Úrlausnir

Samkeyrsla RÚV á eigin viðskiptamannaskrá við upplýsingar úr þjóðskrá - mál nr. 2001/494

9.4.2002

Persónuvernd barst ósk um álit á því hvort samkeyrsla Ríkisútvarpsins á viðskiptamannaskrá sinni við þjóðskrá Hagstofu Íslands bryti gegn ákvæðum laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.

Hinn 9. apríl 2002 kvað stjórn Persónuverndar upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. 2001/494.


I.

Með tölvubréfi, dags. 4. maí 2001, óskaði A álits Persónuverndar á því hvort samkeyrsla Ríkisútvarpsins á viðskiptamannaskrá sinni við þjóðskrá Hagstofu Íslands bryti gegn ákvæðum laga nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Í erindi hans sagði m.a. svo:

"Svo virðist sem RÚV beri saman Þjóðskrá og viðskiptamannaskrá sína til að bera saman hverjir eru með sjónvarp og hverjir ekki. Það er skýrt tekið fram í bréfum frá RÚV til þeirra sem fá bréf um hvort þeir eigi viðtæki. Er þetta ekki skýrt brot á persónuverndarlögum að Þjóðskráin sé nýtt til viðskiptalegs eðlis?"
II.
1.

Af framangreindu tilefni sendi Persónuvernd bréf til Ríkisútvarpsins, dags. 14. maí 2001, og gaf því kost á að koma afstöðu sinni á framfæri. Auk þess var farið fram á að greint yrði frá því á hvaða heimild umrædd vinnsla byggðist. Svör Ríkisútvarpsins bárust Persónuvernd með bréfi, dags. 28. maí 2001. Þar kemur fram að samkvæmt 12. gr. laga nr. 122/2000, um Ríkisútvarpið, skuli eigandi viðtækis, sem nýta megi til móttöku útsendinga Ríkisútvarpsins, greiða af því afnotagjald. Segir að samkvæmt 22. gr. reglugerðar 357/1986, með síðari breytingum, hafi Ríkisútvarpið eftirlit með því að fullnægt sé fyrirmælum útvarpslaga og reglugerðar um tilkynningar viðtækja. Skuli afnotadeild Ríkisútvarpsins halda skrá yfir öll viðtæki í landinu, þar sem fram komi nafn, kennitala og heimilisfang eiganda. Þeim sem annist sölu viðtækja sé skylt að tilkynna innheimtudeild stofnunarinnar um kaupendur. Þá skuli, þegar eigendaskipti verða að viðtæki, tilkynna það til innheimtudeildar þegar í stað, sbr. 20. gr. reglugerðarinnar. Í bréfi Ríkisútvarpsins segir síðan:


"Innheimtudeild Ríkisútvarpsins hagar samkeyrslu þjóðskrár og viðskiptamannaskrár þannig að öllum fjölskyldunúmerum þjóðskrár sem eiga lögheimili í tilteknu póstnúmeri er safnað í svokallaða vinnslutöflu fjölskyldunúmera. Ef einhver meðlimur fjölskyldu er skráður fyrir sjónvarpstæki er fjölskyldunúmeri eytt úr vinnslutöflu fjölskyldunúmera. Ef einhver meðlimur fjölskyldu er skráður án tækis í viðskiptamannaskrá Afnotadeildar, í skjóli annars viðskiptamanns sem er greiðandi af viðtæki, er því fjölskyldunúmeri eytt úr vinnslutöflu fjölskyldunúmera. Ef elsti meðlimur fjölskyldu er yngri en 22 ára eða 75 ára eða eldri, er fjölskyldunúmeri eytt úr vinnslutöflu fjölskyldunúmera. Elsti meðlimur fjölskyldna sem eftir er í vinnslutöflu fjölskyldunúmera fær fyrirspurn frá Afnotadeild vegna tækjaleitar.

Ríkisútvarpið telur að í lögum nr. 122/2000 og reglugerð nr. 357/1986 með síðari breytingum felist lagaheimild sú sem áskilin er í 3. tl. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 77/2000 um skráningu og meðferð persónuupplýsinga. Samkvæmt lögum nr. 122/2000 og reglugerð nr. 357/1986 er lögð sú lagaskylda á Afnotadeild RÚV að kanna og fylgjast með, að allir þeir sem nota viðtæki, greiði af slíku viðtæki lögboðið afnotagjald. Ofangreind vinnsla er nauðsynleg til að fullnægja þeirri lagaskyldu."

