Úrlausnir

Kennitölur í fundargerðum byggingafulltrúa Reykjavíkur

28.10.2011

Persónuvernd fékk kvörtun yfir birtingu kennitalna í fundargerðum byggingafulltrúa Reykjavíkurborgar. Fallið var frá slíkri birtingu og var málið þá fellt niður.

Ákvörðun



Þann 12. október 2011 tók stjórn Persónuverndar eftirfarandi ákvörðun í máli nr. 2011/811:


1.
Þann 31. maí 2010 barst Persónuvernd kvörtun S, hér eftir nefnd kvartandi, dags. 18. júlí 2011. Hún kvartar yfir því að upplýsingar um kennitölu fylgi fundargerðum umsókna/afgreiðslu mála hjá embætti byggingarfulltrúa Reykjavíkurborgar. Þær niðurstöður birtast síðan á Google-leitarvéinni þegar nafni hennar er slegið upp.

Með bréfi, dags. 20. júlí 2011, veitti Persónuvernd byggingarfulltrúa Reykjavíkurborgar færi á að koma á framfæri athugasemdum vegna framkominnar kvörtunar.

Svarbréf byggingarfulltrúa Reykjavíkurborgar, dags. 26. júlí 2011, barst Persónuvernd þann 29. júlí s.á. Þar segir:

„[...] Um byggingarleyfi geta sótt eigendur fasteigna, lóðarhafar óbyggðra lóða eða fullgildir umboðsmenn þeirra. Þegar umsókn tekur til fjöleigna skal henni fylgja viðeigandi samþykki meðeigenda.
Við framlagningu umsókna rita eigendur og umboðsmenn kennitölur ásamt nafni umsækjanda á umsóknareyðublað, enda verður byggingarfulltrúi að sannreyna rétt umsækjanda til umsóknarinnar. Það er gert með samanburði við fasteignarskrá Þjóðskrár.
Frá 1. júlí 1994 hefur full kennitala einstaklinga og lögaðila komið fram í fundargerðum byggingarnefndar Reykjavíkur og síðan byggingarfulltrúa. Enda skulu embættisfærslur byggingafulltrúa vera auðrekjanlegar. Að auki skal þess getið að reikningar vegna byggingarleyfisgajlda eru sendir til greiðslu í heimabanka umsækjanda. Telur embætti byggingarfulltrúa því full þörf á því að tengja nöfn umsækjanda við kennitölur þeirra. Hins vegar er óþarft að kennitölur komi fram í vefútgáfu fundargerða afgreiðslufunda. Mun embættið því láta gera viðeigandi breytingar á tölvukerfi sínu þannig að vefútgáfa verði birt án kennitala. Er áætlað að sú breyting geti átt sér stað 1. september nk.“

Með bréfi, dags. 2. ágúst 2011, var kvartanda sent afrit af svarbréfi byggingarfulltrúans og boðið að koma á framfæri athugasemdum. Tekið var fram að hefðu engar athugasemdir borist frá kvartanda mætti vænta þess að málið yrði látið niður falla í ljósi ákvörðunar byggingarfulltrúa um að hætta að birta kennitölur í fundargerðum afgreiðslufunda á vefsíðu sinni. Ekkert svar barst.

 
2.
Efnislegt gildissvið laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, og þar með valdsvið Persónuverndar, nær til vinnslu persónuupplýsinga, sbr. 1. mgr. 3. gr. og 1. og 2. mgr. 37. gr. laganna. Persónuupplýsingar eru sérhverjar persónugreindar eða persónugreinanlegar upplýsingar, þ.e. upplýsingar sem beint eða óbeint má rekja til tiltekins einstaklings, látins eða lifandi, sbr. 1. tölul. 2. gr. laganna; og vinnsla er sérhver aðgerð eða röð aðgerða þar sem unnið er með persónuupplýsingar, hvort heldur sem vinnslan er handvirk eða rafræn, sbr. 2. tölul. 2. gr. Af athugasemdum við 2. tölul. 2. gr. er fylgdu frumvarpi því er varð að lögum nr. 77/2000, kemur fram að hver sú aðferð, sem nota má til að gera upplýsingar tiltækar, telst til vinnslu.

Samkvæmt framansögðu telst birting kennitölu á vefsíðu byggingarfulltrúa Reykjavíkurborgar vera vinnsla persónuupplýsinga. Fellur mál þetta þannig undir ákvæði laga nr. 77/2000 og verkefnasvið Persónuverndar.

Þann 15. september 2011 framkvæmdi Persónuvernd könnun á því hvort að framangreind birting væri enn til staðar. Í ljós kom að fundargerðir byggingarfulltrúa hafa nú verið fjarlægðar af heimasíðu Reykjavíkurborgar.

Eins og mál þetta liggur fyrir hefur byggingarfulltrúi Reykjavíkurborgar látið af birtingu kennitalna í fundargerðum sínum. Samkvæmt því er ekki lengur til staðar ágreiningur sem tilefni er til umfjöllunar um. Með vísan til þess tilkynnist hér með að Persónuvernd mun ekki hafa frekari afskipti af máli þessu og er það fellt niður.




Var efnið hjálplegt? Nei