Úrlausnir

Heimasíðan www.dopsalar.tk - mál nr. 2004/529

29.10.2004

Athygli Persónuverndar var vakin á því að opnuð hefði verið heimasíða undir slóðinni www.dopsalar.tk þar sem birtar væru upplýsingar um nöfn ríflega 20 meintra fíkniefnasala og að auki nöfn tveggja lögreglumanna. Auk þess bárust Persónuvernd kvartanir frá nokkrum aðilum yfir því að viðkvæmar og jafnframt óáreiðanlegar upplýsingar um þá birtust á umræddri síðu. Athugun á umræddri heimasíðu leiddi í ljós að hún hafði að geyma lista með nöfnum rúmlega tuttugu aðila sem ýmist eru nefndir fullu nafni eða með viðurnefni. Þá voru í sumum tilvikum birt heimilisföng viðkomandi.

Persónuvernd lagði fyrir þann aðila sem hélt heimasíðunni úti að stöðva birtingu nafna meintra fíkniefnasala á heimasíðunni.

Ákvörðun
Hinn 29. október 2004 tók Persónuvernd svofellda ákvörðun í máli nr. 2004/529:

I.
Grundvöllur máls
1.
Málavextir

Þann 9. október 2004 var athygli Persónuverndar vakin á því að opnuð hefði verið heimasíða undir slóðinni www.dopsalar.tk þar sem birtar væru upplýsingar um nöfn ríflega 20 meintra fíkniefnasala og að auki nöfn tveggja lögreglumanna. Í framhaldinu fékk heimasíðan nokkra umfjöllun í fjölmiðlum. Auk þess bárust Persónuvernd kvartanir frá nokkrum aðilum yfir því að viðkvæmar og jafnframt óáreiðanlegar upplýsingar um þá birtust á umræddri síðu. Athugun á umræddri heimasíðu leiddi í ljós að hún hefur að geyma lista með nöfnum rúmlega tuttugu aðila sem ýmist eru nefndir fullu nafni eða með viðurnefni. Þá eru í sumum tilvikum birt heimilisföng viðkomandi.

Á heimasíðunni kemur fram að sá sem heldur henni úti heitir [A]. Í færslu sem dagsett er 9. október 2004 rekur hann tilgang þess að birta þar lista með nöfnum meintra fíkniefnasala. Um það segir hann m.a. (orðrétt tilvitnun):

"Árin 99/2000 lét [R] (kallaður […])Bjó að [S] en var með aðsetur í skúr á horni [T] og [Þ] ræna syni mínum og var honum stungið í skottið á bílnum sem þeir voru á og sem betur fér gleymdu þeir að taka af honum símann sem hann var með og gat hann hringt í mig úr honum og sagt hvað var í gangi
Farið var með hann fyrst upp á vatnsenda en umferð var of mikil þannig að þeir enduðu heima hjá [R]. Ég lét lögreglu vita strax af þessu en samt vorum ég og annar sonur minn á undan þeim. Út frá þessu vorum við með þetta lið á eftir okkur og Mín leið til að tryggja öryggi okkar var að leita uppl.um einn af þessum mönnum og notaði það gegn honum til að fá uppl. Og svo koll af kolli. Til dæmis vorum við látin vita þegar átti að ráðast inn á heimili með haglabyssu og fengum við lögreglufylgd með börnin í skjól. Sá fyrsti gaf mér eins litlar uppl. og hann þorði en mér tókst að nýta mér það og helt áfram þar til að ég var kominn með góðan lista og helt áfram að hringja þar sem eg vildi losna við þennan líð af bakinu á mér og skyldmennum en við vorum með ÍSLENSKU MAFÍUNA á hælum okkar í hálft ár ég hringdi þar á meðal í [V]bræður og fl. og gaf þeim kost á að kalla líðinn til baka ellegar myndi eg senda listan til blaða, lögreglu og sjónvarpstöðva og þar sem eg vissi að væri þá ekki hægt að kæfa málið vegna þeirra sem eru á listanum. Það var eins og við manninn mælt að þegar ég nefndi nokkra af upplínum frá þeim voru þeir fljótir að kalla liðið til baka og er þessi listi nú líftrygging fyrir fjölskylduna. Ég hef passað mig á að halda þessum samböndum og hef bætt á þennan lista reglulega".