Í bréfinu kemur einnig fram að Ríkisútvarpið telji umrædda samkeyrslu vera nægilega, viðeigandi og ekki umfram það sem nauðsynlegt sé miðað við tilgang vinnslunnar, sbr. 3. tl. 1. mgr. 7. gr. laga nr. 77/2000, en tryggja verði að einstaklingar eða eftir atvikum fjölskyldur greiði lögboðin afnotagjöld í samræmi við lög nr. 122/2000. Þá vísar stofnunin til úrlausna tölvunefndar á grundvelli laga nr. 121/1989 í málum sem lutu að sams konar eða sambærilegum kvörtunum við samkeyrslur stofnunarinnar í þessu skyni, þ.e. úrlausna nr. 99/393, nr. 99/379, nr. 99/181, nr. 99/121 og nr. 98/502, en í öllum tilvikum hafi tölvunefnd talið sambærilega samkeyrslu skráa vera heimila skv. þágildandi lögum um meðferð persónuupplýsinga.

2.

Með bréfi, dags. 12. júní 2001, var A kynnt svar Ríkisútvarpsins og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum sínum. Athugasemdir hans bárust með tölvubréfi, dags. 18. júní 2001, en þar segir m.a. svo:


"Ég nýti hér með mér þann kost sem mér var bent á í bréfi frá Persónuvernd um að tjá mig um efni bréfs þess sem ég fékk frá Persónuvernd tilvísun: 2001050494. Það sem ég er að leita eftir hjá Persónuvernd er svar eða viðbrögð við því hvort að henni finnist það eðlilegt að Ríkisútvarpið noti Þjóðskrá Hagstofu Íslands í viðskiptalegum tilgangi þ.e.a.s. beri saman Þjóðskrá og viðskiptamannaskrá sína. Mér finnst þetta mjög óeðlilegt í lýðræðislegu ríki að opinber stofnun láti upplýsingar um einstaklinga í té fyrirtækjum hvort sem er í einkaeigu eða í opinberri eigu. Ef Persónuvernd treystir sér virkilega ekki að taka afstöðu til þess hvort að hér sé um lögbrot að ræða eða um óeðlilega notkun á opinberum gögnum í viðskiptalegum tilgangi þá mun ég leita til Umboðsmanns Alþingis um svara um þetta mál og hvort Persónuvernd hafi veitt Ríkisútvarpinu einhverja undanþágu til notkunar á Þjóðskrá í viðskiptalegum tilgangi."


A áréttaði álitsbeiðni sína með tölvubréfum, dags. 18. júlí 2001 og 14. ágúst 2001. Með vísun til 11. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996, sbr. 3. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, var A tilkynnt með bréfi, dags. 24. ágúst 2001, að fyrirsjáanleg væri töf á afgreiðslu erindis hans vegna mikilla anna hjá stofnuninni. Með bréfi, dags. 24. september 2001, var A svo tilkynnt að ákveðið hefði verið að taka erindi hans til afgreiðslu. A áréttaði enn álitsbeiðni sína með tölvubréfi, dags. 6. desember 2001, og með tölvubréfi, dags. 4. febrúar 2002, tilkynnti hann Persónuvernd að hann hefði ákveðið að kvarta undan málsmeðferð stofnunarinnar á erindinu til Umboðsmanns Alþingis. Þann 7. febrúar sl. gerði Persónuvernd A grein fyrir ástæðum tafar á afgreiðslu erindis þessa en greindi jafnframt frá því að niðurstöðu mætti vænta um miðjan mars mánuð 2002.

III.
Forsendur og niðurstaða

Hinn 1. janúar 2001 tóku gildi lög nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, sbr. 46. gr. laganna. Frá sama tíma voru felld úr gildi lög nr. 121/1989, um skráningu og meðferð persónuupplýsinga. Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. síðar nefndu laganna var heimilt að tengja saman upplýsingar um nafn, kennitölu og heimilisfang við skrár, sem haldnar voru, þótt slíkar upplýsingar væru fengnar frá öðrum, þ.m.t. úr þjóðskrá. Á grundvelli þessa ákvæðis var Ríkisútvarpinu talið heimilt að samkeyra upplýsingar úr þjóðskrá við viðtækjaskrá sína.

