Úrlausnir

Sönn íslensk sakamál

16.9.2002

Persónuvernd barst erindi þar sem óskað var að stofnunin tæki afstöðu til þess hvort með sýningu sjónvarpsþáttar hefði verið brotið gegn ákvæðum laga um persónuvernd, en þátturinn fjallaði um morð á eiginmanni kvartanda.

I.

Með bréfi, dags. 27. febrúar sl., barst Persónuvernd erindi frá yður [Atli Gíslason hrl.] þar sem þér fóruð þess á leit við Persónuvernd, fyrir hönd umbjóðanda yðar, A, að stofnunin beitti sér fyrir því að þáttur um morð á eiginmanni hennar yrði ekki sýndur opinberlega eða sýningu hans að minnsta kosti frestað þar til niðurstaða stofnunarinnar lægi fyrir um það hvort sýning þáttarins stríddi gegn lögum. Senduð þér afrit af bréfi yðar til framleiðanda þáttarins, Hugsjónar, og Ríkisútvarpsins.

Persónuvernd sendi Ríkisútvarpinu bréf, dags. 4. mars, þar sem því var boðið að tjá sig. Bárust Persónuvernd síðan bréf frá Kristjáni Þorbergssyni hrl., dags. 5. mars, þar sem málstað Hugsjónar og Ríkisútvarpsins var lýst, og hinn 7. mars barst stofnuninni símbréf frá yður sem með fylgdi bréf frá Kristjáni Þorbergssyni til yðar, dags. 7. mars, þar sem því var hafnað að hætt yrði við sýningu umrædds þáttar, og bréf yðar til Kristjáns, dags. sama dag, þar sem tilmæli yðar um að hætt yrði við sýninguna voru ítrekuð. Með bréfi, dags. 8. mars, lýsti Persónuvernd þeirri afstöðu sinni að hún gæti ekki hindrað birtingu þáttarins þar sem um væri að ræða vinnslu sem félli undir 2. málsl. 5. gr. laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Þar eru talin upp þau ákvæði sem geta átt við um slíka vinnslu sem hér um ræðir, og er 40. gr. laganna, sem veitir Persónuvernd það úrræði að stöðva vinnslu persónuupplýsinga, ekki eitt þeirra.

Hinn 19. mars barst Persónuvernd síðan bréf yðar, dags. 11. mars, þar sem þér óskuðuð þess að stofnunin tæki málið til skoðunar á nýjan leik og tæki afstöðu til þess hvort brotið hefði verið gegn ákvæðum II. kafla laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Vísuðuð þér einkum í þessu sambandi til 7. gr. laganna. Samtímis barst stofnuninni annað bréf frá yður, dags. 12. mars, en með því senduð þér Persónuvernd afrit af siðareglum Blaðamannafélags Íslands og lýstuð þeirri afstöðu yðar að Hugsjón hefði brotið gegn 3. gr. siðareglnanna; gæti fyrirtækið því ekki "skákað í skjóli" 5. gr. laga nr. 77/2000. Með bréfi, dags. 11. apríl, bauð Persónuvernd Hugsjón að tjá sig um bréf yðar, dags. 11. og 12. mars, og barst Persónuvernd svar frá fyrirtækinu með tölvupósti hinn 24. apríl þar sem málstað þess var lýst. Með bréfi, dags. 29. apríl, bauð Persónuvernd yður síðan að tjá yður um svar Hugsjónar sem þér gerðuð með bréfi, dags. 2. maí.

Hefur Persónuvernd nú tekið málið til skoðunar að nýju og tekið afstöðu til þess hvort brotið hafi verið gegn ákvæðum laga nr. 77/2000 við sýningu umrædds þáttar.

II.