Áður, þ.e. þann 27. september 2004, hafði birst viðtal við [A] í DV. Í viðtalinu segist hann skora á menn að skila verðmætum sem stolið hafi verið frá honum í nýlegu innbroti. Kemur fram að hann sakni fartölvu, tveggja gsm-síma, hleðslutækis fyrir síma, tölvuforrita og DVD-útgáfa kvikmyndanna Spiderman og Ace Ventura. Haft er eftir [A] að verði þessum verðmætum ekki skilað muni hann birta ofangreindan lista. Á heimasíðu [A] kemur fram að hann hafi síðan verið í sambandi við "þessa menn" og þeir óskað eftir fresti til að finna það sem stolið var í innbrotinu eða þá sem það gerðu "og láta þá borga að fullu fyrir það, Það voru ekki fagrar lýsingar hjá þeim hvað verður gert við þá þegar þeir finnast, því að þessi menn vilja ekki láta nöfnin koma fram."

Þann 12. október 2004 birti [A] síðan umræddan lista á heimasíðu sinni.

2.
Bréfaskipti

Persónuvernd sendi bréf til embættis Lögreglustjórans í Reykjavík, dags. 14. október 2004, og óskaði upplýsinga um það hvort embættið hefði málið til umfjöllunar eða hygðist aðhafast vegna þess, t.d. með því að loka umræddri heimasíðu, á meðan lögmæti hennar væri kannað. Í svarbréfi lögreglustjórans í Reykjavík, dags. 19. október s.á. segir m.a.:

"Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur þetta mál ekki til umfjöllunar, enda getur sá einn höfðað mál sem misgert er við út af þeim brotum sem hér kunna að eiga við, sbr. 3. tl. 242. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Hins vegar hefur lögreglumaður við embættið lagt fram kæru á hendur forsvarsmanni heimasíðunnar, [A], fyrir meint brot hans á 235. gr. alm. hegningarlaga, en nafn þessa lögreglumanns kemur fyrir á heimasíðunni og þar látið í veðri vaka að hann gæti hagsmuna meintra dópsala með því að láta þeim í té upplýsingar. Kæra lögreglumannsins er borin fram á grundvelli b. liðar 2. tl. 242. gr. alm. hegningarlaga.

Það er álit lögreglustjórans í Reykjavík að embættið hafi ekki ótvíræða heimild til afskipta af umræddri heimasíðu og geti því ekki að eigin frumkvæði lokað henni á meðan lögmæti hennar er kannað. Sé það hins vegar skoðun Persónuverndar að á umræddri heimasíðu fari fram vinnsla persónuupplýsinga sem brjóti í bága við ákvæði laga nr. 77/2000 eða reglur settar samkvæmt þeim, getur Persónuvernd falið lögreglustjóra að stöðva starfsemi viðkomandi til bráðabirgða og innsigla starfsstöð hans, sbr. 2. tl. 3. mgr. 37. gr. og 2. mgr. 40. gr. laga nr. 77/2000."

Þann 15. október 2004 sendi Persónuvernd [A] bréf. Bréfið var sent í ábyrgð og liggur móttökukvittun fyrir. Í bréfinu var óskað tiltekinna upplýsinga og [A] boðið að tjá sig, m.a. um fram komnar kvartanir vegna heimasíðunnar. Var óskað skýringa um það hvaða heimild, af þeim sem taldar eru upp í 8. og 9. gr. laga nr. 77/2000, [A] teldi eiga við um birtingu nafnalistans á heimasíðunni. Þá var vakin athygli á valdheimildum Persónuverndar, m.a. til að stöðva ólögmæta vinnslu. Veittur var fimm daga svarfrestur en ekkert svar barst. Því ítrekaði Persónuvernd erindið með bréfi dags. 25. október 2004 og var veittur tveggja daga svarfrestur. Bréfið var sent með stefnuvotti og liggur vottorð hans fyrir.

[A] hafði samband símleiðis þann 27. október 2004 og ræddi við starfsmann Persónuverndar vegna málsins. Í því samtali kom fram að [A] taldi sig hafa heimild til vinnslunnar þar sem hún væri nauðsynleg í þágu almannahagsmuna. Ekkert kom hins vegar fram í máli [A] um það hvaða skilyrði 1. mgr. 9. gr. laganna kynni að eiga við. Að auki vísaði [A] í tjáningarfrelsi sitt. Þegar [A] var inntur eftir afstöðu hans varðandi gæði vinnslunnar kom fram í máli hans að betur hefði verið hægt að standa að gerð listans og að hann væri að nokkru ófullkominn. [A] kom þá á framfæri frekari skýringum varðandi tilgang listans og sagði að tilgangurinn hefði, auk þess að vera tilraun til að endurheimta stolin verðmæti, að miklu leyti verið sá að koma af stað umræðu um fíkniefnavandann. Að lokum var [A] hvattur til að senda Persónuvernd bréf og skýra mál sitt því ella yrði leyst úr málinu á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