Lög nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, eru byggð á tilskipun 95/46/EB. Þau lög eru byggð upp á öðrum grundvelli en eldri lög um sama efni og hafa nýju lögin t.d. ekki að geyma eðlislíka almenna heimild og eldri lög, sem leyfðu að samkeyrðar væru upplýsingar um nafn, kennitölu og heimilisfang við skrár.

Erindi A felur það í sér að óskað er eftir afstöðu Persónuverndar til þess hvort samkeyrsla Ríkisútvarpsins á eigin viðskiptamannaskrá við upplýsingar úr þjóðskrá sé heimil samkvæmt ákvæðum laga nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.

Samkvæmt 2. gr. laga nr. 122/2000 er Ríkisútvarpið sjálfstæð stofnun í eigu íslenska ríkisins. Samkvæmt 2. mgr. 10. gr. laganna eru gjöld fyrir útvarpsafnot einn af megintekjustofnum Ríkisútvarpsins, en skv. 1. mgr. 12. gr. laganna er sérhver eigandi viðtækis, sem nýta má til móttöku á útsendingum Ríkisútvarpsins, skyldur að greiða afnotagjald.

Þegar haft er í huga að Ríkisútvarpið telst opinber aðili og starfsemi þess er m.a. borin uppi af gjöldum sem sérhverjum viðtækjaeigandi er að lögum gert skylt að greiða, verður ráðið af lögum nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, að eitt eftirfarandi skilyrða verði að vera fyrir hendi svo Ríkisútvarpinu sé heimilt að samkeyra fyrrnefndar upplýsingar: 1) Að í lögum sé að finna sérstaka lagaheimild sem ótvírætt heimilar samkeyrslu umræddra upplýsinga, 2) að sá, sem upplýsingarnar varðar, hafi samþykkt samkeyrsluna, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 77/2000, 3) að sú lagaskylda hvíli á Ríkisútvarpinu að hafa eftirlit með að greidd séu afnotagjöld af öllum viðtækjum eða önnur sú lagaskylda sem gerir Ríkisútvarpinu það nauðsynlegt að samkeyra umræddar upplýsingar til að hægt sé að framfylgja lagaskyldunni, sbr. 3. tölul. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 77/2000 eða 4) að Ríkisútvarpinu sé fengið opinbert vald, og að samkeyrsla umræddra upplýsinga sé nauðsynleg svo hægt sé að beita því valdi, sbr. 6. tölul. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 77/2000.

Af hálfu Ríkisútvarpsins er því ekki borið við að til staðar séu heimildir sem falla undir lið 1 og 2 hér að framan. Af hálfu Ríkisútvarpsins er heimild til vinnslunnar byggð á 3. tl. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, sbr. lög nr. 122/2000 og reglugerð nr. 357/1986. Samkvæmt því ákvæði er vinnsla heimil ef hún er nauðsynleg til að fullnægja lagaskyldu sem hvílir á ábyrgðaraðila, eins og áður segir. Kemur þá til athugunar hvort á Ríkisútvarpinu hvílir lagaskylda, sem gerir það nauðsynlegt að samkeyra umræddar upplýsingar.

IV.

Með lögum nr. 62/1930, um heimild handa ríkisstjórninni til ríkisrekstrar á útvarpi, var Ríkisútvarpið gert að sjálfstæðri stofnun. Í 7. gr. þeirra laga var kveðið svo á, að eftir að lögin hefðu tekið gildi og útvarpið tekið til starfa, mætti enginn nota viðtæki fyrir útvarp, nema tilkynna það útvarpsstjórninni og greiða lögboðið gjald af tækinu, sbr. 7. gr. og 6. gr. laganna um greiðslu afnotagjalds. Samkvæmt 8. gr. hafði útvarpið sama rétt og Landssíminn til að leggja nauðsynlegar lagnir vegna starfsemi sinnar um lönd manna, lóðir og byggingar. Samkvæmt 9. gr. var útvarpinu heimilt að gera, á kostnað eiganda, nauðsynlegar ráðstafanir til að hindra truflanir sem hlotist gátu frá raflögnum, vélum eða tækjum einstakra manna, sveitarfélaga eða bæjarfélaga. Í því skyni að hindra slíkar truflanir, var starfsmönnum útvarpsins heimilað að fara tálmunarlaust um lönd manna og hús, bæri nauðsyn til, enda færu þeir ekki um híbýli fyrir kl. 8 að morgni né eftir kl. 10 að kvöldi, sbr. 2. mgr. 9. gr. laganna.

