Úrlausnir

Upplýsingar um einstaklinga í greiðsluaðlögun

26.10.2011

Persónuvernd hefur fjallað um skráningu banka á persónuupplýsingum um einstaklinga í greiðsluaðlögun.Skráning úr Lögbirtingablaðinu, til innanhússnota, var talin vera heimil.

Úrskurður


Á fundi stjórnar Persónuverndar hinn 12. október 2011 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli nr. 2011/817:


I.
Grundvöllur máls - Málavextir og bréfaskipti

1.
Tildrög máls
Þann 21. júní 2011 barst Persónuvernd kvörtun frá H. vegna skráningar Byrs hf. á upplýsingum um greiðsluaðlögun hennar. Í kvörtuninni sagði m.a.:

„Fyrir 2.árum fór ég undirrituð í gegn um greiðsluaðlögun þar sem algjör eftirgjöf var á mínum skuldum. Sem þýðir að þann dag var ég orðinn skuldlaus. Ég er ekki á neinum vanskilaskrám en var að komast að því að bankinn minn Byr skráir niður alla þá sem fara í gegn um greiðsluaðlögun eða það sem er auglýst í lögbirtingi. Þeir hafa ekkert annað fyrir þessari skráningu nema auglýsingu úr Lögbirting og skýla sér við það. Þeir segja að það séu engar reglur um svona skráningu og að þessi skráning geti fylgt mér svo lengi sem þeim sýnist. [...]“

2.
Bréfaskipti
Með bréfi, dags. 25. júlí 2011, var Byr hf. tilkynnt um kvörtunina og boðið að koma á framfæri andmælum sínum til samræmis við 13. og 14. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í svarbréfi Byrs hf., dags. 8. ágúst 2011, sagði m.a.:

„[...] Í fyrsta lagi er rétt að geta þess að skráning þessi byggir á upplýsingum sem eru opinberar eftir birtingu í Lögbirtingablaði sbr. ákvæði laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sjá til hliðsjónar m.a. ákvæði 2. mgr. 1. gr. laga nr. 15/2005 um Stjórnartíðindi og Lögbirtingarblað.

Í öðru lagi telur Byr hf. að bankanum sé skráning sem þessi heimil á grundvelli 7. og 8. gr. laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Má þar m.a. nefna að tilgangur skráningarinnar er að vernda brýna og lögmæta hagsmuni bankans vegna útlánahættu. Eðli málsins samkvæmt hefur það áhrif á lánstraust aðila ef hann fær staðfestan nauðasamning til greiðsluaðlögunar. Í þessu sambandi ber einnig að hafa í huga að nauðasamningur er aðgerð sem þvingar kröfuhafa til niðurfellingar án tillits til vilja kröfuhafa. Á það við um alla kröfuhafa, þ.e. ekki er áskilið að tiltekinn fjöldi þeirra samþykki nauðasamning til greiðsluaðlögunar, líkt og á við um hefðbundna nauðasamninga á grundvelli VI.-IX. kafla laga nr. 21/1991.

Í þriðja lagi má vísa til þess að í 63. gr. c. laga nr. 21/1991 er gert ráð fyrir að ljúka megi gjaldþrotaskiptum með nauðasamningi til greiðsluaðlögunar. Af þessu má ljóst vera að löggjafinn hefur talið að nauðasamningur til greiðsluaðlögunar sé úrræði sem að jafna megi við gjaldþrot, í það minnsta að einhverju leyti. Fyrir liggur að fari menn í gjaldþrot þá er slíkt skráð og hefur í för með sér skerðingu á lánstrausti viðkomandi. Jafnframt má geta þess að skráning á gjaldþrotum hefur lengi verið heimil hér á landi og er skráning á þeim sem hljóta nauðasamning í engu ólík gjaldþrotaskráningu.