Þann 28. október 2004 barst síðan tölvupóstur frá [A] þar sem segir m.a. (orðrétt tilvitnun):

"Í fyrsta lagi sæki ég heimild í málfrelsið og í öðru lagi sæki ég heimild í lög nr.77/2000 23. mai. Lög um persónuvernd. Í 8gr. 5lið stendur. vinnslan sé nauðsynleg vegna verks sem unnið er í þágu almannahagsmuna; og tel ég að þar sem ég er að berjast á móti fíkniefnadreyfingu til allt niður í 11-12 ára krakka tel ég það varða almannahagsmuni og þar af leiðandi uppfylli ég það skilyrði 5 lið 8. gr. Laga nr.77/2000.
Víst eru þetta viðkvæmar uppl. Viðurkenni ég það en þar sem um þetta alvarleg mál er að ræða vil ég ekki trúa tví að fíkniefnasalar séu rétthærri en þeir sem eru að koma út í opin dauðan. Þó smátt og smátt.
Eins og umræðan hefur verið í fjölmiðlum þar sem er sagt frá þeim voðaverkum sem þessir menn eru að framkvæma og öllum hrillir við óska ég eftir því að þessar uppl mínar verði til þess að þið hjá persónuvernd verðið ekki til þess að stoppa af að hægt verði að birta nöfn á þessum misindismönnum þar sem þeir hafa mörg líf á samviskuni með því að koma þeim á bragðið í fíkniefnunum.
Vil ég óska eftir því að þið starfmenn persónuverndar setjið ykkur í spor okkar sem höfum misst krakka í fíkniefni og hjálpið okkur að spyrna við fótum."

II.
Forsendur og niðurstaða
1.

Af gögnum málsins er ljóst að [A] hefur í undirbúningi að stofna samtök gegn eiturlyfjum og ofbeldi þeim tengdum. Í fjölmiðlum hefur hann lýst frá sínu sjónarhorni því þjóðfélagslega böli sem sala og neysla fíkniefna er hér á landi svo og því ofbeldi sem tengt er sölu og innheimtu fíkniefnaskulda. Hann hefur ennfremur látið í ljósi gagnrýni og efasemdir um að viðbrögð lögreglu séu fullnægjandi þegar hótanir um líkamsmeiðingar séu hafðar uppi við innheimtu fíkniefnaskulda. Hefur hann í því sambandi bent á að því sé jafnvel haldið fram að ekkert hafi upp á sig að kæra slík brot. Af hálfu [A] er á það bent að þessi umfjöllun sé honum heimil samkvæmt 73. gr. stjórnarskrárinnar sem tryggi mönnum tjáningarfrelsi. Af hálfu Persónuverndar eru engar athugasemdir gerðar við þá afstöðu hans um að hann hefur fullt frelsi til að tjá sig um það þjóðfélagslega böl sem hann vísar til. Í máli þessu er hins vegar einvörðungu til umfjöllunar hvort honum hafi verið heimilt að lögum að birta á heimasíðu undir slóðinni www.dopsalar.tk upplýsingar um nöfn ríflega 20 meintra fíkniefnasala.


2.
Markmið og gildissvið laga nr. 77/2000

Markmið laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, með áorðnum breytingum, er m.a. að stuðla að því að með pesónuupplýsingar sé farið í samræmi við grundvallarsjónarmið og reglur um persónuvernd og friðhelgi einkalífs og að tryggja áreiðanleika og gæði slíkra upplýsinga, skv. 1. gr. laganna.

Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga gilda lögin um sérhverja rafræna vinnslu persónuupplýsinga og einnig um handvirka vinnslu persónuupplýsinga sem eru eða eiga að verða hluti af skrá. Með hugtakinu persónuupplýsingar er átt við "sérhverjar persónugreindar eða persónugreinanlegar upplýsingar um hinn skráða, þ.e. upplýsingar sem beint eða óbeint má rekja til tiltekins einstaklings, látins eða lifandi," sbr. 1. tölul. 2. gr. laganna. Þá merkir hugtakið vinnsla "sérhver[ja] aðgerð eða röð aðgerða þar sem unnið er með persónuupplýsingar, hvort heldur sem vinnslan er handvirk eða rafræn". Með vinnslu er þannig t.d. átt við söfnun, skráningu, miðlun með framsendingu, dreifingu eða aðrar aðferðir til að gera upplýsingar tiltækar. Því er ljóst að birting nafna á umræddri vefsíðu telst vera vinnsla persónuupplýsinga í skilningi laga nr. 77/2000.

