Úrlausnir

Kvörtun vegna framsendingar Embættis landlæknis á tölvupósti er innihélt ábendingu um umönnun vistmanns á Hrafnistu

Mál nr. 2018/613

28.11.2018

Persónuvernd hefur úrskurðað í máli er laut að kvörtun vegna framsendingu Embættis landlæknis á tölvupósti er innihélt ábendingu um umönnun vistmanns á Hrafnistu. Fyrir lá að umrætt erindi kvartanda hefði fyrst og fremst verið framsent rekstraraðila Hrafnistu, þ.e. Sjómannadagsráði Reykjavíkur DAS, með hagsmuni og öryggi sjúklings fyrir sjónum. Var það niðurstaða Persónuverndar að slíkt faglegt mat Embættis landlæknis sætti ekki endurskoðun Persónuverndar. Í því sambandi var einnig litið til þess að að efni tölvupóstsins varðaði ekki viðkvæmar persónuupplýsingar eða aðrar upplýsingar um kvartanda sem háðar eru þagnarskyldu skv. 18. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Með hliðsjón af framangreindu var það niðurstaða Persónuverndar að embættinu hafi verið heimilt að framsenda umræddan tölvupóst til stjórnenda Hrafnistu á grundvelli 3. tölul. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 77/2000.

Úrskurður


Á fundi stjórnar Persónuverndar þann 15. október 2018 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli nr. 2018/613:

I.

Málsmeðferð

1.

Tildrög máls

Þann 10. mars 2018 barst Persónuvernd kvörtun frá [A] (hér eftir nefnd kvartandi) vegna framsendingar Embættis landlæknis á tölvupósti er innihélt ábendingu um umönnun vistmanns á Hrafnistu. Í kvörtuninni kemur m.a. fram að tölvupóstur sem í var erindi kvartanda til Embættis landlæknis hafi, án leyfis eða samráðs við kvartanda, verið framsendur rekstraraðila Hrafnistu, þ.e. Sjómannadagsráði Reykjavíkur DAS. Þar kemur einnig fram sú afstaða kvartanda að með umræddri áframsendingu tölvupóstsins hafi Embætti landlæknis brugðist trúnaðarskyldu sinni við kvartanda og þá sem tölvupósturinn varðaði.

2.

Bréfaskipti

Með bréfi, dags. 25. apríl 2018, var Embætti landlæknis boðið að koma á framfæri skýringum vegna kvörtunarinnar til samræmis við 10. og 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Svarbréf Embættis landlæknis, dags. 25. júní 2018, barst Persónuvernd þann 28. s.m.

Fram kemur í umræddu bréfi Embættis landlæknis að kvartandi hafi sent embættinu tölvupóst, dags. 2. febrúar 2018, þar sem hún hafi greint frá áhyggjum sínum af vistmanni á Hrafnistu sem kvartandi taldi ekki fá nauðsynlega umönnun. Einnig hafi þar komið fram að kvartandi hafi ekki talið aðstandendur mannsins fá góð viðbrögð frá starfsmönnum og stjórnendum á Hrafnistu þegar þeir hafi komið á framfæri athugasemdum þar að lútandi. Enn fremur er vísað til þess að í umræddum tölvupósti hafi komið fram það álit kvartanda að þetta væri spurning um líf eða dauða.

Vísað er til þess að það sé lagaleg skylda Embættis landslæknis að tryggja gæði heilbrigðisþjónustu og þar með öryggi sjúklinga. Það sé einnig skylda stjórnenda stofnana í heilbrigðisþjónustu að sjá til þess að sjúklingar/íbúar fái bestu mögulegu þjónustu sem þeir þarfnast. Embætti landlæknis hafi því haft það að leiðarljósi að beina athugasemdum um gæði þjónustu til stjórnenda viðkomandi stofnana. Eðli málsins samkvæmt sé þetta gert til að stuðla að bættri þjónustu. Í því tilfelli sem þarna hafi verið til skoðunar, hafi tölvupósturinn einkum verið framsendur þar sem kvartandi hafi haft miklar áhyggjur af öryggi umrædds íbúa. Fram kemur að ekki hafi sérstaklega verið óskað nafnleyndar og er vísað til þess að ekki sé að finna í lögum nr. 41/2007 um landlækni og lýðheilsu ákvæði er kveði á um nafnleynd tilkynnanda. Embætti landlæknis hafi því fyrst og fremst afgreitt erindið með hagsmuni og öryggi sjúklinga í huga.

Með bréfi, dags. 9. júlí 2018, var kvartanda boðið að koma á framfæri athugasemdum sínum við framkomnar skýringar Embættis landlæknis til samræmis við 10. og 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Svarbréf kvartanda, dags.18. júlí 2018, barst Persónuvernd þann 23. s.m. Þar ítrekar kvartandi þá afstöðu sína að umræddur tölvupóstur hafi verið framsendur án leyfis. Vísar kvartandi þar einnig til þess að hún telji Embætti landlæknis hafa með framsendingunni brotið gegn 18. gr. laga nr. 70/1996.

 

II.

Forsendur og niðurstaða

1.

Lagaskil

Mál þetta varðar kvörtun sem barst Persónuvernd þann 10. mars 2018 og lýtur að atvikum sem gerðust fyrir gildistöku núgildandi laga nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga þann 15. júlí 2018. Er því hér byggt á ákvæðum eldri laga, nr. 77/2000, en ekki er um efnislegar breytingar að ræða í lögum nr. 90/2018 á þeim reglum laganna sem hér reynir á.