Sá sjónvarpsþáttur, sem hér um ræðir, var sýndur í Ríkissjónvarpinu hinn 10. mars sl. og er úr þáttaröðinni "Sönn íslensk sakamál". Hann fjallar um morð sem framið var í Reykjavík árið 1990 og lýsir aðdraganda morðsins, morðinu sjálfu og rannsókn þess. Einkum er fjallað um þá sem frömdu morðið og það hvernig eiturlyfjaneysla þeirra átti þátt í að þeir gerðust sekir um verknaðinn. Ekki er fjallað mikið um hinn myrta en þó er dregin upp jákvæð mynd af honum í leiknum atriðum. Í þeim er einnig sýnt með allnákvæmum hætti hvernig hann var myrtur. Er þá sýnt hvernig hann var margsinnis sleginn í höfuðið með barefli, en eftir eitt höggið sést hann falla harkalega niður stiga, og stunginn. Sést hann síðan liggja í blóði sínu. Seint í þættinum er atburðarásin sýnd á tvo mismunandi vegu og kemur fram í þáttarlok að hin leiknu atriði eru ekki heimildir um atburðinn. Á milli þeirra eru sýndar beinar heimildir, t.d. viðtöl og jafnvel rannsóknargögn.

III.Hér á eftir fer lýsing á málatilbúnaði yðar og Hugsjónar frá því að þér óskuðuð þess að málið yrði tekið til skoðunar á nýjan leik. Verður hér rakið efni bréfa sem málið varða og borist hafa Persónuvernd frá 19. mars sl., en þá bárust stofnuninni bréf yðar, dags. 11. og 12. mars, eins og áður segir.

Í bréfi yðar til Persónuverndar, dags. 11. mars, segir meðal annars:

Til rökstuðnings framangreindum tilmælum er almennt vísað til efnismeðferðar sem viðhöfð var í nefndum þætti. Þar var atlaga að hinum myrta sviðsett og sömu ofbeldisatriðin margsýnd með einkar ýktum og blóðugum hætti. Þátturinn er sagður byggja á dómi Hæstaréttar sem birtur var í dómasafni árið 1991 bls. 1199 til 1233. Mörg atriðanna voru þess eðlis að vandséð er að hinn birti dómur gefi tilefni til þeirra. Sum atriðanna eiga sér ekki stoð í hinum birta dómi og önnur ganga mun lengra en lesa má úr dóminum. Þá voru birtar myndir af málsskjölum og að því er virðist hampað upplýsingum sem ekki eru aðgengilegar almenningi. Það er sérstakt rannsóknarefni. Ég lít svo á að þátturinn sé bæði í heild sinni og hvað varðar einstök efnisatriði harkaleg atlaga gegn friðhelgi einkalífs ekkju hins myrta og börnum þeirra og alvarlegt brot á lögum nr. 77/2000. Má í þessu sambandi benda á að eitt barnanna hefur allt frá þessum atburði átt við erfið geðræn vandamál að stríða og er gerð þáttarins, sýning hans og sennileg endursýning beinlínis til þess fallin að valda frekari skaða fyrir það og fjölskylduna alla. Þá tel ég sérstaklega ámælisvert að forsvarsmenn Hugsjónar…hafi fullunnið þáttinn og ríkissjónvarpið tekið hann til sýningar þrátt fyrir gefin fyrirheit um stöðvun á vinnslu og sýningu hans. Þar gengu forsvarsmenn Hugsjónar…á bak orða sinna og gáfu fjölskyldu hins myrta eða mér sem talsmanni hennar engan kost á að hafa áhrif á vinnsluna eða efnistökin þannig að þau yrðu sanngjörn, vönduð og málefnaleg. Efnistökin eru að mínu mati fjarri því að vera viðeigandi og langt umfram það sem telja má nauðsynlegt miðað við meintan tilgang þáttarins. Þá áttu umb. m. ekki kost á að stöðva sýningu þáttarins vegna skamms fyrirvara en þó einkum af fjárhagslegum ástæðum. Hvorki Hugsjón…né Ríkisútvarpið sáu ástæður til þess að sýna umbj. m. þá nærgætni og sjálfsögðu kurteisi að tilkynna sýningu þáttarins með góðum fyrirvara. Fréttu umbj. m. af málinu fyrir tilviljun.

Einnig segir í bréfi yðar, dags. 11. mars: "Athugun Persónuverndar hlýtur að helgast af þeirri grundvallarreglu að mannréttindaákvæði eru sett til verndar einstaklingum en ekki ríkinu eða lögaðilum sem leiðir til þess að túlka verður ákvæði 5. gr. laga nr. 77/2000 þröngt."

