Ákvörðun um leyfissynjun og um samþykki til áætlunar arfgerða

Hinn 28. maí 2013 tók Persónuvernd ákvörðun um að synja um útgáfu leyfis til handa Íslenskri erfðagreiningu ehf., Landspítalanum og samstarfslæknum um heimild til vinnslu persónuupplýsinga í þágu verkefnisins „Undirbúningur að notkun raðgreiningarupplýsinga í einstaklingsmiðaðri heilbrigðisþjónustu Landspítala-háskólasjúkrahúss“. Þá er í ákvörðuninni mælt fyrir um að ÍE skuli tryggja að öll vinnsla áætlaðra arfgerða sem tengdar eru tilteknum einstaklingum, þ. á m. varðveisla, grundvallist á samþykki viðkomandi einstaklinga.
Hinn 28. maí 2013 tók Persónuvernd ákvörðun af tilefni umsóknar Íslenskrar erfðagreiningar ehf. (ÍE), Landspítala og samstarfslækna um heimild til vinnslu persónuupplýsinga í þágu verkefnisins „Undirbúningur að notkun raðgreiningarupplýsinga í einstaklingsmiðaðri heilbrigðisþjónustu Landspítala-háskólasjúkrahúss“.

Samkvæmt umsókninni var fyrirhugað að miðla upplýsingum um alla þá sem fengið hafa þjónustu hjá Landspítalanum síðastliðin fimm ár og samkeyra þær við upplýsingar ÍE, þ. á m. arfgerðarupplýsingar. Var þar bæði um að ræða upplýsingar um arfgerðir tæplega 100.000 einstaklinga sem tekið hafa þátt í rannsóknum fyrirtækisins og gefið lífsýni, sem og áætlaðar arfgerðir 280.000 náinna skyldmenni þeirra.

Niðurstaða Persónuverndar varð, í ljósi umfangs vinnslunar og eðlis þeirra upplýsinga sem ráðgert væri að vinna með, að synja um útgáfu leyfis til umræddrar vinnslu, enda lægi hvorki fyrir samþykki viðkomandi einstaklinga né sérstök lagaheimild. Þá er í ákvörðun stofnunarinnar mælt fyrir um að ÍE skuli tryggja að öll vinnsla áætlaðra arfgerða sem tengdar eru tilteknum einstaklingum, þ. á m. varðveisla, grundvallist á samþykki viðkomandi einstaklinga og leggja fyrir Persónuvernd eigi síðar en 1. nóvember nk. gögn um með hvaða hætti fyrirtækið hafi farið að þeim fyrirmælum.

Ákvörðun Persónuverndar í máli nr. 2012/1404.


Var efnið hjálplegt? Nei