvernd kvörtun yðar yfir miðlun upplýsinga um hús yðar. Hún átti sér stað hinn 13. október 2011 með sendingu tölvubréfs frá Þjóðskrá Íslands til Viðlagatryggingar Íslands. Í því tölvubréfi segir m.a.:

„Húsið var skoðað 9. mars 2011. Í skoðunarlýsingu kemur fram að sprungur séu í veggjum og gólfum. Í matslýsingu [segir] að mannvirki sé í slöku meðallagi, einföld húsbygging að allri gerð og efnisgæðum og þarfnist viðhalds að utanverðu. Frágangur að innanverðu er þannig að húseignin er með ódýrar og einfaldar innréttingar, ódýr gólfefni, ódýrar sléttar innihurðir, öll tæki einföld og fábrotin, allur innri frágangur almennt ódýr og einfaldur. Ástand að innanverðu er þannig að hlutir eru orðnir mjög slitnir og orðið aðkallandi að skipta hluta þeirra út. Ástand er frekar slæmt vegna m.a. sprungna í veggjum og gólfi.“
Af kvörtuninni mátti ráða að þér telduð umræddar upplýsingar vera rangar, auk þess sem þeim hefði verið miðlað í heimildarleysi. Með fylgdi afrit af eyðublaði sem heitir Einbýlishús/fjölbýlishús – skoðunarblað. Það er þannig úr garði gert að í reiti eru færðir tölustafir og bókstafir, og hver stafur stendur fyrir visst lýsingarauðkenni. Á blaðið hafa einnig verið handskrifaðar upplýsingar um endurnýjun hússins. Eyðublaðið hefur upphaflega verið fyllt út hinn 26. maí 1993. Síðan hefur verið stimplað á það nokkrum sinnum, m.a. hinn 31. desember 2008 og 10. mars 2011. Þetta eyðublað teljið þér að Þjóðskrá hafi mátt afhenda Viðlagatryggingu. Hins vegar hafi ekki mátt greina frá þeim atriðum sem komu fram í tölvubréfinu.

Af gögnum máls má ráða að tilefni þeirrar miðlunar, sem þér kvartið yfir, var að þér höfðuð óskað þess við Viðlagatryggingu að bætur yrðu hækkaðar vegna tjóns sem varð á húsi yðar í jarðskjálfta árið 2008. Til að rökstyðja óskina höfðuð þér bent á að fasteignamat á húsinu hefði lækkað. Hafði hún þá óskað skýringa frá Þjóðskrá.

1.2.
Fyrir liggur úrskurður yfirfasteignamatsnefndar [...] varðandi kröfu yðar um lækkun fasteignamats vegna ársins 2011 og um endurskoðun mats vegna áranna 2008, 2009 og 2010. Í úrskurði hennar,[...], segir m.a.:
„Við ákvörðun fasteignamats fyrir árið 2011 byggði Þjóðskrá Íslands á reikniformúlu sem meðal annars byggir á ætluðu kaupverði auk upplýsinga um skráða eiginleika fasteignar. Að mati yfirfasteignamatsnefndar er þessi aðferð við ákvörðun fasteignamats í samræmi við ákvæði 1. mgr. 28. gr. laga nr. 6/2001. Í málinu liggur fyrir að eftir skoðun matsmanns Þjóðskrár Íslands á eigninni 9. mars 2011 hafi eignin verið endurmetin og fasteignamat lækkað úr [...]. í [...]. með vísan til ástands eignarinnar. Þegar yfirfasteignamatsnefnd skoðaði eignina [... ] 2011 hafði húsið verið klætt að utan og lagfæringar stóðu yfir innandyra. Meðal annars hafði verið lagt nýtt gólfefni á hluta gólfs. Með vísan til þessa eru ekki rök til þess að lækka hið endurskoðaða mat frekar og því er úrskurður Þjóðskrár Íslands um fasteignamat eignarinnar frá [...] 2011 staðfestur.
Þegar kæra í þessu máli kom fram var skráð fasteignamatsverð eignarinnar það matsverð sem tekið hafði gildi eftir úrskurð um fasteignamat 2011 sem tilkynntur var kæranda [...] 2011. Það er álit yfirfasteignamatsnefndar, með vísan til orðalags 1. mgr. 31. gr. laga nr. 6/2001, að heimild hagsmunaaðila til þess að krefjast endurskoðunar á fasteignamati sé bundin við skráð matsverð á þeim tíma sem kæra er fram sett en heimildin nái ekki til endurskoðunar á fasteignamati sem þá var fallið úr gildi. Fasteignamatsverð [A] fyrir árin 2008, 2009 og 2010 var ekki lengur skráð matsverð eignarinnar þegar kærandi setti fram kröfu sína um endurskoðun. Samkvæmt þessu verður að vísa kröfu kæranda um endurskoðun á fasteignamati fyrir árin 2008, 2009 og 2010 frá nefndinni. Jafnframt skal tekið fram að samkvæmt 1. mgr. 34. gr. laga nr. 6/2001 er forsenda kæru til yfirfasteignamatsnefndar að fyrir liggi ákvörðun Þjóðskrár Íslands um endurmat. Ekkert liggur fyrir í þessu máli um slíkt endurmat vegna fyrri ára.“