Fyrrnefnd lög nr. 62/1930 viku fyrir lögum nr. 68/1934, um útvarpsrekstur ríkisins. Við setningu þeirra var tilgreindum lagaákvæðum að mestu haldið óbreyttum. Sú breyting var þó gerð að starfsmönnum Ríkisútvarpsins var ekki einungis heimilt að fara tálmunarlaust um lönd manna og hús á ákveðnum tímum til að hindra truflanir sem raflagnir, vélar eða tæki á vegum einstakra manna, sveitarfélaga eða bæjarfélaga gátu valdið, heldur einnig til eftirlits með útvarpsnotum. 9. gr. laganna var svohljóðandi:

"Nú hafa einstakir menn, sveitarfélög eða bæjarfélög raflagnir, vélar eða tæki, hvers kyns sem eru, sem geta valdið truflunum á starfrækslu Ríkisútvarpsins, og er Ríkisútvarpinu þá heimilt að gera, á kostnað eiganda, nauðsynlegar ráðstafanir um þau tæki eða lagnir til þess að hindra truflanir, sem af þeim geta hlotist.

Mönnum sem eru í þjónustu Ríkisútvarpsins þessara erinda og til eftirlits með útvarpsnotum, skal heimilt að fara tálmunarlaust um lönd manna og hús, ef nauðsyn krefur vegna starfsins......"

Þetta ákvæði var nánar útfært í reglugerð nr. 129/1944 um útvarpsrekstur ríkisins en 19. gr. hennar hljóðaði svo:

"Útvarpsnotandi er á hverjum tíma háður ákvæðum laga og reglugerða um eftirlit með hagnýtingu raforku og útvarpsviðtækja. Eftirlitsmenn útvarpsins, landssímans og rafmagnsstjórnarinnar á hverjum stað skulu hafa óhindraðan aðgang til skráningar útvarpsviðtækja, eftirlits með slíkum tækjum og hlutum þeirra og allri hagnýtingu rafmagns í sambandi við útvarpsviðtæki, og skal þeim heimilt að fara tálmunarlaust þessara erinda um lönd manna og hús, enda fari þeir ekki um híbýli manna á helgum dögum og ekki fyrir kl. 8 að morgni né eftir kl. 10 að kvöldi virka daga."

Í 3. mgr. 6. gr. laga 68/1934 var síðan kveðið svo á að óheimilt væri hverjum manni að hagnýta sér útvarp ríkisins nema viðtæki hans hefði verið skrásett og tilkynnt skrifstofu Ríkisútvarpsins. Hvert það viðtæki, sem ekki væri tilkynnt skrifstofu Ríkisútvarpsins, skyldi upptækt vera.

Reglugerð nr. 28/1958 um útvarpsrekstur ríkisins leysti framangreinda reglugerð af hólmi. Ákvæði 19. gr. hennar stóðu þó óbreytt svo og ákvæðið um sektir, sbr. 62. gr. reglugerðar nr. 28/1958. Nokkrar breytingar voru þó gerðar á reglugerð nr. 28/1958, m.a. þess efnis að Ríkisútvarpið skyldi á árinu 1967 bæta skrár sínar um eigendur viðtækja og gera könnun á árinu 1967 í því skyni að hafa upp á eigendum viðtækja sem ekki hefðu tilkynnt um tæki, og ef þörf þætti, að endurtaka þá könnun á árinu 1968, sbr. reglugerð nr. 280/1966 um breytingu á reglugerð 28/1958.

Lög nr. 68/1934 voru felld úr gildi með útvarpslögum nr. 19/1971. Með þeim lögum var m.a. gerð sú breyting að í 9. gr. kom nýr málsliður svohljóðandi: "Starfsmönnum Ríkisútvarpsins er heimilt að fara tálmunarlaust um lönd manna til eftirlits eða athugana á þessum efnum", þ.e. til eftirlits með tækjum og lögnum sem valda truflunum. Á hinn bóginn var fellt niður ákvæðið sem mælti fyrir um eftirlit Ríkisútvarpsins með útvarpsnotum. Vaknar því sú spurning hvort með þessu hafi það verið vilji löggjafans að fella niður umrætt eftirlit Ríkisútvarpsins.

