Úrlausnir

Undanþága frá því að virða bannmerkingu í Þjóðskrá

28.12.2011

Persónuvernd barst umsókn styrktarfélags um undanþágu frá því að virða bannmerkingar í Þjóðskrá við áritun og útsendingu happdrættismiða. Persónuvernd ákvað að synja umsókninni þar sem ekki væri um að ræða sérstakt tilvik í skilningi 2. mgr. 28. gr. laga nr. 77/2000.

Ákvörðun


Hinn 22. nóvember 2011 tók stjórn Persónuverndar eftirfarandi ákvörðun í máli nr. 2010/874:

I.
Upphaf máls og atvik þess


Fyrir liggur ósk Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra, dags. 5. október 2010, um undanþágu í samræmi við 28. gr. laga nr. 77/2000, þ.e. frá skyldunni til að virða andmæli manna gegn vinnslu persónuupplýsinga um sig í markaðssetningarstarfsemi.
Upphaflega var þess óskað að mega, við áritun símahappdrættismiða, nota öll nöfn í símaskrá án þess að sleppa þeim sem hefðu fengið x-merki. Í bréfinu segir meðal annars:
„Verði ekki heimilt að nota símanúmer sem eru með bannmerki í símaskránni við vinnslu happdrættisins er ljóst að fjöldi velunnara félagsins fá ekki sendan miða og um umtalsverðan tekjusamdrátt verði að ræða hjá félaginu. Á sama tíma eru aðrir aðilar með svipað happdrætti svo sem ..[...] Ég reikna með því að við vinnslu og útsendingu þeirra happdrættismiða þá séu þeir samkeyrðir við bannmerkingu í Þjóðskrá. Með því að bæta við þeim sem eru bannmerktir í símaskránni er gengið enn lengra í tilfelli Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra en aðila með sambærilegar fjáraflanir. [...] Í ljósi mikilvægis þessarar tekjuöflunar fyrir félagið og að okkar mati óverulegs áreitis fyrir friðhelgi einkalífs einstaklings förum við þess á leit að heimilt verði að nota skrá sem bannmerkt eru hjá fyrirtækinu Já ehf.“
Hinn 5. nóvember 2010 var farið yfir málið og það rætt í símtali við forsvarsmann félagsins. Meðal annars var skýrt að lög nr. 77/2000 gera ekki ráð fyrir því að Persónuvernd veiti undanþágur frá skyldunni til að virða slík andmæli þegar félaga-, starfsmanna- eða viðskiptamannaskrár eru afhentar til nota í tengslum við markaðssetningarstarfsemi. Þær falli undir 5. mgr. 28. gr. laganna og hafi símaskrá Já ehf. verið talin til þeirra. Hins vegar var tekið fram að Persónuvernd getur, í sérstökum tilvikum, heimilað undanþágu frá þeirri skyldu sem að hvílir á ábyrgðaraðilum samkvæmt 2. mgr. 28. gr. Þar segir að þeir sem starfi í beinni markaðssókn, og þeir sem nota skrá með nöfnum, heimilisföngum, netföngum, símanúmerum og þess háttar, eða miðla þeim til þriðja aðila í tengslum við markaðssetningarstarfsemi, skuli, áður en skrá sé notuð í slíkum tilgangi, bera hana saman við skrá Þjóðskrár Íslands til að koma í veg fyrir að markpóstur verði sendur eða hringt verði til einstaklinga sem hafa andmælt slíku.

Af hálfu félagsins var talið að fyrir lægi ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar um að bannmerki í símaskrá ættu ekki við um félagið. Hinn 8. nóvember 2010 barst Persónuvernd tölvupóstur frá félaginu og fylgdi með því afrit af bréfi Póst- og fjarskiptastofnunar til félagsins, dags. 8. nóvember 2010. Þar segir:

„Þetta álitaefni kom til kasta PFS í tilefni af kvörtun á hendur félaginu í lok síðasta árs. Eftir skoðun á málinu var það niðurstaða PFS að bannmerki í símaskrá, skv. 5. mgr. 46. gr. laga um fjarskipti nr. 81/2003, ættu ekki við um útsendingu bréfpósts, enda tekur ákvæðið til þess þegar tal- og farsímaþjónusta er notuð í markaðssetningarstarfsemi, sbr. meðfylgjandi bréf til kvartanda þess efnis. Hins vegar var það mat PFS að kvörtunin gæti, eftir atvikum, fallið undir 28. gr. laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Var kvörtunin því framsend til Persónuverndar. PFS hefur engu við framangreinda afstöðu að bæta og vísar til ítarlegs rökstuðnings sem sendur var í tengslum við kvörtunarmálið á sínum tíma.“

Eftir frekari bréfaskipti barst Persónuvernd bréf félagsins, dags. 10. október 2011. Þar sem segir meðal annars eftirfarandi:

„Í framhaldi af svari þínu við erindi frá 5. október 2010 vil ég staðfesta að ég óskaði eftir undanþágu frá bannmerkingu Þjóðskrá.
Málið var rætt símleiðis við forsvarsmann félagsins hinn 11. október 2011. Var þá staðfest að félagið óskar eftir undanþágu frá því að virða bannmerkingar í Þjóðskrá við áritun og útsendingu happdrættismiða félagsins. Þá var staðfest að aðeins yrðu nýttar skrár frá Þjóðskrá Íslands, horfið hefði verið frá því að nota símaskrá Já ehf. Um rök fyrir óskinni var vísað til bréfs félagsins til Persónuverndar dags. 5. október 2010.“

II.
Ákvörðun Persónuverndar


1.
Í 28. gr. laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga er að finna ákvæði sem mælir fyrir um andmælarétt manna gegn því að nöfn þeirra og persónuupplýsingar séu notaðar við markaðssetningarstarfsemi. Hugtakið markaðssetning hefur verið túlkað rúmt og þannig að það taki ekki aðeins til kynninga á vöru eða þjónustu sem í boði er gegn gjaldi heldur einnig annars áróðurs-, auglýsinga- og kynningarstarfs þar sem reynir á sömu sjónarmið, þ. á m. fjáröflunar góðgerðarfélaga. Um það er m.a. fjallað í úrskurði Persónuverndar, dags. 12. mars 2010, af tilefni kvörtunar manns sem fékk heimsenda happdrættismiða frá Styrktarfélagi lamaðra og fatlaðra vegna símanúmerahappdrættis, þrátt fyrir að vera með svonefnt x-merki í símaskrá.

2.
Í 2. mgr. 28. gr. segir meðal annars að þeir sem noti skrá með nöfnum, heimilisföngum, netföngum, símanúmerum og þess háttar, eða miðli þeim til þriðja aðila í tengslum við slíka starfsemi, skuli, áður en skrá er notuð í slíkum tilgangi, bera hana saman við bannskrá Þjóðskrár til að koma í veg fyrir að markpóstur verði sendur eða hringt verði til einstaklinga sem hafi andmælt slíku. Í niðurlagi 2. mgr. segir að Persónuvernd geti heimilað undanþágu frá þessari skyldu í sérstökum tilvikum.
Í því frumvarpi sem var lagt fram á 125. löggjafarþingi (1999–2000), og varð að lögum nr. 77/2000, var ekki miðað við að undanþáguheimildin yrði takmörkuð við sérstök tilvik. Í frumvarpinu var lagt til að 1. mgr. 28. gr. myndi hljóða svo:
Hagstofa Íslands skal halda skrá yfir þá sem vilja ekki að nöfn þeirra séu notuð í markaðssetningarstarfsemi. Ábyrgðaraðilar sem starfa í beinni markaðssókn og þeir sem nota skrá með nöfnum, heimilisföngum o.þ.h. eða miðla þeim til þriðja aðila í tengslum við slíka starfsemi skulu, áður en slík skrá er í fyrsta sinn notuð í slíkum tilgangi og síðan a.m.k. tvisvar á ári, bera skrána saman við skrá Hagstofunnar til að koma í veg fyrir að markpóstur verði sendur eða hringt verði til einstaklinga sem eru því mótfallnir. Persónuvernd getur heimilað undanþágu frá þessari skyldu.

Í athugasemdum þeim sem fylgdu frumvarpinu segir m.a.:
Ákvæðið veitir Persónuvernd svigrúm til að undanþiggja ákveðna hópa frá skyldunni til að uppfæra útsendingarskrár sínar til samræmis við skrá Hagstofu Íslands. Til dæmis gæti verið raunhæft að undanþiggja frá þessari skyldu ýmiss konar hugsjónasamtök, stjórnmálahópa eða félög sem markaðssetja beint í mjög smáum stíl. Sama getur átt við um ýmiss konar styrktarfélög sem selja happdrættismiða eða annað efni til að styrkja ýmis málefni.

Ákvæðinu var breytt í meðförum þingsins og áskilnaður gerður um sérstök tilvik. Í nefndaráliti er að finna svohljóðandi skýringu:
Samkvæmt lokamálslið 1. mgr. getur Persónuvernd veitt undanþágu frá þessari skyldu og lítur nefndin svo á að í undanþágunni felist að stofnunin geti veitt undanþágu frá skyldunni til að bera skrána saman við skrá Hagstofunnar og undanþágu frá því að uppfæra skrána mánaðarlega. Aðilar sem nota skrárnar sjaldan, t.d. einu sinni eða tvisvar á ári, gætu þannig fengið undanþágu þannig að skráin yrði uppfærð áður en hún yrði notuð. Nefndin vill leggja áherslu á að undanþágum frá skyldunni til að bera skrána saman við skrá Hagstofunnar verði stillt í hóf svo að óskir einstaklinga um að verða teknir af skrá fyrir markpóst og marksímtöl séu virtar. 

3.
Með vísan til framangreinds vilja löggjafans, og þess að Persónuvernd telur ekki vera um að ræða sérstakt tilvik í skilningi ákvæðisins, verður ekki fallist á ósk Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra um undanþágu í samræmi við 2. mgr. 28. gr. laga nr. 77/2000.

Á k v ö r ð u n a r o r ð:

Synjað er ósk Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra um undanþágu frá því að virða bannmerkingar í Þjóðskrá við áritun og útsendingu happdrættismiða.
Var efnið hjálplegt? Nei