2.
Bréfaskipti

2.1.
Skýringar Þjóðskrár Íslands
Með bréfi, dags. 8. mars 2012, veitti Persónuvernd Þjóðskrá Íslands kost á að koma á framfæri skýringum sínum við kvörtun yðar, til samræmis við ákvæði 13. og 14. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Í svari Þjóðskrár, dags. 22. mars 2012, vísar hún til þess að hlutverk Viðlagatryggingar, samkvæmt lögum nr. 55/1992, sé að vátryggja gegn tjóni af völdum náttúruhamfara. Jarðskjálftar séu þar á meðal. Brunabótamat sé vátryggingafjárhæð viðlagatryggingar og því hafi Þjóðskrá borið að veita Viðlagatryggingu umræddar upplýsingar. Upplýsingarnar hafi byggst á lýsingu á ástandi húss sem fram komi á stöðluðu skoðunareyðublaði. Með bréfi Þjóðskrár fylgdi ljósrit af ódagsettu eyðublaði („Skoðunarblað fyrir fasteignamat íbúðarhúsnæðis“) og afrit úr skoðunarhandbók. Segir Þjóðskrá að lýsingin í tölvubréfinu hafi alfarið verið byggð á þessum gögnum.

2.2.
Skýringar Viðlagatryggingar Íslands
Persónuvernd sendi Viðlagatryggingu Íslands bréf, dags. 30. maí 2012, og gaf henni einnig kost á skýringum. Í svarbréfi, dags. 6. júlí 2012, segir að Viðlagatrygging geti ekki talist óviðkomandi aðili varðandi upplýsingar um forsendur fyrir brunabótamati því vátryggingafjárhæð viðkomandi eignar byggi á matinu. Kröfur yðar um hækkað tjónamat hafi m.a. byggst á breyttu fasteignamati og því hafi Viðlagatrygging talið eðlilegt að leita skýringa hjá Þjóðskrá. Stofnunin hafi ekki getað tekið afstöðu til beiðni yðar nema vita forsendur fyrir lækkun fasteignamats. Upplýsinganna hafi verið aflað í skýrum og málefnalegum tilgangi, þær hafi verið fullnægjandi og ekki umfram það sem þurfti til að svara þeim spurningum sem vöknuðu við afgreiðslu á erindi yðar. Þér hefðuð vísað til þess að ástæður þess að þér óskuðuð endurskoðunar hafi m.a. verið þær að fasteignamat hússins hafi verið lækkað um fleiri milljónir króna vegna sprungna í útveggjum hússins að innanverðu og hafi skýringa verið þörf.