Í athugasemdum við 9. gr. frumvarps þess, er varð að útvarsplögum nr. 19/1971, segir svo:

"Í þessari grein eru nauðsynlegar heimildir fyrir Ríkisútvarpið til að koma fyrir lögnum og verja það gegn ýmiss konar truflunum. Er þetta efnislega óbreytt frá ákvæðum í 8. gr. og 9. gr. gildandi laga, að undanteknu einu þýðingarmiklu atriði. Í gildandi lögum segir: "Mönnum, sem eru í þjónustu Ríkisútvarpsins þessara erinda og til eftirlits með útvarpsnotum, skal heimilt að fara tálmunarlaust um lönd manna og hús, ef nauðsyn krefur vegna starfsins, enda fari þeir ekki um híbýli manna fyrir kl. 8 að morgni né eftir kl. 10 að kvöldi."

Með þessu 35 ára gamla lagaákvæði er Ríkisútvarpinu veitt óvenjuleg og mjög víðtæk heimild, m.a. til að senda starfsmenn inn á heimili manna. Hefur þessu ákvæði að vísu sjaldan eða aldrei verið beitt, en samt þykir rétt að fella það niður. Er rétt að Ríkisútvarpið þurfi, eins og aðrir aðilar framkvæmdarvaldsins, að fá dómsúrskurð, ef þörf er að raska heimilisfriði." (Alþt. 1970, A-deild, bls. 477).

Samkvæmt framansögðu virðist markmiðið með breytingunni ekki hafa verið að fella niður eftirlit ríkisútvarpsins með því að greitt væru afnotagjöld af öllum viðtækjum, heldur hitt að nú varð Ríkisútvarpinu skylt að fá dómsúrskurð ef ætlunin var að fara um híbýli manna og raska heimilisfriði. Það styður þessa niðurstöðu að í 21. gr. laga nr. 19/1971 voru lögfest nýmæli sem veittu innheimtustjóra Ríkisútvarpsins sérstakar lagaheimildir til valdbeitingar þegar hagnýtt voru óskráð útvarpstæki. 1. og 2. mgr. 21. gr. laganna hljóðaði svo:

"Innheimtustjóri getur framkvæmt eða látið framkvæma innsiglun á útvarpsviðtæki: 1. Ef það er hagsnýtt til útvarpsmóttöku, án þess að það hafi verið tilkynnt til Ríkisútvarpsins. 2. Ef vanskil eru orðin á greiðslu afnotagjalds af því. 3. Ef hlutaðeigandi aðili hefur sagt upp útvarpsnotum.

Nú eru fyrir hendi skilyrði samkvæmt 1. tölulið 1. mgr., eða gert hefur verið lögtak í viðtæki fyrir vangreiddu afnotagjaldi, og getur þá innheimtustjóri tekið eða látið taka viðtækið úr vörslum eiganda eða annars vörslumanns."

Í athugasemdum við 21. gr. frumvarps þess er varð að útvarpslögum nr. 19/1971 sagði m.a. svo um ákvæðið:

"Í 3. mgr. 6. gr. útvarpslaganna segir, að hvert það viðtæki, sem ekki er tilkynnt skrifstofu Ríkisútvarpsins, skuli upptækt vera. Telja verður ákvæði þetta óþarflega strangt, og er í þess stað lagt til í 1. tölul., að heimilt sé að innsigla ótilkynnt viðtæki, sem hagnýtt eru til útvarpsmóttöku. Heimilt er og samkvæmt 2. mgr. að taka slík tæki úr vörslum umráðamanns." (Alþt. 1970, A-deild, bls. 480).

Lög nr. 19/1971 voru felld úr gildi með útvarpslögum nr. 68/1985. Í nýju lögunum voru ákvæði er snertu gjaldskyldu eigenda viðtækja, skyldu til að tilkynna kaup, sölu og breytt not viðtækja, skyldu til að halda skrá yfir öll viðtæki svo og lagaheimildir til valdbeitingar þegar hagnýtt voru óskráð útvarpstæki, óbreytt frá eldri lögum.