Í bréfi yðar til Persónuverndar, dags. 12. mars, segir: "Sérstök athygli er vakin á 3. gr. [siðareglna Blaðamannafélags Íslands]. Ég tel að þessa reglu hafi forsvarsmenn Hugsjónar…og Ríkisútvarpsins virt að vettugi og geti ekki skákað í skjóli 5. gr. laga nr. 77/2000."

Í tölvupósti Hugsjónar til Persónuverndar frá 24. apríl segir meðal annars:

Leiknu atriðin…eru sýn leikstjórans á þá atburði sem verkið fjallar um. Þar er ekki um heimild að ræða. Það er beinlínis tekið fram á skilti í lok þáttarins að þau atriði séu ekki heimildir um atburðinn. Þessi skáldaði hluti er byggður á lýsingum vitna og ýmsum upplýsingum um atburðarásina, en birta sýn leikstjórans á efninu. Þannig er til dæmis í umræddum þætti hluti atburðarásarinnar sýndur gerast á tvo mismunandi vegu. Leikstjórinn hefur eðlilegt skáldaleyfi til að segja söguna eins og hún kemur honum fyrir sjónir.

Rétt er að taka fram að umræddur þáttur fjallar ekki um fórnarlambið heldur um morðingjana. Fórnarlambið er hér í aukahlutverki og fókus myndarinnar er allur á ódæðismönnunum. Þeir voru eiturlyfjaætur í leit að peningum fyrir næsta skammti og hikuðu ekki við að myrða, á hrottafenginn hátt, saklausan mann sem varð fyrir þeim nánast af tilviljun.

Við höfum mikla samúð með aðstandendum fórnarlambsins en það er erfitt að ímynda sér að rétt sé að takmarka opinbera umfjöllun um ofbeldisverk eða slysfarir af þeim ástæðum.

Sagan sem þátturinn segir er sú að eiturlyfin geta haft skelfilegar afleiðingar í samfélagi okkar, ekki síður en í stærri þjóðfélögum. Hann er sterk viðvörun til fólks um þær afleiðingar sem eiturlyfjafíknin getur haft. Vegna þessa boðskapar sögunnar var ákveðið að sýna þáttinn nú í tengslum við þátt um Stóra fíkniefnamálið sem sýndur var viku seinna. Sá þáttur fjallaði um smygl á eiturlyfjum til Íslands og rakti hversu skipulögð og víðtæk slík starfsemi er orðin. Því þótti rétt að þáttur sem sýndi vel skelfilegar afleiðingar þessarar starfsemi fylgdi með í þáttaröðinni.

Atli segir í bréfi sínu að Hugsjón hafi gengið á bak orða sinna um að stöðva vinnslu og sýningu þáttarins…langar mig að leiðrétta þetta. Hið rétta er að fyrir fjórum árum höfðum við uppi áform um að gera þátt um þetta efni. Þá setti Atli sig í samband við okkur og bað um að ekki yrði ráðist í þáttagerðina af tillitssemi við aðstandendur fórnarlambsins. Við urðum við þessari beiðni. Bæði var að á þessum tíma hafði enginn þáttur í þáttaröðinni verið sýndur og fólk hafði því meiri ástæðu til að óttast efnistökin en nú þegar gerðir hafa verið 16 þættir um allar tegundir sakamála. Hins vegar sátu morðingjarnir enn inni og málinu þannig ekki endanlega lokið. Þegar við hættum við gerð þáttarins fyrir fjórum árum var ekki gefið neitt fyrirheit um að aldrei yrði gerður þáttur um þetta mál. Það hefði því verið sanngjarnara að virða það til betri vegar að fresta gerð þáttarins um fjögur ár fremur en að nota það okkur til hnjóðs.

Þegar hafa verið raktar ástæður þess að ákveðið var að ráðast í gerð þáttarins núna enda eru liðin tólf ár frá því að atburðurinn átti sér stað. Það er að mínu viti ekki hægt með nokkurri sanngirni að ætlast til þess að ekki sé fjallað um atburði eins og þennan svo löngu eftir að hann átti sér stað – nema setja á hann einhverskonar umfjöllunarbann um aldur og æfi.

Atli klikkir út í bréfi sínu með því að segja að umbjóðandi sinn hafi frétt af málinu fyrir tilviljun. Það þykja mér skrítnar fréttir í ljósi þess að ég hringdi í son hins myrta tveimur vikum fyrir sýningu þáttarins og bað hann láta fjölskyldu sína vita af sýningu hans.