Í 5. gr. laga nr. 77/2000 er að finna ákvæði sem takmarkar að nokkru gildissvið laganna þegar unnið er með persónuupplýsingar í þágu fjölmiðlunar, lista eða bókmennta. Ákvæðið fjallar um tengsl laganna við tjáningarfrelsi og hljóðar svo:

"Að því marki sem það er nauðsynlegt til að samræma sjónarmið um rétt til einkalífs annars vegar og tjáningarfrelsis hins vegar má víkja frá ákvæðum laganna í þágu fjölmiðlunar, lista eða bókmennta. Þegar persónuupplýsingar eru einvörðungu unnar í þágu fréttamennsku eða bókmenntalegrar eða listrænnar starfsemi gilda aðeins ákvæði 4. gr., 1. og 4. tl. 7. gr., 11.-13. gr. og 24., 28.,42. og 43. gr. laganna."

Í athugasemdum greinargerðar með frumvarpi sem síðar varð að lögum nr. 77/2000 segir um 5. gr. frumvarpsins:

"Ljóst er að ýmis ákvæði frumvarpsins samrýmast ekki að öllu leyti sjónarmiðum um tjáningarfrelsi sem varið er í 73. gr. stjórnarskrárinnar. Af því tilefni er í þessari frumvarpsgrein lagt til að lögfest verði almenn vísiregla sem felur í sér að hvenær sem á þetta reynir þarf að meta hvernig sjónarmið um persónuvernd og sjónarmið um tjáningarfrelsi vegast á og komast að niðurstöðu sem byggð er á eðlilegu jafnvægi þessara sjónarmiða."

Samkvæmt framangreindu ræðst það, að hvaða marki sú vinnsla sem hér um ræðir fellur undir gildissvið laga nr. 77/2000, af mati á vægi sjónarmiða um tjáningarfrelsi annars vegar og einkalífsrétt hins vegar. Í ljósi þess að við slíkt mat ber að hafa að leiðarljósi að ná eðlilegu jafnvægi þessara sjónarmiða, og í ljósi þess tilgangs sem býr að baki birtingunni á heimasíðunni, sem er m.a. sá að endurheimta varning af meintum þjófum, er það mat Persónuverndar að hér vegi þeir hagsmunir sem lögum nr. 77/2000 er ætlað að verja þyngra en hagsmunir tjáningarfrelsis. Er þá litið til tjáningarfrelsis í skilningi 73. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, sbr. 11. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995, sem veitir mönnum frelsi til skoðana sinna og sannfæringar og að mega láta í ljós hugsanir sínar en verði að ábyrgjast þær fyrir dómi. Í 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar segir síðan að tjáningarfrelsi megi setja skorður í lögum í þágu allsherjarreglu eða öryggis ríkisins, sé það nauðsynlegt til verndar heilsu eða siðgæðis manna eða vegna mannorðs eða réttinda annarra, enda teljist þær nauðsynlegar og samrýmast lýðræðishefðum. Í því sambandi verður að minna á að hver maður skal teljast saklaus uns sekt hans hefur verið sönnuð með lögfullri sönnun fyrir dómi, sbr. 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar. Er það því mat Persónverndar að umrædd vinnsla persónuupplýsinga falli undir gildissvið laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga og verði að uppfylla ákvæði þeirra.

3.
Um lögmæti vinnslunnar

Við athugun á lögmæti þeirrar vinnslu persónuupplýsinga sem til skoðunar er í máli þessu verður að hafa í huga að öll vinnsla persónuupplýsinga, þ.á.m. birting þeirra, þarf ávallt að eiga sér stoð í 8. gr. laga nr. 77/2000. Ef um viðkvæmar persónuupplýsingar er að ræða í skilningi 8. tl. 2. gr. laga nr. 77/2000 þá þarf vinnslan einnig að uppfylla sérstök skilyrði í 9. gr. laganna. Vinnsla persónuupplýsinga þarf ennfremur að vera í samræmi við ákvæði 7. gr. laganna, þ.e. meginreglur um gæði gagna og vinnslu. Þær eru m.a. að persónuupplýsingar skulu ávallt unnar með sanngjörnum, málefnalegum og lögmætum hætti (1. tl.), persónuupplýsingar skulu fengnar í yfirlýstum, skýrum, málefnalegum tilgangi og ekki unnar frekar í öðrum ósamrýmanlegum tilgangi (2. tl.), persónuupplýsingar verða að vera áreiðanlegar og uppfærðar eftir þörfum, persónuupplýsingar sem eru óáreiðanlegar eða ófullkomnar miðað við tilgang vinnslu þeirra, skal afmá eða leiðrétta (4. tl.).

