Úrlausnir

Birting upplýsinga um áhafnir á erlendri heimasíðu

30.11.2011

Efni: Netbirting upplýsinga úr AIS-kerfinu


I.
Erindi

Persónuvernd vísar til fyrri bréfaskipta af tilefni erindis yðar f.h. Ugga fiskverkunar ehf., dags. 9. maí 2011. Það varðar birtingu upplýsinga úr svokölluðu AIS-kerfi, en það er kerfi sem notað er til að tilkynna um staðsetningu skipa til Siglingastofnunar í þágu öryggis sæfarenda.

Nánar tiltekið lýtur erindi yðar að því að upplýsingar um staðsetningu skipa Ugga fiskverkunar séu birtar á Netinu þannig að hver sem er geti nálgast þær. Um sé að ræða persónuupplýsingar, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, þar sem auðveldlega megi nálgast upplýsingar um áhafnir skipa, en samkvæmt lögum nr. 35/2010 um lögskráningu sjómanna, beri að skrá í þar til gerðan gagnagrunn hver sé um borð í skipi hverju sinni (sbr. 1. tölul. 3. gr. og 4. gr. laganna).

II.
Ákvörðun Persónuverndar

1.
Í ákvörðun framkvæmdastjórnar EB frá 25. janúar 2005 nr. 2005/53/EB, er mælt fyrir um að notast skuli við AIS-kerfið. Ákvörðunin er tekin með stoð í e-lið 3. mgr. 3. gr. tilskipunar nr. 1999/5/EB. Bæði ákvörðunin og tilskipunin hafa verið teknar upp í EES-samninginn, sbr. ákvarðanir Sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 137/2001 og 101/2005. Mælt er fyrir um AIS-tilkynningakerfi í reglugerð nr. 672/2006 um vaktstöð siglinga og eftirlit með umferð skipa, settri með stoð í m.a. 4. mgr. 1. gr. laga nr. 47/2003 um eftirlit með skipum. Nánar tiltekið er ákvæði um kerfið í 27. gr. reglugerðarinnar, sbr. breytingar á þeirri málsgrein, gerðar með reglugerð nr. 565/2009.

Sú upplýsingabirting sem erindi yðar varðar fer fram á vefsíðunni marinetraffic.com. Þar má sjá upplýsingar um staðsetningu skipa á hafsvæðum sem AIS-kerfið nær til. Kemur fram að grískur aðili, þ.e. Háskóli Eyjahafsins, vistar síðuna og hefur komið sér upp búnaði til að nema sendingar úr AIS-kerfinu. Persónuvernd hefur fengið það svar frá Siglingastofnun, sbr. bréf hennar til Persónuverndar, dags. 27. maí 2011, að hún hafi ekki haft atbeina að birtingu umræddra upplýsinga á þessari grísku vefsíðu.

2.
Persónuvernd hefur eftirlit með framkvæmd laga nr. 77/2000 um vinnslu persónuupplýsinga á vegum ábyrgðaraðila sem hefur staðfestu hér á landi, sbr. 1. mgr. 6. gr. laganna.  Þá úrskurðar hún í málum um vinnslu sem fram fer hér á landi, sbr. 2. mgr. 37. gr. laganna.

Framangreind ákvæði taka mið af reglum tilskipunar 95/46/EB. Í a-lið 1. mgr. 4. gr. og 2. mgr. 28. gr. tilskipunarinnar er fjallað um skil milli gildissviðs laga um meðferð persónuupplýsinga í einstökum ríkjum sem fara skulu að tilskipuninni, sem og stjórnvald hvaða ríkis úrskurði um mál í einstökum tilvikum. Af þessum ákvæðum leiðir að lög tiltekins ríkis gilda þegar um ræðir vinnslu persónuupplýsinga á vegum aðila sem hefur staðfestu í því ríki, þ.e. hefur við það einhver föst tengsl, s.s. í formi varanlegrar starfsstöðvar. Þá kemur fram að stjórnvöld í einstökum ríkjum leysa úr ágreiningi um vinnslu persónuupplýsinga sem fram fer á yfirráðasvæði þeirra. Grikkland er meðal þeirra ríkja sem fer að tilskipun 95/46/EB.

Ekki er vitað hvort aðilar hér á landi safna upplýsingunum og koma þeim til hins gríska aðila eða hverjir þeir þá eru. Mun Persónuvernd ekki grípa inn í málið að því leyti en bendir, með vísun til 1. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, á að Póst- og fjarskiptastofnun hefur umsjón með fjarskiptum innan lögsögu íslenska ríkisins og hefur eftirlit með framkvæmd laga um fjarskipti nr. 81/2003.

Erindi yðar varðar þá birtingu sem fram fer á vefsíðunni marinetraffic.com. Ekki liggur fyrir að Háskóli Eyjahafsins hafi staðfestu á Íslandi. Aftur á móti er ljóst að hann hefur staðfestu í Grikklandi og ví gildir grísk persónuupplýsingalöggjöf um starfsemi hans. Þar sem umræddar upplýsingar eru þannig birtar af hálfu aðila í Grikklandi telst birtingin fara fram þar. Það fellur því undir hið gríska stjórnvald á sviði persónuupplýsingaverndar að taka afstöðu til álitaefna í tengslum við birtinguna. Nánar tiltekið er það stofnunin „Hellenic Data Protection Authority“ eins og hún heitir á ensku. Nánari upplýsingar um hana er að finna á vefsíðu hennar, dpa.gr.

Persónuvernd mun vekja athygli hinnar grísku stofnunar á málinu.


Var efnið hjálplegt? Nei