Það er enginn vafi á að aðstandendur fórnarlambsins hafa orðið fyrir miklum og sárum missi. Þess heldur sem öllum ber saman um, eins og fram kemur í þættinum, að hann hafi verið einstaklega góður maður. Við höfum mikla samúð með aðstandendum hans og getum vel skilið að öll upprifjun þessa ljóta máls geti valdið þeim sársauka. Það er hins vegar ekki hægt að ætlast til þess að þessi saga verði aldrei sögð opinberlega.

Í bréfi yðar til Persónuverndar, dags. 2. maí, segir meðal annars:

Í bréfi [Hugsjónar] er gerð grein fyrir eðli myndarinnar og efnistökum. Þar segir meðal annars að byggt sé á beinum heimildum og leiknum, skálduðum, atriðum, fórnarlambið sé í aukahlutverki o.fl. Í þessu samhengi ítreka ég bréf mitt dags. 11. mars 2002 og þá gagnrýni sem þar er sett fram um efnistök, notkun heimildanna. Í myndinni er með skelfilegum hætti sýnt margsinnis hvernig hinn látni var barinn og stunginn og dreginn niður stiga. Að sögn [Hugsjónar] tekur leikstjórinn sér það "skáldaleyfi" að sýna atburðina á tvo vegu. Er vandséð hvernig þessi efnistök þjóna meintum tilgangi gerðar og sýningar myndarinnar. Efnismeðferðin er einfaldlega óásættanleg og gekk afar nærri persónum og einkalífi umbj. m. Hún var að mínu mati brot á friðhelgi einkalífs þeirra. Þá er rétt að taka það fram, að leitað var til A fyrir eða í upphafi gerðar myndarinnar í október 1998 og óskað eftir samstarfi við hana. Hún lagðist eindregið gegn gerð myndarinnar og fékk þau svör að hætt hefði verið við hana. Hún var aldrei upplýst um það að hér væri um tímabundna ákvörðun að ræða og aðstandendur myndarinnar létu hana eða fjölskyldu hennar aldrei vita af því að hafist hefði verið handa á nýjan leik. A vissi ekki af meintu símtali við son hennar.


IV.
Álit Persónuverndar

1.


Þær upplýsingar, sem unnið var með í umræddum þætti, eru persónuupplýsingar, sbr. 1. tölul. 2. gr. laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga þar sem hugtakið persónuupplýsingar er skilgreint sem: "Sérhverjar persónugreindar eða persónugreinanlegar upplýsingar um hinn skráða, þ.e. upplýsingar sem beint eða óbeint má rekja til tiltekins einstaklings, látins eða lifandi [skáletrun Persónuverndar]." Liggur því fyrir að gerð og birting umrædds sjónvarpsþáttar fól í sér vinnslu persónuupplýsinga. Í 2. málsl. 5. gr. laga nr. 77/2000 segir: "Þegar persónuupplýsingar eru einvörðungu unnar í þágu fréttamennsku eða bókmenntalegrar eða listrænnar starfsemi gilda aðeins ákvæði 4. gr., 1. og 4. tölul. [1. mgr.] 7. gr., 11.–13. gr. og 24., 28., 42. og 43. gr. laganna." Af þessu leiðir að framangreind vinnsla persónuupplýsinga lýtur ákvæðum laga nr. 77/2000 aðeins að takmörkuðu leyti.

Af þeim ákvæðum, sem vísað er til í 2. málsl. 5. gr., eru það einkum 1. og 4. tölul. 1. mgr. 7. gr. sem hér geta átt við eftir efni sínu. Samkvæmt 1. tölul. skal þess gætt við vinnslu persónuupplýsinga að þær séu, meðal annars, unnar með sanngjörnum, málefnalegum og lögmætum hætti og að öll meðferð þeirra sé í samræmi við vandaða vinnsluhætti persónuupplýsinga. Samkvæmt 4. tölul. skal þess meðal annars gætt að þær persónuupplýsingar, sem unnið er með, séu áreiðanlegar.