2.3.
Sjónarmið yðar
Með bréfi, dags. 3. apríl 2012, var yður veittur kostur á að koma á framfæri athugasemdum við svarbréf Þjóðskrár Íslands. Í svarbréfi, dags. 20. apríl s.á., segið þér m.a.:

„Samanber það sem kemur fram í svari Þjóðskrár Íslands […] – að þá vil ég benda á að brunabótamat er ekki fasteignamat. Lækkað fasteignamat var það sem Viðlagatrygging vildi fá skýringu á og það er eitthvað sem kemur þeirri stofnun ekkert við. Og enn síður hvernig fasteignin er skráð fyrir fasteignamat. Eins og [nafn starfsm. Þ.Í.] benti sjálfur Viðlagatryggingu Íslands á, þá kom Viðlagatryggingu Íslands það ekki við. Enda benti hann Viðlagatryggingu Íslands á að brunabótamat eignarinnar væri óbreytt og það er það sem Viðlagatryggingu Íslands kemur við.“

Þá teljið þér að lýsing Þjóðskrár Íslands á húsi yðar sé röng. Stofnunin hafi ekki tekið tillit til endurbóta og misræmi sé í skoðunarblöðum hennar, annars vegar frá því í desember 2008 og hins vegar frá því í mars 2011. Þá teljið þér að stofnunin hafi ekki kynnt sér úrskurð Yfirfasteignamatsnefndar um húsið og gerið athugasemd við að Þjóðskrá hafi sérstaklega tiltekið í tölvubréfi sínu til Viðlagatryggingar að ástæður fyrir endurskoðun á fasteignamati hafi engin áhrif gagnvart Viðlagatryggingu eða brunabótamati eignarinnar. Þá efist þér um trúverðugleika skoðunarblaðs Þjóðskrár.

Með bréfi, dags. 16. júlí 2012, kynnti Persónuvernd yður svar Viðlagatryggingar Íslands. Með svari, dags. 26. júlí 2012, ítrekuðuð þér fyrri athugasemdir – sögðuð að þér telduð Þjóðskrá hafa brotið trúnað á yður og að Þjóðskrá hafi sent frá sér rangar upplýsingar til að skaða yðar hagsmuni. Þá hafi andmælaréttur yðar ekki verið virtur áður en ákveðið var að senda upplýsingarnar til Viðlagatryggingar.

2.4.
Svar Þjóðskrár um notkun sömu gagna,
bæði fyrir brunabóta- og fasteignamat
Af tilefni þess sem fram kom í framangreindu bréfi yðar, dags. 20. apríl 2012, um að Viðlagatryggingu hafi verið heimilt að vita forsendur brunabótamats, óskaði Persónuvernd frekari skýringa frá Þjóðskrá. Nánar tiltekið spurði Persónuvernd um hvort Þjóðskrá hafi miðlað efnislega öðrum upplýsingum en þeim sem væru forsendur brunabótamats. Í því bréfi, sem dags. er 17. september 2012, segir m.a.:

„Samkvæmt bréfi Þjóðskrár til Persónuverndar, dags. 22. mars 2012, er með matslýsingu átt við lýsingu á ástandi húss sem fram kemur á skoðunarblaði – í samræmi við skoðunarhandbók.[…] Það er skilningur Persónuverndar á framangreindu [svarbréfi kvartanda, dags. 20. apríl 2012] að [kvartandi] telji Viðlagatryggingu hafa mátt fá þær upplýsingar sem lágu brunabótamati til grundvallar en ekki þær upplýsingar sem lágu fasteignamati til grundvallar. Af því tilefni er þess óskað að fram komi hvort umrædd matslýsing (og þau gögn sem hún byggist á) sé undirstaða brunabótamats.“

Í svarbréfi Þjóðskrár Íslands, dags. 28. september 2012, er staðfest að bæði fasteignamat og brunabótamat grundvallist á sömu lýsingu í fasteignaskrá.