Í fjórða lagi er rétt að taka það fram með skýrum hætti að umrædd skráning er eingöngu til notkunar innanhúss og er með engu móti aðgengileg öðrum en starfsmönnum Byrs og ætlað til notkunar þegar að einstaklingar sækja um lánafyrirgreiðslu hjá bankanum. Líkt og áður er rakið þá liggur það í hlutarins eðli að það að einstaklingur hafi fengið nauðasamning til greiðsluaðlögunar hlýtur að hafa áhrif á lánstraust hans. [...]“

Með bréfi, dags. 10. ágúst 2011, var kvartanda boðið að tjá sig um svarbréf Byrs hf. Svarfrestur var veittur til 24. ágúst 2011 og var kvartanda tilkynnt um að hefðu engin svör borist fyrir þann tíma yrði málið tekið til efnislegrar meðferðar. Engin svör bárust.

II.
Forsendur og niðurstaða

1.
Gildissvið laga nr. 77/2000
Efnislegt gildissvið laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, og þar með valdsvið Persónuverndar, nær til vinnslu persónuupplýsinga, sbr. 1. mgr. 3. gr. og 1. og 2. mgr. 37. gr. laganna. Persónuupplýsingar eru sérhverjar persónugreindar eða persónugreinanlegar upplýsingar, þ.e. upplýsingar sem beint eða óbeint má rekja til tiltekins einstaklings, látins eða lifandi, sbr. 1. tölul. 2. gr. laganna; og vinnsla er sérhver aðgerð eða röð aðgerða þar sem unnið er með persónuupplýsingar, hvort heldur sem vinnslan er handvirk eða rafræn, sbr. 2. tölul. 2. gr.

Skráning Byrs hf. á upplýsingum um nauðasamning H. til greiðsluaðlögunar er því vinnsla persónuupplýsinga í skilningi laganna. Hún fellur undir úrskurðarvald Persónuverndar.

2.
Forsendur og niðurstaða

2.1.

Greiðsluaðlögun er úrræði fyrir einstaklinga í verulegum greiðsluerfiðleikum. Lög nr. 101/2010 um greiðsluaðlögun einstaklinga lúta að frjálsri greiðsluaðlögun. Þá sækir skuldari um greiðsluaðlögun til Umboðsmanns skuldara. Samþykki hann umsóknina skipar hann sérstakan umsjónarmann sem gerir frumvarp til samnings um greiðsluaðlögun. Náist ekki frjálsir samningar við kröfuhafa um greiðsluaðlögun getur skuldari óskað heimildar héraðsdóms til þess að leita nauðasamnings um greiðsluaðlögun. Fer þá um mál eftir gjaldþrotaskiptalögum nr. 21/1991.

Í c-lið 63. gr. þeirra laga segir: „Ljúka má gjaldþrotaskiptum með nauðasamningi til greiðsluaðlögunar eftir ákvæðum XXI. kafla .....“ Í þeim kafla laganna er fjallað um nauðsamninga við gjaldþrotaskipti og segir í 2. mgr. 153. gr. að verði krafa um staðfestingu nauðasamnings tekin til greina skuli auglýsa lok gjaldþrotaskipta í samræmi við 2. mgr. 162. gr. Þar segir að skiptastjóri skuli fá birta auglýsingu um skiptalok í Lögbirtingablaði. Þær upplýsingar um H., sem mál þetta varðar, hafa verið auglýstar með þeim hætti.

2.2.
Fyrst voru ákvæði um greiðsluaðlögun einstaklinga færð inn í gjaldþrotaskiptalögin með lögum nr. 24/2009 sem bættu X. kafla a við lögin. Síðar voru sett heildarlög um úrræðið, þ.e. lög nr. 101/2010. Í greinargerðum með þeim frumvörpum, sem urðu að lögum nr. 24/2009 og 101/2010, kemur fram að með þeim var brugðist við sérstökum aðstæðum til að gera fólki eftir fremsta megni kleift að endurskipuleggja fjármál sín. Að virtum aðdraganda að lögfestingu þessa úrræðis hefur Persónuvernd ekki talið ákvæði 8. gr. laga nr. 77/2000 geta rennt stoðum undir söfnun umræddra upplýsinga í því skyni að miðla þeim til annarra. Í því máli sem hér er til úrlausnar er ekki um slíkt að ræða, en það varðar skráningu til innanhússnota.

