Bráðabirgðastarfsleyfi veitt vegna lokanaskrár

Hinn 20. október sl. veitti Persónuvernd Sambandi íslenskra sparisjóða, Landsbankanum, Glitni banka og KB banka leyfi til að annast söfnun upplýsinga í svokallaða „lokanaskrá.“

Hinn 20. október sl. veitti Persónuvernd Sambandi íslenskra sparisjóða, Landsbankanum, Glitni banka og KB banka leyfi til að annast söfnun upplýsinga í svokallaða „lokanaskrá.“

Lokanaskrá er haldin í þeim tilgangi að takmarka misnotkun á veltureikningum. Hún inniheldur upplýsingar um þá reikninga einstaklinga og lögaðila sem bankar og sparisjóðir hafa lokað vegna vanefnda reikningseigenda. Aðgang að henni hafa eingöngu íslenskir bankar, sparisjóðir og greiðslukortafyrirtæki. Reiknistofa bankanna heldur utan um skrána samkvæmt samningi við starfsleyfishafa.

 

Hver og einn banki tekur sjálfstæða ákvörðun um hvort einstaklingur skuli færður á lokanaskrá og það er líka ákvörðun hvers banka fyrir sig hvort einstaklingi á lokanaskrá skuli heimilað að opna nýjan reikning.

 

Þær upplýsingar sem færðar eru í lokanaskrá eru

1. Kennitala þess einstaklings eða lögaðila sem í hlut á

2. Nafn og heimili reikningseiganda

3. Upplýsingar um númer banka, höfuðbókar og reiknings

4. Lokunardagur, þ.e. sá dagur þegar reikningur er færður á lokanaskrá.

5. Lausnardagur, þ.e. sá dagur þegar reikningur er opnaður að nýju.

6. Niðurfellingardagur, þ.e. sá dagur þegar kennitala er felld úr lokanaskrá (lokanasögu)

7. Tilvísunarkennitala, þ.e. tengsl á milli prókúruhafa og lögaðila

 

Í starfsleyfinu er m.a. kveðið á um

-         að einungis sé heimilt að varðveita upplýsingar um lokanasögu einstaklinga í lokanaskrá í 2 ár frá lokunardegi, en það tímamark lengist þó um 1 ár við hvert nýtt brot

-         að skylt sé að stöðva miðlun upplýsinga um reikningseiganda hafi krafa verið greidd eða henni komið í skil með öðrum hætti

-         að reikningseiganda skuli send viðvörun eigi síðar en 10 dögum áður en upplýsingum um hann er miðlað í fyrsta sinn, nema ef um alvarlega misnotkun á reikningi er að ræða og nauðsynlegt er að koma í veg fyrir misnotkun á reikningum í öðrum bönkum eða sparisjóðum

 

Unnið er að nauðsynlegum breytingum til að uppfylla tiltekin skilyrði sem Persónuvernd hefur sett, þ. á m. um að settar verði reglur um lágmarksfjárhæð vanskila áður en upplýsingar verði færðar í lokanaskrá og að gerðar verði nauðsynlegar breytingar á hugbúnaði þannig að ekki verði miðlað upplýsingum úr lokanaskrá sem eru eldri en fjögurra ára. Því eru leyfi þessi veitt til bráðabirgða, til 1. október 2007

 

Leyfi Sambands íslenskra sparisjóða er birt hér í dæmaskyni, en leyfin eru samhljóða.





Var efnið hjálplegt? Nei