Úrlausnir

Álit á því þegar stéttarfélög krefjast afrits af beiðni læknis um sjúkraþjálfun.

11.1.2002

I.

Með bréfi, dags. 7. mars 2001, óskaði Félag sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfara álits Persónuverndar á því þegar stéttarfélög krefjast afrits af beiðni læknis um sjúkraþjálfun og gera það jafnvel að skilyrði fyrir endurgreiðslu kostnaðar. Með erindinu fylgdi eintak af eyðublaði Tryggingastofnunar ríkisins "Beiðni um þjálfun" og listi yfir nokkur stéttarfélög og þau gögn sem þau krefjast vegna endurgreiðslna.

Í erindinu kemur fram að það tíðkist hjá mörgum stéttarfélögum að endurgreiða að hluta til eða að fullu kostnað félagsmanna sinna vegna sjúkraþjálfunar. Mörg stéttarfélög geri að skilyrði fyrir endurgreiðslu að lagt sé fram afrit af beiðni læknis. Á beiðnirnar séu hins vegar iðulega skráðar viðkvæmar persónuupplýsingar um viðkomandi sjúkling þótt í mismunandi mæli sé. Fram kemur að sjúklingur fái vottorð frá sjúkraþjálfaranum þar sem fram komi á hvaða sjúkraþjálfunarstöð hann hafi fengið meðferð. Vottorðið sé undirritað og dagsett af sjúkraþjálfara og stundum tilgreindar þær dagsetningar sem sjúklingur kom til meðferðar. Að mati félagsins er óþarft að krefja félagsmenn um afrit af beiðni læknis vegna þess að sjúkraþjálfurum er óheimilt samkvæmt 5. gr. laga nr. 58/1976 um sjúkraþjálfun, að taka sjúkling til meðferðar nema samkvæmt beiðni frá lækni. Því ætti vottorð sjúkraþjálfara að nægja stéttarfélaginu.

II.

Persónuvernd sendi nokkrum stéttarfélögum eða samtökum stéttarfélaga bréf, dags. 27. apríl 2001, þar sem framangreint erindi er kynnt og óskað afstöðu félagsins/samtakanna til þess.

Í svarbréfi Alþýðusambands Íslands (ASÍ), dags. 8. maí 2001, kemur fram að aðildarfélög ASÍ eigi og reki sjúkrasjóði til hagsbóta fyrir félagsmenn sína. Sjóðir þessir lúti ekki beinni stjórn ASÍ en þeim beri samkvæmt lögum ASÍ að leita staðfestingar miðstjórnar á reglugerðum sínum sem jafnframt beri að hafa nokkurt eftirlit með fjárreiðum þeirra. ASÍ hafi af þessu tilefni gefið út leiðbeinandi reglugerð fyrir sjúkrasjóði stéttarfélaga innan ASÍ. Svar sambandsins byggist á þeirri leiðbeinandi reglugerð. Samkvæmt gr. 12.3 sé stéttarfélögum heimilt að veita styrki vegna forvarna- og endurhæfingar en undir það falli sjúkraþjálfun. Ekki sé skylt samkvæmt 12. gr. reglugerðarinnar að krefjast gagna sem nákvæmlega greini frá eðli veikinda eða ástandi sjúklings. Sönnun um óvinnufærni eða tekjutap þurfi hins vegar að liggja fyrir. Þá sé í 14. gr. kveðið á um þá meginreglu að virða beri almennar reglur um meðferð upplýsinga. Einfalt vottorð læknis þar sem fram komi hvort og þá hve lengi viðkomandi er talinn óvinnufær, sé almennt talið duga sem sönnun um óvinnufærni. Sama regla gildi að mati ASÍ um rétt til annarra bóta eða styrkja. Að lokum segir:

"Það er afstaða ASÍ, að sjúkrasjóðum stéttarfélaga innan ASÍ sé bæði rétt og skylt að krefjast þess að vottorð lækna fylgi umsóknum um fjárhagsaðstoð, þ.m.t. umsóknum um styrki vegna sjúkraþjálfunar. Efni þeirra vottorða þarf þó ekki að vera ítarlegra en svo að byggja megi réttmæti greiðslna á þeim. Vottorð þjónustuaðila á heilbrigðissviði sem selur viðkomandi félagsmanni þjónustu gegn gjaldi sem síðan er að hluta endurkrafið af sjúkrasjóðunum, eins og á við um sjúkraþjálfara, verður ekki að jafnaði hægt að telja fullnægjandi vottorð sem hægt sé að byggja greiðsluskyldu á."