Á grundvelli 35. gr. útvarpslaga nr. 68/1985 var sett reglugerð nr. 357/1986. Í 22. gr. hennar segir svo:

"Innheimtudeild Ríkisútvarpsins hefur með höndum innheimtu útvarpsgjalds af viðtækum. Innheimtudeildin hefur eftirlit með því að fullnægt sé fyrirmælum útvarpslaga og reglugerðar þessarar um tilkynningar viðtækja og annast könnun í skyni.

Innheimtudeild heldur skrá samkvæmt 21. gr. og aðrar nauðsynlegar skrár yfir viðtæki og gjaldendur."

Í 21. gr. reglugerðarinnar segir að Ríkisútvarpið haldi skrá yfir öll viðtæki sem notuð eru hér að landi og í íslenskum skipum og flugvélum og nota megi til móttöku útvarpsefnis.

Þegar sett voru ný útvarpslög nr. 53/2000 var svo fyrir mælt í 36. gr. þeirra að útvarpslög nr. 68/1985 með síðari breytingum skyldu falla niður að undanteknum tilgreindum ákvæðum laganna sem vörðuðu Ríkisútvarpið. Skyldi heiti þeirra laga verða Lög um Ríkisútvarpið og skyldu lögin gefin út svo breytt með nýjum kafla- og greinanúmerum. Á þessum grundvelli voru lögin endurútgefin sem lög nr. 122/2000, um Ríkisútvarpið. Samkvæmt 12. gr. gildandi laga nr. 122/2000 er Ríkisútvarpinu skylt að innheimta sérstakt afnotagjald eða útvarpsgjald af sérhverjum eiganda viðtækis, sem nýta má til móttöku á útsendingum Ríkisútvarpsins. Er greiðsluskyldan nú sem fyrr óháð því hvort viðkomandi tæki er nýtt til móttöku útsendinga þess eða ekki. Einungis skal innheimt eitt útvarpsgjald fyrir einkaafnot fjölskyldu á heimili.

Í 14. gr. laganna segir að Ríkisútvarpið skuli halda skrá yfir öll viðtæki sem notuð eru hér á landi og í íslenskum skipum og flugvélum eða nota má til móttöku útvarpsefnis. Sú skylda er lögð á hvern þann sem fæst við sölu viðtækja að tilkynna innheimtudeild í fyrstu viku næsta sölumánaðar hverjir séu kaupendur. Þá er eiganda viðtækis, sem breytir afnotum sínum, sbr. 12. gr. útvarpslaga og 18. gr. reglugerðar nr. 357/1986 með síðari breytingum, skylt að tilkynna Ríkisútvarpinu um þá breytingu. Um tilkynningaskylduna er nánar kveðið í 20. gr. reglugerðarinnar. Er þar sérstaklega tekið fram að þegar eigendaskipti verði að viðtæki skuli bæði nýr eigandi og sá sem það lætur af hendi tilkynna það til innheimtudeildar Ríkisútvarpsins.

Í 18. gr. laga nr. 122/2000 um Ríkisútvarpið koma fram samhljóða ákvæði og voru í eldri lögum um lagaheimildir til valdbeitingar þegar hagnýtt eru óskráð útvarpstæki.

Í ákvæði laga til bráðabirgða í útvarpslögum nr. 53/2000, var tekið fram að þar til sett hefði verið reglugerð eða reglugerðir um framkvæmd laganna skyldu reglugerðir samkvæmt útvarpslögum, nr. 68/1985, með síðari breytingum, halda gildi sínu að svo miklu leyti sem við gæti átt.