Gögn málsins bera með sér [A] hefur birt á heimasíðu, sem hann heldur úti, nöfn rúmlega tuttugu manna sem hann kveður tengjast fíkniefnasölu og innflutningi á þeim. Ekki verður séð að birting slíkra persónuupplýsinga í því samhengi sem hér um ræðir geti samrýmst viðhorfum um sanngjarna og málefnalega vinnslu í skilningi 1. tl. 1. mgr. 7. gr. laga nr. 77/2000, né verður séð að ofangreindar persónuupplýsingar séu unnar í málefnalegum, yfirlýstum og skýrum tilgangi í skilningi 2. tl. sömu greinar. Þá verður ekki séð að fullnægt sé kröfum um áreiðanleika, í skilningi 4. tl. sömu greinar, en t.d. liggur fyrir að á heimasíðunni eru nöfn manna sem eiga sér marga alnafna og getur slíkt varpað grun á hóp manna sem eiga það eitt sameiginlegt að heita vissu nafni. Í þessu sambandi ber einnig að nefna þá meginreglu sem í gildi er hér á landi um að hver maður skuli teljist saklaus uns sekt hans hefur verið sönnuð með lögfullri sönnun fyrir dómi. Umrædd birting persónuupplýsinga fer því í bága við 1., 2. og 4. tl. 7. gr. laga nr. 77/2000.

Eins og áður segir verður öll vinnsla persónuupplýsinga, þ.á.m. birting þeirra, að eiga sér stoð í 8. gr., og eftir atvikum 9. gr. laga nr. 77/2000. Í lögunum er fjallað um meðferð og vinnslu viðkvæmra persónuupplýsinga m.a. í 8. tl. 2. gr. Samkvæmt b-lið þeirrar greinar er sérstaklega skilgreint að upplýsingar um það hvort maður hafi verið grunaður, kærður, ákærður eða dæmdur fyrir refsiverðan verknað séu viðkvæmar persónuupplýsingar. Óumdeilt er að sú vinnsla sem um er rætt í máli þessu lýtur að slíkum upplýsingum. Hjá [A] hefur komið fram að hann telur vinnsluna vera nauðsynlega vegna verks sem unnið er í þágu almannahagsmuna, sbr. 5. tl. 8. gr. laga nr. 77/2000. Hins vegar hefur ekkert komið fram um að uppfyllt sé eitthvert þeirra skilyrða sem greinir í 1. mgr. 9. gr. laga nr. 77/2000, en eins og áður segir þarf öll vinnsla viðkvæmra persónuupplýsinga bæði að uppfylla eitthver af skilyrðum 8. og 9. gr. laganna. Telst ofangreind vinnsla því ekki eiga sér viðhlítandi lagastoð.

Enda þótt óumdeilt sé, eins og vikið var að í kafla II-1 hér að framan, að [A] hafi stjórnarskrárvarinn rétt til þess að lýsa frá sínu sjónarhorni því þjóðfélagslega böli sem sala og neysla fíkniefna er hér á landi, svo og því ofbeldi sem tengt er sölu og innheimtu fíkniefnaskulda, er það niðurstaða Persónuverndar að sá réttur veiti honum ekki heimild til þess að birta lista yfir meinta eiturlyfjasala.

Með vísun til framangreinds hefur Persónuvernd ákveðið, á grundvelli 1. mgr. 40. gr. laga nr. 77/2000, að leggja fyrir [A] að stöðva umrædda vinnslu persónuupplýsinga. Frestur til þess er veittur til 10. nóvember 2004. Tekið er fram að verði ekki orðið við framangreindum fyrirmælum kann Persónuvernd, í samræmi við 2. mgr. 40. gr. laganna, að fela lögreglustjóra að stöðva til bráðabirgða umrædda starfsemi.

Ákvörðunarorð:

[A] skal fyrir 10. nóvember 2004 stöðva birtingu nafna meintra fíkniefnasala á heimasíðunni dopsalar.tk



Var efnið hjálplegt? Nei