Í svarbréfi Bandalags háskólamanna (BHM), dags. 20. júlí 2001, kemur fram að enn sem komið er reki hvorki BHM né þau 24 stéttarfélög sem aðilar eru að BHM, sjúkrasjóði. Á næstu mánuðum muni BHM væntanlega gera þjónustusamninga við Sjúkrasjóð BHM og nýjan Styrktarsjóð BHM en hvorugur þessara sjóða hafi enn afgreitt styrk. Tveir sjóðir séu starfandi vegna hinnar hefðbundnu skiptingu milli opinberra starfsmanna og starfsmanna á almennum vinnumarkaði. Atvinnurekendum á almennum vinnumarkaði beri samkvæmt lögum nr. 19/1979 að greiða 1% af heildarlaunum í Sjúkrasjóð BHM. Sá sjóður hafi tekið starfa árið 1999 og hafi Félag íslenskra náttúrufræðinga fram til þessa séð um rekstur hans. Ríki, sveitarfélögum og öðrum þeim sem miða kjör starfsmanna sinna við kjarasamninga aðildarfélaga BHM við þessa aðila, beri hins vegar samkvæmt samkomulagi BHM, BSRB og KÍ við ríki og sveitarfélög frá 24. október 2000, að greiða 0,3% af heildarlaunum í Styrktarsjóð BHM frá og með 1. janúar 2001. Sjóðnum hafi verið sett skipulagsskrá, stjórn skipuð en starfsemin að öðru leyti ekki komin lengra. BHM geti því ekki á þessu stigi tekið formlega afstöðu til erindis Persónuverndar fyrr en framangreindri undirbúningsvinnu ljúki og umræddir þjóðustusamningar hafi verið gerðir. Þá segir:

"Á hinn bóginn er ljóst af hjálögðum úthlutunarreglum Sjúkrasjóðs BHM, sbr. einkum 10. og 12. tl., að meðal þeirra ganga sem liggja þurfa fyrir við afgreiðslu styrks er einhvers konar vottorð heilbrigðisstarfsmanns um ástæðu þess tekjutaps sem getur veitt rétt til dagpeninga samkvæmt úthlutunarreglunum. Væntanlega yrði þar oftast um að ræða lækni - sem staðfestir t.a.m. óvinnufærni vegna veikinda eða slysa. Tekjutap vegna óvinnufærninnar mætti væntanlega staðfesta með öðrum hætti. Aðrir heilbrigðisstarfsmenn gætu hins vegar staðfest tilefni þeirra útgjalda sem styrkhæf kunna að vera eða verða samkvæmt úthlutunarreglum á hverjum tíma.

Sömuleiðis gerir undirritaður, sem hefur samið drög að öllum ofangreindum reglum, ráð fyrir að vottorð heilbrigðisstarfsmanns verði meðal þeirra gagna sem sjóðfélagar í Styrktarsjóði BHM muni þurfa að leggja fram til þess að sýna fram á tilefni útgjalda, sem leitt geta til þess að sjóðfélagi eigi rétt á styrk úr sjóðnum, eða ástæðu tekjutaps, .........."

Í bréfi BHM er ítrekuð sú afstaða að ólíklegt sé að gert verði upp á milli löggiltra heilbrigðisstétta hvað varðar staðfestingu á tilefni styrkhæfra útgjalda eða eftir atvikum ástæðu styrkhæfs tekjutaps. Þannig verði vottorð sjúkraþjálfara væntanlega látið nægja, verði slík útgjöld styrkhæf úr sjóðunum nema þá í undantekningartilvikum. Að lokum segir í bréfinu að erindi Persónuverndar ásamt svari BHM verði kynnt sjóðsstjórnum en sjóðsstjórnirnar taki afstöðu til þess hvaða reglur gildi um rekstur sjóðanna.

Í svarbréfi Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, dags. 21. maí 2001, kemur fram að ekki hafi verið starfandi sjúkrasjóður á þeirra vegum. Frá og með 1. janúar 2001 gildi samkomulag milli BSRB, BHM og KÍ annars vegar og fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs, Reykjavíkurborgar og Launanefndar sveitarfélaga hins vegar um greiðslu ákveðins gjalds í svonefndan Fjölskyldu- og styrktarsjóð. Upplýst er að nokkur aðildarfélög BSRB kjósi að taka gjaldið til sín og annast sjálf rekstur sjóðs fyrir sína félagsmenn, en langflest aðildarfélög kanni nú rekstur á sameiginlegum sjóði og eigi í viðræðum um það samstarf. Er að lokum tekið fram að erindi Persónuverndar verði kynnt þeirri vinnunefnd sem að því máli vinni.