V.
1.

Lög nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, byggja á því meginsjónarmiði að vernda beri rétt einstaklinga til að njóta friðhelgi um einkamálefni sín. Til að svo megi verða ber að tryggja að öll notkun persónuupplýsinga sé með sanngjörnum, málefnalegum og lögmætum hætti, upplýsinganna aflað í yfirlýstum, skýrum og málefnalegum tilgangi og þær ekki notaðar í öðrum og ósamrýmanlegum tilgangi, sbr. 7. gr. laganna. Hugtakið persónuupplýsingar er skilgreint sem "sérhverjar persónugreindar eða persónugreinanlegar upplýsingar um hinn skráða, þ.e. upplýsingar sem beint eða óbeint má rekja til tiltekins einstaklings, látins eða lifandi, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 2. gr. laganna og hugtakið skrá er skilgreint sem "sérhvert skipulagsbundið safn persónuupplýsinga þar sem finna má upplýsingar um einstaka menn", sbr. 3. tölul. 1. mgr. sömu greinar. Samkvæmt 3. tölul. 8. gr. laganna er vinnsla persónuupplýsinga því aðeins heimil að hún sé nauðsynleg til að fullnægja lagaskyldu sem hvílir á ábyrgðaraðila. Byggir Ríkisútvarpið á því í málinu að samkeyrsla eigin viðskiptamannaskrár við þjóðskrá Hagstofu Íslands sé í þeim tilgangi gerð að tryggja framkvæmd lagaskyldu stofnunarinnar. Óumdeilt er að þessi vinnsla Ríkisútvarpsins felur því í sér vinnslu með persónuupplýsingar í skilningi laga nr. 77/2000 og telst óheimil nema hún byggi á einhverju þeirra skilyrða sem tilgreind eru í 8. gr. laganna.

2.

Í 3. tölul. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 77/2000 er svohljóðandi ákvæði:

"Vinnsla persónuupplýsinga er því aðeins heimil að einhverjir eftirfarandi þátta séu fyrir hendi ... 3. vinnslan sé nauðsynleg til að fullnægja lagaskyldu sem hvílir á ábyrgðaraðila."

Í athugasemdum við 8. gr. frumvarps þess, er varð að lögum nr. 77/2000, segir svo um þetta ákvæði:

"Í 3. tölul. kemur fram að vinnsla persónuupplýsinga geti verið heimil sé hún nauðsynleg til að fullnægja lagaskyldu sem hvílir á ábyrgðaraðila. Þetta ákvæði byggist á c-lið 7. gr. tilskipunar ESB. Með lagaskyldu er átt við hvers konar skyldu sem leiðir af lagasetningu, m.a. skyldur samkvæmt reglugerðum eða öðrum stjórnvaldsfyrirmælum sem eiga sér stoð í lögum. Undir hugtakið falla einnig skyldur samkvæmt dómi eða stjórnvaldsúrskurði. Hins vegar falla samningsskyldur ekki hér undir."

Í 6. tölul. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 77/2000 er svohljóðandi ákvæði:

"Vinnsla persónuupplýsinga er því aðeins heimil að einhverjir eftirfarandi þátta séu fyrir hendi ... 6. vinnslan sé nauðsynleg við beitingu opinbers valds sem ábyrgðaraðili, eða þriðjimaður sem upplysingum er miðlað til, fer með"

Í athugasemdum við 8. gr. frumvarps þess, er varð að lögum nr. 77/2000, segir m.a. svo um þetta ákvæði:

"Í 6. tölul. kemur fram að vinnsla persónuupplýsinga geti verið heimil sé hún nauðsynleg við beitingu opinbers valds sem ábyrgðaraðili eða þriðji maður, sem upplýsingum er miðlað til, fer með. Ákvæðið tekur meðal annars til vinnslu upplýsinga á vegum stjórnvalda sem tengist meðferð opinbers valds. Með því er fyrst og fremst átt við töku stjórnvaldsákvarðana. Jafnframt mundi önnur vinnsla sem telst til stjórnsýslu, svo sem við opinbera þjónustustarfsemi, alla jafna falla hér undir."

3.

Samkvæmt því sem hér að framan hefur verið rakið, liggur fyrir að frá og með gildistöku laga nr. 68/1934 var gert ráð fyrir mjög víðtæku eftirlitshlutverki starfsmanna Ríkisútvarpsins en löggjafinn fékk þeim heimildir til að fara tálmunarlaust um lönd manna og hús, teldu þeir nauðsyn krefja. Brottfall þessa heimilda úr lögum verður hins vegar með engum móti skilin svo að vilji löggjafans hafi ekki lengur staðið til þess að Ríkisútvarpið viðhafi eftirlit með útvarpsnotkun með framkvæmd leitar að óskráðum viðtækum.

