Úrlausnir

Merkt umslög skattrannsóknarstjóra - mál nr. 2012/318

21.9.2012

Persónuvernd hefur lokið máli manns sem kvartaði yfir því að skattrannsóknarstjóri hefði notað merkt umslög við útsendingu bréfa sinna. Persónuvernd taldi ekki sýnt að í umræddu tilviki hefði persónuupplýsingum verið miðlað til óviðkomandi og var málið fellt niður. 

Mál nr. 2012/318
Niðurfelling máls


1.

Með bréfi dags. 24. febrúar 2012 gerðuð þér athugasemdir við að skattrannsóknarstjóri noti merkt umslög við útsendingu bréfa. Þar segir m.a.:

„Athugasemdir mínar lúta að því að öll bréf/skýrslur sem mér hafa borist frá embætti skattrannsóknarstjóra á tímabilinu hafa verið send í umslögum kyrfilega merkt embættinu að utan að mestu leyti í almennum pósti. Ég tel að með þessum merkingum sé verið að brjóta á mér og öðrum sem kunna að sæta rannsókn hjá embættinu, þar sem að starfsemin er þess eðlis að það sé nógu íþyngjandi að sæta rannsókn þó ekki sé verið að auglýsa það rækilega með merktum gögnum og þar með hugsanlega brjóta þagnarskyldu embættisins. Þetta er ennþá verra að vera fyrir þegar svo kemur í ljós að rannsóknin var tilhæfulaus. [...].“

Með bréfi, 27. apríl 2012 , gaf Persónuvernd skattrannsóknarstjóra kost á að tjá sig um málið. Hann gerði það með bréfi, dags. 9. maí 2012. Þar segir m.a.:

„[...] Alkunna er að opinberar stofnanir auðkenni bréfsefni sín, þ. á m. umslög. Hefur það lengi tíðkast og litið svo á, að það sé eðlilegur þáttur í rækslu starfseminnar. Á það sama við um bréfsefni skattrannsóknarstjóra ríkisins.

Tilgangurinn með auðkenningu umslaganna er að auðvelda endursendingu þeirra, ef þeim er ekki veitt móttaka á ætluðum móttökustað. Til að tryggja enn frekar að móttakandi fái umslagið með bréfi eða skýrslu í, getur umslag verið sent með ábyrgðarbréfi, þó að það sé ekki skylt samkvæmt skattalögum og reglugerðum nema í undantekningartilvikum.

Þagnarskylduákvæði laga er tekur til starfsemi skattrannsóknarstjóra ríkisins og starfsmanna hans er einkum í 117. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Verður ekki séð að ofangreindur háttur við merkingar bréfsefnis brjóti á nokkurn hátt gegn því ákvæði. Í þessu sambandi er jafnframt ástæða til að vísa til ákvæða um póstleynd í XV. kafla lafa nr. 19/2002, um póstþjónustu, þar sem þagnarskylda starfsmanna póstþjónustunnar er áréttuð.“

Með bréfi, dags. 16. maí 2012, var yður gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum en engin svör bárust.

2.

Lög nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, gilda um sérhverja rafræna vinnslu persónuupplýsinga, sem og um handvirka vinnslu persónuupplýsinga sem eru eða eiga að verða hluti af skrá, sbr. 1. mgr. 3. gr. laganna. Af því má ráða að gildissvið laganna er rúmt. Það tekur m.a. mið af skýringu á hugtakinu „persónuupplýsingar“ - en með því er átt við sérhverjar persónugreindar eða persónugreinanlegar upplýsingar um hinn skráða, sbr. 1. tölul. 2. gr. laga nr. 77/2000. Við frumvarpsathugasemdum við þá grein segir m.a. þetta:

„Hugtakið persónuupplýsingar er víðfeðmt og tekur til allra upplýsinga, álita og umsagna sem beint eða óbeint má tengja tilteknum einstaklingi, þ.e. upplýsingar sem eru persónugreindar eða persónugreinanlegar. Hugtakið ber að skilja með hliðsjón af ákvæði 1. gr., en í því felst að upp geta komið tilvik þar sem unnið er með upplýsingar sem eru, samkvæmt orðanna hljóðan, persónuupplýsingar en þó ekki þess eðlis að standa þurfi um þær vörð á grundvelli sjónarmiða um persónuvernd og friðhelgi einkalífs.“ (Sjá Alþt. 1999-2000, A-deild, bls. 2713-2714.)

Þannig þarf við túlkun og beitingu laganna að taka mið af markmiði þeirra, eins og það er afmarkað í 1. gr. þeirra. Þar segir að það sé að stuðla að því að með persónuupplýsingar sé farið í samræmi við grundvallarsjónarmið og reglur um persónuvernd og friðhelgi einkalífs og að tryggja áreiðanleika og gæði slíkra upplýsinga.

Með vísun til framangreinds, og með vísun til þeirra skýringa sem fram koma í bréfi skattrannsóknarstjóra, dags. 9. maí 2012, og þess að ekki liggur fyrir að hann hafi miðlað til þriðja aðila upplýsingum um einkamálefni yðar, þykja ekki vera, að svo stöddu, efni til að aðhafast frekar í málinu.


Var efnið hjálplegt? Nei