Afrit af framangreindu bréfi Persónuverndar, dags. 17. september 2012, var sent yður og með bréfi, dags. 26. september 2012, áréttuðuð þér sjónarmið yðar. Þar segir m.a. að fasteignamatsvirði eigna sé ekki það sama og brunabótamat, að Þjóðskrár hafi, án yðar vitundar, og án þess að hafa bera það undir yður, sent rangar upplýsingar um eign yðar til Viðlagatryggingar og að hún sé ekki stjórnvald sem taki ákvörðun um fasteignamat.

II.
Ákvörðun

Erindi yðar er efnislega þríþætt. Í fyrsta lagi lýtur það að miðlun upplýsinga um húseign yðar, samkvæmt matslýsingu, frá Þjóðskrá Íslands til Viðlagatryggingar Íslands. Í öðru lagi lýtur það að því að upplýsingar í lýsingunni hafi verið rangar. Í þriðja lagi lýtur það að því að Þjóðskrá hafi ekki gætt andmælaréttar, þ.e. að hún hafi ekki gefið yður kost á andmælum áður en hún tók ákvörðun um að senda upplýsingarnar til Viðlagatryggingar.

1.
Miðlun upplýsinga um forsendur fasteignamats
Að því er varðar fyrsta atriðið, þ.e. miðlun upplýsinga um matslýsingu á húsi yðar, hafið þér lýst því yfir að þér teljið Viðlagatryggingu hafa mátt fá þær upplýsingar sem liggja brunabótamati til grundvallar. Viðlagatryggingu hafi hins vegar ekki komið við þær upplýsingar sem séu forsendur fasteignamats.

Áður en lengra verður haldið er því rétt að skýra þann mun sem er á fasteignamati annars vegar og brunabótamati hins vegar.

1.1.
Í 2. gr. laga nr. 48/1994, sbr. lög nr. 34/1999, um brunatryggingar, eru ákvæði um brunabótamat. Átt er við vátryggingarverðmæti sem nemi fullu verði eignarinnar. Það ræðst af virðingu Þjóðskrár Íslands á þeim tíma þegar virðing fer fram. Matið skal taka til þeirra efnislegu verðmæta húseignarinnar sem eyðilagst geta af eldi og miðast við byggingarkostnað að teknu tilliti til aldurs, slits, viðhalds og ástands eignar að öðru leyti. Matið er skráð í fasteignaskrá þar sem því skal viðhaldið. Í 2. mgr. segir að Þjóðskrá Íslands geti endurmetið skyldutryggðar húseignir sjái hún ástæðu til. Ákvæði 13., 14. og 18. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 gilda ekki við meðferð mála um ákvörðun brunabótamats. Uni húseigandi eða vátryggingafélag ekki mati Þjóðskrár Íslands má vísa ágreiningi til yfirfasteignamatsnefndar.

1.2.
Í 27. gr. laga nr. 6/2001, um skráningu og mat fasteigna, eru ákvæði um fasteignamat. Skal skráð matsverð fasteignar vera gangverð umreiknað til staðgreiðslu, miðað við heimila og mögulega nýtingu á hverjum tíma, sem ætla má að eignin hefði í kaupum og sölum. Sé gangverð fasteignar ekki þekkt skal matsverð ákveðið eftir bestu fáanlegri vitneskju um gangverð sambærilegra fasteigna með hliðsjón af tekjum af þeim, kostnaði við gerð mannvirkja, aldri þeirra, legu eignar með tilliti til samgangna, nýtingarmöguleikum, hlunnindum, jarðvegsgerð, gróðurfari, náttúrufegurð og öðrum þeim atriðum sem kunna að hafa áhrif á gangverð eignarinnar. Samkvæmt 29. gr. er það Þjóðskrá Íslands sem annast mat fasteigna og um endurmat. Í 31. gr.  segir að ákvæði 13., 14. og 18. gr. stjórnsýslulaga gildi ekki við meðferð mála samkvæmt þeirri grein og 30. gr.

1.3.
Samkvæmt framangreindu lýtur brunabótamat að mati á þeim efnislegu verðmætum húseignar sem eyðilagst geta af eldi. Til grundvallar liggja upplýsingar um byggingarkostnað að teknu tilliti til aldurs, slits, viðhalds og ástands eignar að öðru leyti. Þessum upplýsingum teljið þér að Þjóðskrá hafi mátt miðla um eign yðar til Viðlagatryggingar.