Í 12. gr. laga nr. 122/2000 er kveðið á um að eigandi viðtækis, sem nýta megi til móttöku á útsendingum Ríkisútvarpsins, skuli greiða afnotagjald, útvarpsgjald, af hverju tæki. Þó skal aðeins greiða eitt útvarpsgjald fyrir einkaafnot fjölskyldu á heimili. Skylda er lögð á hvern þann, sbr. 13. gr., sem fæst við sölu viðtækja að tilkynna um kaupendur svo og skylda fyrir eiganda viðtækis að tilkynna um breytt afnot. Þá segir í 14 gr. laganna að Ríkisútvarpið skuli halda skrá yfir öll viðtæki sem notuð eru hér á landi og í íslenskum skipum og flugvélum og nota má til móttöku útvarpsefnis. Innheimtudeild stofnunarinnar hefur með höndum innheimtu útvarpsgjaldsins og eftirlit með því að fullnægt sé fyrirmælum útvarpslaga og reglugerðar um tilkynningar viðtækja og annast könnun í því skyni. Skal innheimtudeildin halda skrá yfir öll viðtæki sem nota má til móttöku útvarpsefnis og halda aðrar nauðsynlegar skrár yfir viðtæki og gjaldendur, eins og segir 2. mgr. 22. gr. reglugerðarinnar nr. 357/1986. Í ákvæði laga til bráðabirgða í útvarpslögum nr. 53/2000, var tekið fram að þar til sett hefði verið reglugerð eða reglugerðir um framkvæmd laganna skyldu reglugerðir samkvæmt útvarpslögum, nr. 68/1985, með síðari breytingum, halda gildi sínu að svo miklu leyti sem við gæti átt.

Í 1. tölul. 18. gr. laga nr. 122/2000, um Ríkisútvarpið, er innheimtustjóra Ríkisútvarpsins falið opinbert vald í tilefni af brotum á lögunum. Þar er tekið fram að Innheimtustjóri geti framkvæmt eða látið framkvæma innsiglun á viðtæki ef það er hagnýtt til móttöku án þess að það hafi verið tilkynnt til Ríkisútvarpsins. Í 2. mgr 18. gr. laganna er tekið fram að innheimtustjóri geti tekið eða látið taka slík viðtæki úr vörslu eiganda eða annars vörslumanns.

Samkvæmt því, sem hér hefur verið rakið, er ljóst að Ríkisútvarpinu ber lögum samkvæmt að halda skrá yfir öll útvarpsviðtæki sem nýta má til móttöku útvarpsefnis og gjaldendur þeirra. Í því felst, eðli málsins samkvæmt, að stofnuninni beri ekki einvörðungu skylda til að halda skrá um tilkynningar sem henni berast um sölu útvarpsviðtækja heldur einnig bein lagaskylda til halda skrá um öll viðtæki og eigendur þeirra til að tryggja að allir þeir sem eiga að greiða útvarpsgjald greiði slíkt gjald. Eins og að framan er rakið framkvæmir Ríkisútvarpið umrædda vinnslu með þeim hætti að eftir samtengingu viðskiptamannaskrár við þjóðskrá Hagstofu Íslands er tilteknum einstaklingum send fyrirspurn um tækjaeign þeirra og þar með um gjaldskyldu. Komi í ljós að viðkomandi einstaklingur er ekki gjaldskyldur er nafn hans afmáð en ella bætt á viðskiptamannaskrá.

Þegar til alls þess er litið, sem hér að framan hefur verið rakið, telst Ríkisútvarpið hafa heimild til þeirra vinnslu persónuupplýsinga sem felst í að samkeyra eigin viðskiptamannaskrá við þjóðskrá Hagstofu Íslands. Ber því að fallast á að vinnslan sé nauðsynleg til að fullnægja lagaskyldu stofnunarinnar og við meðferð opinbers valds skv. 18. gr. laganna nr. 122/2000, sbr. 3. og 6. tölul. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 77/2000.

Afgreiðsla máls þessa hefur dregist verulega vegna mikilla anna Persónuverndar.


VI.
Úrskurðarorð

Ríkisútvarpinu er heimilt að samkeyra eigin viðskiptamannaskrá yfir eigendur tilkynntra viðtækja við upplýsingar sem fengnar eru frá þjóðskrá Hagstofu Íslands.

Í Persónuvernd, 9. apríl 2002.


Páll Hreinsson, formaður
Valtýr Sigurðsson


Haraldur Briem
Óskar HaukssonVar efnið hjálplegt? Nei