Lögum nr. 77/2000 er hvorki ætlað að girða fyrir né banna gerð sjónvarpsþátta eða annars efnis um sakamál sem raunverulega hafa orðið og öllum er kunnugt um. Hins vegar leiða reglur laganna til þess að efnistök verða að samrýmast grundvallarsjónarmiðum um friðhelgi einkalífs. Í 1. mgr. 1. gr. laganna segir þannig, meðal annars, að markmið þeirra sé "að stuðla að því að með persónuupplýsingar sé farið í samræmi við grundvallarsjónarmið og reglur um persónuvernd og friðhelgi einkalífs."


2.


Við úrlausn þessa máls reynir á mörk tjáningarfrelsis og einkalífsréttar. Skal því, áður en lengra er haldið, vikið nokkrum orðum að valdi Persónuverndar til að skera úr um hvort rétturinn til tjáningarfrelsis hafi verið misnotaður á kostnað réttarins til friðhelgi einkalífs.

Kveðið er á um grundvallarregluna um tjáningarfrelsi í 73. gr. stjórnarskrárinnar og 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem hefur lagagildi hér á landi, sbr. 1. gr. laga nr. 62/1994. Lög nr. 77/2000 verður að skýra með þeim hætti að þau brjóti ekki gegn þessari grundvallarreglu. Tjáningarfrelsið er þó ekki án undantekninga þar sem það getur skarast við grundvallarregluna um rétt manna til friðhelgi einkalífs, sem verndaður er af 71. gr. stjórnarskrárinnar og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, og getur það í vissum tilvikum þurft að víkja fyrir þeim rétti.

Verkefnum Persónuverndar er lýst í 37. gr. laga nr. 77/2000. Þar segir meðal annars að Persónuvernd skuli úrskurða í ágreiningsmálum sem upp kunna að koma um vinnslu persónuupplýsinga. Að mati Persónuverndar verður ekki litið svo á að í þessu felist að hún hafi vald til að taka bindandi ákvörðun um það hvort einhver hafi skapað sér ábyrgð að lögum með misnotkun á stjórnarskrárbundnum rétti til tjáningarfrelsis. Er þá sérstaklega litið til þess að samkvæmt 2. málsl. 5. gr. laga nr. 77/2000 fellur vinnsla, sem einvörðungu fer fram í þágu fréttamennsku eða bókmenntalegrar eða listrænnar starfsemi, utan ramma flestra ákvæða laganna, þ.á m. ákvæða 40. og 41. gr. sem veita Persónuvernd valdheimildir vegna vinnslu persónuupplýsinga. Að mati Persónuverndar fellur úrlausn slíkra mála undir valdsvið dómstóla. Í ljósi 6. tölul. 3. mgr. 37. gr. laga nr. 77/2000, þar sem segir að Persónuvernd skuli, samkvæmt beiðni eða að eigin frumkvæði, tjá sig um álitaefni varðandi meðferð persónuupplýsinga, lítur stofnunin hins vegar svo á að henni beri að tjá sig um hvort við gerð umrædds þáttar hafi verið brotið gegn þeim ákvæðum laga nr. 77/2000 sem fjalla um vinnslu persónuupplýsinga í þágu fréttamennsku eða bókmenntalegrar eða listrænnar starfsemi. Fer það álit hennar hér á eftir:


3.


Persónuvernd hefur aflað sér eintaks af umræddum þætti og kynnt sér efni hans. Þar er aðförin að hinum myrta sýnd mjög nákvæmlega. Er sýnt hvernig hann var margsinnis sleginn í höfuðið með barefli, en eftir eitt höggið sést hann falla harkalega niður stiga, og stunginn. Sést hann síðan liggja í blóði sínu.