Við fasteignamat eru sömu upplýsingar notaðar. Auk þess eru notaðar tilteknar viðbótarupplýsingar. Þær eru um tekjur af eignum, legu með tilliti til samgangna, nýtingarmöguleika, hlunnindi, jarðvegsgerð, gróðurfar, náttúrufegurð og önnur þau atriði sem kunna að hafa áhrif á gangverð eigna. Í framkvæmd er þetta gert með notkun sérstakrar mats- eða reikniformúlu, eins og m.a. er skýrt í úrskurði yfirfasteignamatsnefndar, [...], vegna kröfu yðar um lækkun fasteignamats vegna ársins 2011 og um endurskoðun mats vegna áranna 2008, 2009 og 2010.

Þér teljið að slíkum viðbótarupplýsingum hafi Þjóðskrá ekki mátt miðla til Viðlagatryggingar. Hins vegar liggur ekkert fyrir í máli þessu um að það hafi verið gert. Með vísan til þess þykja ekki vera efni til frekari umfjöllunar um þetta atriði nema fram komi nýjar upplýsingar.

2.
Um rangar upplýsingar í matslýsingu og virðisákvörðun
Í öðru lagi teljið þér að þær upplýsingar í matslýsingu, sem vísað er til í tölvubréfi Þjóðskrár Íslands til Viðlagatryggingar Íslands, dags. 13. október 2011, séu rangar.

Í 25. gr. laga nr. 77/2000 segir að ef skráðar hafi verið persónuupplýsingar sem séu rangar, villandi eða ófullkomnar, eða hafi persónuupplýsingar verið skráðar án tilskilinnar heimildar, skuli ábyrgðaraðili sjá til þess að upplýsingarnar verði leiðréttar, þeim eytt eða við þær aukið ef umræddur annmarki getur haft áhrif á hagsmuni hins skráða. Hafi slíkum upplýsingum verið miðlað eða þær notaðar ber ábyrgðaraðila, eftir því sem honum er frekast unnt, að hindra að það hafi áhrif á hagsmuni hins skráða.
Við skoðun húseignar er ástand hennar og gæði metið. Lýsing á henni síðan færð í fasteignaskrá. Þjóðskrá Íslands er ábyrgðaraðili fasteignaskrár. Hún metur ástand eigna og virði. Þá er það hlutverk yfirfasteignamatsnefndar að annast yfirmat fasteigna fyrir landið allt, sbr. 34. gr. laga um skráningu og mat fasteigna nr. 6/2001. Úrskurður yfirfasteignamatsnefndar er fullnaðarúrskurður.

Eftir umfjöllun um mál þetta er það mat Persónuverndar að það falli ekki innan hennar verksviðs að staðreyna matslýsingu eða endurskoða ákvarðanir um virði húseignar yðar. Verður því heldur ekki fjallað um þann þátt erindis yðar.

3.
Kvörtun yfir broti gegn andmælaréttarreglu
Í þriðja lagi teljið þér að Þjóðskrá Íslands hafi ekki gætt andmælaréttar áður en hún tók þá ákvörðun að senda Viðlagatryggingu umræddar upplýsingar. Af því tilefni bendir Persónuvernd á að hún hefur eftirlit með ákvæðum laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Þau lög hafa ekki að geyma andmælareglu, sambærilega við þá sem t.d. er í 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Það heyrir ekki undir hennar verksvið að skera úr því hvort farið hafi verið að ákvæðum um andmælarétt aðila máls. Eftirlit með stjórnsýslulögum hefur Umboðsmaður Alþingis, sbr. lög nr. 85/1997. Með vísun til framangreinds verður þannig ekki heldur fjallað um þann þátt kvörtunar yðar er lýtur að broti á slíkum andmælarétti.

N i ð u r s t a ð a

Mál þetta verður fellt niður.



Var efnið hjálplegt? Nei