Í svarbréfi Starfsmannafélags Ríkisstofnana (SFR), dags. 25. maí 2001, kemur fram að á vegum félagsins starfi Styrktar- og sjúkrasjóður sem sé tiltölulega nýr sjóður. Er aðdraganda að stofnunum hans lýst með svipuðum hætti og fram kemur í svarbréfum BHM og BSRB hér að framan. Tekið er fram að við mótun úthlutunarreglna fyrir sjóðinn hafi verið horft til annarra sjúkrasjóða, m.a. sjóða sem starfað hafa í fjölda ára. Í bréfinu er vísað til tveggja ákvæða í reglum sjóðsins sem eru svohljóðandi:

"Sjóðfélagi sem hefur verið félagsmaður í þrjá mánuði fær styrk til sjúkraþjálfunar, sjúkrranudds og hnykklækninga (kiropraktor) 500 kr. fyrir hvert skipti, allt að 25 skipti á ári. ....... Styrkur fyrir þessi tilfelli samanlagt skal þó að hámarki vera 12.500 kr. á ári. ... Vegna sjúkraþjálfunar, sjúkranudds og hnykklækninga skal fylgja ljósrit af tilvísun læknis ásamt frumriti reiknings sem ber með sér fjölda meðferða og dagsetningu þeirra."

Í bréfi SFR segir síðan:

"Eins og sést af ofangreindum reglum, er megininntak þeirra í fyrsta lagi að sjúkraþjálfunin sé vegna sjúkdóms sem greindur hefur verið af lækni, þ.e.a.s. það sama og Tryggingastofnun fer fram á. Fallast má á að í beiðni þeirri frá lækni, sem sjóðurinn fær, þurfi alls ekki að koma fram um hvaða sjúkdóm sé að ræða, heldur einungis að læknir hafi vísað viðkomandi til meðferðar sjúkraþjálfara. Þetta gæti hins vegar kallað á tvenns konar beiðni fyrir viðkomandi hjá lækni."

Í svarbréfi Verslunarmannafélags Reykjavíkur (VR), dags. 9. maí 2001, kemur fram að í eldri reglugerð/starfsreglum sjúkrasjóða VR hafi verið kveðið á um að félagsmenn ættu rétt til styrkja vegna sjúkraþjálfunar ef þörf væri á slíkri meðferð að mati læknis. Í samræmi við reglur Tryggingastofnunar ríkisins fyrir niðurgreiðslu stofnunarinnar hafi staðfesting læknis einnig verið skilyrði fyrir greiðslu úr sjúkrasjóði VR. Fram kemur í bréfinu að VR hafi talið sér heimilt að setja sömu skilyrði fyrir endurgreiðslu og Tryggingastofnun en aldrei hafi verið krafist gagna sem innihéldu viðkvæmar persónuupplýsingar. Þá segir:

"VR vinnur eftir þeirri meginreglu að óska ekki eftir frekari gögnum en nauðsynlegt er hverju sinni. Félagið telur sig hafa verið í fullum rétti til að óska eftir staðfestingu á að skilyrði reglugerðarinnar hafi verið uppfyllt rétt eins og að krafist er staðfestingar læknis á óvinnufærni er kemur að greiðslu sjúkradagpeninga skv. reglum sjóðsins.
Reglugerð Sjúkrasjóða VR var breytt í byrjun apríl mánaðar og er nú ekki lengur skilyrði endurgreiðslu að meðferð hjá sjúkraþjálfara sé samkvæmt læknisráði. Læknisvottorða er því ekki lengur krafist vegna þess."
III.

Með bréfi, dags. 25. júlí 2001, kynnti Persónuvernd Félagi sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfara svör framangreindra stéttarfélaga/samtaka og gaf félaginu kost á að tjá sig um afstöðu þeirra. Hefur félagið ekki nýtt sér þann rétt sinn en hefur óskað eftir afstöðu Persónuverndar til erindisins.