2.

Gildissvið laga nr. 77/2000

Lög nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga giltu um sérhverja rafræna vinnslu persónuupplýsinga og handvirka vinnslu persónuupplýsinga sem eru eða eiga að verða hluti af skrá, sbr. 1. mgr. 3. gr. laganna. Persónuupplýsingar eru skilgreindar í 1. tölul. 2. gr. laganna sem sérhverjar persónugreindar eða persónugreinanlegar upplýsingar um hinn skráða, þ.e. upplýsingar sem beint eða óbeint má rekja til tiltekins einstaklings, látins eða lifandi. Hugtakið vinnsla er skilgreint sem sérhver aðgerð eða röð aðgerða þar sem unnið er með persónuupplýsingar, hvort heldur vinnslan er handvirk eða rafræn, sbr. 2. tölul. 2. gr. laganna. Í athugasemdum við það ákvæði í því frumvarpi, sem varð að lögum nr. 77/2000, kemur fram að hver sú aðferð, sem nota má til að gera upplýsingar tiltækar, telst til vinnslu. Af þessu öllu er ljóst að hér ræðir um meðferð persónuupplýsinga sem fellur undir valdsvið Persónuverndar.

Sá sem ber ábyrgð á að vinnsla persónuupplýsinga samrýmist lögum nr. 77/2000 er nefndur ábyrgðaraðili. Samkvæmt 4. tölul. 2. gr. laganna er þar átt við þann sem ákveður tilgang vinnslu persónuupplýsinga, þann búnað sem notaður er, aðferð við vinnsluna og aðra ráðstöfun upplýsinganna. Eins og hér háttar til telst Embætti landlæknis vera ábyrgðaraðili að umræddri vinnslu.

3.

Lögmæti vinnslu

Öll vinnsla persónuupplýsinga verður að samrýmast einhverri af kröfum 8. gr. laga nr. 77/2000. Þá verður vinnsla viðkvæmra persónuupplýsinga, sbr. 8. tölul. 2. gr. sömu laga, að samrýmast einhverju af viðbótarskilyrðum 9. gr. laganna.

Að auki verður öll vinnsla persónuupplýsinga að fullnægja grunnkröfum 1. mgr. 7. gr. laga nr. 77/2000 um gæði gagna og vinnslu. Þar er mælt fyrir um að persónuupplýsingar skuli unnar með sanngjörnum, málefnalegum og lögmætum hætti og í samræmi við vandaða vinnsluhætti persónuupplýsinga (1. tölul.); að þær skuli fengnar í yfirlýstum, skýrum, málefnalegum tilgangi og ekki unnar frekar í öðrum og ósamrýmanlegum tilgangi (2. tölul.); að þær skuli vera nægilegar og ekki umfram það sem nauðsynlegt er miðað við tilgang vinnslunnar (3. tölul.); að þær skuli vera áreiðanlegar og uppfærðar eftir þörfum, en persónuupplýsingar, sem séu óáreiðanlegar eða ófullkomnar, miðað við tilgang vinnslu þeirra, skuli afmá eða leiðrétta (4. tölul.); og að þær skuli varðveittar í því formi að ekki sé unnt að bera kennsl á hina skráðu lengur en þörf krefur miðað við tilgang vinnslu (5. tölul.).

Hlutverk Embættis landlæknis er afmarkað í 1. mgr. 4. gr. laga nr. 41/2007 um landlækni og lýðheilsu. Þar kemur fram að meginhlutverk embættisins sé m.a. að hafa eftirlit með heilbrigðisþjónustu og heilbrigðisstarfsmönnum (b-liður) og að sinna kvörtunum almennings vegna heilbrigðisþjónustu (j-liður). Með vísan til framangreinds verður að ætla Embætti landlæknis nokkurt svigrúm til vinnslu og miðlunar á upplýsingum er varða lagaskyldur þess, sbr. 3. tölul. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 77/2000. Hins vegar er til þess að líta að framangreind 1. mgr. 7. gr. laga nr. 77/2000 setur þeirri vinnslu viss mörk.

Samkvæmt skýringum Embættis landlæknis var umrætt erindi kvartanda fyrst og fremst framsent rekstraraðila Hrafnistu, þ.e. Sjómannadagsráði Reykjavíkur DAS, með hagsmuni og öryggi sjúklinga fyrir sjónum. Sætir slíkt faglegt mat Embættis landlæknis ekki endurskoðun Persónuverndar. Í því sambandi er til þess að líta að efni tölvupóstsins varðaði ekki viðkvæmar persónuupplýsingar um kvartanda, s.s. um heilsuhagi hennar, sbr. c-lið 8. tölul. 2. gr. laga nr. 77/2000, eða aðrar upplýsingar sem háðar eru þagnarskyldu skv. 18. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Með hliðsjón af því og öðru framangreindu verður að telja að embættinu hafi verið heimilt að framsenda umræddan tölvupóst til stjórnenda Hrafnistu á grundvelli 3. tölul. 1. mgr. 8. gr. sömu laga, auk þess sem ekki verður séð að farið hafi verið í bága við 1. mgr. 7. gr. laganna. Ekki verður hér tekin afstaða til þess hvort umrædd málsmeðferð uppfyllir kröfur annarra laga.

 

Ú r s k u r ð a r o r ð:


Framsending Embættis landlæknis á tölvupósti er innihélt ábendingu [A] um meðferð vistmanns á Hrafnistu fór ekki í bága við ákvæði laga nr. 77/2000.



Var efnið hjálplegt? Nei