Persónuvernd hefur, í fyrsta lagi, lagt mat á það hvort með þessum efnistökum hafi verið fullnægt kröfu 1. tölul. 1. mgr. 7. gr. laga nr. 77/2000 um að við vinnslu persónuupplýsinga skuli þess gætt að þær séu unnar með sanngjörnum, málefnalegum og lögmætum hætti og að öll meðferð þeirra sé í samræmi við vandaða vinnsluhætti persónuupplýsinga. Í ljósi markmiðsákvæðis 1. mgr. 1. gr. laganna verður að skilja þetta ákvæði 7. gr. þannig að í því felist að sýna verði hæfilega nærgætni þegar fjallað er um jafn viðkvæm mál og það sem hér um ræðir. Telur Persónuvernd grundvallarreglu 73. gr. stjórnarskrárinnar og 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu um tjáningarfrelsi ekki hamla því að gerð sé rík krafa til þess að sýna nærfærni í umfjöllun um látinn mann. Er ljóst að gerð og sýning slíks efnis, sem hér um ræðir, getur verið sérstaklega sársaukafull fyrir aðstandendur og aðra hlutaðeigandi, en tilefni þess að upplýsingar um látna menn eru skilgreindar sem persónuupplýsingar, sbr. 1. tölul. 2. gr. laga nr. 77/2000, hlýtur meðal annars að vera það að vernda aðstandendur látins manns fyrir umfjöllun um einkamálefni hans sem valdið gæti þeim óþarfa sársauka. Að mati Persónuverndar hefði mátt fjalla um umræddan atburð þannig að til skila kæmist það sem vitað er að raunverulega gerðist án þess að ganga svo langt við gerð leikinna atriða sem raun ber vitni og taka með því mikla áhættu á að valda eftirlifandi aðstandendum óþarfa sársauka. Er þá sérstaklega haft í huga það sem fram hefur komið um andstöðu aðstandenda hins látna við gerð þáttarins og að þáttagerðarmenn hefðu mátt gera sér grein fyrir því hvernig sýning þáttarins gæti raskað tilfinningum þeirra. Persónuvernd hefur hins vegar jafnframt skilning á því að breytt efnistök hefðu getað rýrt boðskap þáttarins og dregið úr þeim hughrifum sem honum var ætlað að kalla fram, þ.á m. varnaðaráhrifum gegn neyslu fíkniefna. Loks ber að hafa í huga að í þættinum er dregin upp jákvæð mynd af hinum látna og að leikin atriði verða ekki talin rýra minningu hans. Í ljósi alls framangreinds telur Persónuvernd að þótt efnistök þáttagerðarmanna orki tvímælis, einkum þegar tillit er tekið til tilfinninga aðstandenda hins látna, verði ekki fullyrt að við gerð þáttarins hafi verið brotið gegn 1. tölul. 1. mgr. 7. gr. laga nr. 77/2000.

Persónuvernd hefur, í öðru lagi, lagt mat á það hvort fullnægt hafi verið þeirri kröfu 4. tölul. 1. mgr. 7. gr. laga nr. 77/2000 að þess skuli gætt við vinnslu persónuupplýsinga að þær séu áreiðanlegar. Það að í lok þáttarins komi fram að leikin atriði séu ekki heimildir um atburðinn breytir því ekki að af þeim hljóta áhorfendur að draga ályktanir um það sem gerðist, en þær geta aldrei samrýmst fullkomlega hinni raunverulegu atburðarás. Í umræddum þætti er atlagan að hinum myrta sýnd á tvo mismunandi vegu. Er ljóst að þessi leiknu atriði byggjast ekki á ótvíræðri vissu um atburðarásina og geta þar af leiðandi, eðli málsins samkvæmt, ekki endurspeglað hana með fullkomlega réttum hætti. Hins vegar verður að hafa í huga að sumt í atburðarásinni er enn óupplýst og þokukennt og verður af þeim sökum ekki gerð sú krafa til þeirra sem þáttinn gerðu að hann endurspegli aðeins raunverulega atburðarás. Þá ber og að líta til þess að við umfjöllun um mörk tjáningarfrelsis hefur í réttarframkvæmd hin síðari ár verið litið mjög til þess að vegna lýðræðishefða verði að tryggja að fram geti farið þjóðfélagsleg umræða, ekki síst um það sem miður fer. Með vísun til framangreinds verður, að mati Persónuverndar, ekki fullyrt að þáttagerðarmenn hafi, með því að velta upp tilgátum um það sem kunni að hafa gerst, brotið gegn 4. tölul. 1. mgr. 7. gr. laga nr. 77/2000.

4.


Samkvæmt framanrituðu er það því niðurstaða Persónuverndar að þótt efnistök við gerð umrædds þáttar kunni að orka tvímælis, einkum þegar litið er til tilfinninga aðstandenda hins látna, verði ekki fullyrt að brotið hafi verið gegn ákvæðum 1. og 4. tölul. 1. mgr. 7. gr. laga nr. 77/2000.Var efnið hjálplegt? Nei