IV.
Álit Persónuverndar

Í 7. gr. laga nr. 77/2000 eru tilgreindar þær meginreglur sem ábyrgðaraðila ber að hlíta við vinnslu persónuupplýsinga. Með vinnslu er átt við söfnun, skráningu, miðlun, samtengingu, varðveislu o.s.frv. Í 1. tölul. er mælt fyrir um að haga skuli vinnslu persónuupplýsinga í samræmi við vandaða vinnsluhætti persónuupplýsinga. Einnig er tekið fram að vinnslan skuli vera sanngjörn, málefnaleg og lögmæt. Með áskilnaði um sanngirni er m.a. átt við að hinn skráði fái vitneskju um hana og eigi, þegar vinnsla upplýsinganna á sér stað, kost á fullnægjandi upplýsingum um vinnubrögð, vinnuferli og annað er lýtur að vinnslunni. Áskilnaður um lögmæti vinnslu felur ekki einungis í sér skírskotun til skráðra lagareglna heldur einnig til óskráðra grundvallarreglna um persónuvernd og friðhelgi einkalífs. Vinnsla telst t.d. ólögmæt ef tilgangur hennar fær ekki samrýmst almennum sjónarmiðum um einkalífsrétt. Í 2. tölul. segir að söfnun upplýsinga skuli vera í yfirlýstum, skýrum og málefnalegum tilgangi og þær ekki unnar frekar í öðrum og ósamrýmanlegum tilgangi. Þessi krafa gildir óháð því hvort upplýsingarnar eru sóttar beint til hins skráða eða ekki. Í 3. tölul. segir að ekki megi vinna með aðrar persónuupplýsingar en þær sem eru nægilegar og viðeigandi og ekki umfram það sem nauðsynlegt er miðað við yfirlýstan tilgang vinnslunnar. Þessi regla felur í sér að ekki skal nota aðrar eða meiri upplýsingar en þær sem hafa þýðingu fyrir yfirlýstan tilgang, bæði að því er snertir þá aðila sem upplýsingarnar varða og þær upplýsingar sem unnið er með. Með því að áskilja að upplýsingarnar séu nægjanlegar og viðeigandi er átt við að eðli þeirra og efni skuli þjóna yfirlýstum tilgangi. Ákvæðið mælir í raun fyrir um að vinnsla ábyrgðaraðila sé háð hlutfallssjónarmiði en með því er átt við að ekki megi ganga lengra en þörf krefur til að ná því markmiði sem ábyrgðaraðila er heimilt að ná.

Með vísun til alls framanritaðs telur Persónuvernd mikilvægt að stéttarfélög gæti þess við afgreiðslu beiðna um endurgreiðslu kostnaðar vegna sjúkraþjálfunar að óska ekki eftir frekari gögnum en nauðsynlegt er hverju sinni. Telji stéttarfélag sér vera nauðsynlegt að fá, auk vottorðs sjúkraþjálfara, læknisvottorð er rétt að leiðbeina viðkomandi umsækjanda um að ekki sé nauðsynlegt að á læknisvottorði komi fram um hvaða sjúkdóm sé að ræða, heldur einungis að viðkomandi læknir hafi vísað viðkomandi til meðferðar sjúkraþjálfara.

Í þeim tilgangi að kynna tilgreindum stéttarfélögum framangreint álit verða afrit bréfs þessa send þeim. Samhliða er vakin athygli, bæði félaganna og starfandi sjúkraþjálfara, á því að samkvæmt 32. gr. laga nr. 77/2000 skal sérhver ábyrgðaraðili sem beitir rafrænni tækni við vinnslu persónuupplýsinga tilkynna það til Persónuverndar. Samkvæmt þessu ákvæði ber öllum stéttarfélögum/sjúkraþjálfurum sem vinna heilsufarsupplýsingar á tölvutæku formi að tilkynna Persónuvernd um þá vinnslu. Handhægt er að skila tilkynningum með þeim hætti að fylla út þar til gert tilkynningareyðublað sem finna má á heimasíðu stofnunarinnar personuvernd.is (smella á hnappinn "Tilkynna vinnslu"). Allar tilkynningar sem Persónuvernd berast mynda eina skrá sem er almenningi aðgengileg á heimasíðu Persónuverndar. Þar geta einstaklingar m.a. kannað öryggi þeirrar vinnslu sem t.d. fer fram hjá viðkomandi stéttarfélagi.



Var efnið hjálplegt? Nei