2.3.
Vinnsla almennra persónuupplýsinga telst lögmæt ef hún fullnægir einhverju af skilyrðum 8. gr. laga nr. 77/2000. Í 7. tölul. 1. mgr. 8. gr. segir að vinnsla persónuupplýsinga sé heimil sé hún nauðsynleg til að gæta lögmætra hagsmuna ábyrgðaraðila. Í svarbréfi Byrs hf. kemur fram að tilgangur félagsins með því að skrá upplýsingar um nauðasamning H. til greiðsluaðlögunar hafi verið að gæta lögmætra hagsmuna sinna. Hagmunirnir felist í því að upplýsingar um að menn hafi fengið nauðasamninga til greiðsluaðlögunar hafi áhrif á lánstraust þeirra og lán til þeirra auki útlánaáhættu bankans. Að mati Persónuverndar er hér um að ræða lögmæta hagsmuni í skilningi  7. tölul. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 77/2000.

Til að vinnsla geti átt sér stoð í því ákvæði er skilyrði að grundvallarréttindi og frelsi hins skráða vegi ekki þyngra en tilgreindir hagsmunir ábyrgðaraðila. Við mat á því hvort svo sé skiptir í fyrsta lagi máli að hér er um að ræða löglega opinberlega birtar persónuupplýsingar. Í öðru lagi að ábyrgðaraðili skráir þær aðeins til innanhússnota. Þá hefur hinn skráði sjálfur ekki rökstutt að skráningin hafi ógnað eða getað ógnað grundvallarréttindum og frelsi hans þannig að telja megi hagsmuni hans, af því að skráningin fari ekki fram, vega þyngra en framangreindir hagsmunir Byrs hf. af skráningunni. Er það því mat Persónuverndar að umrædd vinnsla Byrs hf. samrýmist  7. tölul. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 77/2000.

Að auki verður, eins og ávallt þegar unnið er með persónuupplýsingar, að vera farið að öllum grunnkröfum 7. gr. laga nr. 77/2000,  þ. á m. að persónuupplýsingar skulu unnar með sanngjörnum, málefnalegum og lögmætum hætti og í samræmi við vandaða vinnsluhætti slíkra upplýsinga (1. tölul.); að persónuupplýsingar skulu fengnar í yfirlýstum, skýrum, málefnalegum tilgangi og ekki unnar frekar í öðrum og ósamrýmanlegum tilgangi (2. tölul.); að persónuupplýsingar skulu vera nægilegar, viðeigandi og ekki umfram það sem nauðsynlegt er miðað við tilgang vinnslunnar (3. tölul.); og að þær skulu vera áreiðanlegar og uppfærðar eftir þörfum, en persónuupplýsingar, sem séu óáreiðanlegar eða ófullkomnar, miðað við tilgang vinnslu þeirra, skal afmá eða leiðrétta (4. tölul.). Að mati Persónuverndar hefur ekkert komið fram um að vinnslan fari í bága við framangreind ákvæði 7. gr.

Í ljósi alls sem að framan er rakið er það mat Persónuverndar að umrædd skráning Byrs hf. á upplýsingum um nauðasamning H. til greiðsluaðlögunar hafi verið heimil á grundvelli 7. tölul. 1. mgr. 8. gr. og samrýmst 7. gr. laga nr. 77/2000.


Ú r s k u r ð a r o r ð:

Heimil var skráning Byrs hf. á upplýsingum, sem birst höfðu í Lögbirtingablaðinu,  um nauðsamning H til greiðsluaðlögunar.



Var efnið hjálplegt? Nei